Útsölur með jeppadekk og stigbretti ? Leynilögreglugáta.

Það er vinsælt að lesa sakamálasögur um hátíðarnar. Nú hefur ein lítil og nett leynilögreglusaga bæst við sem allir þeir, sem lesa blogg mitt, geta fylgst með í að ráða gátuna, sem ekki þarf að kaupa eða fá gefins eins og Arnald og Yrsu.

Fyrri hluti sögunnar er á undan þessum pistli, og fjallar um stuld á 20 ára gömlum Toyota 4runner jöklajeppa með tilheyrandi upplýsingum og myndum.  IMG_2306IMG_2308IMG_2313P5070029

Nú er málið að byrja að skýrast þótt það sé ekki upplýst og hér má meðal annars sjá þá miklu breytingu sem hefur orðið á þessum jeppa á innan við sólarhring.

Vegna ábendinga úr síma og í athugasemdum við pistilinn um stuldinn, kom í ljós að hinn stolni jeppi var á Norðurslóð úti við sjóvarnargarðinn í Örfirisey beint norður af HB Granda og eru myndirnar teknar fyrr í kvöld. IMG_2309

IMG_2303Búið að taka af honum fín nær óslitin 38 tommu jeppadekk á felgum og setja ræfilsleg jepplingadekk undir í staðinn.

Ný kosta dekkin og felgurnar um hálfa milljón, - tjón mitt minnsta kosti ríflega helmingurinn af þeirri upphæð.  

Búið að saga af honum jöklajeppastigbrettin báðum megin og stela þeim.  Annað var alveg nýtt.

Hvort um sig kostar um 60-70 þúsund krónur ásett.

Búið að taka úr honum útvarpstæki.  Samtals tjón: Ekki undir 400 þúsundum.

Búið að taka af honum númerin.

Bílstjórasætið var það framarlega að sá sem sat síðastur undir stýri hefur verið lágvaxinn, varla hærri en 1,65.

Búið að stela af honum því litla bensíni sem á honum var, en eftir að þjófar stálu af honum bensíni á bílasölunni um daginn með því að brjóta upp hlífina yfir bensínlokinu, passaði ég mig á því að hafa eins lítið bensín á honum og unnt var.  

Af upplýsingum í athugasemdum við fyrri bloggpistilinn má ráða að bílnum var stolið eftir klukkan átta í gærkvöldi og hefur ekki komið út í Örfirisey fyrr en eftir síðasta él í dag, því að undir bílnum eru för eftir hann sjálfan og annan jeppa sem hefur líkast til dregið hann síðasta spölinn, líkast til á sömu dekkjunum og stolið var undan honum ef marka má förin í snjónum.

Þó er ekki útilokað að bílnum hafi verið ekið í förin á fremri bílnum en það sem bendir til dráttar síðasta spölinn var það, að þótt bíllinn væri opinn og hægt að starta honum, gekk það illa vegna bensínleysis og / eða óhreininda í bensíninu og varð ég frá að hverfa.

Eftir að bíllinn var skilinn þarna eftir kom moksturtæki og ruddi að honum snjó vinstra megin. Stjórnandi tækisins virðist ekki hafa séð neitt athugavert við ástand hins númerslausa  og nær hjólalausa bíls við kantinn á Norðurslóðinni.  

Nú verður fróðlegt að sjá hvaða ályktanir og hvaða upplýsingar er hægt að kreista út úr þessu.

Nokkrar tillögur:

1. tilgáta:

 Ef bíllinn hefur verið dreginn út á Norðurslóð eru vitorðsmennirnir minnsta kosti tveir. Ég á eftir að fara og mæla förin eftir 38 tommu dekk sem eru undir förunum af dekkjaræflunum, en mér sýnist að það séu sömu dekkin og stolið var.

Þjófurinn þurfti að losa sig við stolna bílinn sem fyrst eftir að hann var búinn að hirða það bitastæðasta úr honum. Til þess þurfti að setja undir hann dekkjaræfla og koma honum helst nógu langt í burtu frá aðsetursstað sínum til þess að erfiðara væri að rekja slóðina.

Það bendir til þess að jeppinn, sem dekkin áttu að fara á, hafi verið notaður í dráttinn og hin jepplingadekkin hafi verið áður undir honum. Ground Hawg dekkin eru ekki algeng og varla tilviljun að farið er það sama.

Bílnum hefur verið stolið í myrkri áður en síðasta stóra élið féll og honum ekið inn undir þak, þar sem skipt var í rólegheitum um dekk, stigbrettin söguð af og númerin líka.

Síðan var bíllinn dreginn, að minnsta kosti síðasta spölinn út á Norðurslóð, því að vélin hefur ekki gengið að gagni í lokin.

Stigbrettunum var stolið til að setja á annan jeppa, hugsalega þann sama og dekkin voru sett á.

Spurning: Er þjófurinn að breyta svipuðum jeppa í jöklajeppa?  Ef það er Hilux, eru stigbrettin of stutt en þó brúkleg. Samt áberandi stutt. Ef það er tveggja manna Toyota, Willys eða bíll sem er ennþá styttri en 4runnerinn, sem er frekar stuttur á milli hjóla, er hægt að stytta stigbrettin en spurning hvernig gangi að láta þau passa í festingarnar.

Ef hann er að breyta 4runner sem er mun minna keyrður eða yngri en minn (minna en 234 þúsund kílómetrar) passa stigbrettin eins og flís við rass. 

Spurning: Eru einhver vitni að því þegar jeppinn var dreginn?

2. tilgáta:

Þjófurinn stundar svona þjófnaði og er í sambandi við aðra, sem geta nýtt sér það að vera í svartamarkaðsverslun með jeppabreytingahluti sem eru yfirleitt talsvert dýrir. Því eldri sem jepparnir eru, því erfiðara er að rekja feril allra hlutanna og erfiðara að sjá út grunsamleg atriði, af því að breytingarnar og jepparnir eru af svo fjölbreyttum toga.

Dekkin fara undir einn jeppa og stigbrettin undir aðra.  

Hann stelur bílnúmerum til þess að villa um fyrir lögreglunni og öðrum.

3. Hér á landi er að myndast skipulögð glæpastarfsemi í kringum jöklajeppa sem byggist á því sem sagt er hér að ofan um mikla starfsemi á þessu sviði sem snertir margskonar bíla.

Ýmislegt er sérkennilegt. Til dæmis að vera að hafa fyrir því að stela svona litlu bensíni ef það hefur verið gert. Einnig það að hafa getað ræst bílinn með lykli í stað þess að tengja fram hjá. Nema að bílnum hafi verið ekið langa leið, til dæmis til Hafnarfjarðar eins og ábending hefur komið fram um. Sjá P.S. hér á eftir.

Það er dýrt að breyta jeppum og því talsverðir fjármunir í taflinu. Mér er kunnugt um að útlendingar sem hér hafa verið í nokkur ár, hafi margir orðið hugfangnir af jeppasportinu, og ég hef átt viðskipti við sómamenn af erlendu bergi brotna.

En við vitum líka að rétt eins og hjá okkur Íslendingum sjálfum er þar misjafn sauður í mörgu fé, og kannski hafa einhverjir af þeim, sem hafa hreiðrað um sig í undirheimnum, séð tækifæri í svartamarkaðnum í jeppamennskunni.

Vegna þess að þessi blái breytti 4runner var líkast til eini bíllinn af þessu tagi á landinu með þessum lit og vel útlítandi, þótt ekinn sé 234 þúsund kílómetra á 20 árum, gæti verið meiri möguleikar en ella að einhverjir hafi veitt honum eftirtekt á síðasta ferðalagi hans.

Og ef einhver verður var við nýleg negld grófmynstruð 38 tommu Ground Hawg dekk undir jeppa af svipaðri gerð eða stærð og 4runnerinn er og þar að auki með stigbrettum, þar sem annað er alveg nýtt en hitt með lítils háttar beyglu aftarlega, þá getur það varla verið tilviljun.

Að ekki sé nú talað um ef svona dekk og stigbretti eru saman á útsölu þessa dagana í takt við allar útsölurnar.

Ég þakka þeim sem hafa gefið mér þær upplýsingar sem hafa þokað málinu áfram í þessari raunverulegu leynilögregluþraut, sem ekki er seld í bókabúðum.   

 

P. S. Nýjasta í málinu:

Þegar ég fór og sótti Toyotuna í kvöld kom í ljós að hægri afturrúðan var brotin og þannig hafði þjófurinn getað opnað bílinn.  Hann gaf sér tíma til að taka þurrkublöðin af honum. IMG_2314

IMG_2316Þurft hefur góða rafknúna vélsög til að saga í sundur sterklega bitana sem héldu stigbrettunum, sjá myndir, þar sem farið eftir sögina er gulleitt að sjá.

Á kílómetramælinum mátti sjá að honum hafði verið ekið 35 kílómetra í leiðangrinum og þess vegna hefur hann líkast til orðið bensínlaus.

Ég setti bensín og ísvara á bílinn og eftir það gekk hann eins og klukka.  

 


mbl.is Útsölurnar hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æji Ómar þjóðinn betlar fyrir þig og safnar fyrir nýjum dekkjum og pulsu með sinnepi.

Þú ert búinn að biðja um það og færð það.

Leiðinlegt að sjá þig sem stafkarl að biðja um ölmusu þegar fullt af fólki á ekki einu sinni dekk hvað þá bíl. Og það er furðulegt að þú 70 ára sért alltaf blankur eins og unglingur, þú hefur alltaf verið það, það er ekki Landsbankanum eða Kaupþing að kenna, heldur bar því að þú ert fífl sem kannt ekki að fara með peninga.

Hættu að sníkja peninga frá fólki.

Ari (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 00:06

2 identicon

Alveg óþarfi að vera svona dónalegur við hann Ómar. það er ekki skemmtilegt að lenda í svona þjófnaði hvað þá að fá svona leiðindi yfir sig líka. Ómar ég vona að þú finnir þessa hluti og að þessir menn náist en sem betur fer eru þetta bara dauðir hlutir.

Fjölnir Baldursson (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 00:17

3 Smámynd: Ragnheiður

Ég ætla að deila þessu á FB síðuna mína -vonandi finnast dekkin en á meðan skaltu liggja yfir síðum eins og bland.is og kassi.is og fullt af svipuðum síðum þar sem seldir eru notaðir hlutir.

Ragnheiður , 28.12.2011 kl. 00:18

4 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Smá athugasemd. Mér sýnist dekkjaförin vera eftir Mickey Thompson MTZ http://image.fourwheeler.com/f/23705458/129_0908_16_z+4x4_truck_tire_tech+mickey_thompson_baja_mtz.jpg en ekki Ground hawg. MT dekkin eru orðin sjaldgæf, og sérstaklega lítið slitin eins og þessi.

Börkur Hrólfsson, 28.12.2011 kl. 00:19

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta er því miður það Ísland sem við búum við í dag.  Virðing fyrir eigum annarra er enginn, ef menn komast um með það.

Marinó G. Njálsson, 28.12.2011 kl. 00:24

6 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Á öllum dekkjum í dag er raðnúmer, svo að hægt sé að rekja framleiðslugalla í dekkjunum ef þeir koma upp. Þetta raðnúmer er einnig hægt að nota til annara hluta. Þar sem hægt er að fá umrætt raðnúmer hjá söluaðila dekkjana. Þá er hægt að gera leit eftir því og athuga hvar það kemur inn. Þetta raðnúmer er gjarnan á sölukvittun fyrir dekkjunum, eins og er oft með aðra hluti.

Hvað varðar dekkin sem eru undir bílnum. Þá er einnig raðnúmer á þeim. Með því væri hægt að komast að því hvar dekkin voru seld og hver keypti þau. Þó er ólíklegt sé að hægt sé að rekja dekkin alla leiðina. Felgunar sem eru undir bílnum er einnig hægt að rekja með raðnúmeri sem er á þeim. Hver seldi þau og hvar þau eru keypt. Þetta er yfirleitt í gagnagrunnum framleiðina hver er söluaðilinn á Íslandi.

Það er þó ekki hægt að rekja þessi dekk og felgur ef að þau hafa verið selda milli einstaklinga. Það yrði þó hægt að finna þann mann sem keypti dekkin upprunalega og athuga hvort að hann hafi upplýsingar um þann sem keypti þau notuð. Það er að segja ef að þessi dekk eru sjálf ekki undan stolnum bíl.

Það er margt hægt að gera með einu raðnúmeri. Ég vona að það gangi vel að finna þennan búnað. Enda er þetta dýrt og vont að tapa þessu.

Jón Frímann Jónsson, 28.12.2011 kl. 00:35

7 identicon

Deili þessu á Facebook, Gáttaþefur verður að brúkhæfan jeppa!

kiddi (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 00:50

8 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Taktu nákvæmt mál á milli dekkja á ,,dráttarbílnum", og hafðu samband. Ég hef ákveðnar grunsemdir.

Börkur Hrólfsson, 28.12.2011 kl. 00:51

9 identicon

Ágæti athugasemdarritari sem skrifar undir sem "Ari".

Vantar þig dekk eða bíl eða pylsu eða eitthvað? Það ekki alveg ljóst út frá ritdómi þínum þar sem m.a. segir: "Leiðinlegt að sjá þig sem stafkarl að biðja um ölmusu þegar fullt af fólki á ekki einu sinni dekk hvað þá bíl."

Þakka þér fyrir að opna augu okkar fyrir því að allir sem auglýsa/eftirlýsa séu í raun að biðja um peninga/styrk/stuðning/fjárframlög/aumkun :)

Söfnum fyrir öllum sem auglýsa eitthvað :)  

Ljúfasti Ari, þú ert alger hnoðri <3

Eygló (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 01:01

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Vonandi nást þjófarnir, ömurlegt mál.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.12.2011 kl. 01:27

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrirgefðu, Ari minn að ég skyldi misbjóða þér með því tilkynna þennan stuld til lögreglunnar og lýsa eftir stolnum hlutum.

Það á fólk greinilega ekki að gera að þínum dómi því að þá er það að "betla ölmusu" með því að vonast eftir því að málið upplýsist og þýfið skili sér til baka.   

Lögreglan á samkvæmt þínum skilningi heldur ekki að sinna tilkynningum um þjófnaði því að með því er viðkomandi fólk að "betla" það að þeir verði upplýstir og það fái aftur það sem stolið var af þeim.

Ég fékk þær ráðleggingar hjá lögreglunni að árangursríkasta leiðin til að upplýsa um þjófnaði væri að leita til vina sinna og sem flestra annarra sem gætu gefið upplýsingar.

Hringdu nú í lögregluna og sannfærðu hana og fjárveitingavaldið um ágæti þess að spara fé með því að gera ekkert í svona málum.

Setjum nú sem svo að þýfið finnist í þessu tilfelli og eigi að skila því til mín.

Þá má ég að þínum dómi alls ekki taka við þeim illa fengna "ágóða" mínum.

Einu sinni var stolið frá mér alldýrri myndavél úr jeppa mínum þar sem hann stóð læstur inni í útvarpshúsinu.

Ég lét vita um þennan bífræfna þjófnað og málið upplýstist og ég fékk myndavélina aftur.

Fyrir það að taka við henni skal ég að þínum dómi skoðast aumur betlari og vesalingur.  

Ómar Ragnarsson, 28.12.2011 kl. 01:32

12 identicon

Ansi þykir mér það lélegt þegar maðurinn má ekki auglýsa eftir stolnum hlutum án þess að vera kallaður fífl, og sakaður um að reyna að sníkja pening í þokkabót.

Kristinn Magnússon (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 01:34

13 identicon

það er verið að auglýsa 38 tommu GH dekk á barnalandi...

sigurður (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 01:46

14 identicon

Ég á ekki orð yfir dónaskapinn í athugasemd 1

Þú sem kallar þig Ari ættir að skammast þín!

Jóna Svandís Þorvaldsdóttir (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 01:47

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Aths. #1 er ekki svaraverð. Ég man ekki eftir að Ómar hafi betlað eitt né neitt. Velgjörðarmenn hans gaukuðu að honum fé í vanadræðum hans, enda er Ómar "all in" í hugsjónastarfi sínu. Slíkt er lofsvert og sýnir e.t.v. best hversu óeigingjarn Ómar er, frekar en annað.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.12.2011 kl. 02:00

16 identicon

Til sölu 38" ground hawk á sex gata 12" breiðar og 15" háum stálfelgum.

Munstur 12-13mm miðju og 8mm yst. Verð 220þús.

Mynd fylgir.

https://bland.is/messageboard/messageboard.aspx?advid=26769663&advtype=8&page=2&advertiseType=0

Láttu nú einhvern góðan tölvumann rekja þetta.

Baráttukveðjur.

Baldur.

Baldur Guðmundsson (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 02:13

17 identicon

Sé raunar að á dekkinu er fugladrit, sem bendir til þess að dekkið hafi nýlega verið undir berum himni.

Sami.

Baldur Guðmundsson (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 02:15

18 Smámynd: Sveinn Þór Hrafnsson

Ég fékk góða símhringingju í dag. Það var einn sem fékk vetnisbúnað frá okkur. Á Volvo X90 2002 Módelið. Hann staðfesti að hann hefi minkað eldsneytis eyðluna um 25% svo hringdi annar í mig í seinustu viku á Subaru 2003 módelið hann líka staðfesti um 25% lækkun á eyðslu.. Þetta er út um allt hjá okkur.. 

En við höfum áhveðið a yfirgefa Ísland á þessari stundu,og sækja á mun stærri markað í Englandi. Því hér er því miður of légleg viðskipti sem komu eftir að Eðlisfræðingar og FIB fóru í fjölmyðla og sögðu við alla að hvað við erum að gera virkar ekki, án þess að tala við okkur eða að fá sögu frá einhverjum sem hafði prufað. Eða jafnvel fá að prufa sálfir..

Í flestum löndum, eru lög sem fyrirbyggja svik, og laga kerfið er notað til að koma í veg fyrir svik. Og það fyrirtæki sem stendur að svikum er gert up eða sektað stórar upphæðir. En í okkar tilviki fengum við ekki einu sinni tækifæri að sanna hvort um svik væri um að ræða eða ekki.. Dæmdir fyrirfram sem svikarar. Og til að toppa það, þá var okkur neitað Sprota Company status.

Og þið spyrjið, af hverju við séum að flytja landi brott?

Sveinn Þór Hrafnsson, 28.12.2011 kl. 04:17

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Baldur, dekkið í auglýsingunni er óneglt og hefur aldrei verið nelgt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.12.2011 kl. 04:40

20 identicon

Jahaaaa hérna hvað sumir eru súrir á þessu "komm(enta)abloggi"...

Ómar hefur unnið sér inn öll þau "forréttindi" sem hann hefur, og gefið af sér góðann arf til komandi kynslóða í myndum og máli, og ætti að mínu mati að fá listamanna"ölmusu"ef hann má ekki lengur tjá sig á sínu eigin bloggi um sín hugarmál...

HaukurA (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 06:43

21 identicon

Smá dekkjaumræða: 38" Ground Hawg dekk eru mjög algeng á breyttum bílum hér á landi myndi ég segja af gefinni góðri reynslu. Dæmi um þetta má finna t.d. á jeppaspjall.is. Spurning um að bæta við upplýsingum um felgustærð, hæð og breidd (ef hún er vituð), sennilega eru þetta 15" háar felgur en breiddin á bilinu 12"-15" geri ég ráð fyrir? Einnig vil ég benda á, líkt og Börkur gerir hér að ofan, að "dráttar"bifreiðin hefur ekki verið á umræddum Ground Hawg dekkjum ef það er rétt hjá skilið af mér að hjólför þau sem sjá má undir bílnum (fimmta mynd niður) tilheyri dráttarbifreiðinni. Líklegri eru Mickey Thompson dekk eða önnur tegund en alls ekki þau sem sjá má á mynd í hlekknum sem Börkur nefndi. Spurning um að sýna einhverjum þjónustu- eða söluaðila sem starfar mikið með stærri jeppadekk, góða mynd af þessum hjólförum og fá hann til að meta hvaða dekkjategund og munsturgerð þetta er. Og líka hvaða dekkjastærð er undir þeim bíl, því ekki er loku fyrir það skotið að "dráttar"bíllinn sé á annari stærð af dekkjum. Gæti borgað sig ef um óalgenga gerð er að ræða. Svo er náttúrulega möguleiki á að þjófurinn ætli sér að nýta þetta þýfi til einkabrúks, t.d. gæti verið að þessi aðili sé að huga að breytingarvinnu/endurnýjun á eigin bílkosti, nema þá að hann sé að svara einhverri eftirspurn. Vona allavega bæði þín vegna Ómar, sem og uppá samvisku viðkomandi að gera, að gerandi/gerendur í þessu máli finnist ásamt þýfi sem allra fyrst.

Raggi Blue (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 07:48

22 identicon

Hárrétt athugað hjá þér, Gunnar Th.

Baldur (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 11:14

23 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Númersstuldurinn og fleira bendir til þess að hér hafi verið á ferðinni menn sem gera talsvert af svipuðu.

Þar með gæti það gerst, ef þetta upplýsist, að þýfi úr fleiri stuldum komi í leitirnar og að fleiri en ég fái til baka verðmæti sem hefur verið stolið af þeim.

Ómar Ragnarsson, 28.12.2011 kl. 11:47

24 identicon

Ekkert að sjá á öryggismyndavél hjá bílasölunni þar sem bíllinn stóð? Eða annars staðar í nágrenninu, þarna er aragrúi öryggismyndavéla.

Með því að nota vegvísun hjá ja.is kemur ljós að fá Bíldshöfða og upp á Tungumela og síðan aftur vestur í bæ, ca. út á Norðurslóð, er vegalengdin um 35 km. Hafnarfjörður gefur skemmri vegalengd. En allt er þetta bara getgátur en hugsanlega má finna öryggismyndavélar á þessum leiðum sem nýta má.

Það er gjörsamlega ólíðandi að eignir manns tapist á þennan hátt. Vonandi fylgir svona háttalagi slæmt karma.

Sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 12:19

25 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bílnum var stolið í myrkri og mér er sagt að þeir komi yfirleitt gangandi með hettur yfir hausnum, svipað eins og þeir gera þegar þeir gera þegar þeir eru leiddir inn í réttarsal ef þeir skyldu lenda þar á endanum.

Ómar Ragnarsson, 28.12.2011 kl. 14:13

26 Smámynd: Dexter Morgan

Sæll Ómar. Það kom upp svona dekkjastuldur á Suðurnesjum í haust og ég held að eigandinn hafi fundið þau aftur í gegnum, og með hjálp "jeppaspjall.is". Þar lögðust allir á eitt um að upplýsa stuldinn og voru menn mjög vakandi fyrir auglýsingum um samskonar dekk og þar var stolið, og bentu m.a. á bíla sem voru allt í einu "nýkomnir" á þessa gerð og stærð dekkja. Ég er notandi þar inni og ég skal linka bloggið þitt við auglýsingu "Finnum dekkinn hans Ómars". Þú átt það svo sannalega skilið kallinn minn.

Dexter Morgan, 28.12.2011 kl. 16:08

27 identicon

Ekkert hjól undir bílnum, hann áfram skröltir ei meir

Jenny (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 17:23

28 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kærar þakkir Dexter Morgan og aðrir sem koma með góðar hugmyndir.

Ómar Ragnarsson, 28.12.2011 kl. 18:46

29 identicon

Eg vona svo sannarlega að barðarnir og stigbrettin finnist svo að Ómar geti kveðið við raust nú eins og fyrir fjörutíu árum: Ég vil spyrja ykkur öll:/ Eigum við að fara á fjöll/  í gömlu slitnu fjallafari?/ Fyrir sig nú hver einn svari.

Arnbjörn (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 20:58

30 identicon

Framleiðslu á þessum dekkjum hefur verið hætt fyrir nokkru og þar af leiðandi er ekki mikið af svona vel útlítandi Ground hawg dekkjum í umferðinni.  Það ætti að geta þrengt leitina.

Gangi þér vel.

Bryndís Óladóttir (IP-tala skráð) 28.12.2011 kl. 21:51

31 Smámynd: Sveinn Þór Hrafnsson

Ómar ef þú villt prufa vetnis búnað frá okkur áður en við förum erlendis þá mun það ekki kosta þig krónu. En ef ekki þá vill ég bara óska þér gleðilegrar Jóla og farsælsárs

Kveðja

Svenni Hydro-Man

Sveinn Þór Hrafnsson, 29.12.2011 kl. 00:43

32 identicon

Sjálfsagt er sá sem bak við þetta stendur farinn að svitna og hugsa um að skila góssinu.

Betra væri þó að ná í skottið á helvítinu. Það yrði kannski endirinn á starfsemi og öðrum víti til varnaðar.

ATH líka kassi.is og jafnvel barnaland. Velviljaðir hér gætu sett in hlekk líkt og gert var á jeppaspjallinu.

Jón Logi (IP-tala skráð) 29.12.2011 kl. 09:03

33 identicon

Sæll Ómar. Vonandi fynst þjófurinn eða þjófarnir. Svona mál á ekki að kæra til lögrelgu heldur á maður að hafa uppi á þjófunum brjóta í þeim öll bein. Þeir stela í það minsta ekki aftur eftir það. En láttu myndir af dekkjunum og felgunum sem að hann var á flakka á öll dekkjaverkstæði og allar jeppa síður. jeppaspjall.is f4x4.is sukka.is torfaera.is jeepclub.is bland.is svo eitthvað sé nefnt. Við heiðarlegu jeppakarlarnir verðum með augun opin. Þess má geta að ÞEssi Ground Hawk dekk eru ekki frmaleidd lengur og þar að auki ekkert mál að fá 300þús eða meira fyrir þau á felgunum. Ómar hafðu samband við mig í gegnum tölvupóst svo að ég geti látið þig vita ef að ég sé eitthvað grunsamlegt. Ég er altaf að skoða dekk undir jeppan hjá mér og skoða alla dekkja ganga sem að ég finn eða býðst.

Gísli (IP-tala skráð) 29.12.2011 kl. 14:33

34 identicon

Sæll Ómar

Þetta er svakalegt að heyra og sorglegt hvað fólk leggst látt. Þurfum öll að standa saman að fylgjast með smáauglýsingum, vonandi finnst þetta.

Þér er velkomið að koma í heimsókn til mín og skoða þau aukadekk sem ég á og hvort þú getir notað eitthvað af þeim.

Kkv. Arnþór s. 899 9498

Arnþór Ragnarsson (IP-tala skráð) 30.12.2011 kl. 18:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband