10.1.2012 | 11:00
Nú er gott að Frúin fékk...
Það fer senn að verða fróðlegt að róta í skýrslum um veður, snjóalög og færð til að finna út hvenær jafnlöng tíð illviðra, snjóa og ófærðar hefur ríkt á klakanum.
Mig grunar að senn þurfi að leita aftur um næstum tuttugu ár tl að finna annað eins og minnsta kosti man ég ekki svona langa illviðristíð svo snemma vetrar.
Á meðan blása tiltölulega hlýir vindar um norðanverða Evrópu og nú kemur í ljós að við hjónin völdum tímann rétt fyrir leynilegt brúðkaup okkar án tilstands fyrir réttum fimmtíu árum, því að annars væru við ekki í síðbúinni brúðkaupsferð fjarri Íslands ströndum.
Í fyrradag voru nokkur tímamót í daglegri hegðun minni, því að síðustu níu mánuði hefur hver dagur byrjað og endað á því að skoða veðurspár fyrir Suðurland á meðan FRÚin hefur verið kyrrsett á Selfossi, en í gær og í dag er maður að byrja að átta sig á því að þessi daglega venja er úr sögunni, - í bili að minnsta kosti.
Á nýjársdag hringdi einn af vinum mínum og samfélögum í Flugklúbbi Selfoss í mig og tjáði mér, að ég gæti fengið inni í skýli, þar sem pláss hafði losnað.
Ég fór austur en sá strax að þetta var ómögulegt, vegna mestu snjóalaga sem þarna hafa komið á þessum árstíma í sögu flugvallarins eins og myndir á blogginu gær bera með sér.
Í fyrradag hringdi vinur minn aftur í mig og sagði mér að hann og félagar hans hefðu notað tækifærið meðan snögg og áköf hláka stóð sem hæst, mokað FRÚna út og rutt fyrir hana leið inn í skýlið við hliðina.
Nú er eins og fargi af mér létt þegar ég sé fréttirnar að heiman um að leiðir lokist, ekki aðeins vegna snjóa, heldur "vegna sjóa", þ. e. í Kollafirði.
Ég vona að löndum mínum gangi vel í þessari glímu við veðrið á þeim tíma ársins sem jafnan veru mestir vindar og umhleypingar á Fróni og læt þessa vísu fljóta með í lokin með hjartans þakklæti til góðra vina austan fjalls:
Erfiðlega oft það gekk
að eiga við besta tólið.
Nú er gott að FRÚin fékk
að fara inn í skjólið.
Strætó seinn vegna ófærðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gott er að heyra. Svo er bara að vona að maður heyri í henni með vorinu ;)
Jón Logi (IP-tala skráð) 10.1.2012 kl. 14:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.