12.12.2011 | 13:12
Heimsklassa niðurtalning hjá okkur Íslendingum.
Niðurtalningin á síðustu þrettán dögunum fyrir jól er aldeilis óborganleg uppfinning í íslenskri þjóðmenningu og í henni felst meira verðmæti en virðist við fyrstu sýn.
Þetta er stundum gert af öðru tilefni annars staðar en hér á landi, en vafalaust leitun að skemmtilegri sið en jólasveinaniðurtalningin er hér.
Ekki aðeins er þetta bráðhollt fyrir þjóðarsálina í skammdeginu og vetrarveðrunum heldur grunar mig að í þessu geti falist aðdráttarafl og möguleikar fyrir ferðaþjónustuna, sem hvergi nærri hafi virið nýttir fram að þessu.
Finnar stórgræða á markaðssetningu eins jólasveins en við eigum þrettán, Grýlu, Leppalúða, tröllin og álfana, áramótabrennurnar og víðfeðmustu flugeldasýningu heims.
Í morgun var frumflutt lagið "Á hverjum degi jólasveinn" hjá Andra Frey og Gunnu dís á Rás 2, þar sem í fyrsta sinn var beitt því tæknibragði hér á landi að söngur 3ja ára telpu árið 1993 er fluttur 18 ár fram í tímann og settur þannig inn á upptöku á jólasveinatónleikum Stórsveitar Reykjavíkur fyrir tveimur vikum, að ekki er nokkur leið að heyra annað en að hún syngi með sinni smábarnarödd fyrsta erindið í laginu og síðan taki ég og Barnakór Kársnesskóla við með undirleik Stórsveitarinnar.
Ég hitti Einar Örn Jónsson íþróttafréttaritara þegar hann kom út úr hljóðstofunni og talið barst að því hvað ég væri að gera þarna.
Ég sagði honum að ég hefði verið boðaður til Andra og Gunnu eftir hálftíma í spjall út af frumflutningi lagsins í þessum búningi á ljósvakanum og að það eina sem vantaði upp á að þetta jafnaðist tæknilega á við það þekktasta erlendis væri það að ég væri dauður eins og Nat King Cole.
"Þú hefur hálftíma" sagði Einar Örn að bragði. Svona gálgahúmor kann ég að meta, hann léttir lundina.
En fyrsta erindið í laginu, sem Lilja Sóley Hauksdóttir, sem nú er 21. árs gömul, en syngur 3ja ára, er svona:
Þrettán dögum fyrir jól
þá fer Stekkjastaur á ról
og staulast on´af fjallinu
strax með fyrsta fallinu.
Þeir koma´af fjöllum einn og einn
- á hverjum degi jólasveinn.
Stekkjarstaur kominn til byggða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Auðvitað er ekkert að því að halda upp á það með smá hátíð að sólin er farin að hækka á lofti. En jólin eru komin út í miklar ógöngur amk. á Íslandi. Allt byggist á að pranga einhverju (oftast) óþörfu skrani inn á náungann. Þetta er svo sannarlega hátíð kaupmannanna, og hátíð neysluæðins sem er að fara með heiminn á vonarvöl. Mér finnst jaðra við klám að spyrða þessa hátíð saman við kristna trú og þann mikla meistara Jesú frá Nasareth. Samanber: "Hús mitt á að vera bænahús, en þið hafið breytt því í ræningjabæli
óli (IP-tala skráð) 12.12.2011 kl. 14:09
Hvar er hægt að heyra lagið Ómar?
Jón Logi (IP-tala skráð) 12.12.2011 kl. 21:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.