Byggja, byggja, alls staðar !

Glöggur erlendur maður kom til Íslands 2007 og taldi byggingarkranana. Niðurstaða hans var þessi: Hér á allt eftir að fara á hausinn, þetta gengur ekki upp, frekar en í öðrum löndum þar sem kranarnir urðu alltof margir miðað við stærð þjóðfélagsins. 

Fyrir þessi ummæli var hann hæddur sem "öfundarmaður" og "úrtölumaður" og öðrum svipuðum erlendum kunnáttumönnum var ráðlagt að fara í endurhæfingu í fjármálum. 

Ég dirfðist að bera brigður stefnuna, sem rekin var, í bókinni "Kárahjúkar - með og á móti" og fékk bágt fyrir. 

Herinn fór 2006. Spá "úrtölumannanna" rættist og hér varð mesta bankahrun allra tíma og tilsvarandi efnahagshrun. 

Samt eru hér menn sem vilja ekki viðurkenna þetta.  Þeir bera allar núverandi tölur um stöðu þjóðarbúsins við 2007, telja óeðlilegt að ekki sé allt komið upp í sama topp nú og var áriði 2007 og kenna öllum öðrum um en þeim sem stýrðu þjóðarbúinu í þrot með þessari stefnu ótakmarkaðrar og endalausrar þenslu. 

Einn af þeim sveif á mig um daginn og hreytti úr sér: "Þú ert óþurftarmaður, einn af þeim sem vilt að við lepjum dauðanna úr skel! Þú berst á móti því sem ég berst fyrir en það er að byggja og byggja og byggja byggingar og mannvirki um allt Ísland, - fylla landið af byggingum og mannvirkjum! Reynslan sýnir að okkur hefur liðið best þegar sú stefna er stunduð og þetta er eina ráðið við kreppunni."

Ég spurði hann hvers vegna ráðið fælist í slíku byggingaæði þegar hundruð og jafnvel þúsundir bygginga stæðu auðar og ónotaðar, og flestar þar sem þenslan var mest. 

"Það var ekki út af því sem Hrunið varð" sagði hann. "Það var vegna þess að óreiðumenn í bankakerfinu settu allt á hausinn." 

Ég benti honum á að þessir svokölluðu "óreiðumenn" hefðu fjármagnað mikið af þessum byggingum og að meðal annars hefðu 40% af fénu, sem fór í að byggja Hörpuna, komið frá auðtrúa erlendum lífeyrisþegum, sveitarstjórnum og félögum í gegnum Icesave. 

"Það á samt að byggja,! sagði hann. "Það skapar atvinnu og tekjur en þú ert á móti atvinnuuppbyggingu og á móti framförum!" 

"Fyrir hvaða peninga á að byggja svona mikið?" spurði ég og það stóð ekki á svarinu: 

"Það eru einmitt byggingarnar sem skapa peningana og tekjurnar. Þess á að byggja um allt land, líka á hálendinu! Þá skapast fjármagnið til að byggja ennþá meira"!

 


mbl.is Eitt elsta verktakafyrirtækið í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Leyfum þeim að byggja Babel turn, t.d. á Suðurnesjum, en á eigin kostnað.  

Eða kannski aðra Sandeyjarhöfn.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 16:12

2 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Já ég var líka á ferð með útlenskum gestum fyrir 6 árum síðan sem störðu í forundran á alla byggingakranana og spurðu hvar fólkið væri sem ætti að búa í þessum húsum.

Því gat ég ekki svarað.

Jón Bragi Sigurðsson, 14.1.2012 kl. 08:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband