18.1.2012 | 14:17
Af hverju Bíldudalsflugvöllur ?
Það er ekki einsdæmi að Bíldudalsflugvöllur sé opinn til flugs þegar aðrir flugvellir eru lokaðir ein og verið hefur í dag. Það gerist nefnilega undra oft að völlurinn sé opinn þótt allir aðrir flugvellir á norðanverðu landinu séu lokaðir.
Í dag er þetta vegna þess að veður er skaplegt á sunnanverðum Vestfjörðum en slæmt í öðrum landshlutum, en oft er völlurinn opinn eins og áður sagði, þegar mikil norðanáhlaup loka öðrum flugvöllum á Vestfjörðum, Norðurlandi og á Austurlandi.
Það er vegna þess að fjallendi Vestfjarða hlífir oft Vesturbyggð við snjókomu þannig að veður þar er svipað og í Reykjavík.
Upphaflega var flogið litlum flugvélum um lítinn túnvöll á bænum Hóli rétt fyrir innan Bíldudalsþorp og var það varasamur og erfiður völlur, brautin stutt og þung og ekki lárétt.
Helgi Jónsson var uppalinn á Bíldudal og gerðist flugmaður.
Hann þekkti til aðstæðna á svonefndu Hvassnesi við Fossfjörð, aðeins sjö kílómetra frá Bíldudal, og taldi þar vera möguleika til að gera furðu góðan flugvöll.
Nafnið eitt, Hvassnes, var fráfælandi, en gæti alveg eins hafa átt við lögun hins örmjóa ness eins og vinda þar. Helgi vissi að Fossfjörður, þótt þröngur sé og umlukinn fjöllum, hefur bestu mögulega stefnu miðað við hvassar norðlægar og suðlægar áttir, - nokkuð sem aðeins þverbrautin stutta á Patreksfjarðarflugvelli sáluga hefur, en möguleikar þeirrar brautar voru aldrei nýttir og búið að leggja þennan stóra flugvöll niður!
Farið var að ráðum Helga og gerð braut á Hvassnesi, og þegar kostir flugvallarstæðisins komu í ljós var sú hárétta ákvörðun tekin að lengja hana eftir föngum.
Engan, nema kannski Helga heitnum, hefði grunað í upphafi að Bíldudalsflugvöllur ætti eftir að drepa sjálfan hinn stóra Patreksfjarðarflugvöll af sér.
En sorgarsaga þess flugvallar og endir hennar er efni í sérstakan pistil um þá möguleika til almennilegs flugs til Vestfjarða felast í flugvallarstæðum í Vesturbyggð.
Veður hamlar flugi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.