19.1.2012 | 20:41
"Hruneinkennið" : "Látum sem ekkert C".
Mannkynið verður víst aldrei það þroskað að "Hrunheilkennið" sem ég vil kalla svo, - eða "Látum sem ekkert C" komi ekki fram aftur og aftur.
Allra síðasta dæmið er það hvernig yfirmenn Costa Concordia héldu því leyndu fyrir ítölsku strandgæslunni, heilum 40 mínútum eftir strand skipsins, hvað væri að gerast, auk þess sem þeir leyndu því fyrir farþegum þangað til að ekki var hægt að þræta fyrir það hvernig komið væri.
Þetta tafði björgunaraðgerðir og kostaði áreiðanlega mannslíf.
Ég kýs að kalla þetta "Hrunheilkennið" og kenna það við hið heimsfræga íslenska Hrun með stórum staf, vegna þess að allt frá árslokum 2006, þegar ljóst var að bankakerfið myndi hrynja ef ekkert yrði að gert, var því leynt skipulega hvað væri á seyði og því ákafar sem nær dró ósköpunum. .
Í fyrstu gekk þetta vel vegna þess að upplýsingar lágu ekki á lausu um það hvað var í raun að gerast í íslenska fjármálaheiminum, og á stórum auglýsingaskiltum Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 2007 var til dæmis slagorðinu "traust efnahagsstjórn" slegið upp sem aðalatriði vel heppnaðrar stjórnarstefnu með stórri mynd af forystumönnum flokksins.
Hinn stjórnarflokkurinn var líka með aðeins eitt slagorð, sem ég man því miður ekki nákvæmlega hvert var, en fól í sér að hvika ekki frá því að halda áfram á sömu braut.
Þá þegar höfðu nokkrir glöggir menn bent á í hvaða ögöngur væri stefnt, en þeir voru afgreiddir sem "öfundarmenn" og "úrtölumenn."
Þegar óhjákvæmileg ytri einkenni ástandsins fóru að birtast í ársbyrjun 2008 lögðust eigendur fjármálafyrirtækjanna og stjórnvöld á eitt um að fegra ástandið sem allra mest og gerðu það bæði á erlendum og innlendum vettvangi.
Ekki þarf að rekja þá sögu: Því verr sem seig á ógæfuhlið, því ákveðnari varð söngurinn um að allt væri í stakasta lagi, vorið 2008 sagði fjármálaráðherran á þingi við þingmenn: "Sjáið þið ekki veisluna, drengir?!"
Seðlabankastjóri upplýsti að íslensku bankarnir stæðust álagspróf með prýði og ráðherra Sjálfstæðisflokksins ráðlagði erlendum sérfræðingi að fara í endurhæfingu síðsumars, aðeins tveimur mánuðum fyrir Hrun.
Nokkrum vikum fyrir Hrun kom fram í fréttaskýringaþættinum Speglinum að skuldir bankanna og bankakerfið sjálft væri fimmfalt hærri en þjóðarframleiðslan á ári, og það var ekki einu sinni sagt frá því í fréttunum !
Fram að því höfðu fjölmiðlar algerlega fallið á prófinu varðandi höfuðskyldu sína um að kryfja málin til mergjar og veita nauðsynlegar upplýsingar og þetta var í fyrsta sinn sem þjóðin fékk að vita um þessa höfuðstaðreynd.
Auk þess meginatriðis Hrunheilkennisins að fela eins lengi og unnt er hið raunverulega ástand bættist við annað atriði, sem stundum vegur þungt, en það er að gefa þeim, sem vilja hagnast á hruninu / óförunum ekki færi á að gera það.
"Rugga ekki bátnum".
Í hættunni á hruni bankanna réði óttinn við það að þeir sem vildu hugsanlega fella þá með áhlaupi fengju ekki að vita af því að þeir gætu það, - afar hæpin von, því að auðvitað vissu innstu koppar í búri vel um þetta eins og síðar hefur komið í ljós með því að skoða ráðstafanir þeirra til að bjarga sjálfum sér með öllum hugsanlegum ráðum.
Í Costa Concordia slysinu og Titanic-slysinu kemur Hrunheilkennið ljóslega fram á nákvæmlega sama hátt: "Við látum sem ekkert C" eins og þeir Halli og Laddi orðuðu það á einni breiðskífu sinni.
Svo lengi sem sögur ná aftur hefur Hrunheilkennið einkennt ófarir og slys, hrun mannvirkja, fyrirtækja og heilu þjóðfélaganna auk ótal slysa á sjó, landi og í lofti.
Og aldrei virðist maðurinn læra neitt, ekki heldur við Íslendingar, sem höfum svo lengi lifað á hugsunarhættinum "þetta reddast einhvern veginn" og "það kemur ekkert fyrir mig."
Leitað á ný í skipsflaki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Flott, Ómar.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.1.2012 kl. 21:24
En hvað er verið að gera almúganum NÚNA?Afskriftir skulda heimilanna eru eins og nýju fötin keisarans og púkinn á fjósbitanum sýgur almúgann. 150 ma. kr af skuldaklafa heimila hafa verið sýndarleiðréttar. Á meðan fá 7 fjárfestingar- og eignarhaldsfélög sem skulduðu samtals 309 milljarða, 70% skulda sinna gefnar eftir! Ef ekki verður strax gripið til raunhæfra aðgerða hrynur hagkerfið endanlega til grunna -innan frá! Þitt fólk?
Almenningur (IP-tala skráð) 19.1.2012 kl. 21:36
Smursuða. Endalaust bull.
K.H.S., 19.1.2012 kl. 22:03
Sjálfstæðisflokkurinn - TRAUST efnahagsstjórn, stærsta velferðarmálið!
Framsóknarflokkurinn - ÁRANGUR ÁFRAM, ekkert stopp!
Þorsteinn Briem, 20.1.2012 kl. 02:16
"Samkvæmt OECD er beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna bankahrunsins 2008 sá mesti sem nokkurt ríki tók á sig í bankahruninu, að írska ríkinu undanskildu.
Stofnunin segir að þyngsta höggið hafi átt sér stað nokkuð fyrir hrun þegar Seðlabanki Íslands lánaði gömlu bönkunum gegn veði af vafasömum gæðum, ástarbréfin svokölluðu, sem aðallega voru kröfur á aðra íslenska banka."
Ástarbréf Seðlabanka Íslands voru þyngsta höggið í hruninu
Þorsteinn Briem, 20.1.2012 kl. 02:24
Örnólfur Árnason: "Ég helt að erlendir bankar hefðu tapað 7-8 þúsund milljörðum á íslenska bankahruninu."
Þorvaldur Gylfason: "Rétt hjá Örnólfi. Útlendingar töpuðu fimmfaldri landsframleiðslu, Íslendingar töpuðu tvöfaldri landsframleiðslu.
Skellurinn í heild var sem sagt sjöföld landsframleiðsla, sem er heimsmet."
Þorsteinn Briem, 20.1.2012 kl. 02:30
Maður óttast að ekki séu öll kurl komin til grafar varðandi útgjöld íslenska ríkissjóðsins varðandi þetta allt. Enn er óljóst hvernig IceSave málið lendir og allar líkur benda til þess að við töpum málaferlunum fyrir EFTA-dómstólnum. ESA hefur hingað til ekki tapað þeim málum, sem stofnunin fer af stað með. Það segir meira en löng ræða. Enda er algjörlega ljóst að þjóðaratkvæðagreiðslur á þessu skeri hafa ekkert með það að gera hvernig alþjóðlegir dómstólar starfa né á alþjóðalög almennt. Yfirgnæfandi líkur eru á að íslenska ríkinu verði gert að sjá til þess að jafnræði verði með innstæðueigendum hvað varðar bætur á innstæðum í hruninu, í hvaða landi sem innstæðueigendur eru. Það þýðir m.a. að innkalla þarf allar innstæður íslendinga umfram 20.887 EUR eins og þær voru í októberbyrjun 2008.
Quinteiras (IP-tala skráð) 20.1.2012 kl. 05:34
Þrennt í þessu Quinteras.
1: ESA hefur tapað.
2: Bretar og Hollendingar voru mjög feimnir við opin mál af þessu tagi í upphafi
3: Þjóðarábyrgð á einkaskuldir fyrirtækja er bönnuð innan regluverks ESB.
Jón Logi (IP-tala skráð) 20.1.2012 kl. 12:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.