Tók ekki alveg af skarið. Mýtan um "ópólitískt" embætti.

Ekki var hægt að heyra að Ólafur Ragnar Grímsson tæki alveg af skarið í nýjársávarpi sínu um  að bjóða sig ekki fram á ný, enda gaf hann í skyn, áður en hann ræddi um upphaf á ferli hans á nýjum vettvangi, að til greina kæmi fyrir hann að íhuga málið eitthvað fram á árið.

Mikið hefur verið rætt um að Ólafur hafi gerbreytt eðli embættisins sem hafi áður verið ópólitískt.

Vissulega varð Ólafur fyrstur forseta til að beita synjunarvaldinu en inn í það spiluðu óvenjulegar aðstæður sem komu upp í þjóðlífinu.

Í viðtölum við Vigdísi Finnbogadóttur hefur komið fram hve tæpt stóð um beitun málskotsréttarins gagnvart EES-samningnum og einnig það að hefði hún verið forseti 2003 hefði hún skotið Kárahnjúkamálinu í dóm þjóðarinnar.

Og svo má ekki gleyma því að þrír af fjórum forverum Ólafs Ragnars beittu stjórnarmyndunarvaldi forsetans óbeint, en það vald er svo sannarlega pólitískt.

1942 skipaði Sveinn Björnsson utanþingsstjórn, þá fyrstu síðan Íslendingar fengu heimastjórn og síðar fullveldi.  

Trúnaðarbrestur hafði orðið með oddvitum stærstu stjórnmálaflokkanna, Hermanns Jónassonar og Ólafs Thors, sem ekki gátu hugsað sér að sitja í stjórn saman.

Stjórnmálaforingjarnir voru óánægðir með inngrip Sveins og Sjálfstæðismenn létu þá óánægju í ljós þegar hópur þingmanna þeirra kaus Jón Sigurðsson skrifstofusjóra Alþingis á Þingvöllum 1944 í stað þess að gefa Sveini atkvæði.

Sem forseti beitti Sveinn þessu valdi óbeint við stjórnarmyndanirnar 1947 og 1950, sem báðar tóku það langan tíma að hann var kominn á fremsta hlunn með að grípa í taumana.

Af fenginni reynslunni frá 1942 tókst að finna lausn 1947 með því að formaður Alþýðuflokksins myndaði stjórn og 1950 með því að Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri og alþingismaður myndaði stjórn.

Þrátt fyrir það að vera pólitiskur forseti að þessu leyti  naut Sveinn Björnsson virðingar þjóðarinnar sem sameiningartákn hennar út á við og inn á við.

Þegar séra Bjarni Jónsson dómkirkjuprestur bauð sig fram 1952 naut hann opinbers stuðnings þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, svo að enda þótt Bjarni hefði ekki tekið þátt í stjórnmálum, var framboð hans pólítískt í meira lagi.

Á þeim tíma taldi Ólafur Thors að forseti Íslands gæti undir vissum kringumstæðum haft mikil og afgerandi völd.

Ásgeir Ásgeirsson hafði bæði verið forseti sameinaðs Alþingis og forsætisráðherra en var engu að síður kjörinn forseti 1952.  Hafði bæði verið þingmaður Framsóknarflokks og síðar Alþýðuflokkks.

Hann notaði þekkingu sína á innviðum stjórnmálanna til að hafa afgerandi áhrif á myndun minnihlutastjórnar Alþýðuflokksins 1958-59 og hratt þar með af stað samvinnu Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn sem stóð í 13 ár.

Ásgeir naut þrátt fyrir þetta virðingar þjóðarinnar líkt og Sveinn Björnssonar hafði haft.

Kristjáni Eldjárn var af andstæðingum í kosningabaráttunni 1968 núið því um nasir að vera hernámsandstæðingur og vinstri maður.

Hann var í framboði gegn Gunnari Thoroddsen sem hafði verið einn af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins um áratuga skeið og að því leyti var kosningabaráttan pólitísk.

Hann hlaut samt yfirburðakosningu og við stjórnarmyndanirnar 1978 og 1980 beitti hann stjórnarmyndunarvaldinu óbeint með því þrýsta á um stjórnarmyndun, því að annars hefði hann tilbúna utanþingsstjórn undir forystu Jóhannesar Nordals til að höggva á hnútinn.

Kristján naut mikillar virðíngar þjóðarinnar þrátt fyrir það að í embættinu varð hann þegar nauðsyn krafði að beita því pólitíska valdi sem það bjó yfir, ef í nauðsyn krefði. 

Vigdís Finnbogadóttir frestaði undirritun laga sem bönnuðu verkföll flugfreyja og hefði getað komið til stjórnarslita og uppgjörs ef hún hefði frestað undirrituninni enn frekar.

Auk þess eru tvö tilvik nefnd hér að ofan sem sýna að undir vissum kringumstæðum gat komið upp sú staða að synjunarvaldinu yrði beitt.

Þegar litið er á fyrrnefnd atriði sést að ekki er hægt meðan núverandi stjórnarskrá er í gildi að útiloka beitingu bæði synjunarvalds og stjórnarmyndunarvalds forsetans.

Verði frumvarp stjórnlagaráðs að lögum heldur forsetinn synjunarvaldinu en missir vald til myndunar utanþingsstjórnar í núverandi mynd.

Aðalatriðið er þetta: Í þroskuðu lýðræðisríki leitast forsetinn við að sameina frekar en að sundra eftir því sem það er hægt.  Þegnarnir viðurkenna hann sem þjón sinn, kosinn beint af þjóðinni og hann lítur á sig sem þjón allra landsmann.

Sem dæmi má nefna Bandaríkjaforseta, en margir þeirra hafa verið afar umdeildir og komst til valda eftir hatramma kosningabaráttu.

Engu að síður ríkir gagnkvæm virðing milli forsetans og kjósendanna og að því leyti getur forsetinn verið sameiningartákn inn á við og út á við.

Það sem réði úrslitum hjá stjórnlagaráði varðandi skipan forsetaembættisins var sú hugsun að það væri hluti af nauðsynlegri valddreifingu og valdtemprun milli valdþáttanna í lýðræðisþjóðfélaga og þá helst þannig að vera öryggisventill og úrræði sem þjóðin veldi til að koma til skjalanna þegar annað brygðist og mikið lægi við.

Best væri að aldrei þyrfti til þess að koma að forsetinn yrði að láta til sín taka, en hann væri þó til taks þegar önnur úrræði þryti.

Forsetaembættið er hluti af stjórnkerfinu og viðfangsefni þess eru stjórnmálalegs eðlis.

Þótt þeir tímar geti komið að forsetinn komist hjá því eða þurfi aldrei að beita valdi sínu hefur hann það samt.

 

 


mbl.is Býður sig ekki fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Nokkuð ljóst að Ólafur er tilbúinn
að taka við endurnýjuðu umboði ef
hann sjálfur fær frekari völd.
Vonandi að enginn verði til að gera
honum eða íslenskri þjóð slíkan óleik.

Húsari. (IP-tala skráð) 1.1.2012 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband