13.2.2007 | 00:38
HALDIÐ OPNU FYRIR HÚSAVÍK OG VÍÐAR?
Þrjú álver á næsta áratug segir Geir Haarde í Silfri Egils, nýbúinn að hvetja til stækkaðs álvers í Straumsvík. Framtíðarsýn forsætisráðherra: Fjögur álver sem nota munu alla nýtanlega orku Íslands.
Þjóðarsátt um málið sem byrjar að virka 2010 segir Jón Sigurðsson. Þangað til verður hægt að negla niður stóriðju sem þarf orku á við tvær Kárahnjúkavirkjanir. "Hófleg stóriðja með álverum" segir formaður Frjálslynda flokksins.
"Stóriðju ber fráleitt að útiloka sem framleiðslukost" segir Össur Skarphéðinsson í Fréttablaðinu í gær og ítrekar að Samfylkingin vilji að stóriðju í Straumsvík og Helguvík verði "frestað" á næstu árum. Össur og Ingibjörg setja fram skilyrði um að fyrst verði gerð rammaáætlun um náttúruvernd. Sigríður Anna Þórðardóttir vill "hægja á" stóriðjuáformum meðan orkuverð sé að hækka.
Hvað lesum við út úr þessum yfirlýsingum fulltrúa fjögurra flokka? Samfylkingin minnist ekki á Húsavík, - bara suðvesturhornið. Geir segir: Strax í Straumsvík og nefnir síðan árið 2015. Langt þangað til? Nei, aðeins átta ár, jafnlangur tími og er nú liðinn frá Eyjabakkadeilunni.
Lítið mál fyrir Samfylkinguna að snara út einni rammaáætlun um náttúrvernd og byrja svo eftir fárra ára"frestun" á þeirri stóriðju sem "fráleitt er að útiloka sem framleiðslukost."
Samkvæmt áætlunum um djúpboranir gætu liðið allt að 15 ár þangað til árangur liggi fyrir. Það verður árið 2022. Fyrrnefndar yfirlýsingar eru nógu loðnar til þess að stóriðju- og virkjanframkvæmdir gætu byrjað á ný eftir nokkur ár þrátt fyrir fögur orð. Þá yrði jarðhitinn virkjaður með gamla laginu með fimmfalt meiri umhverfisröskun en hugsanlega verður hægt að fá með djúpborunum.
Álverið á Húsavík á að vísu ekki að vera nema 240 þúsund tonn en fulltrúar allra álfyritækjanna hafa lýst því yfir að álver verði að verða minnst 5-600 þúsund tonn. Það þýðir allt að milljón tonna framleiðslu Alcoa í einu kjördæmi sem myndi þurfa allar hugsanlegar virkjanir í kjördæminu, jökulárnar og virkjanasvæði norðaustan Mývatns sem orðið gæti eitt verðmætasta svæðið í stærsta og frægasta eldfjallaþjóðgarði heims.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn fær að ráða og marka má ummæli Geirs Haarde er virkjun í Jökulsá á Fjöllum ekki útilokuð. Það verður erfitt að standa á móti því þegar Alcoa setur fram úrslitakosti um fullar stækkanir álveranna á Norður- og Austurlandi, - annars fari þeir bara eins og Alcan hefur hótað Hafnfirðingum.
Merkilegt í þessu virkjanafíknarpartíi hvað margir eru tregir til þess að hætta alveg þangað til útséð verður með djúpboranirnar.
Allt í lagi að fá sér smá snafsa, - "hóflega stóriðju með álverum" eins og formaður Frjálslynda flokksins orðaði það á landsþinginu. Það er svona álíka og þegar alkinn segist bara ætla að drekka hóflega úr báðum vínflöskunum sem hann hefur með sér til að staupa sig í partíinu.
Athugasemdir
"Þjóðarsátt sem byrjar að virka 2010 segir Jón Sigurðsson". Hvernig væri þjóðarsátt um að tæma alþingi af framsóknarmönnum sem byrjar að virka í maí n.k.?
leibbi (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 06:48
ER ekki í góðu lagi að setja álver upp á húsavík. Er nauðsynlegt að vera á móti öllu eða engu. Það er lítið skylt með virkjunarframkvæmdum á Kárahnjúkum og Húsavík.
Álverið hefði klárlega góð áhrif á húsavík án þess að draga nokkuð úr ferðamannaiðnaði eða nýsköpun. Reyndar myndi þetta klárlega verða vítamínsprauta fyrir allt "hitt" sem er stöðugt í umræðunni bæði hjá virkjunarsinnum og andstæðingum.
Látið nú Norðanmenn í friði og einbeitið ykkur að stöðva umhverfisspjöllin undir eigin rassi. Suðvesturhornið er að kafna í verksmiðjum, byggð, virkjunum, bílamengun, verksmiðjumengun, stressi, þenslu og skít.
Leyfið landsbyggðinni að nýta auðlindir sínar og blómstra (áður en þið verðið brjálaðir þá þýðir orðið auðlind hér bæði orka og ósnortin náttúra)
Sigurður (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 09:11
Íhugum tvennt.
J#
Jónas Björgvin Antonsson, 13.2.2007 kl. 11:47
Íhugum fókus
Hefur þú komið Austur Jónas? Aldrei hefur verið auðveldara að hleypa af stokkum hinum fjölbreyttustu hugtökum. Í fyrsta lagi vegna þess að nú er til staðar fjármagn sem ekki var til áður. Í öðru lagi vegna þess að meiri fjöldi er á staðnum þ.e. fjöldi "viðskiptavina" hefur oft á tíðum náð lágmarksþröskuldi svo hægt sé að starta viðskiptahugmynd.
Sjálfu bý ég ekki fyrir austan en ég þekki til. Það er verið að gera lítið úr fólki þar þegar menn fullyrða að ekkert sé að verða til þarna fyrir austan í breyttu ástandi nema ál og ál-afleiður.
Svo er óþolandi þegar menn kvaka um það að svona framkvæmd sé dragbítur fyrir frumkvöðla en kvarta á sama tíma að álver skapi fá störf. ER ekki eeinmitt fullkomið fyrir sniðuga þjóð að mikil verðmæti verði til á fáum höndum sbr, fiskur og ál. Auðinn er hægt að nýta til góðra og sniðugra verka og ekki vantar vinnuaflið enda örfáir sem vinna við ál og fisk SEM ER HIÐ BESTA MÁl!!!!
Sigurður (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 12:29
Sigurður. Lestu aftur yfir það sem ég skrifaði. Ég nefndi hvergi að álver gætu ekki skapað peninga, störf o.s.frv. Ég benti hins vegar á að fjármagnið sem skapar álverið (og í framhaldi aðrar afleiður) væri hugsanlega nýtilegt í aðra hluti sem kæmu sér jafn vel en hefðu jafnframt aðra kosti.
J#
Jónas Björgvin Antonsson, 13.2.2007 kl. 12:38
Þetta er önnur leiðindavilla sem oft kemur upp.
Fjármagn sem skapar t.d. Kárahnjúka og álverið er EKKI hægt að nota í annað. Þetta er grundvallarmiskilningur. Álverið er byggt fyrir fé Alcoa sem EKKI er hægt að eyða í annað. Kárahnjúkar eru fjármagnaðir með erlendu láni sem er ekki eitthvað opið lán heldur lán til Þessarar framkvæmdar. Það er ótrulegt þegar sumir aðilar eru farnir að eyða þessum peningum í annað. Oft er talað um að framkvæmd Kárahnjúka kosti 100 milljarða (þægileg tala) Þessa 100 milljarða er ekki hægt að nota í annað. þannig er það bara.
Það er hinsvegar ríkisábyrgðin á láninu sem hefur spurningamerki en líklega væri ekki hægt að fá erlent lán í svona stóra framkvæmd hver sem hún væri nema ríkisábyrgð lægi fyrir.
Sigurður (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 12:51
Nákvæmlega rétt Sigurður. Þessir peningar geta bara farið í þetta. Þeir koma hvergi nálægt ríkisútgjöldum og það er ekki verið að taka þá frá öðrum verkefnum. Andstæðingar þessara framkvæmda af suðvesturhorninu tala eins og þeir þekkji innviði þessara samfélaga og tala niður til fólksins á svæðunum og segja að þeim detti ekkert annað í hug en álver. Þetta er auðvitað sár móðgun við það fólk sem reynt hefur marga hluti og farið illa út úr. Fórnað öllu sínu í bjartsýni á að skapa sjálfum sér lífsviðurværi með framtaksemi og áræðni. Álver er upphaf sem rennir styrkum stoðum undir allskonar iðn og þjónustufyrirtæki. Þetta þekki ég Reykvíkingurinn sem búið hef á Reyðarfirði s.l. 17 ár.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.2.2007 kl. 13:40
Ég var að tal um samfélög eins og Húsavík og Reyðarfjörð.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.2.2007 kl. 13:48
Sæl öll
Þessi tísku málflutningur er að verða með ólíkindum. T.d. er vitnað í einhverja skýrslu sem segir að fyrirhugaðar virkjanir í Neðri-hluta Þjórsá séu á virku jarðskjálfta- og sprungusvæði. Já ! Hvað með suðvesturhornið almennt. Það er nýrunnið hraun í túnfæti Reykjavíkur og Hafnarfjarðar svo dæmi sé nefnt! Á að flytja íbúa á brott? Í jarðskjálftunum árið 2000 urðu engar skemmdir á vatnsaflsvirkjunum, hvorki við Sogið né á Þjórsár- og Tungnasvæði. Það segir sýna sögu um öryggi þessara mannvirkja.
Það er svo merkilegt að enginn hefur amast við uppbyggingu sumarhúsasvæði á Suðurlandi og landinu almennt. Hvað segirðu annars um uppbyggingu sumarhúsa á ósnortu landi Ómar? En það eru óafturkræfar framkvæmdir rétt eins og aðrar. Eða uppbyggingu Norðlingaholtshverfis í Reykjavík sem einmitt er mikil náttúruperla. Þá eru við kannski kominn að kjarna málsins. Þessi andstaða er meira svona friðþæging hjá fólki á höfuðborgarsvæðinu sem vill ekki draga úr eigin lífsgæðum en vill stöðva framkvæmdir sem ekki beint varðar það sjálft ! Hvað er mikilvægast vegna umhverfismála almennt? Halda gróðurhúslofttegundunum niðri myndu margir segja. Hvað er þá betra en að nýta þessa hreinu orku sem við eigum, því jarðefnaeldsneytið verður að minnka á heimsvísu. Það er rétt sem Jónína umhverfisráðherra bendir á en kemur sér illa fyrir öfgamálflutning meintra umhverfismanna. Vatnsaflsvirkjanir eru einhver umhverfisvænsti orkukostur sem völ er á! Það er staðreynd. En talandi um umhverfismál, hvað ætli margir mótmælendur hafi þá hugsað með sér hvernig þeir ætli að ferðast í sumar og hve langt? Þ.e. hve mikið þeir hugsi sér að spara eldsneyti vegna eigin ferðalaga? T.d. er ekki að heyra á sumum að þeir hugsi sér að minnka eldsneytisnotkun vegna flugferða, rúntarins eða annað sem þeim þykir svo skemmtilegt.
Með kveðju, Gísli
Gísli Tryggvason (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 13:57
Má ég benda á reiknivélar orkuseturs en þar geta menn séð eigið framlag í útblástursmálum sjá
http://www.orkusetur.is/Apps/WebObjects/Orkustofnun.woa/wa/dp?id=3469
Líklegt að einhverjir á bensínhákum hætti að úthrópa álverum þegar þeir átta sig á eigin syndum.
Sif (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 14:42
Sæll Ómar,
Er ekki rétt að meta orð mann með hliðsjón af verkum þeirra?
Þú ert örugglega óréttsýnn maður og því get ég mér þess til að þú hafir fengið umtalsverða aðstoð við taka orð formannsins úr samhengi og að túlka á versta veg. Frjálslyndi flokkurinn hefur verið umhverfisverndarflokkur og það eru síður en svo nokkrar áætlanir um að breyta þeirri stefnu, síður en svo.
Ég hvet þig til að kynna þér þetta af eigin raun. Fullkomin sátt var um samþykkt landsþingsins en hún hljóðar svo: "8. Nýting og vernd náttúruauðlinda.
Frjálslyndi flokkurinn berst fyrir ábyrgri landnýtingu og náttúruvernd. Flokkurinn mun vinna að öflugri landverndar- og varðveislustefnu til að tryggja landvernd og sjálfbæra nýtingu náttúrunnar. Frjálslyndi flokkurinn telur að atvinnulífið beri samfélagslega ábyrgð á landnýtingu og náttúruvernd. Þessi ábyrgð lítur m.a. að því að varðveita náttúruauðlindir, gæta að sjálfbærri þróun og endurnýtingu auðlinda. Frjálslyndi flokkurinn mun vinna að mótun grunnreglna um þessi atriði á næsta kjörtímabili. "
Sigurður Þórðarson, 13.2.2007 kl. 14:44
Ups!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
Fyrirgefðu
þú ert örugglega óréttsýnn á að vera örugglega ekki óréttsýnn
þetta sést á samhenignu
Bið forláts.
Sigurður Þórðarson, 13.2.2007 kl. 14:46
Kæri Sigurður Þórðarson. Orð eins og "ábyrg landnýting", -"sjálfbær nýting náttúrunnar", - "endurnýting auðlinda", - "gæta að sjálfbærri þróun" o. s. frv. er hægt að teygja nánast hvert sem er og íslenskir stjórnmálamenn hafa farið létt með það hingað til.
Ég veit ekki til þess að neinn landsþingsfulltrúi hafi haft neitt við orð formannsins um hóflega stóriðju, - með álverum, - að athuga. Orðalagið "Frjálslyndi flokkurinn mun vinna að mótun grunnreglna um þessi atriði á næsta kjörtímabili" þýðir að það gæti dregist til ársins 2011 að sjá þessar reglur sem enginn veit nú hverjar verða.
Jón Sigurðsson er þó skárri. Hann lofar "þjóðarsátt" 2010, ári fyrr en þið. Bæði í hans tilfelli og ykkar er um það að ræða að á þeim tíma verður búið að koma í framkvæmd "hóflegri stóriðju með álverum."
Ómar Ragnarsson, 13.2.2007 kl. 15:04
Mér þykir persónulega miður ef einhver les það úr mínum skrifum að ég tali niður til einhverra. Ég reyni yfirleitt að gæta hófs í mínum málfluttningi og slá fyrirvara. Ég hef mínar skoðanir, auðvitað, en reyni eftir fremsta megni að koma því til skila að hverja stöðu má sjá misjöfnum augum. Það er fátt sem er svart/hvítt.
Þannig er mér illa við að orð mín séu oftúlkuð eða færð í stílinn. Þó hendir það auðvitað að það megi auðveldlega misskilja það sem ritað er. Þannig er það til dæmis varðandi peningana sem skapa álverin.
Allur undirbúningur, öll sú vinna og orka sem fer í umgjörðina í kring um álver - eða aðra álíka stórframkvæmd - er beintengd peningum. Þetta eru peningar. Og ekki litlir peningar. Þeir koma ekki úr vasa fyrirtækjanna sem byggja álverin eða ríkisins sem byggir virkjanirnar og leggur til orkuna. Þeir koma frá samfélagi, sveitafélagi, stofnunum og almenningi. Það er oft skautað yfir þennan kostnað.
Því fylgir gríðarlegur kostnaður að bíða. Þetta þekkist í rekstri. Status Quo er langt frá því að kosta lítið. Í orku, úthaldi og peningum.
Og ég tek ekki í mál að upp á mig sé borið trúleysi á getu einstaklingsins til þess að huga að öðru en álveri. Þá er nú flestu við snúið. Ég held að það sé alveg klárt að ef fólk á hinum ýmsu svæðum fengi nauðsynlegan stuðning til þess að rækta eigin hugverk og getu þá myndi ekki standa á árangri. Það er einmitt frekar í anda stóriðjustefnunnar að trúa ekki á samfélagið og einstaklinginn. Að halda að fólk geti ekki hugsað upp neitt nema álver.
J#
P.S. Ómar. Ég biðst afsökunar á þessu þráðaráni.
Jónas Björgvin Antonsson, 13.2.2007 kl. 16:01
Sæll aftur Ómar,
þú hefur talsvert til þíns máls EN
berum saman orð og efndir. Fjálslyndi flokkurinn hefur í reynd verið umhverfisflokkur og ég veit að umhverfissjónarmið eiga þar dýpri rætur og meira fylgi en nokkru sinni. Það er vissulega svo að það eru, því miður, skiptar skoðanir í flestum flokkum. Tveir af þremur þingmönnum hafa tekið einarða afstöðu gegn álæði. Formaðurinn, þó gamall skipstjóri sé, er ekki einráður og hefur aldrei haft neina tilburði til að vera það.
Sigurður Þórðarson, 13.2.2007 kl. 16:30
Það er deginum ljósara að hver sá stjórnmálaflokkur sem móast við að taka þátt í þeirri umhverfisvitund sem nú hefur kviknað í alþjóðasamfélaginu mun fyrr en varir standa uppi eins og nátttröllin forðum tíð. Mér er það fullvel ljóst að stefnusskrá Frjálslynda flokksins er snöggsoðin í tilliti stóriðjustefnunnar og það þykir mér srórlega miður. Ég tek hinsvegar undir með Sigurði Þórðarsyni að svo sterk umhverfisvitund er í þessum flokki að ég er kvíðalaus um það að talsmenn hans veiti stóriðjuáformum liðsinni.
Síðan bið ég menn að hugleiða þá staðreynd að enginn stjórnmálaflokkur hér á landi hefur kveðið jafn sterkt að orði og Frj.l. í stærsta umhverfisverndarmáli þessarar þjóðar og þar á ég við nýtingu fiskimiðanna.
Allt frá fyrstu dögum þessa flokks hafa talsmenn hans verið afdráttarlausir í kröfu sinni um stóraukna nýtingu smábáta í hinum smærri verstöðvum og byggðarlögum víðs vegar um þetta land. Með þessu yrði olíunotkun á hvert veitt tonn aðeins brot af því sem nú er og auk þess skapaðist með þessu stöðug atvinna á þessum stöðum og krafa um stóriðju til að tryggja atvinnulífið ætti þá ekki lengur þá stoð í umræðunni sem nú er raunin og kröfu hemafólks um atvinnusköpum væri þá fullnægt. Þessum kröfum okkar hafa stjórnvöld ævinlega drepið á dreif. Þetta stríð höfum við ákveðið að vinna og sanna það fyrir fulltrúum sægreifanna á Alþingi að "það vinnur aldrei neinn sitt dauðastríð", eins og ég hef áður borið mér í munn en af öðru tilefni. En: Heyr fyrir þér.Jónas Björgvin! Þú sýnir það alltaf og sannar að þú ert góður liðsmaður hvar sem liðsinnis er þörf.
Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 20:06
Ágæti Ómar. Er ekki réttast að anda nú rólega og lesa það til enda sem skrifað er? Þú vitnar í eina setningu í langri grein Össurar um verkefni nýrrar ríkisstjórnar en sleppir algjörlega samhenginu. Setningin og það sem á eftir kom er svona:
Stóriðju ber fráleitt að útiloka sem framleiðslukost. Ákvarðanir um aukna stóriðju verður hins vegar að taka út frá alþjóðlegum skuldbindingum um baráttuna gegn loftslagsbreytingum, efnahagslegum stöðugleika en fyrst og síðast út frá sjónarmiðum náttúruverndar. Stefna núverandi ríkisstjórnar um þrjú til fimm stóriðjuver er öfgakennd, og óþörf út frá hagsmunum efnahagslífsins. Næsta ríkisstjórn á því að slá öllum stóriðjuáformum á frest þangað til búið er að gera rammaáætlun um náttúruvernd í anda Samfylkingarinnar.
Ég held að þetta sé nú bara nokkuð skýrt og fyllilega í samræmi við allt sem við höfum sagt. Verkefni okkar núna, þetta verkefni sem alls ekki má klikka, er að ná breiðri sátt um að staldra við, rannsaka verðmæt svæði og tryggja verndun þeirra. Við höfum eitt tækifæri til að ná um þetta breiðri samstöðu. Klúðrum því nú ekki með keppni í því hver er grænastur. Það er bara ávísun á píslarvætti náttúrunnar - sem ég vona að alvöru náttúruverndarfólk sé vaxið upp úr.
Kv. Dofri.
Dofri Hermannsson (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 21:30
Afhverju svarar Ómar aldrey þegar hann er gagnrýndur um að hann vaði yfir fólk af landsbyggðinni og segir þeim hvernig fólk eygi að hafa það? tek undir með gísla og Gunnari að þessi yfirgangur 101 RVk er óþolandi, afhverju flytur þetta lið ekki út á landsbyggðina ef þeim líður svona vel í náttúrunni flestir af þessum öfgamönnum búa í menguninni í RVK skrítið???
Óskar Þór (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 21:32
Afhverju svarar Ómar aldrey þegar hann er gagnrýndur um að hann vaði yfir fólk af landsbyggðinni og segir þeim hvernig fólk eygi að hafa það? tek undir með gísla og Gunnari að þessi yfirgangur 101 RVk er óþolandi, afhverju flytur þetta lið ekki út á landsbyggðina ef þeim líður svona vel í náttúrunni flestir af þessum öfgamönnum búa í menguninni í RVK skrítið???
Óskar Þór (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 21:34
Svo þurfið þið ekki frjálslyndir að vera afsaka ykkur fyrir Ómari heldur ættuð að taka hanskann upp fyrir fólkið á landsbyggðinni og að einhver flokkurinn taki ábyrga stefnu í þessum málum ekki hlaupa í kringum heitan grautinn og reyna þóknast öllum og virka stefnulaus fyrir vikið??
Óskar Þór Hallgrímsson (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 21:42
Sammála þinni umfjöllun um virkjunarmál.Það er þrýst á okkur úr öllum heimshornum að fá stóriðju og heimamenn hinna ýmsu byggðalaga þrýsta á ríkisstjórnina að leggja þeim lið.Frjálshyggkan og græðgin eru tilbúin að kokgleypa náttúruna með tilstyrk ríkisstjórnarinnar,sókn er besta og reyndar eina vörnin gegn þessari vá.
Kristján Pétursson, 13.2.2007 kl. 22:00
Eg er sammála þessu hjá þér Omar Ragnarssson,við verðum að standa á bremsunni nóg komið i bili og vel það!!!!við erum ekkert að falla a tima eins og Jón Sig segir það er komið yfir af álverum ekki meira!!!!!/Hvað verður um þau ef allt fer nipur áverðið á eg við????Halli Gamli
Haraldur Haraldsson, 13.2.2007 kl. 23:04
Sífellt er verið að núa manni um nasir að vera óvinur landsbyggðarinnar bara fyrir það að hafa aðrar hugmyndir um uppbyggingu mannlífs þar heldur en hálfrar aldar gamlar hugmyndir um að risaverksmiðjur séu lausnin.
Með því að hengja atvinnulíf í landsbyggðinni á verksmiðjuvinnu er í raun verið að skipta þjóðinni í tvennt: Annars vegar er landsbyggðin þar sem slík vinna er óeðlilega stór hluti af atvinnulífinu og hins vegar suðvesturhornið þar sem mun fjölbreyttari atvinnustarfsemi skapar betri kjör og möguleika fólks til að finna mismunandi hæfileikum sínum farveg.
Ég hef setið margar ráðstefnur sveitarstjórnarmanna frá nágrannalöndum okkar og niðurstaðan var ævinlega sú sama: Þær byggðir blómstra mest þar sem möguleikar til atvinnu og menntunar eru fjölbreyttastir.
Dæmi um slíkt byggðarlag er til dæmis Rjukan í Noregi þar sem fólksflótti, einkum flótti unga fólksins í burtu, - hefur lagt dauða hönd á byggðarlagið vegna of einhæfra starfa við verksmiðjurnar þar. Ég óska íslenskri landsbyggð betra hlutskiptis og hef verið að benda á aðrar leiðir til þess að efla hana en þær gamaldags leiðir sem hafa gefist illa í hliðstæðum byggðarlögum á Norðurlöndunum.
Ómar Ragnarsson, 14.2.2007 kl. 00:29
Það er eðlilegt Ómar að þér sé núið um nasir að vera óvinur landsbyggðarinnar. Orð þín og athafnir sýna það en ég held samt að þú viljir ekkert vera það, þú bara virðist ekki gera þér grein fyrir að með ýktum, ósönnum fullyrðingum og áróðri þínum þá rýrirðu möguleika landsbyggðarfólks til bætts og fjölbreyttara lífsviðurværis. Þú nefnir dæmi um fólksflótta frá bænum Rjukan í Noregi "þar sem fólksflótti, einkum flótti unga fólksins í burtu, - hefur lagt dauða hönd á byggðarlagið vegna of einhæfra starfa við verksmiðjurnar þar. Ég óska íslenskri landsbyggð betra hlutskiptis og hef verið að benda á aðrar leiðir til þess að efla hana en þær gamaldags leiðir sem hafa gefist illa í hliðstæðum byggðarlögum á Norðurlöndunum". Ef við skoðum þessi fullyrðingu aðeins þá heimfærirðu greinilega þessa tiltekna verksmiðju upp á verksmiðju Alcoa í Reyðarfirði. Að sama verði uppá teningnum hér. Hefurðu skoðað hvernig samsetning vinnuaflsins er í fyrirhugaðri Alcoa verksmiðju? Hefurðu kynnt þér þann fjölda brottfluttra háskólamenntaðra og iðnmenntaðra Austfirðinga sem ýmist eru komninr eða á leiðinni til Stór-Reyðarfjarðarsvæðisins? EF svo er þá ertu óheiðarlegur í umfjöllunum þínum. Ef svo er ekki þá dæmist áróðurinn innihaldslaus og ber merki um subbuleg og slæleg vinnubrögð af þinni hálfu. Allt skal látið flakka "Let them deny it" taktíkin. Þú berð mikla ábyrgð Ómar, þúsundir einstaklinga hafa tekið þig í Guða tölu. Ekki vera enn einn þeirra sem kemur óorði á umhverfisvernd.
Gunnar Th. Gunnarsson, 14.2.2007 kl. 09:35
Áfram Ómar !
Ég held að sumir hverjir þarna á austurlandi séu hreinlega orðnir " Álaðir" af bræði.
Það er skömm að heyra hvernig "Álsinnar" upplifa hvert stakt orð frá fólki sem þykir náttúra landsins þess verðug að við pössum hvað við gerum við hana eða svokölluðum náttúruverndarsinnum. Að nenna því að jafnvel svívirða fólk fyrir það eitt vera ekki sammála því að hér rísi verksmiðjur um annars fagrar sveitir landsins. 'Eg bjó í 3 ár á Reyðarfirði á þeim tíma þegar umræðan um álver var hvað mest 1999 - 2001, það var oft skammarlegt að hlusta á rök sumra bæjarbúa hví það ætti að koma álver. Það skipti engu hvernig hreinsunarbúnaður væri, útlit skipti ekki nokkru, hverjir myndu vinna þar breytti engu og allt í þessum dúr. Þetta líktist trúarbrögðum hjá ansi mörgum. Ef maður vildi ræða um þetta og var ég hvorki á móti þessu né með á þeim tíma heldur vildi bara ræða málin þá ýmist vildu menn berja mig eða líkt og Smári Geirsson og co. svívirtu mann og uppnefndur hinum ýmsu nöfnum einungis vegna þess að ég var ekki bara með þá einsstrengislegu skoðun að vilja "bara álver"
Virðum þá sem vilja virða landið okkar og fögnum þeim sem haldi því á lofti. Pólitíkusar ákveða hvort og hvað verður gert og þeim ber að veita aðhald það hefur sýnt sig.
Arnar Ævarsson (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 10:58
Ég hef verið að benda á rökleysurnar, ýkjurnar og jafnvel lýgina í málflutningi verndunarsinna. Ég nefndi eitt dæmi hér að ofan um samanburðinn á þessum 2 verksmiðjum, í Noregi og á Reyðarfirði. Ég þekki ekkert til verksm. í Noregi en ég tel mig þekkja til á Reyðarfirði. Fullyrt er er að þessi verksmiðja hér skili ekki árangri sem til er ætlast. Það veit ég nú þegar er vitleysa. Það getur hver séð sem áhuga hefur á að kynna sér staðreyndir málsins. En því miður virðast verndunarsinnar lítinn áhuga hafa á þeim a.m.k. ef það hentar ekki. Jón Kristófer; hvar sérðu í athugasemd minni að ég stilli höfuðborgarbúum og landsbyggðarfólki upp sem tveim andstæðum pólum? Greinaskrif þín bera vott um vanþekkingu. Það er rétt að atvinnuleysi hefur ekki verið vandamál á Mið-Austurlandi en samt verið fólksflótti. Það þarf ekki djúpvitran speking til að átta sig á í hverju vandamálið er fólgið. Ungt fólk sem flutti á brott til mennta fékk ekki störf við sitt hæfi þegar það vildi snúa til baka. Þetta hafði keðjuverkandi áhrif og lítil þjónustfyrirtæki lögðu upp laupana. Ekki var lengur grundvöllur fyrir rakarann, lækninn, sjúkraliðan, nuddarann, fatabúðina, heilsugæslustöðina, byggingavöruverslunina, kaffihúsið, smiðinn, píparann...o.s.f.v. Áður en framkvæmdir hófust hér fyrir austa var svo komið að hér var ein matvörubúð og hún var ekki sú ódýrasta, þar með var þjónustan upptalin. Í dag er hér risinn ný heilsugæsla, Gleraugnaverrslun, verslunarmiðstöð sem inniheldur lágvöru matarverslun, lyfjabúð, fatabúðir, raftækjaverslun og þjónustufyrirtæki. Auk þess hafa mörg mörg lítil og meðalstór iðnfyrirtæki sprottið upp, tvær byggingavöruverslanir, tvö rótgróin rafvörufyrirtæki úr Reykjav. hafa byggt sér húsnæði fyrir útibú sín hér, (Reykjafell og Rönning) Bíó, tvö kaffihús. Læknir er mættur á svæðið eftir ófremdarástand á því sviði í mörg ár. svona mætti lengi telja. Það var ekki spennandi fyrir ungt fólk að setjast að hér á Reyðarfirði áður en allt þetta gerðist og fá ekki vinnu í ofanálag við sitt hæfi. Og svo skreytið þið ykkur Jón Kristófer og Arnar með því að segjast þekkja þetta af egin raun. Og Arnar ég er ekki hissa að að einhverjum hafi orðið heitt í hamsi við þig miðað við athugasemd þína hér að ofan. Hún dæmir sig sjálf.
Gunnar Th. Gunnarsson, 14.2.2007 kl. 15:10
Ég er innilega sammála þér Gunnar Theodór. Þú ert á réttri braut.
Það er náttúrulega bull hjá mótmælendum að segja það að við viljum bara álver. Við viljum atvinnu og það er kannski ekki svo margt í boði annað en stóriðja.
Til þess að fólk geti búið vítt og breitt um landið þarf atvinnu og samgöngur. Sumir eru jafnvel á móti samgöngubótum.
Það skiptir bara heilmiklu máli fyrir okkur norðlendinga að fá einhver atvinnutækifæri og þá kemur stóriðjan sterkt inn. Við það mun margt breitast og smærri fyrirtæki á svæðinu (í Eyjafirði og í Þingeyjarsýslu) munu eflast í kjölfarið.
Stefán Stefánsson, 15.2.2007 kl. 00:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.