13.1.2012 | 12:43
Augun geta verið makalaus verkfæri.
Ég tók þátt í nokkrum leitum að mönnum hér á árum áður og var og er í björgunarsveit Ingólfs. Í henni voru þrír flokkar, landflokkur, sjóflokkur og flugflokkur og var ég eini maðurinn í flugflokknum.
Eitt sinn tókst mér að finna týndan mann við Bláfjöll og það réttlætti það að vera í þessu starfi, þótt ekki hefði þurft til í mínum huga.
Ég fékk eitt sinn lánaðan nætursjónauka og leitaði á svæðinu frá Mosfellsheiði suður fyrir Sandskeið. Í fyrstu var ég himinlifandi með hann, en gallinn var þó sjá að afar kornótt mynd myndaðist í glerjunum, svona eins og þegar það er "snjór" á myndinni á sjónvarpsskjánum vegna lélegrar útsendingar.
Ég vissi frá því í barnæsku að ég hef afar næma nætursjón en þoli illa mikla birtu. Prófaði að slökkva öll ljós í vélinni og hafði aðeins siglingaljósin logandi, en þau eru á vængendunum.
Smám saman fór sjónin að venjast myrkrinu og vegna þess að jörð var hvit kom í ljós að siglingaljósin lýstu hjarnið ef ég flaug nógu lágt svo að ég sá að lokum landið fyrir neðan betur en í nætursjónaukanum !
Þetta hefði ekki verið mögulegt nema að landið undir væri tiltölulega slétt og að ég þekkti það vel, auk þess að ég varð fljúga vélinni eftir tilfinningu en ekki mælum, sem ég sá ekki.
Það er ekki hægt nema að hafa mikla reynslu af flugi á viðkomandi vél.
Vel stillt flugvél flýgur að mestu í jafnvægi en og því hægt að láta hana fljúga að miklu leyti sjálfa ef svo ber undir.
Öðru máli gegnir um þyrlur, því að þeim verður að "fljúga" og stjórna stanslaust. Þess vegna ráðlegg ég ekki flugmönnum Gæslunnar að reyna að leita í myrkri á án nætursjónauka og vona svo sannarlega að þeir fái hann sem fyrst, - það er ekki bjóðandi að jafn dýrt og mikilvægt tæki og björgunarþyrla sé gagnslaus í myrkri vegna skorts á ekki dýrari búnaði en nætursjónauki er, miðað við verð þyrlunnar.
Flýgur ekki með sjónauka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sjónaukarnir eru ekki fastir í þyrlunum, þeir eru á hjálmunum hjá flugmönnunum. Ég hef grun um að það séu einhver ljós í stjórnklefanum sem myndu trufla þá og ekki taki því að leggja í kostnað við breytingar fyrir svona skamman tíma.
Karl J. (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 19:14
Líklega rétt til getið, Karl. Nætursjón mín byggðist á þeirri forsendu að stjórnklefinn væri almyrkvaður.
Ómar Ragnarsson, 14.1.2012 kl. 12:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.