Lúmskasta færið: Krap og "tilbúið laumukrap".

Svo vildi til að ég var á næsta bíl fyrir aftan þann, sem hlekktist á á Reykjanesbrautinni í morgun og var á leið til Reykjavíkur.

Aðdragandinn var athyglisverður. Á leiðinni suðureftir tók ég eftir því að saltdreifingarbíll var á leiðinni norður brautina og greinilegt að verið var að dreifa salti á brautina.

Á leiðinni til baka lenti ég fyrir aftan bílstjóra sem ók, að mér fannst að óþörfu, langt fyrir neðan leyfðan hraða. Skömmu síðar var kominn bíll á eftir mér og greinilegt að stefndi í bílalest með "lestarstjóra" fremstan. 

Hraðinn var mun minni en aðstæður hægra megin á brautinni gáfu tilefni til, en þeim megin óku bílarnir og voru búnir að mynda ágæt hljólför, en vinstri akreinin var hins vegar snævi þakin eftir snjóél, - og vegna þess að saltdreifingarbíll hafði áður farið þar yfir vissi ég að undir snjólaginu væri krap, sem væri mun varasamara en hreinn snjór vegna flotmagnsins sem krap býr yfir. 

Þegar færi gafst ók ég fram úr lestarstjóranum og hélt áfram á eðlilegum hraða, miðað við aðstæður. Nokkru síðar var kominn bíll alveg upp að mér fyrir aftan mig og virtist vilja fram úr.

Sá hafði greinilega lent á eftir lestarstjóranum og orðið óþolinmóður.

Ég vék því eins veg til hægri og unnt var hleypti honum fram úr en tók eftir því að hann fór alveg út á vinstri helming brautarinnar.

Þegar hann var kominn um 50 metra á undan mér sá ég að hann ætlaði að beygja aftur til hægri inn í hjólförin. 

En þá byrjaði bíll hans að skrika til vinstri að aftan sem olli því að bíllinn snerist og fór beint út í handriðið hægra megin. 

Við það fékk hann á sig mikið högg og kastaðist í heilan hring uns hann stöðvaðist vinstra megin á veginum. 

Ég átti fullt í fangi með að reikna út hvernig hringsnúningnum lyktaði og komast hjá árekstri. 

Ég lagði bíl mínum á öruggan stað og kom bílstjóranum til hjálpar, sem reyndist ómeiddur og gat hringt úr farsíma til að fá aðstoð.  

Ég þreifaði á hjólbörðum bílsins og fann, að þau voru að vísu lítið slitin en með mjög þéttu mynstri og þakin krapa.

Ástæður slyssins voru ljósar: Krapið undir þunnri snjóþekjunni var þétt og blautt af salti og bíllinn hafði "flotið upp" eins og það er kallað og orðið stjórnlaus. 

Mynstrið var þétt á þessum óhappsbíl, en á mínum bíl miklu grófara og það réði úrslitum auk þess að bílstjórinn hafði greinilega ekki áttað sig á hættunni sem hið ósáða krap olli og einnig ofmetið getuna til að beygja í þessu færi. 

Þarna blasti við dæmi um að söltun í snjókomu og éljagangi getur skapað hættulegar aðstæður sem bílstjórinn í þessu tilfelli gat ekki séð fyrir af því að hann var að koma inn á brautina án þess að vita að búið var að búa til krap með söltun undir þunnu snjólagi sem gaf alranga mynd af aðstæðum. 

Ég tel að í svona éljagangi eigi það að vera aðalatriðið að ryðja brautina sem oftast en að forðast beri söltun, sem býr til óséða hættu. 

Ef saltað er ætti að salta miklu meira svo að tryggt sé að laumukrap myndist ekki, - annars að láta söltun alveg vera og skafa þeim mun meira. 

Síðan eru það "lestarstjórarnir" sem hleypa upp eðlilegu flæði umferðar, og skapa óróa meðal bílstjóra eins og ríkti í kringum hann á leið hans í morgun.

Ég er ekki viss um að nokkur framúrakstur hefði átt sér stað þarna ef ekki hefði verið búið að hleypa ástandinu upp með því að tefja fyrir eðlilegu umferðarflæði á eðlilegum hraða.  


mbl.is Hálka á Reykjanesbrautinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verklagið ætti að vera einfalt. "Aðeins og þá aðeins má salta vegi utan þéttbýlis þegar byrjað er að hlána og von á nægri hláku til að taka allan krapahrokann af veginum fyrir næsta él."

Þjóðbraut (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 13:48

2 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Það sem mér finnst vanta í þennan pistil er hraði lestastjórans og svo hraði þíns bíls.

Eins hvort að tjónbíllinn hafi verið á vetrardekkum.

Ef ekki er saltað þá geta myndast frosin hjólför, sem eru ennþá verri en saltaður krapi

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 20.12.2011 kl. 14:22

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég var á 80 kílómetra hraða í góðum og breiðum hjólförum þar sem var ágætt grip og mitt mat var að þyldi þennan hraða vel án þess að öryggi væri ógnað. 

Bæði suður úr og norður úr var þetta meðalhraði ökumanna og óhappið, sem sagt var frá í fréttum og ég er að greina frá, hið eina. 

Lestarstjórinn var á um 55 og skar sig alveg úr öðrum ökumönnum með það.

Miðað við það að á mínum bíl voru góð og ný vetrardekk með grófu mynstri af bestu gerð og bíll með aldrif (Lada Sport)  mat ég það vera í góðu lagi að fara fram úr honum á 65-70, fara síðan smám saman í rólegheitum yfir í hjólförin á ný og komast þar á eðlilegan hraða.

Þegar ekið var fram úr mér dró ég aðeins úr hraða til þess að nægt svigrúm gæfist fyrir hinn bílinn. 

Bílstjórinn á honum gerði líklegast þau mistök að beygja of skarpt en hefur það sér til málsbóta að vita ekki um krapið undir þunnu snjólaginu. 

Dekkin á bíl hans voru þakin saltkrapi þegar ég þreifaði á þeim, þau hreinsuðu sig ekki. 

Aðalatriðið er þetta: Ég var búinn að fara leiðina fyrr um nóttina og vissi um krapið en bílstjórinn, sem fór fram úr mér vissi greinilega ekki um það, og var þar að auki á mun óhentugri hjólbörðum. 

Ómar Ragnarsson, 20.12.2011 kl. 14:51

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gleymdi því að hann var á vetrardekkjum. En þau voru með fínu mynstri sem ekki hentar slepjukenndu krapi eins og þarna var.

Jeppamenn þekkja þetta fyrirbæri vel í gegnum árin. Það er til dæmis tvennt ólíkt að vera á grófmunstruðum "muddder" dekkjum eða á fínmunstruðum "Dick Cepek" dekkjum. 

Hin síðarnefnu henta betur í venjulegum snjó, því þau grafa sig ekki eins hratt niður í hann og "mudder"dekkin. 

Það syngur minna í þeim á auðum vegi og af þessum tveimur meginástæðum vildi maður frekar vera á þeim hér í den. 

En á krapalagi verða Dick Cepek dekkin stórhættuleg þegar komið er yfir flothraða. Skyndilega verður bíllinn gersamlega stjórnlaus og fer þangað (flýtur þangað) sem honum  sýnist þangað til hraðinn hefur verið minnkaður nægilega mikið. 

Ómar Ragnarsson, 20.12.2011 kl. 14:57

5 identicon

Vissi ekki einu sinn að það væri komin lest á Suðurnesin. Gátu þeir ekki haft þetta hraðlest?

Mannvitsbrekkan (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband