29.1.2012 | 21:04
Munurinn á Saab og Volvo.
Upp úr miðri síðustu öld var grundvöllur fyrir velgengni tveggja stórra bílaverksmiðja í því tiltölulega fámenna landi Svíþjóð vegna þess að verksmiðjurnar buðu gerólíka bíla og tókst báðum að skapa sér sérstöðu.
Sérstaða Saab allt fram yfir 1980 fólst í því að bjóða byltingarkennda bíla, sem báru svo sérstöku einkenni að þeir skáru sig úr fjöldanum.
Saab 92 var fyrsti smábíllinn sem bar af varðandi litla loftmótstöðu, einstaklega vel heppnaður, sterkbyggður en þó léttur, vandaður og tiltölulega rúmgóður bíll með farmhjóladrif og frábæra aksturseiginleika og dugnað á vondum vegum.
Fyrsti heimsþekkti rallökumaðurinn Carlsson gerði síðan sitt til að auglýsa bílinn.
Verksmiðjurnar þróuðu bílinn, juku þægindi og bættu útsýni úr honum og hikuðu ekki viða að skipta yfir í fjórgengisvél strax og færi gafst.
1967 kom síðan annar frábær bíll, öllu stærri, sem líka skar sig úr fjöldanum varðandi útlit og var unun að aka auk þess sem hann bauð upp á furðu mikið rými og vandaða smíð.
Ekki skemmdi fyrir að Saab framleiddi frábærar orrustuþotur og auglýsti rækilega að bílarnir væru jafn góðir.
Og Saab hefur staðið sig vel á því sviði. Þannig er Saab Gripen talin liprasta smærri orrustuþota heims og standa F-16 ekkert að baki.
Litlir framleiðendur verða að bjóða upp á söluvöru sem er einstök og höfðar til ákveðins markhóps auk þess að vera vönduð og áreiðanleg.
Þegar bandarísku framleiðendurnir Kaiser, Studebaker, Nash, Hudson, Packard og síðar AMC fóru á hausinn á sjötta áratugnum og síðar var það vegna þess að hinir þrír stóru sóttu inn á sömu markhópa með svipaða bíla.
Rambler varð þriðji söluhæsti bíll Bandaríkjanna um 1960 en þegar þeir stóru buðu svipaða bíla var leikurinn tapaður.
AMC reyndi að svara þessu með því að reyna að berjast við þá stóru í öllum stærðarflokkum og hlaut að tapa þeim slag.
Síðustu 15-20 ár hafa Saab-verksmiðjurnar reynt að halda velli með því að hafa samvinnu við stærri framleiðendur eins og Fiat og GM um sameiginlegan undirvagn/skel og búnað og smám saman urðu bílarnir eins og hverjir aðrir bílar þessara stóru framleiðenda þar sem aðeins smáatriði voru ólík.
Saab glataði sérstöðu sinni og því fór sem fór.
Volvo haslaði sér völl á gerólíkan hátt um miðja síðustu öld með því að bjóða einfalda, venjulega en afar vandaða, sterka og áreiðanlega bíla, sem bílaáhugamönnum þótti yfirleitt leiðinlegir og hversdalslegir en venjulegu fólki líkað þeim mun betur.
Volvo var í fararbroddi varðandi öryggi og halaði inn mikla velvild og sölu fyrir það auk vöruvöndunar og hás endursöluverðs.
Þegar þetta dugði ekki lengur til tókst Volvo mun betur en Saab að skapa sér sérstöðu í útliti, þannig að enn þann dag í dag bera Volvo-bílar sterk einkenni þannig að þeir þekkjast úr.
Að þessu leyti tókst Volvo að feta þá slóð sem Saab hafði upphaflega gert lengi vel, að vera auðþekkjanlegir.
Þetta var að mörgu leyti flottur blekkingaleikur, því að Volvo varð að feta svipaða slóð og Saab varðandi það að deila undirvögnum og búnaði með bílum stærri framleiðenda, sem samstarf varð að eiga við.
Ef ég ætti að segja hvaða gerðir Saab og Volvo hafi verið skemmtilegastar fyrir minn smekk miðað við það sem aðrir framleiðendur buðu upp á, voru það Saab 96 og Volvo PV544 (kryppan) með kraftmestu vélinni.
Fimm hafa áhuga á Saab | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég átti Saab 96 árgerð 1971 með 4 cyl. Ford Taunus vélinni. Afar skemmtilegur bíll í akstri, lipur og léttur, gírkassinn frægi með fríhjólasýsteminu, alltaf eins og hugur manns og seigur í snjó. Það var góður kraftur í þessum bíl þó svo hann hafi verið kominn til ára sinna þegar ég átti hann. En eins og þú segir þá var þetta bíll með sérstöðu.
Átti líka Volvo 144 árgerð 1972 (sem sagt sambærilegur bíll hvað aldur varðar og verðflokk) Hann var allur þyngri blessaður og gangurinn í honum var ekki eins þíður og í Saabinum. En hann var duglegur og stóð fyrir sínu. En alls ekki sjarmerandi bíll eins og Saab 96.
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 23:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.