2.1.2012 | 01:21
Maðurinn sem hafnaði silfurverðlaunahafanum.
Stundum verður sérfræðingum illilega á í messunni þegar þeir leggja dóm á upprennandi stjörnur og afreksfólk. Bítlarnir voru léttvægir fundnir í fyrstu prufu sinni og dæmi um svipað finnast víða, líka á okkar landi.
Líklega er Vilhjálmur Einarsson mesti afreksmaður íslenskra íþrótta fyrr og síðar. Hann fékk silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum 1956 og um tíma átti hann Ólympíumetið í greininni eða þar til að Ferreira Da Silva tókst að verja titil sinn frá 1952 í sjötta og síðasta stökki sínu.
1960 jafnaði Vilhjálmur gildandi heimsmet í greininni. Það Íslandsmet stendur enn og enginn Íslendingur hefur komist nálægt því að jafna það.
Þegar Vilhjállmur þreifaði fyrst fyrir sér og leitaði ráða hjá íþróttaþjálfara varðandi það hvort hann gæti náð árangri í frjálsum íþróttum leist þjálfaranum ekkert meira en svo á þennan unga sveitapilt.
Frekar útskeifur og rasssíður, aðeins kiðfættur og lítt líklegur til afreka. Dómur þjálfarans var sá að Vilhjálmur gæti kannski orðið liðtækur kúluvarpari !
Nafn þjálfarans er mér ekki kunnugt sem betur fer.
Vanmat á mönnum getur reynst afdrifaríkt þegar kemur að keppni um völd og áhrif í stjórnmálum.
Hindenburg sem var forseti Þýskalands í upphafi kreppunnar miklu, hafði mikla óbeit og lítið álit á Adolf Hitler, þessum litilsiglda "liðþjálfa" úr fyrra stríðinu, og taldi að engin hætta væri á ferðum þótt hann fengi að vera í samsteypustjórn nasista og annarra flokka.
Samstarfsmenn Hitlers í stjórninni, sem voru í öðrum flokkum en nasistaflokknum, tóku undir með Hindenburg og töldu litið mál að hafa hemil á Hitler og halda honum til hlés. Þeir myndu fara létt með þennan uppskafning.
Í þessu hrikalega vanmati fólust einhver mestu stjórnmálalegu mistök allra tíma eins og fljótlega kom á daginn.
Maðurinn sem hafnaði Bítlunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þessi maður hafði samt rétt fyrir sér með ofmetnasta bílskúrsband sögunar. Get over it people. Þeir voru já fyrstir en langt frá því að vera bestir eða bara yfirhöfuð góðir. 98% af þeirri tónlist sem þeir gerðu er léleg og leiðinleg. Það er ekki góð fyrirmynd að segja að maður þurfi bara að skila 2% góðri vinnu til að teljast góður í því sem maður gerir.
Einarer (IP-tala skráð) 2.1.2012 kl. 06:32
Það er þitt mat Einar, en mat umboðsmannsins var að þeir væru ekki líklegir til vinsælda. Þeir urðu svo vinsælasta band allra tíma.
Jón Logi (IP-tala skráð) 2.1.2012 kl. 08:20
Vilhjálmur var milill afreksmaður og einn sá allra mesti.
Gunnar Huseby er að mínu áliti mesti sigurvegarinn í frjálsum íþróttum. Tveir Evrópumeistata titlar og aðrir sigrar hér heima og erlendis.
Trausti (IP-tala skráð) 2.1.2012 kl. 09:48
Þegar ég las ummæli Einarer (06:32) hugsaði ég; vá, ég þá ekki sá eini í heiminum.
Hef aldrei kunnað að meta Bítlana, léleg lög og enn lélegri útfærsla. Held ég hafi samt góðan tónsmekk og þjálfaðan.
Yesterday, finnst mér t.d. aðeins sæmilegt lag.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 2.1.2012 kl. 12:09
Þjálfaðan tónlistarsmekk, hvorki meira né minna. Það er þá væntanlega til réttur og vitlaus tónlistarsmekkur.
En þetta heldur þú bara Haukur....
Veit ekki hvort Bubbinn er með "þjálfaðan smekk" þar sem hann hefur víða komið við, en hans orð um Bítlana voru einhvern veginn á þann veg að það hefði verið ósangjarnt hjá almættinu gagnvart hljómlistarmönnum heimsins að raða þessum einstaklingum í sama bandið. Sammála Bubba.
Jón Logi (IP-tala skráð) 2.1.2012 kl. 12:59
Gaman að lesa að hér tjá sig tveir einstaklingar sem greinilega hafa góðan tónlistarsmekk.
Bítlarnir eru eitthvað það ofmetnasta drasl sem fyrirfinnst! Og er þá Bieberinn umtalsvert skárri en þessir vælubílar.
Kristinn Jakob Steindórsson (IP-tala skráð) 2.1.2012 kl. 14:17
Gunnar Huseby var mikill afreksmaður en í frjálsum íþróttum verður ekki komist fram hjá metrum og sekúndum.
Þótt hann yrði tvívegis Evrópumeistari komst hann aldrei á blað sem einn af fimm bestu í heiminum á afrekaskrám þeirra ára sem hann var að keppa.
Ástæðan var sú að Bandaríkjamenn áttu alltaf bestu menninga í kúluvarpinu á þessum árum.
Á sama tíma var Örn Clausen hins vegar þrjú ár í röð, 1949, 1950 og 1951, 2-3ji besti tugþrautarmaður heims á heimsafrekaskránni, næst á eftir heimsmethafanum og tvöfalda Ólympíumeistaranum Robert Mathias.
Heimsafrekaskráin og Ólympíutitlar skora hærra en Evrópumeistaratitlar.
Ómar Ragnarsson, 2.1.2012 kl. 14:24
Fyrst Trausti nefndi Gunnar Huseby, hefur mér lengi sárnað hversu illa var vegið að íþróttamannsheiðri Gunnars í kvikmyndinni "Djöflaeyjan".
Þar er karakterinn sem augljóslega átti að samsvara Huseby, látinn svindla í kúluvarpskeppni og setja ógilt met með léttri kvennakúlu. Það gerði Gunnar Huseby aldrei.
Hliðstætt atvik - en Huseby óviðkomandi - varð hinsvegar í ágúst 1961 þegar Þorsteinn Löve (samt ekki múrarameistarinn) var úrskurðaður í keppnisbann fyrir að keppa með of létta kringlu í landskeppni við Þjóðverja.
Þegar Huseby var heiðraður eftir 25ára feril, var skráð í Mbl: "framkoma hans á mótum (hefði) ætíð einkennst af drengilegum leik"
Þorkell Guðnason, 2.1.2012 kl. 14:26
Gleðilegt ár.
Ég vil benda fólki á að umrædd hljómsveit, The Beatles, átti hvorki meira né minna en 27 lög nr. 1 á helstu vinsældalistum tónlistar í Bretlandi (Reord Retailer) og Bandaríkjunum (Billboard), sbr. plötuhulstur á geisladisknum "The Beates 1" útg. 2000.
Geri aðrir betur!!!
Hvað segir það um gæði laganna, útsetningar og flutning og fyrst og fremst að öllu samantöldu að mati almennra hlustenda í þessum löndum og þótt víðar væri leitað um heim allan?
Þessi lög og flest önnur með Bítlunum hafa þannig fallið gjörsamlega að tónlistarsmekk meirihluta hlustenda er þau voru gefin út og þar í framhaldi.
Mér sýnist að þeir tónlistarsérvitringar sem hafa tónlistarsmekk í algjörri andstöðu við almenna hlustendur og tjá sig í þá veru hér að ofan megi telja í hópi með hinum mistæka tónlistarspekúlandi Decca sem kom ekki auga á það sem fólst í Bítlunum. Þetta er þeirra persónulega álit og smekkur.
Sem betur fer hafði snillingurinn George Martin upptökustjóri Pharlaphone og Brian Epstein umboðsmaður, sem "uppgötvuðu" Bítlana eftir heimsókn þeirra til Decca, annan tónlistarsmekk og sem var/er í meira samræmi við vinsældalíkur tónlistar og flytjenda meðal almennings.
Aðdáendur Bítlanna og ómetanlegrar og óviðjafnanlegrar tónlistar þeirra um framtíð alla eru þeim vægast sagt afar þakklátir.
Kristinn Snævar Jónsson, 2.1.2012 kl. 14:52
Gagnvart þeim sem þola ekki Bítlanna:
Ég ætla að gera ráð fyrir því að þið séuð að bera saman lög Bítlanna við samtímatónlist, sem er allt öðruvísi heldur enn sú tónlist sem tíðkaðist þegar þeir voru að rísa upp frægðarstigann. Auðvitað hafa lög þeirra elst og smekkur manna breytist með tímanum en það væri fávitaskapur að hundsa framlag Bítlanna til tónlistargeirans.
Staðreyndin er sú að Bítlarnir voru að koma með glænýjan hljóm sem féll í kramið á fólkinu sem var að hlusta á þá og útskýrir mjög vel hvers vegna þeir urðu svona vinsælir. Þeir voru brautryðjendur í tónlistageiranum á sínum tíma og áttu stóran þátt í þróun rokktónlistar.
Tónlist í dag er byggð á gríðarmikilli þróun forrennara sem eltust við að finna nýjan hljóm, skilaboðum til að koma á framfæri, og tísku sem þeir komu af stað. Þá hafa lög Bítlanna orðið innblástur margra listamanna sem héldu áfram þeirri þróun og betrumbættu. Mörg vinsæl hljómsveit sem komu eftirá eiga allt sitt að þakka Bítlunum en þeir bókstaflega fóru af stað til að feta í fótspor þeirra.
Einar Örn Gissurarson, 2.1.2012 kl. 17:53
Justin Bieber er ekki einu sinni þess verður að vera nefndur í sömu setningu og Bítlarnir. Ég var að vísu að enda við að gera það sjálfur af illri nauðsyn og er alveg miður mín yfir því.
Tek undir með síðasta manni, að það megi heyra rokksöguna með því að hlusta á diska Bítlanna. Þeir voru að flytja þungarokk áður en það hugtak var fundið upp. Flestir diskar þeirra eru á lista yfir mest seldu diskana.
Hvaða tónlistarmaður myndi fá Mark Knopfler úr Dire Straits, Eric Clapton, Phil Collins og sjálfsagt einhverja fleiri snillinga, til að spila undir á tónleikum með sér, annar en bítillinn Paul McCartney? Tvo af bestu gítarleikurum heimsins einn, af bestu trommurum heims og allir þrír búnir að eiga hvert topplagið á fætur öðru.
Þessa tónleika má finna á YouTube og þeir voru ekki einu sinni að flytja mjög þekkt Bítlalag, Golden Slumbers af Abbey Road.
Theódór Norðkvist, 2.1.2012 kl. 23:37
Stundum grípur tónlist mann svo að maður man hvar maður var staddur þegar maður heyrði hana fyrst. Þetta gerist ekki oft.
Ég man hvar ég var staddur þegar ég heyrði fyrsta Presleylagið.
Líka þegar ég heyrði Fats Domino syngja Bluberry hill sem Louis Armstrong hafði sungið á undan honum, en samt man ég ekki hvar ég var staddur þegar ég heyrði það.
Ég man hvar ég var staddur þegar ég heyrði fyrsta Bítlalagið á glænýrri plötu í lúkar í Vestmannaeyjabáti sem kom þangað beint frá Bretlandi.
Einnig þegar ég heyrði fyrst lagið um Elanor Rigby, þar sem kvað við alveg ný efnistök miðað við aðrar rokkhljómsveitir þess tíma.
Aftur þegar ég heyrði fyrst lagið Yesterday.
Fyrir tilviljun var ég staddur í útvarpshúsinu þegar fyrstu Sergeant Peppers plötunni skolaði þangað og ég eyddi næstu klukkstundum í að spila hana aftur og aftur.
Bara að Penny lane og Strawberry fields forever hefðu verið líka á þeirri plötu eins og til stóð í upphafi.
Í tónlistinni rísa og hníga bylgjurnar. Það var "in" í gær getur orðið "out" í dag.
En það sem var einu sinni gott verður aldrei lélegt til langframa.
Þess vegna lifnar tónlist Bítlanna aftur og aftur.
Ómar Ragnarsson, 2.1.2012 kl. 23:48
Takk fyrir skemmtilegt og fróðlegt innlegg.
Theódór Norðkvist, 3.1.2012 kl. 00:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.