21.1.2012 | 12:06
Skýr rök með Reykjavíkurflugvelli.
Ég hef í bloggpistlum mínum sett fram þá skoðun mína að í stórum hagsmunamálum landsmanna allra og varðandi náttúruverðmæti á heimsmælikvarða verði skipulagsvald einstakra sveitarfélaga að víkja.
Á sama hátt og ég tel að lega hringvegarins um Húnaþing sé ekki mál Blönduósinga einna tel ég að staðsetning Reykjavíkurflugvallar varði alla landsmenn sem heild.
Rökin fyrir því að hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er nú eru skýr:
1. Með innanlandsflug í Keflavík lengist ferðaleið þess sem fer flugleiðis fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur um 162 kílómetra.
2. Flugvöllurinn tekur álíka mikið land og Reykjavíkurhöfn, 7% af svæðinu vestan Elliðaáa. Engum dettur í hug að færa sjóflutninga til Suðurnesja til að byggja íbúðabyggð í staðinn.
3. Innandsflug um Keflavíkurflugvöll verður verr staðsett en þekkt er í nokkru öðru landi, úti á útskaga landins, öfugu megin við stystu flugleiðirnar. Meðalfjarlægð frá miðju borga í heiminum til innanlandsflugvalla er 7 kílómetrar.
4. Stærstu krossgötur landsins sem draga að sér miðju verslun og þjónustu eru á svæðinu Smári-Mjódd-Ártúnshöfði og engin leið er að færa þessa miðju út á Seltjarnarnes þar sem hún var fyrr á árum.
5. Meðan flugvöllurinn er í Reykjavík njóta þeir landsmenn sem þurfa innan við 45 mínútur til að fara inn að borgarmiðju þess að vera í skilgreindu "virku borgarsamfélagi", þ.á.m. Akureyringar.
6. Fráleitt er að núverandi staðsetning hafi komið í veg fyrir að allt þéttbýlið væri fyrir vestan Elliðaár. 130 þúsund manns eiga nú heima austan, norðan og sunnan við Elliðaár og allt það fólk gæti aldrei hrúgast í Vatnsmýrina.
7. Höfuðborgarsvæðið mætti að sönnu vera með þéttari byggð, en sérstök norræn skýrsla sýnir að Reykjavík er álíka dreifbyggð og svipaðar borgir á Norðurlöndum.
8. Fráleitt er að íbúðabyggð á núverandi flugvallarsvæði muni minnka umferð og fækka slysum á höfuðborgarsvæðinu um 40%. Það myndi þýða að bygging íbúðabyggðar á hafnarsvæðinu myndi gera það sama og stækka töluna upp í 80% og með því að bæta við byggingu íbúðabyggðar á Miklubraut myndi slysum verða útrýmt!
9. Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna, ekki bara okkar Reykvíkinga. Meirihluti borgarbúa vill þar að auki hafa völlinn þar sem hann er.
Frumvarp um flugvöll til framtíðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Algjörlega sammála þér í þessu Ómar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.1.2012 kl. 12:42
Gott Ómar!
Sigurbjörn Sveinsson, 21.1.2012 kl. 13:57
Vanti Reykjavíkurborg land við 101 er auðvelt að fylla upp út í sjó við Ánanaust. Það yrði mun arðbærari framkvæmd en að eyðileggja eitt stykki flugvöll með ýmsum mannvirkjum og atvinnusvæði hundruða eða þúsunda einstaklinga.
Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 21.1.2012 kl. 14:00
Það mætti stórgræða á þvíað selja landið sem fer undir aðaljárnbrautarstöðina og lestersporin í Köben sem byggingarlóðir.
Það stendur þó ekki til þar sem samgöngur eru lífæð samfélaga.
Þetta skilja Danir.
Reykjavíkurflugvöllur er vel staðsettur þar sem hann er, þe í útjaðri Höfuðborgarsvæðisins, nálægt stjórnsýslunni og við bestu mögulegu veðurfarsaðstæður.
Tóm hamingja.
Ég hef bæði verið búsettur í Reykjavík og úti á landi. Skilgreini mig hvorki sem höfuðborgarbúa eða landsbyggðarmann. Smæsti flokkurinn sem ég get flokkað mig í er að vera Íslendingur. Sem slíkur á ég þó engann fulltrúa á alþingi þar sem þingmenn eru gerðir út af hverju landshorni fyrir sig. Hvernig er hægt að reikna með því að heildarhagsmunir ráði för í núverandi kerfi?
Helvíti hart að eiga sér engann umboðsmann á þingi!
Fjöldi sveitarfélaga á Íslandi mætti vera sambærilegur við fjölda núverandi kjördæma. Sveitarfélag er samtök fólks en ekki ferkílómetra og ekkert þeirra yrði í raun stærra en gamli sveitahreppurinn sem markaðist af því að komast mætti enda á milli á góðum degi.
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 21.1.2012 kl. 14:00
Þetta er ótrúlegur málflutningur Ómar.
Fyrir það fyrsta eru fleiri valkostir en Keflavík. Keflavík er í álíka akstursfæri og þeir flugvellir sem ég þekki best eru frá nálægum þéttbýliskjörnum. Ég hef ekki komið á þann flugvöll sem er jafn nærri og þú ert að tala um sem meðaltal, nema á Akureyri og í Reykjavík. Ekki gleyma því að flug er þjónusta við byggð en ekki öfugt.
Reykjavíkurflugvöllur tekur helming þversniðs Reykjavíkur sem er byggt á nesi. Reykjavíkurhöfn var flutt vagna þess að slíkir vöruflutningar voru óviðeigandi í miðbænum. Það var byggt nýtt land út í sjó undir höfn, fyrir utan miðbæinn. Það nær langleiðina út í Viðey.
Verðmætimiðborgarsvæðis er allt of mikið í mörgu tilliti til að hægt sé að réttlæta flugsamgöngur í nokkur hundruð metra fjarlægð frá stjórnkerfi landsins og með aðflug yfir Alþingishúsið og Ráðhúsið í Reykjavík.
Það er ekki heil brú í rökum þínum Ómar.
Skúli Guðbjarnarson, 21.1.2012 kl. 14:13
Ég er algjörlega sammála þér Ómar.
Þetta er mjög góð framsetning hjá þér og allt staðreyndir sem skipta máli.
Þetta er nefnilega ekki einkamál einhverra Reykvíkinga.
Stefán Stefánsson, 21.1.2012 kl. 14:31
Það er ekki til nema ein lausn á þessu, hún er sú að lengja austur vestur brautina, um kílómeter út í Skerjafjörð.
Halldór Björn (IP-tala skráð) 21.1.2012 kl. 14:41
Þröstur Kolbeins (IP-tala skráð) 21.1.2012 kl. 14:44
Góður pistill Ómar.
Ein smá athugasemd, núna er verið að rífast yfir nýjum spítala :) er ekki líka spurning um hvort spítalinn eigi að fara með flugvellinum til Keflavíkur. Þau rök sem yfirleitt heyrast frá andstæðingum flugvallarins er að það sé svo stutt að keyra sjúklinga frá Keflavík til Reykjavíkur, eiga nefnilega við í báðar áttir, það er ekkert lengra að keyra sjúklinga til Keflavíkur frá Reykjavík, og sjúkraflug myndi lenda rétt við spítalann.
Larus Sigurðsson (IP-tala skráð) 21.1.2012 kl. 15:11
Þessi flugvallarumræða er kominn í öngstræti og því er það eina sem hægt er að gera í stöðunni það sem þessir þingmenn leggja til, að meiri hagsmunir víkji fyrir minni.
Ég tel nú reyndar að ýmislegt þurfi að breytast ef flugvöllurinn verði færður, t.d. til KEF. Rök stjórnsýslunnar um að henni sé allri þjappað á sama stað, verða ómark. Kannski er öfugmælið í þessu öllu það að ef flugvöllurinn verði færður til KEF þá myndi loksins vera hægt að færa rök fyrir því að færa stjórnsýsluna út á land.
Myndi Reykjavík hagnast á því?
Sindri Karl Sigurðsson, 21.1.2012 kl. 16:16
Sammála Ómari með flugvöllin! en sýnist að þeir sem vilja flugvöllin burt muni hafa þann ásetning sinn í gegn með fagurgala um betri miðbæ, sem er svolítið sorglegt þar sem þessum sömu aðilum hefur ekki tekist að gera miðbæinn boðlegan venjulegu fjölskyldufólki, heldur lagt metnað sinn í að gera hann að einum alsherjar djammstað. Og svo stendur til að byggja 100.000.000.000 miljarða kenslustofu fyrir háskólann, og þessi flutningur á flugvellinum til Keflavíkur mun kosta manslíf í skertri þjónustu við landsbygðina. En engin ber ábyrgð á því, það er ekki til siðs á Íslandi.
Benedikt Jónsson (IP-tala skráð) 21.1.2012 kl. 16:32
Ég hef sagt það áður og segi það enn, eina tilfellið sem ég get samþykkt að flugvöllurinn verði fluttur til Keflavíkur er sá að Keflavík verði gerð að höfuðborg landsins, og þangað flytjist þá allar opinberar stofnanir og alþingi það með. Þá getum við á landsbyggðinni gleymt Reykjavík, nema skreppa þangað til að heimsækja ættingja.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.1.2012 kl. 16:50
Skúli, -Höfuðborgarsvæðið er verulega mikið stærra en miðborgin á Seltjarnarnesinu og þó að vallarsvæðið nái inn á mitt nesið þá er það hverfandi hluti af öllu Höfuðborgarsvæðinu, -og frábærlega staðsett á þessu innnesi í útjaðri byggðarinnar.
Rök þín um höfnina eru firra, Það voru fyrst og fremst kröfur um stóraukið athafnasvæði skipafélaganna og aðkoma fyrir stærri skip sem ollu því að gamla höfnin svaraði ekki lengur kalli tímans. Umferðarmálinn náðu því aldrei að verða flöskuháls á rekstur gömlu hafnarinnar.
Ég legg til að þú skoðir loftmynd af Reykjavík!
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 21.1.2012 kl. 19:00
Skúli Guðbjarnarson bullustertur hefur þú ekki ferðast um landið ?? Flugvellir við þéttbíli eru um alt land t.d. Ísafyrði, Blöndósi, Sauðárkróki, Akureyri, Mývatni, Eygilstöðum, Höfn, Vestmaneyjum, Selfossi, Hellu, Keflavík, og Reykjavík
Jónas Hallgrímsson (IP-tala skráð) 21.1.2012 kl. 21:52
Halló, Jónas. Þú gleymdir Húsavíkurflugvelli!
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 21.1.2012 kl. 22:53
Það er glórulaus della þetta með að rífa flugvöllinn fyrir gisið skipulag sem verður ofaná. Skipulagsmál Reykjavíkur hafa verið í ólestri sl. hálfa öld og að færa innanlandsflugið til Keflavíkur breytir akkúrat engu með bílaflæmisborgina Reykjavík.
Mikið í málflutningi er beinlínis lygi, eins og þetta með að Vatnsmýrin sé í miðborginni eða að halda fram minnkun í slysatíðni.
Sl. hálfa öld hafa ansi mörg banaslysin einmitt verið á Keflavíkurveginum, þangað sem glórulausir vilja færa innanlandsflugið. Þar sem það myndi deyja drottni sínum.
Þar að auki ef þeir sem nenna að skoða vel tillögu Skotanna, þá sést vel að það er gígantískt slys og ekkert í samhengi við miðbæinn eða neitt sem meikar sens.
Háskóli Reykjavíkur kristallar vitleysuna, byggingin byggð ofaná veginum Hlíðarfæti, rétt eins og húr erfðagreiningar var byggt á gömlu Njarðargötu. Maður klórar sér í hausnum. Bílastæðin við Háskóla Reykjavíkur eru stærri en litla tjörnin í Reykjavík og það er akkúrat svona skipulag sem myndi koma í staðinn fyrir flugvöllinn. Það mætti halda að skipulag gangi út á að halda vegavinnuflokkum í vinnu upp á punt.
Nei þessi flugvöllur er fínn þar sem hann er og ef eitthvað er, á að stækka hann, gera betri flugstöð sem tengist betur almenningssamgöngukerfinu og stefna að því sem fyrst að beina millilandaþotum til Reykjavíkur ekki Keflavíkur, sem væri þá fínn fyrir frakt og slíkt.
Það kostar jú sitt að aka með tugþúsundir farþega 100km aukatúr út á Reykjanes. Nefni New York og Boston sem dæmi um borgir með flugvelli "innanbæjar" og ekki myndi neinum þar detta í hug svona vitleysa með að rífa flugvellina og byggja annars staðar. Enda bara bruðl.
Meira hér: http://veffari.blog.is/blog/veffari/entry/490722/
Ólafur Þórðarson, 22.1.2012 kl. 02:08
@veffari
Leifsstöð er alveg á mörkunum með núverandi umferð og ég ætla rétt að vona að fyrirhugaðri sumarumferð hafi verið dreift yfir sólarhringinn því ef það bætist við morgun og síðdegistraffíkina þá er ekki von á góðu. Á 25 mínútna tímabili á eftir munu 5 vélar sem bera hátt í 1000 manns fara í loftið frá Keflavíkurflugvelli(sem nb. er í Sandgerði!) .
Ekki gleyma því að farþegaþoturnar eru örlítið stærri en Fokkerarnir og þurfa pláss á meðan þær standa á jörðinni. Stækkunin yrði að vera umtalsverð ef takast ætti að koma broti af farþegafjöldanum úr utanlandsfluginu fyrir og ekki má gleyma því að flugbrautirnar eru á mörkunum lengdarlega séð.
Karl J. (IP-tala skráð) 23.1.2012 kl. 05:28
Ég hélt nú einhvern veginn að það vantaði hvorki lóðir né nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu. Það var síðast í tísku að vega að þessum ágæta flugvelli svona....2007.
Flugvöllurinn er á góðum stað og gegnir sínu hlutverki vel, þar eru og milljarða fjárfestingar. Ef eitthvað ætti að gera væri það stækkun/lenging, og bætt aðstaða.
Jón Logi (IP-tala skráð) 23.1.2012 kl. 11:34
Standa ekki hundruðir ef ekki þúrsundir íbúða auðar á svæðínu?
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.1.2012 kl. 12:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.