16.2.2012 | 19:20
Kirkjuskipan og Þjóðkirkja.
Þegar talað er um að það sé álitamál hvort nefna eigi Þjóðkirkjuna sérstaklega í stjórnarskrá eins og gert er í núverandi stjórnarskrá er rétt að hafa það í huga í frumvarpi Stjórnlagaráðs er í 19. grein sérstaklega fjallað um "kirkjuskipanina" og í því felst auðvitað að um er að ræða stöðu þjóðkirkjunnar í kirkjuskipaninni.
Það er því í raun fjallað um þjóðkirkjuna í 19. greininni án þess að nefna hana á nafn og greinin hljóðar svona:
Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins. Ný samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það ákvæði undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.
Þetta þýðir að fái þessi grein brautargengi fellur aðeins út sú setning úr núverandi skipan að þjóðirkjan njóti sérstakrar verndar og stuðnings íslenska ríkisins, eitt íslenskra trúfélaga.
Raunar segir í núverandi grein "hin evangelisk lúterska þjóðirkja" en þess ber að geta að fríkirkjusöfnuðir eru líka evangelist lúterskir.
Á kirkjuþingi hefur komið fram sá skilningur að þessi setning sé úrelt og úr takt við tímann og því er ekki að sjá að hún eigi tilverurétt lengur, enda er í öðrum stjórnarskrárákvæðum almenn fyrirmæli um trúfélög almennt sem Þjóðkirkjan myndi njóta eins og önnur trúfélög.
Í núgildandi grein er hins vegar ákvæði þess efnis að ekki megi "breyta kirkjuskipan" nema að það fari í þjóðaratkvæði.
Þeirri tilhugun er haldið í frumvarpi Stjórnlagaráðs og það hlýtur að teljast lýðræðislegt og í samræmi við nútíma hugmyndir um lýðræði að þjóðin ráði sjálf um þá umgerð, sem Þjóðkirkjan verði í.
Í Stjórnlagaráði voru skoðanir skiptar um þetta mál, enda ráðið skipað fólki víða úr samfélaginu.
Fyrirfram mátti alveg eins búast við því að ekki næðist samkomulag og að ráðið myndi annað hvort sleppa því að skila tillögu um þetta eða bjóða upp á valkosti.
Okkur tókst að ná niðurstöðu sem sætti þessi sjónarmið, enda ljóst að í nýrri stjórnarskrá verður að vera eitt ákvæði um þetta.
Ýmsir óttast hins vegar að skiptar skoðanir um þetta sérstaka og afmarkaða mál geti valdið því að óþarflega margir kjósendur láti það eitt hafa úrslitaáhrif á það hvernig þeir greiða atkvæði um stjórnarskrána í heild, til dæmis þeir sem vlja ekki fella burt núverandi ákvæði um sérstakan vernd og stuðning ríkisvaldsin við Þjóðkirkjuna.
Nú er að sjá hvort og þá hvað stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis leggur fyrir Stjórnlagaráð sem kallað hefur verið saman í næsta mánuði.
Kjósi um þjóðkirkjuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það verður ekki kosið um hvort hér verði þjóðkirkja... það er ekki kosningamál; Það er óviðunandi, móðgandi.. mannréttindabrot, að ríkið púkki undir og plöggi einu trúfélagi fram yfir önnur.. Fullur aðskilnaður er það eina í stöðunni.
DoctorE (IP-tala skráð) 16.2.2012 kl. 19:37
Mér finnst tillaga Stjórnlagaráðs skynsömi í ljósi ágreinings um hvort hér eigi að vera ríkiskirkja eða ekki. Hins vegar er þessi setning þín sérstök:
". . .óþarflega margir kjósendur láti það eitt hafa úrslitaáhrif á það hvernig þeir greiða atkvæði um stjórnarskrána í heild, til dæmis þeir sem vlja ekki fella burt núverandi ákvæði um sérstakan vernd og stuðning ríkisvaldsin við Þjóðkirkjuna."
Sérstök þar sem á undanförnum 3 árum hafa 3/4 þátttakanda í skoðanakönnunum stutt aðskilnað ríkis og kirkju. Er ekki ástæða til að óttast að sá mikli meirihluti láti það hafa áhrif á hvernig þeir kjósa?
Út frá trúfrelsishugsuninni tel ég að hér eigi ekki að vera ríkiskirkja. Allt annað s.s. kostnaður, uppgjör við kirkjuna, starf félagsþjónustu hennar og annað sem skiptir vissulega máli skiptir minna máli. Það samrýmist einfaldega ekki trúfrelsi að ástandið verði óbreytt.
Því má spyrja sig: Eru þingmenn að ganga í takt við niðurstöður skoðanna almennings í málinu?
Bjarni Jónsson (IP-tala skráð) 17.2.2012 kl. 11:44
Það kemur í ljós þegar þingnefndin spilar út kortum sínum til okkar hvort þingmenn eru að ganga í takt við skoðanir almennings í málinu.
Ég tel raunar að lausnin, sem felst í tillögu Stjórnlagaráðs sé í takt við vilja meirihluta þjóðarinnar.
Hinu er ekki að neita að tilfinngahiti virðist rísa svo hátt hjá tveimur hópum, - þeim sem vilja ekki hrófla við forréttindaákvæðinu í núverandi stjórnarskrá, og hinum, sem vilja ekkert ákvæði um kirkjuskipan og jafnvel ekki neinn stuðning við trúar- og lífsskoðunarfélög, að þessir tveir hópar gætu að sumra áliti átt það til að leggjast sameiginlega gegn 39. grein frumvarpsins.
Ómar Ragnarsson, 17.2.2012 kl. 20:20
Ef það verða kosningar í sumar, eins og flest bendir til, vona ég að Alþingi noti tækifærið og spyrji um afstöðu þjóðarinnar til einstakra tillagna Stjórnlagaþings. Þar á meðal um þetta atriði.
En spurningin þarf að vera nákvæmt orðuð. Þannig að ekki sé neinn möguleiki á að misskilja eða setja fyrirvara.
Heiðrún Sveinsdóttir (IP-tala skráð) 18.2.2012 kl. 18:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.