27.1.2012 | 14:34
Frekar tíu daga en tíu mínútur ?
Fyrir rúmum tíu árum var Hellisheiði ófær í samfleytt sex vikur.
Hvenær sem er getur svipað ástand orðið þar aftur, þótt nóg hláni í byggð. Allan þennan tíma hér um árið var Þrengslunum haldið opnum, enda liggur vegurinn þar 70 metrum lægra en á Hellisheiði og vindar skaplegri miðað við stefnu vegarins.
Þrátt fyrir þessi sannindi virðist aldrei hörgull á ökumönnum sem telja það skipta öllu fyrir sig að spara tíu mínútur á því að fara Hellisheiði í kolófæru færi og veðri frekar en að fara Þrengslin, sem hafa verið opin mestan þann tíma sem menn æddu inn á heiðina.
Nú hafa tugir þessara ökumanna haft það upp úr krafsinu að bílar þeirra hafa þegar verið fastir á heiðinni og orðið til stórs trafala í 10 - 40 klukkustundir, bara af því að þeir töldu sig vita betur en björgunarsveitarmenn og þóttust ætla að græða 10 mínútur.
Sex vikur eins og hér um árið gera 40 daga. Þeir ökumenn sem töldu það öllu skipta að taka fáránlega áhættu með því að æða inn á heiðina ættu þess vegna að sætta sig við 40 daga dvöl bíla sinna þar.
Þeir tóku þessa fráleitu áhættu og töpuðu, svo einfalt er það.
Hunsuðu lokanir á heiðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Legg til að umræddum frekjuhundum verði ekki hjálpað við að ná bílum sínum af heiðinni. Reyndar voru hrein mistök að hjálpa þeim sjálfum til byggða. Nær hefði verið að láta þá dúsa þar sem þeir voru komnir í bílunum í a.m.k. sólarhring.
corvus corax, 27.1.2012 kl. 16:08
Hef aldrei fattað af hverju þjóðvegur 1 er ekki um Þrengslin og þjóðvegurinn látin vera fyrir sunnan Selfoss í framhaldinu. Og hvað með þennan nýja suðurstrandaveg ?
Hðddi (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 23:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.