18.1.2012 | 00:14
Sentimetrarnir sem skila svo miklu.
Boeing 707 var fyrsta farþegaþotan sem heppnaðist, Comet fataðist flugið þótt hún flygi fyrr.
Þetta voru þotur sem voru hannaðar fyrir meira en 60 árum þegar fólk var lægra og mjórra en nú er.
Síðan fylgdu Boeing 727, 737 og 757, sem allar sátu uppi með sama mjóa skrokkinn.
En síðan hafa kröfur um þægindi aukist eftir því sem samkeppnin hefur orðið meiri og flug algengara.
Þegar þotur Airbus voru hannaðar, tveimur áratugum á eftir Boeing þotunum, hlaut dagskipunin að vera sú að reyna á sem flestum sviðum að bjóða betur en stóri Boeing-risinn.
Aðaltrompið skyldi vera að bjóða "breiðþotur", þotur með breiðari skrokka. Hvers vegna?
Vegna þess að þegar allt er tekið saman er eitt atriði, sem ræður mestu um þægindin: Það er breidd sætanna, sem aftur ákvarðast af breidd flugvélarskrokksins.
Airbusþoturnar voru því frá upphafi hannaðar með aðeins breiðari skrokk en samsvarandi stærð af Boeing.
Ekki aðeins vegna þess að það hjálpaði til við samanburð heldur líka vegna þess að fólk fór stækkandi og breikkandi með aukinni velmegun.
Þetta munar ekki nema nokkrum sentimetrum á hvert sæti, en eftir meira en hálfrar aldar rannsóknir mínar á sætum bifreiða og flugvéla get ég fullyrt, að aðeins 3-5 sentimetrar á sæti geta skipt sköpum um það hvort þér finnst þú sitja þröngt eða ekki.
Þetta á sérstaklega við um þriggja manna aftursæti fólksbíla.
Þar skiptir sköpum hvort hver um sig hafi 43 sentimetra til umráða, en það er talin lágmarksbreidd, eða til dæmis 46 sentimetra, hvort bíllinn er til dæmis VW Golf eða VW Passat.
Eða munurinn á því hér í gamla daga að þrír sætu í aftursæti VW Bjöllu eða þrír í aftursæti Benz eða Simca leigubíls.
Flugfélögin sjálf geta ákveðið hvort þau hafa sætisraðirnar færri og meira fótarými fyrir hverja sætisröð, en þau sitja hins vegar uppi með breidd skrokksins í yfirgnæfandi hluta flugvélaflotans og geta ekki aukið millimetra við þægindin á breiddina ef þrjú sæti eru hvorum megin við ganginn, hversu mikið sem þau vildu.
Þess vegna var það svo, þegar Flugleiðir keyptu fyrstu langfleygu Boeing 757 þoturnar á sínum tíma að það var eina áætlunarflugfélagið sem keypti í fyrstu svo mjóar vélar til flugs á langleiðum.
Hin flugfélögin sem keyptu fyrstu langfleygu 757 vélarnar, voru leiguflugfélög, sem bjóða til dæmis pakkaferðir.
Ég var einmitt að koma til landsins í dag í þotu í eigu slíks flugfélags, hins tékkneska leiguflugfélags Smart Travel.
Það notar lengstu gerð af Boeing 737, 737-800.
737 kom á markað 1967 og er vinsælasta farþegaþota heims, meira en 7000 framleidd eintök og meira en 2000 í pöntun.
Vinsældirnar eru vegna hagkvæmni á stuttum leiðum og meðallöngum leiðum þar sem umferðin er mest og flestar þoturnar.
Með bættum og aflmeiri hreyflum hefur verið hægt að tvöfalda farþegafjöldann, sem hver 737 vél tekur, allt upp í 189 þarþega.
En hún er með sama mjóa skrokknum og 707, 720 og 727 voru með.
Þegar flogið er á langleið í hátt í sex klukkustundir í einni lotu í fullhlaðinni slíkri vél er engin leið að víkja í burtu tilfinningunni um þrengsli í "pakkaðri vél."
Á móti kemur að fyrir bragðið er hægt að bjóða ódýrari ferðir og / eða meiri hagkvæmni fyrir rekstraraðilann.
Ef Iceland Express auglýsir meira rými í sínum vélum er það rétt ef aðeins er litið á skrokkbreiddina, því að meiri skrokkbreidd skilar sér í meiri sætisbreidd, sem keppinauturinn getur ekki keppt við með sex farþega í hverri sætaröð.
Hins vegar getur rekstraraðili á borð við Express "pakkað" fólki saman á lengdina með því að skera fótarými við nögl.
Það skilst mér að Express geri að hluta til og bjóði upp á mismunandi fótarými í tengslum við mismunandi fargjöld, - meira rými, dýrara fargjald.
Auglýsingar félagsins um "meira rými" geta því orka því tvímælis hvað heildarrými á hvern farþega snertir.
En keppinauturinn, Icelandair, býður líka upp á mismunandi rými á mismunandi verði, því að á Saga Class eykst sætisbreidd á hvern farþega við það að fækka sætum í hverri röð úr 6 í 4 og einnig með því að auka við fótarými.
Smám saman eru þessir "litlu" sentimetrar í skrokkbreidd Airbusvélanna að skila sér, svo að nú eru verksmiðjurnar komnar fram úr Boeing í kapphlaupinu um kúnnana.
Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.
Fyrir Airbus munar miklu um þoturnar á stuttum og meðallöngum vegalengdum, sem Boeing vinnur greinilega ekki upp hvað fjöldann snertir með því að bjóða rýmri vélar á lengri leiðum, svo sem 767, 777, 787 og 747.
Framsýnin hjá Airbus þegar ákvörðunin um breiðari flugvélarskrokka var tekin í upphafi hefur borið ávöxt.
Airbus flýgur fram úr Boeing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góð grein hjá þér Ómar eins og alltaf, hafðu þökk fyrir það. Eitt hafur þó Boeing frmayfir Airbus, þótt Ameriskt sé, að Boeing flugvélar ná á leiðarenda, Hrapa ekki í hafið á miðri leið eða í flugtaki.
Björn Emilsson, 18.1.2012 kl. 04:43
Voru Iceland Express ekki með Douglasa(MD) með ansi þægilegum sætum? Flaug allavega með einni slíkri á Frankfurt-Hahn einu sinni, en kem því ekki fyrir mig hvort að sætin voru 3-2, eða hvort að "rörið" var einfaldlega breiðara.
Og Björn, - þetta fer eftir flugmönnunum, - hrapið í Atlantshafið skrifast á flugmennina. Mig minnir reyndar að Airbus hafi vinninginn í öryggi fram yfir boíng, en betra er að hafa teskeið af salti með því. Boeing er alla vega ekki laus við bilanir og hröp.
Jón Logi (IP-tala skráð) 18.1.2012 kl. 08:57
Það er rangt og stenst ekki tölulegar staðreyndir að Airbus þotur séu óöruggari en Boeing.
Slysið á Suður-Atlantshafi var vegna mistaka flugmanna og ef þú skoðar, Björn, blogggrein mína um það slys, nefni ég skylt slys sem varð á Boeingvél í Bandaríkjunum.
Báðar tegundir hafa "hrapað í hafið á miðri leið" eða "í flugtaki".
Ómar Ragnarsson, 18.1.2012 kl. 13:41
Takk fyrir fróðlega grein. Ég finn þá færslu ekki sem þú talar um hér í athugasemd #3. Gætir þú hent inn tengli á hana?
Einar (IP-tala skráð) 18.1.2012 kl. 15:00
Ef þú ferð inn í reitinn "leitarorð" vinstra megin á síðunni og setur þar inn "Íslensk skaðabótakrafa á Air France og Airbus áttu að geta fengið upp bloggpistil um flugslysið á Suður-Atlantshafi 13. nóvember 2011.
Ómar Ragnarsson, 18.1.2012 kl. 18:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.