12.1.2012 | 11:41
Syndir feðranna...
Eðlilegt er að afkomendum Louis Renault svíði það að syndir afans komi niður á þeim, einkum vegna þess að vegna dauða hans voru málin aldrei leiddi til lykta fyrir dómstólum og sekt hans þar með sönnuð í samræmi við grundvallarreglur vestræns réttarfars, að sérhver maður skuli álitinn saklaus þar til sekt hans er sönnuð.
Renault kann að hafa talið sig þurfa að laga sig að aðstæðum í hernumdu landi sínu hvað ýmis mál snerti, en á hinn bóginn var unnið að því í leyni á vegum hans að þróa fyrsta alveg nýja smábílinn, sem kom á markaðinn í Evrópu eftir stríð, nefnilega Renault 4CV, sem tók Frakkland með trompi 1946, tveimur árum á undan Citroen bragganum.
Nasistarnir komust aldrei að þessu laumuspili sem var unnið í þágu þeirrar frelsunar landsins, sem Frakkar þráðu þá.
Renault 4CV varð fyrsti franski bíllinn, sem var framleiddur í meira en milljón eintökum, en framleiðslu hans var hætt 1961.
Á grunni hans var metsölubíllinn Renault Dauphine byggður svo og einhverjir bestu rallbílar þessara ára, Renault Alpine.
Arftaki Renault 4CV, sem var með vatnskældri vél afturí, var Renault 4, sem var framhjóladrifinn og með sömu vatnskældu vél frammi í og Renault 4CV hafði haft.
Renault 4 var framleiddur fram til 1990 í alls rúmlega 8 milljónum eintaka og upp úr honum var soðinn Renault 5, sem varð vinsælasti bíll Frakklands á áttunda áratugnum.
Þessir smábílar voru í miklu uppáhaldi hjá mér á árunum 1979 til 1983 og einhverjar eftirminnilegustu minningar mínar eru tengdar þeim.
Aðeins þrjár bíltgerðir, Volkswagen bjallan (21 milljón), Fiat 124/Lada Nova/Tofas o.fl. (17 milljón) og Ford T (15 milljón) voru framleiddar í fleiri eintökum í nánast óbreyttri upphaflegri mynd.
Af þessum bílum var Lödunni minnst breytt og næst á eftir henni Renault 4.
Það er "viðurkenndur misskilningur" að Citroen 2CV bragginn hafi verið vinsælasti bíll Frakklands. Það var Renault 4.
En engu að síður er Citroen 2CV eitt af þjóðartáknum Frakka.
Fá ekki Renault í hendur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er ekki þetta bíllinn sem kallaður var Hagamús hér á Íslandi á síðustu öld?
Kjartan Sigurgeirsson, 12.1.2012 kl. 16:07
Nei, Magnús. Hagamúsin var Renault Juvaquatre, sem kom fram 1939 og var með gamalli hönnun, hliðarventlavél frammi í, drif að aftan í heilli hásingu.
Hún var 200 kílóum þyngri en 4CV, eyðslufrekari og slappari.
Ástæða þess að 4CV kom ekki til Íslands var sú að Frakkar fóru ekki að flytja hann út að ráði fyrr en 1948 en þá var búið að skrúfa fyrir innflutning til Íslands vegna gjaldeyrisskorts.
Renault umboðið hafði hins vegar flutt inn um 100 "Hagamýs" á skjön við innflutningsreglur, og ekki þótt framkvæmanlegt að flytja þær út aftur.
Það hefði sparað Íslendingum talsverða fjármuni ef 100 4CV hefðu verið fluttir inn.
4CV var nýtískulegasti smábíllinn 1946, nýtískulegri en Bjallan, þótt báðir bílarnir væru afturí, því að vélin í 4CV var vatnskæld og gormar á sjálfstæðri fjöðrun á öllum hjólum og auk þess lauflétt tannstangarstýri.
Á móti sparneytni og lipur 4CV kemur að Juvaquatre var sterkbyggður bíll og hentaði vel fyrir íslenska vegi.
Hann datt yfirleitt frekar upp fyrir vegna ryðs en bilana.
Ómar Ragnarsson, 14.1.2012 kl. 12:29
Takk Ómar, maður kemur ekki að tómum kofanum hjá þér með upplýsingar um farartæki frekar enn fyrri daginn.
Kjartan Sigurgeirsson, 17.1.2012 kl. 08:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.