Viðbjóður hernaðar.

Fyrir um 150 árum hófst viðleitni í þá átt að reyna að draga úr mesta viðbjóði hernaðar, fyrirbrigði sem því miður virðist ekki geta annað en fylgt mannkyninu meðan þar er við lýði á jörðinni.

Fórnarstarf Florence Nightingale opnaði smám saman augu fólks fyrir því að enda þótt aldrei yrði komið í veg fyrir hernaðarátök væri hægt að draga úr verstu afleiðingum þeirra. 

Í dýraríkinu má sjá fjölmörg dæmi þess að hinar svonefndu "skynlausu skepnur" skirrast við að beita valdi í átökum umfram það sem nauðsynlegt er til að útkljá deilumál eða togstreitu um völd. 

Einkum á þetta við um einvígi karldýra sem notuð eru til að skera úr um yfirráð eða völd. 

Þannig berjast sleðahundar innbyrðis um röðina, sem þeir eru í í eykinu, og enda þótt þeir særi hverjir aðra gæta þeir þess að ganga ekki svo langt að mótherjinn deyi af sárum sínum. 

Þegar litið er til þessa má furðu gegna hve grimmir svonefndir "viti bornir menn" geta oft verið í átökum sín á milli. 

Fyrri heimsstyrjöldin átti að verða "styrjöld til að binda enda á allar styrjaldir" en í staðinn varð hún kveikjan að ennþá verri, mannskæðari og villimannlegri heimsstyrjöld auk fjölda styrjalda út 20. öldina. 

Takið eftir því hvernig við notum orðið "villimannlegt" sem gildishlaðið hugtak sem á að greina hinn tæknivædda mann frá villimönnum. Svo er hins vegar oft að sjá að villimennska hinna menntuðu manna taki fram villimennsku villimannanna sjálfra. 

Aukin óhlutdræg umfjöllun fjölmiðla var ein af ástæðum þess að Bandaríkjamenn hættu hernaði í Víetnam því að þeir töpuðu í raun stríðinu heima fyrir á vettvangi sjónvarps, kvikmynda og ljósmynda.

Síðan þá hafa hernaðaryfirvöld lagt kapp á að stjórna myndbirtingum af styrjöldum og koma í veg fyrir að þær sýndu miskunnarleysi hernaðar. 

Þannig var komist hjá því að sýna í sjónvarpi elstu hernaðaraðferð mannkynsins, stórslátrun hers Íraka í eyðimörkinni í Flóastríðinu 1991, heldur var orrustan birt eins og sakleysilegur tölvuleikur á milli vígvéla. 

Varla þarf að fara í grafgötur með grimmd beggja aðila í Afganistan og taka verður það með í reikninginn varðandi upplýsingar um hana, að vesturlandabúar eiga mun auðveldara með að taka myndir og dreifa þeim en tækjafáir skæruliðar. 

Á móti kemur að hernaðaryfirvöld nota öll tiltæk ráð til að kæfa upplýsingagjöf, sem er þeim óhagstæð, og þess vegna er upplýsingastarfsemi á borð við þá sem Wikileaks hefur stundað svo nauðsynleg. 


mbl.is Birtu myndir af líkum talibana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband