Mikilvægi íslenskunnar.

Land, tunga og þjóð, þetta eru hornsteinar íslensks samfélags þótt sótt sé að tveimur þeirra, landinu og tungumálinu.

Á Facebook má glögglega sjá hina miklu framsókn enskunnar sem samskiptatungumáls hjá unga fólkinu.

Væri verðugt viðfangsefni að kanna sívaxandi útbreiðslu hennar, því að ég get varla ímyndað mér að nein sjálfstæð þjóð láti sér standa á sama um það að á slíkan hátt sé sótt að þjóðtungu hennar.

Svipað fyrirbæri var uppi á fyrstu áratugum 19. aldar. Þá þótti svo fínt og "in" að nota dönskuna sem mest, svo að slett sé vinsælu ensku orði sem nú er "in", að aldrei í sögu þjóðarinnar var hún nær því að glata helsta sérkenni sínu.

Sem oftar var það útlendingur, Rasmus Kristján Rask, sem virkjaði öfluga Íslendinga á borð við Jónas Hallgrímsson og Fjölnismenn, til þess að koma íslenskunni til hjálpar og blása í hana því lífi sem í henni býr.

Það var líka útlendingur sem opnaði augu Íslendinga fyrir gildi íslenska hundsins, sem var í útrýmingarhættu og einnig útlendingur sem var í fararbroddi þeirra sem bentu á gildi Þjórsárvera.

Nú eru það oft útlendingar sem reyna að koma vitinu fyri okkur varðandi það hvernig við viljum fara með landið okkar og náttúru þess.

Eitt helsta vandamálið í fjölþjóðasamfélagi er að gjá myndist á milli erlendra innflytjenda og afkomenda þeirra annars vegar og hins vegar þeirra sem fyrir eru í landinu.

Þar leikur tungumálið, færni í að tala það, skilja það og geta lesið það, mestu máli.

Þrefaldur ávinningur er að því að efna til stórsóknar til varnar íslenskunni og notkun hennar.

Í fyrsta lagi hafa Andri Snær Magnason og fleiri bent á þá vá, sem fyrir dyrum er ef ekkert verði spornað við því að fjórðungur íslenskra drengja sé í raun ólæsir.

Í öðru lagi er það afar mikilvægt að leggja rækt við að aðstoða innflytjendur við að ná valdi á íslenskunni, sem að vísu er erfitt tungumál að læra fyrir flesta, en þó afar merkilegt og fallegt, og út í hött að fara að óska sér þess að það sé öðruvísi en það er.

Í þriðja lagi er málrækt mikilvæg fyrir okkur sjálf að öllu leyti sem þjóð.

Oft er það brjóstumkennanlegt að heyra hve slappt íslenskt fjölmiðlafólk er meðferð þjóðtungu sinnar og virðast margir halda að aðrar þjóðir geri líka litlar kröfur í þeim efnum til síns fjölmiðlafólks.

Ættu þeir hinir sömu að kynna sér þær kröfur sem allir alvöru fjölmiðlar erlendir gera til sinna þula, þáttargerðamanna og fréttamanna varðandi meðferð móðurmálsins.

Hvað varðar aðstoð við innflytjendur og útlendinga við að ná völdum á íslenskunni getum við, hvert og eitt átt þátt í því með því að tala skýrt og einfalt mál við það og nota ekki enskuna nema til að þýða það sem við segjum fyrst á íslensku.

Um leið og við förum að tala enskuna eina erum við að gera þessu ágæta fólki óleik.


mbl.is Utangátta á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Innilega sammála hverju orði. Tungumálið er verkfæri til að koma hugsun á framfæri.  Ef þessu verkfæri er beitt vitlaust, verður hugsunin hvorki ljós né skýr.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 3.2.2012 kl. 13:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband