Aðeins stóriðjan "bjargar þjóðinni" og Vestfirðingum!

Orðið "stóriðja" er íslensk þýðing á enska hugtakinu "heavy insdustry".  Hvergi í heiminum nema á Íslandi myndi fiskeldi vera nefnt "heavy industry". 

Af hverju flokka menn þá fiskeldi í Arnarfirði undir stóriðju? 

Jú, áltrúarmenn og stóriðjutrúarmenn reyna eins og hægt er að stjórna hugsunarhættinum og umræðunni með því að nota aðferðina, sem George Orwell lýsti svo vel í bók sinni "1984", að nefna hlutina öðrum nöfnum en þeir raunverulega ættu að hafa. 

Allt frá því á sjöunda áratugnum hefur það verið trúaratriði hér á landi að aðeins stóriðjan geti "bjargað þjóðinni".  Og ekki nóg með það, heldur hefur hugtakið "orkufrekur iðnaður" verið keyrður áfram sem það jákvæðasta sem hægt sé að bjóða okkur. 

Á öld, þar sem orkuskortur á eftir að verða aðalvandamálið er það hins vegar aðeins hlálegt að það jákvæðasta sem Íslendingar geti hugsað sér sé "orkufrek" starfsemi, þ. e., að það sé trúaratriði að nota orkuna í eins mikið orkubruðl og hægt er að hugsa sér. 

Stóriðjutrúarmenn mega ekki til þess hugsa að fiskeldi geti flokkast undir "eitthvað annað". 

Ef það verður gert verða engar vegabætur og allt í voða. Þess vegna verður að kalla fiskeldið "vestfirska stóriðju" og slá tvær flugur í einu höggi: Veita Vestfirðingum þá einu björgun sem er hugsanleg, sem er stóriðja og í annan stað að losna við það ófremdarástand að Vestfirðir verði áfram stóriðjulaus landshluti. 

Annað dæmi um það hvernig stóriðjutrúarmenn ráða orðanotkun er það upplegg, sem er í rammaáætlun um virkjun vatnsafls og jarðvarma. 

Búið er að negla það fast í umræðu síðustu aldar að orðið "nýting" sé lausnarorð sem leysi allan vanda. Ef það er ekki "nýting" er það neikvætt. 

Þar af leiðandi er virkjanakostum skipt í þrjá flokka:  Orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. 

Með því að setja dæmið svona upp er fyrirfram búið að gefa sér það að eini flokkurinn, sem sé einhvers virði peningalega og með að einhverju hafandi fyrir þjóðina sé "nýtingar"flokkurinn.  Verndarflokkurinn feli í sér dauðan sjálfan. 

Þetta er alröng nálgun sem nýtist stóriðjutrúarmönnum vel því að með réttu ætti verndarflokkurinn að heita "verndarnýringarflokkur."

En það virðist vera hulið Íslendingum að hægt sé að nýta náttúrugæði öðruvísi en að út úr því komi kíló eða tonn. 

Besta dæmið um verndarnýtingarflokk eru Gullfoss og Geysir.  Þessi tvö fyrirbæri hafa ekki verið virkjuð enn (þótt mikill sé áhugi sumra á því) heldur mala þau meira gull ósnortin en virkjuð sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. 

Raunar er orðið "virkjun" sem búið er að gera heilagt í hugum okkar Íslendinga, líka misvísandi. Það gefur til kynna að óvirkjað sé sama og ónýtt. 

 


mbl.is Stóriðja kalli á vegabætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Atvinnulausir + landflótta = 21.000 manns. Ekkert meira en í venjulegu árferði segir Jógríma. Hvað ber að gera?

Almenningur (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 08:47

2 identicon

Það er satt að mikið púður fer í þessa "Stóriðjuumræðu". Þetta eru verkefni sem byggja á samspili stjórmálamanna og stórfyrirtækja og hafa í öllum tilfellum falið í sér miklar framkvæmdir opinberra aðila, skattfríðindi og mikið af raforku á hrakvirði.

Ferðaþjónustan er hinsvegar þetta "eitthvað annað". Fjárfesting er á höndum einkaaðila sem eru af þeirri gerðinni að framkvæma hlutina í stað þess að leggjast afvelta og grenja. Þeta eru fyrst og fremst smáfyrirtæki, greinin er ekki virkt þrýstiafl og greiðir líklega ekki í flokkssjóði.

Greininni er gert að selja Íslenskan vsk inn á heimsmarkað á sama tíma og útflutningur á fiski, áli og iðnvarningi skilar ekki krónu í vsk.

Sennilega er besti mælikvarðinn á styrk og möguleika Íslenskra ferðaþjónustu fólgin í því að greinin er komin þetta langt, ÞRÁTT FYRIR aðkumu ríkisins.

Ferðaþjónustan veltir á þriðja hundrað miljörðum arlega, skapar 15% þjóðartekna og veitir 5% landsmanna vinnu.

Lesið síðan þessa frétt frá Samtökum Atvinnulífsins:

"Nærri sex af hverjum tíu aðildarfyrirtækjum SA hyggjast ekki leggja í umtalsverðar fjárfestingar eða endurbætur á næsta ári, 27% telja það óvíst en einungis 14% hyggjast gera það. Þetta kemur fram í nýrri könnun SA á fjárfestingaráformum fyrirtækjanna.

Þegar svörum er skipt eftir atvinnugreinum kemur í ljós að niðurstöður í sjávarútvegi, iðnaði, og verslun og þjónustu eru svipaðar heildarniðurstöðunni, þ.e. 11-14% fyrirtækjanna í þessum greinum áforma fjárfestingar á næsta ári, en 55-62% ætla ekki að gera það. Fjárfestingaáformin eru algengust í ferðaþjónustu þar sem 26% fyrirtækjanna hyggjast ráðast í fjárfestingar en 35% ekki. Í fjármálaþjónustu hyggjast 79% fyrirtækjanna ekki ráðast í fjárfestingar."

Heimild: http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/5330/

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 10:05

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Stóriðja er ekki þýðing á "Heavy industry", þýðing á því er "þungaiðnaður" og þar er átt við iðnað sem felur í sér framleiðslu eða byggingu/smíði á hlutum sem eru þungir eða stórir. Í fábreytni atvinnulífsins á Íslandi hefur þetta orð hins vegar verið notað eingöngu yfir málmframleisðslufyrirtækin. Raunveruleg merking orðsins "stóriðja" liggur einfaldlega í orðsins hljóðan; stórt iðnfyrirtæki.

Verndunarfíklarnir hafa nú í mörg ár reynt að koma óorði á stóriðjuhugtakið og einfeldningar hafa gleypt við því.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.12.2011 kl. 11:14

4 identicon

Stóriðja hlýtur að þýða iðnaðarframleiðsla í stórum stíl í verksmiðju. Framleiðsla á áli úr súráli er því tvímælalaust stóriðja. Nánar tiltekið málmiðnaður (metal industry (e), Metallindustrie (þ)). Fiskeldi getum við ekki kallað iðnað eða stóriðju, hinsvegar mundi vinnsla á fiskafurðum flokkast sem matvælaiðnaður, sem gæti þróast í það að verða stóriðja.  Hinsvegar ættu menn að fara varlega með lýsingarorðið stór. Það sem okkur Íslendingum finnst stórt og Reyðfirðingun jafnvel ógeðslega stórt, gæti verið smátt á mælistykur annara þjóða. Ég mundi halda að orðið stóriðja væri fremur þýðing á þýska orðinu “Grossindustrie”, og nokkuð góð þýðing.  

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 13:47

5 identicon

Þeir eiga alltaf jafn erfitt að manna Alcoa Reyðarfirði.  Það kemur í ljós, alveg eins og í Norgi,að það nennir enginn að vinna 8 tíma vaktir til lengdar.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 14:05

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Haukur, það er rétt, álfyrirtækin á Íslandi eru stóriðjur.

Ólafur Sveinsson, það er ekki erfitt að manna álverksmiðjuna á Reyðarfirði, það hefur hins vegar verið meiri starfsmannavelta en reiknað var með. Ástæðan fyrir því er hugsanlega margþætt.

Sumt aðkomufólk finnur sig ekki á landsbyggðinni og fyrir því geta verið margar ástæður, t.d. fjarlægð frá sérfræðiþjónustu í heilsugæslu, fjarlægð frá stórfjölskyldu, minni fjölbreytni í afþreyingu og þjónustu, samgöngur, t.d. við útlönd eða hreinlega bara fámennið.

Það hefur verið horft til vaktafyrirkomulagsins í álverinu. Ólafur, sem tjáir sig hér, veit samt ekkert um málið, en það er frekar algengt að fólk sem er á móti stóriðju veit ekkert um hana. Unnið er á 12 tíma vöktum en verið er að skoða aðrar og fjölbreyttari útfærslur á vaktafyrirkomulaginu.

Í Straumsvík eru 8 tíma vaktir og þær hafa gefist vel þar og starfsmannaveltan er með því minnsta sem þekkist og er þá sama við hverskonar fyrirtæki er miðað.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.12.2011 kl. 14:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband