Ekki sama að fara upp eða niður.

Í hverfinu þar sem ég á heima, er halli á flestum götum þannig að ekið er upp eða niður. Svona háttar til um marga "botnlanga", aðkeyrslur og stæði í borginni.

Ég hef þurft að vera talsvert á ferðinni í dag og hef ekki lengur tölu á þeim bílum, sem ég hef kippt í.

Flestir bílstjórarnir gera sömu mistökin, svipuð þeim sem ég hef séð hér fyrir utan blokkina sem ég bý í.  (Sjá P.S. hér fyrir neðan sem útskýrir myndina, sem ég hef sett sem viðbót inn á bloggið)

Þeir koma að aflíðandi brekku í nokkurs konar botnlanga niður með blokkinni og ættu reyndar að geta séð það strax að mjög hæpið er að þeir komist niður hana.  Og gleyma því að ef þeir taka áhættuna á því að böðlast niður eftir verður miklu erfiðara að komast upp eftir til baka.

Samt "láta þeir á það reyna" að íslenskum sið og fara af stað en sjá ekki fyrr en um seinan að þeir geta ekki snúið við og þaðan af síður bakkað til baka.

Einn var á voldugum Benz og af því að hann er afturdrifinn er slíkur bíll gersamlega vonlaus ef á að bakka honum upp brekku sem hann átti hvort eð er erfitt með að fara niður.

Framendinn á svona bílum er þyngri en afturendinn og þyngist enn meira miðað við afturendann ef farið er niður brekku.

Annar var á BMW sem líka er afturdrifinn og kemst lítið ef bakkað er upp brekku.

Í dag sá ég einn framdrifinn sem var að reyna að komast áfram upp brekku og spólaði, enda fullur af fólki, og þá verður slíkur bíll jafnvel þyngri að aftan en framan auk þungans sem sest á afturhjólin vegna bratta götunnar.

Í mörgum tilfellum loka þessir bílar leiðinni, vegna þess að ruðningar liggja þétt að henni.

Ein spurning vaknar: Skyldi nokkur ökukennari kenna þetta atriði?

Reglan gæti hljóðað svona:

Forðastu að lenda í sjálfheldu. Ekki aka í tvísýnu færi niður í móti ef þú þarft að aka aftur til baka.

Eða:

Þú átt meiri möguleika að reyna fyrir þér upp í móti en niður í móti því að það er auðveldara að bakka út úr vandræðunum til baka undan halla en á móti halla.  PC300016

 

P. S.  Og sem ég er að setja þessa færslu inn og lít út um gluggann um miðnættið, hefur nákvæmlega þetta ofanskráða gerst á afar óheppilegum stað fyrir mig eins og sést á myndinni sem ég var að taka af þessu.

Gráa bílnum var ekið undan hallanum niður með blokkinni en þegar hann er búinn (áreiðanlega með mestu herkjum´) að snúa honum við til að aka upp eftir aftur, bakkar hann bílnum að Lödunni minni og pikkfestist þar.

Þar með er hann búinn að loka minn bíl inni uppi við bílskúrinn, farinn burtu og skilur bílinn eftir þannig að Ladan er aðþrengd á bak við hann.

Annað hvort hefur hann gefist alveg upp og ætlar að sækja bílinn á morgun eða hann er í heimsókn einhvers staðar í blokkinni, í einhverri af 16 íbúðum við tvo stigaganga.

Af því að spáð er austan hríð í fyrramálið ákvað ég að stökkva út og reyna að smokra Lödunni út úr ógöngunum við bílskúrshurðina meðn veður og snjóalög væru skapleg.

Var nefnilega búinn að moka allt of mikinn snjó í dag miðað við slæmt bak og er búinn með kvótann að því leyti og hugsanlega meira en það (vonandi þó ekki).  Forðast því snjómokstur á morgun og nota bílinn til að þjappa og búa til heppuleg för.  

Þegár mér hafði tekist að smokra Lödunni í betri stöðu, kom hins vegar bílstjórinn ásamt farþegum sínum út úr íbúð hinum megin í blokkinn, og þar með var hægt að leysa þetta mál.

Við bættist enn einn drátturinn, svona aukalega rétt fyrir svefninn, (bíldráttur að sjálfsögðu), að draga þennan bíl upp úr botnlanganum og á auðan sjó.


mbl.is Taka daginn snemma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband