22.12.2011 | 20:15
Torffjósið var með 1. flokks mjólk.
Skemmtilegt er að heyra hve mikil fjölbreytni er enn í mjöltum og kúabúskap á Íslandi og að hér skuli enn vera mjólkað með ölum þeim aðferðum, sem þekktar eru.
Þó hefur nýlega lagst af starfsemin í torffjósinu á Skógsstöðum í Flóa eftir að bóndinn þar féll frá.
Þvert ofan í það sem ætla mætti var mjólkin sem skilað var frá Skógsstöðum ætíð 1. flokks mjólk.
Ég kom í þetta fjós fyrir fjórtán árum, gerðu um það smá pistil fyrir Dagsljós og naut þess, því að sjálfur er ég gamall kúarektor úr Langadal nyrðra fyrir 57 árum.
Við mjaltirnar í Skógsnesi varð til lítið lag um kúna þar sem ég bætti tveimur vísum framan við kunna vísu K.N.
Þjóðina´um aldir hún ól
með orku frá lífsins sól.
Milli marar og fjalla
mjólk er góð fyrir alla.
Ekkert er annað dýr
eins og hin helga kýr.
Heilsu og hreysti´okkur færir,
hressir og endurnærir.
Kýrrassa tók ég trú.
Traust hefur reynst mér sú.
Fæ ég í flórnum að standa
fyrir náð heilags anda.
Kúabúum heldur áfram að fækka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar, Bærinn heitir Skógsnes og er í Gaulverjabæjarhreppi, sem nú er einn af þremur hreppum sem eru sameinaðir í einn hrepp, sem heitir Flóahreppur.
Þorvaldur Ágústsson.
Þorvaldur Ágústsson (IP-tala skráð) 22.12.2011 kl. 21:01
Margt hefur breittst siðan þetta var sem þú vitnar í. Vil ég nefna að flokkun mjólkur hefur breittst þannig að nú eru allar bakteríur taldar einnig hefur tilkomið önnur mæling sem hefur áhrif á gæðaflokkun en það er fjöldi frumna í mjólkinni sk. frumutal þe. hvítar frumur og einnig frjálsar fytusýrur. Allt þetta hefur leitt af sér breitingar á því hver framleiðir gæða mjólk án þess að ég efist um að Kristján bóndi gerði sitt besta og skilaði fyrsta flokks mjólk úr sínu torffjósi
Bergur (IP-tala skráð) 22.12.2011 kl. 22:15
Í gömlu fjósunum voru engin kjallarahaughús með grindum, sem kýrnar ýmist stóðu á eða lágu eins og nú gerist. Því var þar enginn trekkur um júgrin og miklu minna um júgurbólgu. Því var gerlatalan og fjöldi hvítra blóðkorna og bólgufruma í mjólkinni minni.
Einfalt - en satt.
Sigurbjörn Sveinsson, 22.12.2011 kl. 23:42
Erfitt að meta, því að frumumælingar eru ekki búnar að vera stundaðar það lengi. En kenningin er rétt. Kuldatrekkur er mjög frumuhækkandi.
Jón Logi (IP-tala skráð) 22.12.2011 kl. 23:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.