1.1.2012 | 12:47
Byrjar árið með framboðsræðu ?
Forsetar Íslands hafa oftast notað áramótaávörp sín í upphafi árs forsetakosninga til þess að tilkynna hvort þeir ætli að bjóða sig fram eða draga sig í hlé.
Núverandi forseti fer stundum sínar eigin leiðir í ýmsum efnum og skilja mátti nokkur orð hans svo í Kryddsíldinni á Stöð tvö í gær að hann myndi jafnvel gefa sér lengri umhugsunartíma.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hitti naglann hins vegar á höfuðið þegar hann sagði að viðtal Eddu Andrésdóttur við forsetann hefði borið merki framboðsræðu ef svo bæri undir.
Enda var viðtalið greinilega afar vel undirbúið af Ólafi og ef þetta var framboðsræða var hún afar vel samin og flutt.
Þegar litið er til baka bar setningarræða forsetans á Alþingi líka merki framboðsræðu, þannig að ef Ólafur Ragnar ákveður að kveða upp úr með framboð sitt í nýjársræðu sinni, sem hefst eftir tíu mínútur þegar þetta er ritað, hefur hann plægt jarðveginn vel.
P. S. Nú hefur Ólafur Ragnar flutt nýjársræðu sína og gefið í skyn að hann geti hugsað sér til hreyfings á öðrum vettvangi en sem forseti. Fari svo, yrði komin upp ný staða sem á sér ekki hliðstæðu í lýðveldissögunni, að tveir fyrrverandi forsetar, enn fullir af starfsorku, hafi áhrif og starfi í þjóðlífinu á ýmsum sviðum.
![]() |
Nýársnóttin víða róleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér finnst ólíklegt að Ólafur helli sé út í pólitíkina með það fyrir augum að verða þingmaður á ný. Ég túlkaði orð hans frekar á þann veg að hann muni taka þátt í stjórnmálum á stærra sviði, t.d. eins og hann gerði með þessum alþjóðlegum þingmannasamtökum hér um árið. En vitaskuld gæti ég haft rangt fyrir mér.
H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 1.1.2012 kl. 16:33
Ég gat ekki heyrt að Ólafur segði með berum orðum að hann ætli ekki að bjóða sig fram aftur.
Getur verið að hann ætli, þrátt fyrir allt, að halda þeim möguleika opnum, að bjóða sig fram, ef vindar blása þannig?
Svavar Bjarnason, 1.1.2012 kl. 16:57
Ólafur Ragnar Grímsson forseti vor fer ekki fram aftur. Það finnst mér hárrétt ákvörðun hjá honum.
Þó svo að ég hefði alveg verið til í að styðja hann enn eitt kjörtímabil í viðbót ef því væri að skipta. En ég stutt hann allt frá fyrstu tíð og alveg fram á þennan dag. Hann hefur vissulega allt frá fyrstu tíð verið umdeildur forseti og hefur látið til sín taka á ögur stundum, hann hefur gert sín mistök en hann hefur líka unnið mörg góð verk, ekki síst á alþjóða vettvangi og nú árin eftir Hrunið, með því að stappa stáli í þjóðina.
Í þessari loka áramótaræðu hans sem var frábær, stappaði hann sannarlega stálinu í þjóðina og kvað úrtöluliðið í kútinn. Ég heyrði hann a.m.k. 4 sinnum í þessari 20 mínútna ræðu afneita ESB aðild þjóðarinnar djúpt og ákveðið, þó undir rós væri. Þá held ég að þau Össur og Jóhanna hafi alveg skilið sneiðarnar, sem þau áttu svo sannarlega skilið.
Nú vandast málið um hvern þjóðin getur hugsað sér sem næsta forseta lýðveldisins. Embættið er orðið mun pólitískara á sumum sviðum en það var hér áður. Ólafur hefur á margan hátt breytt embættinu innan þess ramma sem stjórnarskráin leyfði. Það finnst mér hafa verið til bóta. En alls ekki er samt hægt að segja að Ólafur hafi verið flokkspólitískur forseti.
En ég tel að töluverð hætta verði á að erfitt geti reynst að finna hæfan mann í skarðið fyrir Ólaf. Enda skarðið stórt sem hann skilur eftir sig. Er líka hræddur um að víglínur verði nú enn hatrammari en nokkru sinni og munu þar ESB málin óhjákvæmilega blandast inn í. Ég get ekki hugsað mér að í embættið verði kjörinn einhver ESB aftaníossinn og ég veit að svo er um fjölmarga.
En hér með skora ég á þig Ómar Ragnarsson að bjóða þig fram til forseta. Þú segir kannski að þú sért of gamall, en það er ekki rétt því að þú ert síungur og þarft heldur ekki að sitja nema kannski 1 eða 2 kjörtímabil en ekki 4 eins og ÓRG.
Þú ert vel þekktur meðal þjóðarinnar og þó þú hafir eitthvað komið nálægt Samfylkingunni, þá munu flestir fyrirgefa þér það og ég held að þú sért í raun óskaplega lítill ESB sinni. Þú hefur þekkingu á þjóðmálunum almennt og brennandi áhuga fyrir verndun lands og lífs. Þó ég sé þér ekki alltaf sammála í náttúruverndarmálunum þá hefur þú þó virðingu mína og þjóðarinnar vegna þeirra óskiptu baráttu þinnar á þeim vettvangi. Fyrir utan að vera óskoraður lífskúnstner þjóðarinnar númer eitt.
Vona að fleiri taki undir með mér.
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 1.1.2012 kl. 17:06
Ég hef ekki gert upp hug minn varðandi ESB því að hvað það mál snertir hef ég verið þeirrar skoðunar að nota "norsku aðferðina" sem felst í því að lagt sé fyrir íslenska kjósendur að velja eða hafna niðurstöðu úr aðildarumsókn eftir ítarlega og fullnægjandi umræðu og upplýsingagjöf um málið.
Þá mun þjóðin sjálf skera úr um þetta mál í stað þess að þæfast með það óleyst árum og áratugum saman með þeim afleiðingum að það kljúfi þjóðina og þjóðmálahreyfingar í herðar niður og rugli íslensk stjórnmál.
Fá þetta á hreint, af eða á.
Þegar þar að kemur mun ég taka afstöðu til aðildar að ESB. Ekki fyrr.
Ómar Ragnarsson, 1.1.2012 kl. 21:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.