29.12.2011 | 13:45
Minnir á styrkingu stjórnarinnar 1989.
Það sem er gerast núna varðandi það að Hreyfingin gangi til liðs við ríkisstjórnina minnir um margt á það sem gerðist haustið 1989 þegar tveir þingmenn Borgaraflokksins gerðust ráðherrar í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem stóð mjög tæpt í þinginu, mun tæpar en stjórnin nú.
Þegar Steingrímur myndaði stjórn sína haustið 1988 stóð hún enn tæpar en ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens hafði gert 1980, svo tæpt, að hún gat þess vegna lent í minnihluta í öllum nefndum þingsins.
Fyrir einstaka hundaheppni unnu stjórnarliðar öll hlutkestin.
Stjórnin reiddi sig á stuðning Stefáns Valgeirssonar sem komst á þing einn síns liðs eftir að Framsóknarmenn í Norðurlandskjördæmi eystra höfðu hafnað honum á kjördæmisþingi.
Stefán átti því harma að hefna en var jafnframt í sigurvímu yfir að hafa komist á þing þrátt fyrir höfnun Framsóknarflokksins.
Sagt er að Steingrímur hafi eytt helmingnum af vinnutíma sínum í það eitt að hafa Stefán góðan, en hann var settur yfir Framkvæmdasjóð og nýtti sér stöðu sína eins og hann gat.
Haustið 1989 gat stjórnin ekki treyst á sömu hundaheppnina og árið áður og ljóst var að staðan yrði einhver hin erfiðasta sem nokkur stjórn hefði haft, jafnvel þótt Steingrímur Hermannsson væri snillingur í að stýra stjórn og halda stjórnarliðinu saman.
Hann fann þá lausn að fá stuðning frá Borgaraflokknum, sem raunar klofnaði fyrir bragðið.
Albert Guðmundsson var gerður að sendiherra í París og Júlíus Sólnes var gerður að fyrsta umhverfisráðherra Íslands og Óli Þ. Guðbjartsson varð dómsmálaráðherra.
Þetta tryggði stjórninni vinnufrið út kjörtímabilið og stuðningur Stefáns Valgeirssonar var ekki lengur úrslitaatriði eins og verið hafði.
Ef aðeins er litið á atkvæðatölurnar á þingi er staða Hreyfingarinnar ekki eins sterk og staða Borgaraflokksins var 1989 til þess að fá ráðuneyti í sinar hendur eins og Borgaraflokkurinn fékk, því að núverandi stjórn hefur þó eins atkvæðis meirihluta á þingi en 1989 var að hálfu leyti pattstaða á þinginu vegna deildaskiptingar þess, sem þá var.
Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni. Málin sem nú eru nefnd sem áhugaefni Hreyfingarinnar eru henni mikilvæg og skipta miklu vegna þess að fyrir næstu kosningar verður nokkurs virði fyrir hana að geta lagt fram, hvaða árangri hún hafi náð á kjörtímabilinu.
Í viðræðum við ríkisstjórnina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef Þór Saari er alvara með þau orð sín á Rás 2 eða Bylgjunni í dag, að hann vilji kosningar, þá ætti hann að láta það ógert að skjótast sem varadekk undir þessa afleitustu ríkisstjórn í allri lýðveldissögunni og gefa henni þannig lengra líf, í stað þess að bíða eftirvæntingarfullur upplausnar hennar.
Og þú, Ómar, ættir að hafa þá sómatilfinningu að segja þig út lögum við Samfylkinguna, sem stefnir af óbilgirni að innlimun Íslands í erlent stórveldi. Það er EKKI í samræmi við beztu hugmyndir fólks um þig, Ómar, ég segi það satt.
Jón Valur Jensson, 29.12.2011 kl. 21:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.