13.1.2012 | 12:24
Skemmir ekki - í hófi, húðin og fleskið.
Oft hefur það verið sagt um okkur Íslendinga, að við séum lúðalegir. Þegar Nóbelsskáldið hafði kannað önnur lönd og verið með öðrum þjóðum sagði hann okkur til syndanna í þessum efnum, til dæmis í Alþýðubókinni.
Tók í gegn hrækingar Íslendinga og ljótar tennur, - sagði að á tímabili hefði enginn þingmaður verið vel tenntur í efri deild nema Sigurður Eggerz.
Stundum hefur maður það á tilfinningunni að sólarlandaferð teljist hafa verið til lítils ef menn koma ekki brúnir og sællegir heim, nánast eins og súkkulaði- eða kolamolar í framan.
Auk þess gæti fölt útlit eftir sólarlandaferð bent til þess að viðkomandi hafi stundað bari og bjórstofur meira en strendurnar, það er, ef hann er ekki þekktur fyrir algert bindindi.
Hvað mig snertir er húð mín ljós og viðkvæm og alls ekki sköpuð fyrir sterkt sólskin,- brennur þá bara og í besta falli sitja eftir nokkrar freknur.
Ég viðurkenni hins vegar að Kanaríeyjaferð gefur gott tækifæri til að huga að heilsu sinni og holdafari og ekki skaðar þótt útliti og fas skáni.
Þarf þá að huga að tvennu, húð og fleski, samanber þessa vísu, sem varð til í gær:
Dorma ég hér draumum í.
Drjúgum þynnist veskið
þótt frúin passi hopp og hí,
húðina og fleskið.
Pósan og brúnkan skipta öllu máli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta með tannheilsu Sigurðar Eggerz og annarra þingmanna ber reyndar ekki að taka bókstaflega. Þarna var Kiljan nefnilega að skensa háttvirta efri deild fyrir afgreiðslu á styrkumsókn frá honum. Eggerz var eini maðurinn í þeirri háttvirtu deild sem greiddi styrknum atkvæði en atkvæðagreiðslan var haldin örskömmu eftir að kvæði Halldórs, Únglíngurinn í skóginum, var prentað. Supu þá sumir hveljur.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 12:58
Já, það má ekki taka skáldin of bókstaflega !
Ómar Ragnarsson, 14.1.2012 kl. 12:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.