7.2.2012 | 01:23
Hugsjón Harðar Guðmundssonar.
Ein ánægjulegasta flugferð á mínum ferli var þegar ég gerðist hálfgerður guðfaðir Harðar Guðmundssonar og flaug með honum á fyrstu flugvél hans, TF-AIF, Cessna 170, frá Reykjavík vestur til Ísafjarðar.
Sjálfur hafði ég oft hugsað um það að það gæti orðið verðugt verkefni að koma á fót flugi á landsbyggðinni, til dæmis á Vestfjörðum, eftir að ég tók atvinnuflugmannsprófið.
Það að halda áfram og enda sem flugstjóri hjá Icelandair eða Flugfélagi Íslands heillaði mig aldrei, - og sennilega Hörð ekki heldur, þótt hann færi út á þá braut um tíma.
Við ræddum þetta oft um þær mundir, sem hann var að læra og stíga sín fyrstu spor, eða eigum við að segja að taka sín fyrstu flugtök, um gildi flugsins fyrir landið og landsbyggðina, en munurinn var sá, að ég var fastur í fari skemmtikrafts og leikara og síðar heltók Sjónvarpið mig.
Hörður lét hins vegar drauminn rætast og hefur helgað líf sitt þjónustu við landsbyggðina.
Trúr þeirri hugsjón tekur flugfélagði Ernir nú upp áætlunarflug til Húsavíkur.
Húsavíkurflugvöllur hefur verið skelfilega vanræktur um árabil, með sína góðu og lögnu flugbraut, sem jafnvel millilandaþotur geta notað, og ágæta flugstöð.
Það hefur verið dauflegt um að litast á vellinum undanfarin ár að sjá þessi mannvirki ónotuð.
Ég er ekki viss um að Vaðlaheiðargöng muni drepa flugið þangað, verði þau að veruleika, því að enda þótt vegarstyttingin með göngunum sé 16 kílómetrar er tímastyttingin aðeins 6 mínútur fyrir bíl, sem stansar til að borga veggjald, því að hraðinn í göngunum verður væntanlega aðeins 70 km/klst.
Fagna flugi til Húsavíkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.