31.1.2012 | 18:52
Lítið rætt um stórt og flókið mál.
Í fljótu bragði virðist lagning háspennulína í jörðu hafa í för með sér miklu minni umhverfisröskun en lagning línu á möstrum ofanjarðar.
En þetta er hins vegar mjög mismunandi, eftir því hvernig yfirborð þeirrar leiðar er, sem línan á að liggja um.
Sé um að ræða gróið land á láglendi eða sanda og urðir, sem hægt er að færa í sama horf eftir að línan hefur verið jarðsett, er að sjálfsögðu margfalt minni umhverfisáhrif að slíkri falinni línu heldur en línu sem liggur á möstrum en hinu er þó ekki hægt að sleppa, en það er leggja verður veg eftir línustæðinu þegar línan er lögð.
Ekki á að þurfa sams konar viðhaldsveg meðfram línustæði jarðlínu og loftlínu.
En afar víða er um að ræða úfin hraun þar sem línur eru taldar þurfa að liggja, sem jafnvel eru merkilegust fyrir það hve ný og úfin þau eru, eins og til dæmis í Gjástykki, og í því tilfelli verður miklu meiri röskun við að ryðja línustæðið og setja línuna niður auk gerðar viðhaldsvegar heldur en ef línan er sett á möstur.
Nema menn vilji grafa fyrir jarðlínunni með jarðborum en ekki er mér kunnugt að það hafi komið til tals.
Á móti kemur að sjónmengun að háspennulínum á möstrum er margfalt meiri, en þar á móti kemur aftur á móti að það að hægt er að taka möstrin niður og fjarlægja þau, þannig að framkvæmdin er afturkræf.
Kostnaðarmunur við gerð jarðlína eða loftlína er mjög mismunandi og í mörgum tilfellum er munurinn miklu minni en oft er látið í veðri vaka.
Svo er að sjá að loftlínumenn geti með engu móti sætt sig við annað en að vaða með þær hvar sem þeir telja sér henta, og má sem dæmi nefna að þeir ætla að fara með slíka línu fyrir ofan Akureyri og þvert fyrir flugbrautina yfir Eyjafjarðará, með öllum þeim sjónrænu áhrifum, sem slíkt veldur auk óþæginda og jafnvel hindrunar fyrir flug.
Þegar einhver dirfist að efast um þessar stórkarlalegu línulagnir er sagt að viðkomandi sé á móti rafmagni og vilji frekar að við hírumst í torfkofum.
En línur fyrir venjuleg almenn not eru margfalt lægri og minni en hinar hrikalegu háspennulínur sem stóriðjan krefst.
Mikið verk er óunnið við að rannsaka það hvar línur geti legið og hvernig þær geti verið.
Er ansi hætt við því að umræður um það verði að verða lengri en tíu mínútur.
Tíu mínútna umræða um lagningu raflína í jörð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll.
Enn og aftur líta umhverfisverndarsinnar framhjá mikilvægum atriðum.
Hið fyrsta eru raforkulögin en þau leggja flutningsaðila þá skyldu á herðar að stuðla að hagkvæmu flutningskerfi. Jarðstrengir eru 2-10 sinnum dýrari en loftlínur og ef bilun kemur upp tekur lengri tíma að laga jarðstrengi en loftlínur, það getur tekið viku eða meira að finna og gera við bilun í jarðstreng. Er slíkt ásættanlegt? Sambærilegur tími með loftlínur er 1-2 dagar. Að auki myndast hiti í kringum jarðstrengina en það er minna vandamál með loftlínur. Þumalputtareglan er einnig að eftir því sem jarðstrengirnir eru spenntari þeim mun flóknari er lausnin.
Vita umhverfisverndarsinnar þetta ekki eða er þeim kannski alveg sama?
Hvernig á annars að meta sjónmengun? Hvað með jarðrask sem fylgir jarðstrengjum og óhjákvæmilegri vegagerð eins og þú nefnir réttilega? Er það ekki sjónmengun? Vilja menn svo algerlega líta framhjá kostnaðarmuninum?
Helgi (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 21:20
Þetta er þörf þingsályktunartillaga.
Almennir raforkunotendur nota einungis 20% raforkunnar og almennum notendum dugar 132 KV dreifikerfi, sbr byggðalínur. Aflþörf Höfuðborgarsvæðisins er t.a.m. aðeins 200MW og raforka þangað er flutt um 132KV línur og strengi. Nýlega var lagður 132 KV jarðstrengur frá Nesjavallavirkjun að spennistöð við Geitháls.
Það er nokkuð ljóst að ekki verða reistar fleiri loftlínur til að flytja raforku til almenningsnota, þar sem jarðstrengir eru orðnir hagkvæmari en loftlínur ef flutningsspenna er 66KV og lægri. Ekki eru fyrirhugaðar 132 KV loftlínur vegna almenningsnota og allar fyrirhugaðar 220-400KV loftlínur þjóna einungis stórnotendum sem í dag fyrirfinnast í Straumsvík, á Grundartanga, á Akureyri og í Reyðarfirði.
Flutningsgeta fyrirhugaðra raflína um Heiðmörk er uþb 1.100 MW um hvora línu sem samsvarar meira en fimmfaldri aflþörf höfuðborgarsvæðisins (án álvers í Straumsvík)
Ég reikna þó með að fyrirhuguð 220 KV lína um Sprengisand, með 400 - 600 MW flutningsgetu, verði talin "bráðnausynleg fyrir almenna raforkunotendur á Norðurlandi" þar sem Akureyringar þurfa víst heil 20 MW þegar mikið gengur á!, - en þeir eru þó tengdir með 100MW tengingu til vesturs og 160MW tengingu til austurs!
Raforkulög hafa svipað eignarnámsákvæði og vegalög og skipulagslög, þe heimilt er að taka land eignarnámi þar sem hagsmunir samfélagsins gangi framar eignarrétti.
Raflínurnar til Reyðarfjarðar voru þó á gráu svæði þar sem þær þjóna ekki almennum hagsmunum þar sem um þær fer einungis raforka til eins einkafyrirtækis sem mætti þá allt eins vel taka land undir álbræðsluna eignarnámi ef illa gengi að semja við landeiganda!
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 21:44
Helgi, Þegar lagðir eru mjög háspenntir nútíma jarðstrengir þá eru samsíða þeim ljósleiðartengdir hitaskynjarar sem segja nokkuð vel hvað er að gerast í umhverfi strengsins og vigerðarhraði ræðst fyrst og fremst af viðbúnaðargetu rekstraraðila.
Ekki stendur til að setja 220KV dreifikerfið í jörð, þa´ð er einungis verið að marka stefnu um það við hvaða aðstæður sé eðlilegt/æskilegt að setja línur í jörð.
Gott dæmi er á fyrirhugaðri 300 Km langri 220 KV raflínu milli Blöndu og Fljótsdals. Loftlína væri til mikils vansa við bæjardyr Akureyrar og skerðir öryggi Akureyrarflugvallar. Þarna er hinsvegar kjörlendi fyrir jarðstreng og fullkomlega eðlilegt að þessi 3% línunnar séu tekin í jörð þar semhún fer um nánasta umhverfi 97% þeirra sem búa á eða við línuleiðina. Og enn og aftur skal minnt á að þessi lína þjónar ekki hagsmunum almennra raforkunotenda og er alfarið til að þjóna stórkaupendum sem eru teljanlegir á fingrum annarar handarSigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 21:57
Ómar. Fyrir sjálfráða og fullvalda þjóð skiptir þessi umræða miklu máli, að mínu mati. Ég tel mig vera öfgalausan umhverfissinna, og allt þarf að spila saman, svo sem stjórnsýsla, lög, fullveldi og framkvæmdir. Ef einn þáttinn vantar í heildarmyndina, þá virka hinir illa, eða alls ekki, að mínu mati.
Fyrir þjóð sem er að vinna hörðum höndum að því að losa sig við þessa sjálfstæðu ábyrgð, þá skiptir í raun engu máli hvað verið er að ræða á alþingi, eða hvaða lög og reglur er verið ræða um og setja. Ekki einu sinni stjórnarskrá er á yfirráða-könnu íslendinga, ef við förum í mögulega framtíðar-ESB.
Það er eins gott að taka umræðuna út frá staðreyndum, en ekki út frá yfirborðslegu blekkingarleikriti frá alþingi eða stjórnarráðinu.
ESB sér um allar sjálfstæðar ákvarðanir í framtíðinni, ef á að halda áfram á þeirri blindu vegferð sem raun ber vitni um aðildar-samþykktar-vinnu af ríkisstjórninni. Það verður ekki mikið flogið á vegum sjálfstæðra íslenskra ákvarðana, ef við höldum áfram á þessum ótrausta áróðurs-troðna slóða. Regluverkið er svo flókið í ESB, að þeir sem stjórna ESB þekkja hvorki haus né sporð á því, og því síður hvernig það er að þróast.
Valið er í valdi almennings á Íslandi, hvað þeir vilja halda lengi áfram á blindgötunni, sem ekki einu sinni ESB þekkir sjálft!
Mér finnst mjög mikið vanta í heildarmyndina hjá þeim sem eru óhagganlegir og blindir ESB-sinnar, sem trúa því að þeir ráði einhverju um landsmálin eftir inngöngu í ESB-björgunar-bandalagið. Það er ábyrgðarlaust að hvetja fólk til einhvers, sem sá sem hvetur, þekkir ekki raunverulega stöðu og afleiðingarnar af.
Þessi einhliða yfirburðar-áróður um ágæti ESB (sem enginn þjóðarleiðtogi veit lengur hvað er), finnst mér ekki trausts verður. Útrásar-gengið var með álíka "traustan" áróður á sínum snærum fyrir hrun. Sá ábyrgðarlausi áróður er nú búinn að sundra fjölskyldum með hörmulegum langtíma-afleiðingum vegna sundrungar fjölskyldna, sem engin veraldleg auðæfi geta nokkru sinni bætt upp.
Lífið snýst ekki bara um peninga og hagnað, heldur velferð hornsteina samfélagsins, sem eru fjölskyldurnar. Að yfirgefa fjölskyldu vegna óbærilegra afkomu-möguleika af ýmsum ólíkum ástæðum, skilur eftir sálarmein sem fylgir fólki yfir öll svokölluð landamæri.
Sömu öflin stjórna á Íslandi í dag, sem stjórnaðu fyrir hrun. Þeim öflum er alveg sama um tengsl fjölskyldu-meðlima. Hagnaðurinn er ennþá mældur í veraldlegum og einskis verðum "auðæfum".
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 31.1.2012 kl. 22:30
í kanalandi þar sem megnið af orku og símalínum er ofanjarðar og lítið augnayndi .Lítið þarf út af bregða til að gróður, ísing og fárvirði valdi margra daga rafmagnsleysi .Ástæður eru kostnaður og of dreifð byggð
Talið vera 1/10 kostnaðar miðað við niðurgrafningu lagna einnig er kostnaður við kælingu neðanjarðar háspennulagnar á suðursvæðum þar sem hiti er mikill .Vonandi finnst lausn á fullkomnari strengjum og minkandi orkuþörf almennt
Huckabee, 31.1.2012 kl. 22:34
Rafmagn er sent til Vestmannaeyja með sæstreng. Yfir nokkra firði á Íslandi liggur sæstrengur. Hugmyndir eru um rafstreng til Færeyja og þaðan til Skotlands og þaðan fleiri staða. Þá vaknar spurning afhverju er verið að þvarga um loftlínu eða jarðstreng út á Reykjanes ? Afhverju ekki sæstreng frá Straumsvík þangað sem loftlína liggur hvort sem er og til Helguvíkur ?
Guðlaugur Ævar Hilmarsson (IP-tala skráð) 1.2.2012 kl. 00:03
Það er sjálfsagt ágætt að til séu einhverjar viðmiðunarreglur varðandi háspennulínur, en lögfestingar eru mjög varasamar og í raun óraunhæfar.
Sjálfsagt ganga einhverjir öfga umhverfisverndarsinnar með þá grillu í höfðinu, að með því að lögbinda jarðlagningu háspennustrengja, geri það stóriðjufyrirtækjum erfiðara fyrir að kaupa orku. Þetta er hálmstrá.
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.2.2012 kl. 01:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.