16.2.2012 | 00:56
Hver er áhættan ?
"Flugstjórinn dó í flugi." Hljómar glæfralega. Vitað er að fólk getur fengið hjartaáfall eða heilablóðfall á öllum aldri og oft kemur þetta eins og þruma úr heiðskíru lofti.
Þetta er svo algengt að ætla mætti að stórhætta stafi af því í tækniþjóðfélagi nútímans þar sem milljónir bíla eru á ferð og þúsundir flugvéla.
Ekki hvað síst ef flugstjóri sem er með líf margra í hendi sér, fær áfall í flugi.
En áhættan er minni en ætla mætti þegar beitt er líkindareikningi í áhættumati.
Meðaljóninn ekur bíl um 15 þúsund kílómetra á ári. Ef meðalhraðinn er 50 km/klst er hann 300 klukkustundir undir stýri á ári eða ca 50 mínútur á dag. Það eru um 3% af hverju ári.
Ef hann gæti dáið undir stýri eða fengið svo alvarlegt áfall að hann gæti á engan hátt brugðist við með því að stöðva bílinn á hverju ári væri áhættan á því að það gerðist einn á móti 30.
En að meðaltali gæti slíkt í mesta lagi hent einn bílstjóra tvisvar á ævinni þannig að í raun er áhættan af því að hjartveikur maður eða maður, sem á á hættu að verða snögglega bráðkvaddur undir stýri þegar það gerist, margfalt minni en 1 á móti 30, heldur frekar 1 á móti 600 til 1000.
Ef allir væru með þennan veikleika væri málið samt alvarlegt en sem betur fer er það mikill minnihluti fólks sem verður fyrir þessu þannig að enn má deila og fá það út að líkurnar fyrir hvern mann séu einn á móti mörgum þúsundum eða tugþúsundum.
Þar á ofan verður enn að nota deilingu til að finna út áhættuna á því að þetta skaði aðra, því að jafnvel þótt maður missi stjórn á bíl vegna aðsvifs er ekki þar með sagt að alvarlegt slys þurfi að verða.
Hvað flugið snertir eru líkurnar enn minni. Allt fram undir síðustu ár var mönnum með atvinnuflugmannsréttindi skylt að fara í mjög dýrar og nákvæmar læknisskoðanir, langt umfram það sem gerist hjá öðrum stéttum.
Ágætur Bandaríkjamaður stóð fyrir ítarlegri rannsókn þar í landi til að finna út hvaða árangri þetta hefði skilað.
Í ljós kom að hann var svo sáralítill að auðvelt var að álykta, að öllum þessum peningum væri betur varið í flestar aðrar öryggisráðstafanir, því að stór hluti áfallanna, sem menn urðu fyrir, var þess eðlis að engin leið var að sjá þau fyrir, hversu dýrar og miklar skoðanir sem voru framkvæmdar.
Nefni tvö dæmi. Sigurður Þórarinsson var grannur og léttur og það vakti athygli mína þegar ég flaug með hann austur í Lakagíga, þá kominn vel á áttræðisaldur, hve létt hann hljóp upp á gígana án þess að blása úr nös, greinilega í fantaformi, miklu betra formi en flest á hans aldri.
Samt lést hann úr hjartaáfalli og við skoðun kom í ljós að æðakerfi hans var afar illa farið og nánast ónýtt.
Helgi Jónsson flugstjóri kenndi sér aldrei meins þangað til hann hneig niður bráðkvaddur við hlið flugvéla sinna á Reykjavíkurflugvelli. Hafði þó farið í miklar, dýrar og nákvæmar skoðanir alla tíð sem atvinnuflugmaður, og eftir fertugt eru slíkar skoðanir tvær á ári hjá mönnum með atvinnuflugmannsréttindi.
Síðustu árin hafði flugtímunum fækkað hjá honjum og ef maður gefur sér að þeir hafi verið um 300 á ári voru líkurnar á því að hann fengi áfallið í flugi 1 á móti 30, og af því að hluti af fluginu var kennsluflug má geta þess, að ekki þarf marga flugtíma til þess að nemandi geti bjargð sér ef kennarinn fellur skyndilega frá.
Í áætlunarflugi og flugi stærri véla eru flugmennirnir tveir og sá hluti flugsins, þar sem þeirra er virkilega þörf, við flugtak og lendingu, er mjög lítill hluti af fluginu.
Mestallt flugið flýgur sjálfstýringin vélinni.
Flugmönnum er innrætt og kennt að vera viðbúnir sem flestu. Þótt aldurinn skipti máli er það ekki einhlítt. Besti listflugmaður Íslands er kominn á níræðisaldur og Bob Hoover framkvæmdi listflugsatriði fram yfir áttrætt sem enginn í heiminum hefur leikið eftir honum.
Ekkert hefur enn fundist að mér við tvær læknisskoðanir á ári sem bendir til þess að ég sé í áhættu að fá hjartaáfall eða heilablóðfall.
En dæmið varðandi þá Sigurð og Helga hér á undan sýnir, að enginn er óhultur og í ætt minni eru dæmi um heilablóðföll.
Ömmubróðir minn, Bjarni Runólfssonar í Hólmi, lést óvænt úr heilablóðfalli 48 ára að aldri.
Ef svo vildi til að ég færi óvænt snögglega á vit feðra minna eins og hent getur alla hvenær sem er og ég væri við stýri flugvélar eða bíls væri aðalatriðið í mínum huga að það ylli ekki tjóni á öðrum en mér.
Mér fyndst bara flott að líða útaf í FRÚnni þar sem hún stæði á Sauðárflugvelli eða annars staðar í náttúru Íslands, samanber síðustu þessar ljóðlínur í lok í lagsin "Flökkusál":
...."Sitjandi í auðninni upp við stóran stein
starandi á jökulinn ég bera vil mín bein..."
Flugstjórinn dó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki svartsýnn Ómar ;)
En glaður skal ég kóa hjá þér í sumar ef svo ber við.
Jón Logi (IP-tala skráð) 16.2.2012 kl. 09:17
Auðvitað eiga flugmenn að fara reglulega í læknisskoðun, hvað annað. Jafnvel þótt líkurnar á því að tveir flugmenn veikist skyndilega, séu nær því að vera núll. Ekki síst þarf að fylgjast vel með flugmönnum, sem eru einir á lítilli rellu, en þó með farþega eða gesti.
Einnig þarf "maintenance" allra véla að fara eftir ströngustu reglum. Um þess hluti skal ekki vera neinn "compromise".
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.2.2012 kl. 09:47
Maintenance fer eftir svo ströngum reglum um þessar mundir, að hálfur einkavélaflotinn er fastur við jörðina. Það horfir þó til betri vegar.
Og að fara með farþega í smárellu....ef einhver er vanur, þá er sá venjulega frammí. Það er reyndar sennilega meiri hætta af því að framsætisfarþegi geri einhverja vitleysu,heldur en að flugmaðurinn sofni svefninum langa.
Jón Logi (IP-tala skráð) 16.2.2012 kl. 12:08
Bloggið þitt að þessu sinni Ómar er ákaflega hugnæmt og innilegt eins og það gerist best. Þessi örlög að einhvern tíma skal hver maður deyja, hafa oft verið skáldum, rithöfundum, hugsuðum og heimspekingum mikill og góður efniviður. Og frásagnir af skyndilegu líkamlegu áfalli, jafnvel dauða, eru oft ákaflega áhrifamiklar.
Fyrir um 20 árum var flugkennari með nemanda sínum í flugi yfir Borgarfirði. Allt í einu verður nemandinn var við að ekki væri allt með felldu með kennarann. Hann leið út af, svaraði ekki né sýndi nein viðbrögð. Sem betur fer var nemandinn fljótur að bregðast hárrétt við, hafði samband við flugturninn í Reykjavík og fékk leiðbeiningar hvernig hann ætti að lenda flugvélinni upp á eigin spýtur. Auðvitað var allri flugumferð beint frá í skyndi og við lendingu var sjúkrabíll til reiðu sem ók sjúklingnum á sjúkrahús. Í ljós kom heilablóðfall sem hafði þau áhrif að síðan hefur hann verið lamaður að verulegu leyti. Nú lifir hann enn og er orðinn 80 ára!
Mikið finnst mér vænt um að heyra að þú sért náskyldur Bjarna Runólfssyni í Hólmi, þeim merka forystumanni við að virkja bæjarlæki og rafvæða sveitirnar.
Góðar stundir!
Guðjón Sigþór Jensson, 16.2.2012 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.