Tillitsleysi við þá sem byggðu þessa borg.

Þeir sem eru fullfrískir virðast eiga erfitt með að setja sig í spor þeirra sem byggðu þessa borg. Það sést á tillitsleysinu sem þeim er sýnt þessa dagana þegar þeir eru settir í stofufangelsi dögum og vikum saman.

Ég skal nefna dæmi. 

Vestan við Borgarspítalann hefur risið hverfi blokka þar sem fólk komið yfir sextugt býr. Þarna búa nokkur hundruð aldraðir og eru tugum og hundruðum saman háðir þjónustu sem þarna er rekin í þjónustuseli að Sléttuvegi 11. 

Þangað getur þetta aldraða fólk leitað um einföldustu þjónustu varðandi félagsskap við aðra og mat. 

Mikla eftirgangsmuni þurfti til að koma í veg fyrir að strætisvagnaferðir yrðu lagðar niður inn í hverfið. Tókst þó að afstýra þessum svonefnda "sparnaði". 

Frá endastöð strætisvagnsins eru rúmir 100 metrar inn í anddyri þjónustuselsins. 

En í "sparnaðarskyni" er snjór aðeins ruddur að endastöð strætisvagnanna og skildir ruðningar þannig að dögum saman hefur verið ófært að þjónustuselinu nema jöklabílum þessa metra sem skipta sköpum um það hvort gamla fólkið kemst þangað.

Komið hafa dagar þegar bíllinn, sem kemur með matinn, hefur ekki komist þessa leið. Ekki heldur leigubílar né sjúkrabílar. 

Ég hef oft ætlað að blogga um þetta en ekki komið mér að því vegna þess að konan mín hefur verið forstöðukona í þjónustuselinu undanfarin 19 ár og hægt að segja, að eigin hagsmunir okkar ráði slíkum skrifum.

Nú er hún hætt störfum og komin á eftirlaun og þar með eigum við hjónin ekki lengur neinna hagsmuna að gæta. 

Í upphafi var þarna miklu færra fólk og margir enn ekki komnir yfir sjötugt. En síðan eru liðin tuttugu ár og fólkið hefur elst þótt borgarfulltrúar allra flokka, sem hafa verið við völd á þessu tímabili virðist ekki hafa gert sér grein fyrir því. 

Þar að auki hefur fjöldi gamla fólksins margfaldast með byggingu nýrra blokka.

Þegar færðin hefur verið hvað verst að undanförnu hefur þessu fólki verið sagt að éta það sem úti frýs. 

En það hefur dögum saman ekki einu sinni komist út til þess að éta það sem úti frýs. 

 

 

 


mbl.is Færðin eldri borgurum erfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Þetta er ekki það eina Ómar, þetta er á öllum! sviðum sem snír að öldruðum og örirkjum, síðan þessi óvelferðarstjórn tók við völdum.

Eyjólfur G Svavarsson, 8.1.2012 kl. 11:17

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Gott að þú vekur athygli á þessu óréttlæti, sem aldraðir þurfa að búa við á Ísland.

Siðfleysið og vanvirðingin við fólkið í þessu samfélags-kerfi er til háborinnar skammar. Hvernig er með góðri samvisku hægt að vanrækja gamla fólkið svona, sem stritaði hörðum höndum allt sitt líf, til að afkomendurnir gætu haft gott líf?

Sjaldan launar kálfurinn ofeldið, og þessi pistill þinn er gott dæmi um það.

Þú hefur þann siðferðislega þroska Ómar, að skilja hvað má túlka sem eiginhagsmuni. Hugsa sér ef ráðamenn hjá ríki og borg hefðu haft þennan siðferðislega þroska í gegnum tíðina. Þá væri margt öðruvísi á Íslandi í dag.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 8.1.2012 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband