17.1.2012 | 22:02
Fer eftir því hvaða forsendur eru gefnar.
Það er hægt að deila um það fram og aftur hvort Leifsstöð eigi það skilið að vera útnefnd næstbesta flugstöð í heimi. Það fer eftir forsendunum sem gefnar eru fyrir því vali.
Eitt af því sem hælt er í mati frommers.com er það að útsýni sé tiltölulega gott úr flugstöðinni. Það er útaf fyrir sig kostur, en Íslendingum finnst líklega nokkuð ofmælt þegar í matinu er talað um "stórbrotið landslag" sem blasi við úr henni, því að á fáum stöðum á Íslandi er landslag flatara og fjarlægara en á Miðnesheiði.
Alveg vantar rafknúna göngubraut í ranann í Leifsstöð, sem myndi vera til mikilla þæginda og er talin sjálfsagður búnaður í stórum flugstöðvum.
Dómendur frommers.com virðast hins vegar taka tillit til þess að umferðin um flugvöllinn og umfang hennar er miklu minna en í flestum stóru flugstöðvunum, sem teknir eru til samanburðar, og skortur svona göngubrautar því ekki eins tilfinnanlegur og í þeim, það er að segja fyrir fullfískt og ófatlað fólk.
Sum atriði, sem virðast ekki stórvægileg, hafa þýðingu. Ég var að koma frá flugvellinum á Gran Canaria og þar eru klósettin alveg úti í öðrum enda flugstöðvarinnar, eins langt frá allri starfsemi stöðvarinnar og unnt er að þvæla þeim.
Í þessari flugstöð þarf iðulega að fara í strætisvögnum, sem er mikið og furðulegt óhagræði. Að vísu ekki sömu hrakviðrin og oft eru á Miðnesheiði. Engar rafknúnar göngubrautir eru í flugstöðinni.
Leifsstöð næstbesta flugstöð í heimi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eitt finnst mér eftirtektarvert við KEF og um leið jákvætt, hvað farangur er kominn fljótt á bandið. Þar eru greinilega menn eða unglingar, sem kunna að láta hendur standa fram úr ermum. Einnig mætti minnast á Flybus, sem bíður upp á mjög góða þjónustu.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.1.2012 kl. 22:41
Dálítið skemmtilegt að "Flugnarúta" skuli geta tekið líka fólk.
Ómar Ragnarsson, 17.1.2012 kl. 22:53
Ok, Flybus - Airbus. Aldrei hugsað út í þetta.
En yrði það ekki nokkuð dýrt að taka Airbus til Reykjavíkur?
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.1.2012 kl. 23:12
Þú hefur farið villu vegar, það eru mjög góðar snyrtingar í miðri flugstöðinni en þú þarft að fara upp um eina hæð,annað hvort með lyftu eða stiga.Það gengur betur næst.
Rögnvaldur B.Ólafsson (IP-tala skráð) 18.1.2012 kl. 00:39
Ég geri einfaldlega sömu kröfu til allra hæðanna, og á brottfararhæðinni er salernið alveg úti í enda.
Ómar Ragnarsson, 18.1.2012 kl. 18:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.