Innbyggð í kerfið í 70 ár.

Í ár eru rétt 70 ár síðan verðbólga fór fyrst fyrir alvöru á fulla ferð hér á landi.  Ástæðurnar fyrir þessu stjórnleysi voru nokkrar.

Framkvæmdir vegna hersetu Breta og síðar Bandaríkjamanna skópu mikla þenslu. Önnur eins innspýting í íslenska hagkerfið átti sér enga hliðstæðu.

Þetta gerðist á versta mögulega tima vegna þegar alger trúnaðarbrestur varð milli foringja stærstu stjórnmálaflokkanna, Ólafs Thors og Hermanns Jónassonar.

Tvennar alþingiskosningar fóru fram, Sósíalistaflokkurinn vann stórsigur og breytti hlutföllum á þingi og í kjölfarið fylgdi stjórnarkreppa, sem var svo alvarleg, að Sveinn Björnsson ríkisstjóri myndaði utanþingsstjórn sem sat í tvö ár.

Á þessum árum mælti Ólafur Thors þau fleygu orð, að verðbólguna og dýrtíðina væri hægt að kveða niður með  "einu pennastriki" og var lengi hæddur fyrir þau, vegna þess að í hönd fór samfellt verðbólguskeið sem stóð í tæpa hálfa öld.

Gengi íslensku krónunnar var fellt 1939 og 1950 og árið 1959 reyndi minnihlutastjórn Emils Jónssonar að færa verðlagið niður en það hrökk skammt og í hönd fóru þrjátíu ár víxlverkana kaupgjalds og verðlags með gengisfellingum æ ofan í æ.

Eina þeirra kallaði þáverandi fjármálaráðherra, Halldór E. Sigurðsson, "gengissig í einu stökkki."

Það var gott dæmi um það þegar stjórnmálamenn reyndu að breiða yfir þá staðreynd að hér ríkti samfellt stjórnleysisskeið í efnahagsmálum.

Þjóðarsáttin 1990 verður í mínum huga æ merkilegri eftir því sem árin líða.

Hún fól í sér einu umtalsverðu aðgerðina til þess að vinna bug á óstöðugleikanum og óreiðunni, sem hefur verið fylgifiskur íslenskra efnahagsmála og næstu árin á eftir nutu stjórnmálamenn góðs af því sem menn utan þings afrekuðu með þjóðarsáttinni.  

Verðbólga er innbyggð í það hagkerfi heimsins sem hefur hagvöxt sem forsendu og Ísland getur ekki verið eyland í þessu efni.

En okkur virðist fyrirmunað að halda okkur til langframa nálægt því meðaltali verðbólgunnar sem ríkir í kringum okkar.  

 

 


mbl.is Verðbólgan er innbyggð í kerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tak nú með í reikninginn mannfjölda-aukningu frá seinna stríði. Hún er afar ólík t.d. flestum Evrópuríkjum.

Skoðaðu svo Marshall-innspýtinguna, og framhald innspýtingar hernámsins, t.d. að til var orðið svona-svona vegakerfi o.þ.h.

Svo er það hinn sveiflukenndi sjávarútvegur.

Þá er það sagan um handstýrðar gengisfellingar.

Svona er hægt að telja endalaust. Það má kannski kalla þetta langtíma ringulreið, en það athyglisverðasta er verðbólga á kyrrstöðu- eða samdráttartíma.

Fjandakornið, hún getur ekki verið innbyggð í þau bæði.

Jón Logi (IP-tala skráð) 11.2.2012 kl. 22:47

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sammála, sem undirstrikar vanmátt ráðamanna íslensku þjóðarinnar.

Ómar Ragnarsson, 11.2.2012 kl. 23:05

3 Smámynd: Anderson

Verðbólga getur vissulega farið saman við kyrrstöðu- og samdráttartíma. Ágæt dæmi eru olíukrísurnar hér á árum áður sem ollu mjög mikilli verðbólgu ásamt samdrætti.

Anderson, 11.2.2012 kl. 23:32

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þegar gengi íslensku krónunnar fellur, til að mynda gagnvart evrunni, hækkar hér verð á vörum, aðföngum og þjónustu frá evrusvæðinu, verðbólgan hér eykst og öll verðtryggð lán hækka.

Frá áramótum
hefur gengi evrunnar gagnvart íslensku krónunni hækkað um 2,08%, Bandaríkjadollar um 2,46% og breska sterlingspundinu um 0,47%.

Og frá því evruseðlar voru settir í umferð í ársbyrjun 2002 hefur gengi evrunnar gagnvart Bandaríkjadal hækkað um 47,32% og breska sterlingspundinu um 34,69%.

Í fyrra, árið 2011, hækkaði gengi evrunnar gagnvart íslensku krónunni um 3,38% og frá ársbyrjun 2006 hefur gengi evrunnar gagnvart íslensku krónunni hækkað um 117,03%.

Og hér á Íslandi eru gjaldeyrishöft.

Áttatíu prósent Íra ánægð með evruna

Þorsteinn Briem, 11.2.2012 kl. 23:55

5 identicon

Af því að ég þarf oft að skipta Evrum, þá má benda á að síðan sumarið/haustið 2010 var hún 20 kr. hærri en í dag.

Jón Logi (IP-tala skráð) 12.2.2012 kl. 09:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband