1.2.2012 | 21:54
Minnir á frásögn Guðlaugs fyrir 28 árum.
Frásögn Eiríks Inga Jóhannssonar af baráttu hans og félaga hans fyrir lífi sínu minnir um margt á frásögn Guðlaugs Friðþórssonar eftir Helliseyjarslysið 1984.
Báðir komast lífs af vegna þess hvernig þeir bregðast rétt við aðstæðum, missa aldrei móðinn og hugsa ekki síður um sálfræðilegu hliðina en hina líkamlegu.
Báðir eru nokkra stund í samfloti með félaga sínum þar til hann er allt í einu horfinn.
Báðir efla þrek sitt með því að efna til ímyndaðrar samræðu, Guðlaugur við mávana, Eiríkur Ingi við þyrlubjörgunarmennina þar sem Eiríkur persónugerir flugstjórann í Jónasi, vini sínum, íslenskum þyrlustjóra.
Báðir leita á náðir tóna og ljóða og hugsa til náskyldra. Báðir leggjast frekar til baksunds en að synda á bringunni og reyna að ganga ekki um of á orkuforðann.
Eiríkur nærir hugann í fárviðri og stórsjó með því að hrífast af þeirri hrikalegu náttúrufegurð sem hann sér í himinháum "brimbrettabrimsköflum" og hafróti.
Guðlaugur er hugsi yfir því að hann skuldi vini eða vinum peninga og biður bænir og leitar í því andlegs styrks.
Sjónvarpið gerði að mínum dómi rétt í því að stytta viðtalið við Eirík ekkert og falla ekki í þá freistingu að fara að endursegja eitthvað.
Þegar ég tók viðtalið við Guðlaug á sínum tíma var mér skipað að stytta það og endursegja hluta þess.
Eftir á sá ég eftir því að hafa ekki hafnað því alfarið, - svona viðtöl eru ekki tekin á hverjum degi og það hlýtur að vera eitthvað annað í dagskránni sem er léttvægara og má stytta eða hnika til.
Eftir alla baráttuna um borð í skipinu og í og við gúmbátinni rifna var það mikið afrek sem Eiríkur Ingi vann að halda höfði og bugast ekki, á hverju sem gekk og allt virtist svon vonlaust.
Afrek Guðlaugs Friðþórssonar var hins vegar gersamlega dæmalaust í sögu þjóðar okkar og þótt víðar væri leitað, af því að hann var ekki í flotgalla og þurfti að synda í köldum sjónum í enn lengri tíma en Eiríkur var í sjónum.
Sund Guðlaugs er að mínum dómi mesta þrekraun og afrek allra tíma, ekki síst landtakan við klettótta strönd í úfnum sjó og miklu brimi og síðan að ganga berfættur yfir úfið hraun.
Frásögn Eiríks snerti mig ekki síst fyrir þá sök að Einar G. Gunnarsson var frá 14 ára aldri í heimili hjá systur sinni "Rúnu" og manni hennar Sigfúsi Jóhannssyni, mági mínum.
Sjálfur naut ég þess ásamt Helgu konu minni að vera þar til heimilis hálft ár áður en við fórum að búa og Einar heitinn var alla tíð eins og í systkinahópnum í mínum augum og ófáar gleðistundirnar á þessu dásamlega heimili sem ævinlega var opið öllum að vestan.
Baráttan við Ægi hefur verið hörð í þessari fjölskyldu. Einar missti bróður sinn í sjóslysi á Arnarfirði fyrir allmörgum árum og Sigfús missti föður sinn í sjóslysi 16 ára gamall og komst sjálfur nokkrum sinnum í hann krappan á löngum sjómannsferli, - vissi hvað það var að lenda í köldum sjónum.
Heyra mátti í frásögn Eiríks að þeir félagar kölluðu Einar "Vestfirðinginn" og einnig hve mikla virðingu þeir báru fyrir honum, reynslu hans og þekkingu, enda hafði hann verið kennari Eiríks.
Vestfirðingar hafa jú löngum haft sérstöðu um sjósókn og sambúð við óblíð náttúruöfl.
Einar var að setjast í helgan stein eftir farsælt ævistarf, en heyra mátti á frásögn Eiríks hve gefandi hann, þekking hans, reynsla og frásagnir, hafði verið fyrir hina skipverjana meðan allt lék í lyndi á leiðinni og hann gat notið fararinnar og þeirra töfra sem hafið býr yfir hjá þeim sem hafa helgað sig sjómennskunni, töfrar sem þeir geta aldrei staðist.
Ég ætla ekki að gefast upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Afburða góð grein Ómar.
Þorsteinn Sverrisson, 1.2.2012 kl. 22:13
Einar Gísli Gunnarsson kenndi mér vélstjórn í Vélskólanum og á minn skólagöngu hef ég jú kynnst mörgum gefandi kennurum, og Einar var einn þeirra sem mér fannst mest gefandi. Hann var óþreytandi að miðla reynslu sinni og annara til okkar nemana og sýna okkur hvernig hlutirnir virka og eiga að virka. Í mínu starfi sem vélstjóri á fiskiskipum hef ég oft stað mig af því að hugsa sem svo hvernig myndi Einar leysa það sem upp hefur komið, eða hvernig sagði Einar að best væri að gera þetta.
Blessuð sé minning þessa góða manns og kennara
Sigurbrandur Jakobsson, 1.2.2012 kl. 23:14
Þetta er mjög góð grein hjá þér, Ómar. Já,heimurinn á Íslandi er lítill. Ég minnst námsáranna í í vélsmiðjunni Héðni upp úr 1960 -þegar tveir menn komu þangað vestan frá Patreksfirði. Annar var þrautreyndur vélstjóri -sá eldri,Sigfús- en sá yngri,Einar , kominn til náms í vélvirkjun. Báðum kynntist ég þessum sóma mönnum vel. Einar lauk síðar námi í vélstjórn og gerðist vélstjóri á sjó. Og lífsstarfinu lýkur á sjó í þessu hörmulega sjóslysi. Grimm örlög við starfslok. Samúðarkveðjur til aðstandenda.
Sævar Helgason, 1.2.2012 kl. 23:31
Þakka þér fyrir þessa fínu grein Ómar.
Ragnheiður , 1.2.2012 kl. 23:58
Já, þetta var magnað viðtal, en heldur þótti mér það ótímabært, svona stuttu eftir slysið. En sjálfsagt hjálpar þetta Eiríki að komast í gegn um sitt áfall og sína sorg, svo kannski er þetta réttlætanlegt.
Dexter Morgan, 2.2.2012 kl. 00:21
Það var magnað hvað Eiríkur hélt línulegum tímaþræði í frásögninni og gerði atburðum góð skil. Greinargóð frásögn af þessu tagi er mjög mikilvæg fyrir þá sem eiga um sárt að binda og mikilvægt að þeir fái eins greinargóðar upplýsingar um atburði og tök eru á. Slíkt léttir sorgarferlið. Áhersla Eiríks á að þýða viðtalið og að hafa það aðgengilegt á ruv.is sýnir að þetta er þaulhugsað og gert í samvinnu við aðstandendur þeirra er fórust.
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 2.2.2012 kl. 00:50
Ómar, hefur þú eitthvað aflað heimilda um Íslendinga sem fórust á erlendum flutningaskipum í seinni heimsstyrjöldinni?
Ég komst í samband við breskan mann á erlendum spjallvef þegar ég setti inn tengil á viðtalið við Eirík. Afi hans fórst á skipinu SS Bellona II og meðal annarra sem fórust var þessi Íslendingur:
S.S. Bellona II
Fórst 8. október 1940
Bergsteinn Sigurðsson
Upplýsingar fengnar af vefsíðu Sjómannadagsráðs.
Það væri vel þegið ef þú hefur einhverjar upplýsingar um þennan mann, eða hvort þú vitir um einhvern sem ég get leitað til.
Síminn hjá mér er 690-8825. Með fyrirfram þökk.
Theódór Norðkvist, 2.2.2012 kl. 13:49
Sæll Ómar. Er viðtalið við guðlaug til í heild eða endaði það sem ekki var notað í ruslinu?
Geir Reynis (IP-tala skráð) 2.2.2012 kl. 17:51
Takk fyrir góða grein.
Svanfríður (IP-tala skráð) 2.2.2012 kl. 23:50
Viðtalið við Guðlaug er ekki til í heild, því miður, eins rólegt, yfirvegað og magnað sem það allt var.
Það fóru oft yfirgengilega mikil verðmæti í ruslið á þessum árum og raunar lengi eftir það, og margt liggur nú undir skemmdum.
Ég hef lengi barist fyrir því að sama umhyggja sé sýnd þessum heimildum af ríkisins hálfu og sýnd er rituðum heimildum, en það er langur vegur frá því að sami skilningur sé sýndur þessu tvennu, rituðu heimildirnar geymdar í tveimur eintökum, sitt hvorum megin á landinu en hinum allt of lítið sinnt.
Myndbönd sem eru orðin 20-30 ára eyðileggjast flest við svo langa geymslu og það er skrýtið að ríkið sér um að taka að sér rituðu heimildirnar og sjá um varðveislu þeirra þannig að útgefendurnir þurfi ekki að gera það, en þessu er öfugt farið varðandi myndirnar.
Að sumu leyti erum við enn á sama stigi og Árni Magnússon, rétt eins og kvikmyndir séu ekki til.
Ómar Ragnarsson, 3.2.2012 kl. 01:46
Rétt er að geta þess að góðir menn í Kvikmyndasafni Íslands vinna gott starf eins langt og það nær, en þeir einir geta alls ekki annað nema hluta af því sem gera þyrfti.
Ómar Ragnarsson, 3.2.2012 kl. 01:48
Einnig er rétt að geta þess að á fyrstu árum Sjónvarpsins kostaði klukkustundar 2ja tommu myndbandsspóla ein og sér sem svaraði 2-300 þúsund krónum nú.
Knöpp fjárráð Sjónvarpsins voru ávísun á slys, því að á líðandi stundu er svo erfitt að meta framtíðargildi heimilda.
Ómar Ragnarsson, 3.2.2012 kl. 01:52
Sæll Ómar, mér varð einmitt hugsað til þess sama og hafði á orði við konu mína hvað frásögn Eiríks Inga minnti á afrek Guðlaugs. Í framhaldi ræddum við hjónin hvort viðlíka viðtal hefði verði tekið við Guðlaug á sínum tíma. Sorglegt að lesa hér að hráefnið hafi endað í ruslinu, en ég skil vel aðstæðurnar á þessum tíma - enda hef ég átt nokkur samtöl um kvikmyndaverðmæti þessa lands við Þórarinn Guðnason sem vinnur gott starf ásamt sínu fólki hjá Kvikmyndasafni Íslands. Og mér skilst að þeir séu að vinna við að yfirfæra fréttafilmusafn RÚV á stafrænt form.
Kveðja frá Eyjum,
Sighvatur Jónsson
Sighvatur Jónsson (IP-tala skráð) 3.2.2012 kl. 22:02
Þar sem ekki er hægt að laga færsluna að ofan má ég til með að leiðrétta fallbeygingu á nafni Þórarins, sem er vitaskuld "Þórarin" í þolfalli. Lagfærist hér með til heimildarskráningar framtíðar.
SJ
Sighvatur Jónsson (IP-tala skráð) 3.2.2012 kl. 22:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.