22.12.2011 | 12:29
Komnir árþúsundir aftur í forneskju.
Upphaflegur grundvöllur kommúniskrar byltingar fóst í íðilfagurri hugsjón. Í stað hjátrúar og hindurvitna, hungurs, misréttis og ofríkis auðstéttar og þrælahaldi hennar gagnvart öreigunum skyldi byltingin færa með sér þjóðfélag sannleika, jafnréttis, réttlætis, alræðis öreiganna og útrýmingu skorts og öbirgðar.
Allir legðu sitt fram eftir getu og fengju eftir þörfum.
Ég lagði það á mig þegar ég var í lagadeild að lesa stjórnarskrá Sovétríkjanna og keypti mér rit Marx og Engels, Lenins og Stalíns.
Þetta gerði ég ekki vegna þess að ég væri sósíalisti. Þvert á móti var ég og er fylgjandi vestræns lýðræðis með kjörorðunum frelsi, jafnrétti, bræðralag.
Nei, ég vildi bara vita sem best um grundvallarrit helstu stjórnmálakenninga nútímans.
Á pappírnum leit stjórnarskrá Sovétríkjanna furðu vel út, svo vel að aldeilis magnað var hve langt frá tilgangi hennar og hugsun Stalín og aðrir harðstjórar Sovétríkjanna höfðu komist.
En lygarnar og kúgunin sem ríkti þar eystra voru aðeins barnaleikur miðað við það sem nú veður uppi í Norður-Kóreu og umheimurinn horfir agndofa á og undrast hvernig hægt er að setja fram þvílík firn af rugli og lygum.
Manni flýgur í hug hvort verið geti að rétt sé eftir haft, svo langt gengur spuninn.
Nýjustu fréttir um andlát leiðtogans mikla, teiknin stóru og miklu í kringum tilbúin og uppdiktuð atriði varðandi fæðingu hans og andlát og mærðin um "yfirburðaleiðtogann" minnir helst á það sem viðgekkst í frumstæðum þjóðfélögum fyrir þúsundum ára.
Upphaflega hugsunin á bak við þjóðfélagasskipanina í kommúnistaríkjunum á sínum tíma var sú að hún væri aðeins skref í átt að hinu fullkomna þjóðfélagi sælu og allsnægta.
Ástandið í Norður-Kóreu bendir hins vegar til þess að þjóðfélagsskipan hinna föllnu kommúnistaríkja hafi verið skref í áttina afturábak til verstu samfélagsgerðar fyrri árþúsunda og að Norður-Kórea hafi nú afrekað að komast lengra á þessar braut en dæmi eru um.
Kim yngsti kallaður yfirburðaleiðtogi" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ráðamenn í svona ruglríkjum eru ekki á móti "hjátrú" per se, þeir bara vilja ekki að hjátrúin skyggi á þá sem guðlegar verur...
DoctorE (IP-tala skráð) 22.12.2011 kl. 12:54
Ef menn hafa lesið Marx, þá er lítið skylt með Stalín og Marx.
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 22.12.2011 kl. 12:59
Mikið rétt, Ólafur. Enda gafst ég upp á lestrinum þegar ég fór að kynna mér rit Stalíns sem voru mærð upp úr öllu valdi meðan hans naut við.
Ómar Ragnarsson, 22.12.2011 kl. 14:42
Kommúnismi er leiðin til fullkomnunar, og sett fram sem hugsjón um fullkomið þjóðfélag.
Vegna þess hvað þetta er upphafið og komið út fyrir mannlega getu (að deila öllu jafnt og hver fái eins og hann þarf o.s.frv.) þá á að flokka þetta undir trú.
Vandinn er sá að einstaklingarnir sem byggja þjóðfélagið ráða því hversu fullkomið það er og verður.
Ekkert þjóðfélag er fullkomið, enda maðurinn ekki fullkominn.
Það sem við getum glaðst yfir vesturlandabúar, er það að með lýðræðinu getum við fært okkur fram á við, skref fyrir skref.
Eins og t.d. þetta blogg, þar sem fólk getur tjáð sig um allt milli himins og jarðar.
Þannig kemur allur fróðleikurinn sem fjöldinn býr yfir, í sameiginlegan gagnagrunn okkar, og verður í senn aðhald og hvatning fyrir þjóðfélagið.
Sigurður Alfreð Herlufsen, 22.12.2011 kl. 15:29
Tek undir hvert orð, Sigurður Alfreð.
Ómar Ragnarsson, 22.12.2011 kl. 20:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.