6.1.2012 | 12:06
Fólkið ráði sjálft.
Hér á landi er í gildi einn hæsti þröskuldur heims varðandi lágmarksfylgi sem framboð verði að fá. Aðeins í tveimur löndum af 30 í Evrópu er svona hár þröskuldur.
Rökin fyrir því að hundsa vilja þeirra sem kjósa slík framboð eru þau að þau geti skapað upplausn á Alþingi ef þau komi mönnum þar að sem geti komist í oddaaðstöðu við stjórnarmyndun og fengið þannig áhrif umfram fylgi. Er bent á Ísrael sem dæmi um þetta.
Þetta eru afar veik rök. Í ýmsum löndum Evrópu hafa litlir flokkar af og til komist í oddaaðstöðu án þess að það hafi bitnað á stjórnarfarinu.
Síðan sýnir reynslan að hvað eftir annað þarf ekki litla flokka til þess að smáir þingflokkar myndist og er þróunin á Alþingi síðan 2009 ljóst dæmi um það.
Fólkið ræður nefnilega sjálft þegar það er komið á þing. Þannig klofnaði Borgarahreyfingin á mettíma eftir að hafa komið fólki á þing og einn af þingmönnunum gekk í einn af fjórflokkunum.
Þingmenn Borgararhreyfingarinnar stofnuðu sérstakan flokk, Hreyfinguna, en Borgarahreyfingin fékk samt til sín ríkisstuðninginn þótt engan þingmann hefði.
Nú hafa náðst sættir og komið í ljós að fólkið ræður sjálft og á að ráða því sjálft hvernig það skipar sér í flokka og félög, hvort það klýfur þau eða sameinar, enda er félagafrelsi í landinu.
Reynslan úr fyrri kosningum sýnir svipað. Þingflokkar Borgaraflokksins og Bandalags jafnaðarmanna klofnuðu á sínum tíma þrátt fyrir allt talið um að atkvæðaþröskuldar í kosningum tryggðu stöðugleika.
Tíu þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðustu í stjórnarandstöðu 1944 gegn stjórn eigin formanns og fylgismenn Gunnars Thoroddsens á þingi mynduðu ríkisstjórn á sama tíma sem aðrir þingmenn flokksins með formanninn í broddi fylkingar lögðust í stjórnarandstöðu.
Það sýnir best hvað 5% atkvæðaþröskuldurinn er ósanngjarn að í fyrstu skoðanakönnunum fyrir kosningarnar 2007 voru Íslandshreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn með í kringum 5% hvort framboð og duttu inn og út á víxl.
Svo hefði getað farið að hvorugt framboðið hefði fengið þingmann þótt þau hefðu samtals tæp 10% atkvæða eða fleiri atkvæði en eru í öllu Norðvesturkjördæmi !
Niðurstaðan í frumvarpi stjórnlagaráðs var sú að hafa ekki annan þröskuld en þann sem felst í því að koma einum þingmanni að á öllu landinu, en það samsvarar tæpum 2%.
Síðan er núverandi kjördæmaskipan annað dæmið um ólýðræðislegar takmarkanir.
Dæmi: Ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi en ekki tvo 2007 hefði Íslandshreyfingin fengið tvo þingmenn.
Hið fáránlega fyrirkomulag að skipta Reykjavík einu allra sveitarfélaga á landinu er enn fáránlegra en ella fyrir það að það var gert að skilyrði í ofanálag, að borginni yrði ekki skipt í samræmi við hugsanlegan mun á hagsmunum á milli úthverfanna í austurhlutanum og þess hluta er, sem er vestan Elliðaáa, heldur skyldi þessi kjördæmaskipting verða sú eina þar sem lögmálið um mismunandi aðstæður og hagsmuni skyldi ekki gilda, gagnstætt því sem á að heita grundvöllur landsbyggðarkjördæmanna !
Nýju framboðin sameinist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar; Mikið óskaplega urðu margir fyrir miklum vonbrigðum með tillögu ykkar stjórnlagaráðsfólks að nýrri stjórnarskrá að þar skyldi ekki vera uppfyllt löngu tímabær og sjálfsögð krafa almennings um að landið verði eitt kjördæmi. Þessi últra flókna lausn úr smiðju dr. Þorkels Helgasonar hefur þann stóra vankant, að hún er svo flókin, að fæstir nema sprenglærðir stærðfræðingar skilja hana. Lausn, sem fólk ekki skilur, er ekki líkleg til að skapa traust.
Quinteiras (IP-tala skráð) 6.1.2012 kl. 18:57
Síðast þegar ég taldi voru 50 lönd að hluta eða öllu leiti í Evrópu. 30 er bara ESB+EES.
Axel Þór Kolbeinsson, 6.1.2012 kl. 22:27
Eitt kjördæmi þýðir það að höfuðborgarsvæðið hefur meirihluta í löggjafavaldi í öllum tilvikum. Það stafar einfaldlega af hlutfalli í fólksfjölda sem er allt að því einsdæmi í ríki á stærð við Ísland.
2 kjördæmi, - kannski annað mál. En mér finnst þetta nú reyndar nokk í lagi eins og þetta er.....
Jón Logi (IP-tala skráð) 7.1.2012 kl. 10:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.