Vandamál "hrun"þjóða.

Mál Gunnars Andersen leiðir hugann að einu stærsta vandamáli þjóða, þar sem orðið hefur þjóðfélagslegt hrun.  Dæmi um þetta er efnahagshrun Færeyja á tíunda tug síðustu aldar, hrun kommúnismans í Austur-Evrópu, hrun aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku, hrun nasismans í Seinni heimsstyrjöldinni og loks Hrunið hjá okkur.

Vandamáli er í stuttu máli það, að þegar hreinsa á til að geta byrjað nýtt og heilbrigðara líf, eru oftast svo margir flæktir, beint eða óbeint eða mismikið í þær athafnir og/eða hugarfar sem var fyrir hrunið, að erfitt eða ómögulegt er að framkvæma endurreisnina og hreingerninguna án þátttöku þeirra sem voru gerendur í gamla kerfinu, sumir jafnvel fyrir mörgum árum.

Ummæli í bloggheimum um uppsögn Gunnars Andersen eða það sem í útvarpsfréttum var orðað þannig, að "hann mætti búast við uppsögn á næstunni" eru mjög mismunandi.

Sumir segja að Gunnar hafi verið einhver duglegasti embættismaðurinn við endurreisnina og afar hæfur, en aðrir benda á að aðalmálin sem brenni á endurreisninni hafi ekki verið tekin föstum tökum.

Þekkt er það fyrirbæri úr skólastarfi að oft séu þeir bestir kennarar sem voru sjálfir ódælir í skóla og "erfiðir nemendur." Þeir skilji betur en aðrir hugarheim og vandamál fyrirferðarmikilla og erfiðra nemenda og nái því betur tökum á því að beina þeim á rétta braut en aðrir kennarar.

Þetta má yfirfæra á fleiri svið og hugsanlega á svið Fjármálaeftirlitsins. Og spurningin nú hlýtur ekki aðeins að verða hvort Gunnar hætti, heldur líka hver geti tekið við starfi hans.

Lenda menn aftur í því sama, að það verði erfitt að finna einhvern jafnhæfan sem aldrei hefur tengst neinu af því sem tíðkaðist í aðdraganda Hrunsins og var þá talið bæði löglegt og jafnvel siðlegt ?

Og fáum við þá einhvern sem þekkir lítið til í fjármálaheiminum og á af þeim sökum erfitt með að ná árangri í starfinu?

Bankakerfið er gott dæmi um vanda af þessu tagi. Á sínum tíma spiluðu nær allir bankamenn með í rúllettunni, af mismiklum ákafa og mismikið meðvitaðir um eðli hennar.

Raunar urðu flestir að spila með, annars voru þeir að hætta á að þeir væru ekki taldir nógu duglegir starfskraftar. Við blasir að engin leið er að endurreisa bankakerfið nema stór eða jafnvel stærstur hluti starfsmanna sé þessu marki brenndur og spurningin um þá starfsmenn snúist því um það hvort endurhæfing þeirra sé nógu góð eða sannfærandi.

Ég hef áður bloggað um það hvernig hugsunarháttur Hrunsins veður enn uppi hjá mörgum og nær alveg upp til þeirra sem ráða ferð í auðlinda- og orkumálum þjóðarinnar.

Þetta vandamál hafa allar hrunþjóðir þekkt og einnig það að horfast í augu við að erfitt eða ómögulegt geti verið í mörgum tilfellum að fá til hreinsunarverka eingöngu þá sem hafa aldrei ánetjast þessum hugsunarhætti.

Nú sé ég til dæmis hjá Þorvaldi Gylfasyni að einn þeirra sem settir voru í að víkja Gunnari frá sé sjálfur í tengslum sem veki spurningar.


mbl.is Mun andmæla kröftuglega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vandamál okkar eru einkum tvenn. Smærð þjóðarinnar og ójafnvægi í byggð landsins. Eftir því sem hópurinn er stærri, eru fleiri hæfileikamenn, en einnig fleiri hálfvitar. Í smærri hópi eru svo eðlilega færri hæfileikamenn og færri hálfvitar. Ójafnvægið í byggð landsins er mjög alvarlegt mál, sem enginn virðist þora að takast á við. Kannski er það engin tilviljun að einkennandi fyrir Hrunlöndin tvö Ísland og Grikkland, er einmitt þetta ójafnvægi. Í Grikklandi snýst allt um Aþenu borg, hér á skerinu höfum við Reykjavík og höfuðborgarsvæðið. Þessi samþjöppun á sama skikanum ýtir undir spillingu, klíkumyndanir og fáránlega samkeppni í hégóma og vitleysu. Um það höfum við legíó af dæmum úr henni Reykjavík.  

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 18.2.2012 kl. 14:08

2 identicon

Það eru margir vammlausir og traustir menn sem komu ekki nálægt hruninu sem starfsmenn fjármálafyrirtækja eða höfðu hagsmuna að gæta í því sem gætu tekið við af Gunnari. Góður millileikur er að fá útlending í starfið til eins eða tveggja ára eins og gert var í Seðlabankanum.

Gunnar var langt í frá hæfasti maðurinn sem sótti um á sínum tíma. Alls voru þeir 19 sem sóttu um og í það minnsta tveir voru með meiri reynslu en Gunnar en menntun er líka matsatriði alveg eins og reynsla.

Björn S. Lárusson (IP-tala skráð) 18.2.2012 kl. 14:55

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

„efnahagshrun Færeyja á tíunda tug síðustu aldar, hrun kommúnismans í Austur-Evrópu, hrun aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku, hrun nasismans í Seinni heimsstyrjöldinni og loks Hrunið hjá okkur“.

Hrunið hjá okkur má feðra frjálshyggjunni.

Í öðru landi var frjálshyggjunni plantað niður þvert gegn vilja þjóðarinnar, rétt eins og hjá okkur: Eftir byltingu herforingjanna í Chile gegn Allende stjórninni í sept. 1973 var óheft frjálshyggja innleidd, svona til að sjá hvernig hún fúnkeraði. Reyndin varð sú að fámenn auðmannastétt auðgaðist gríðarlega, á kostnað þeirra sem minna höfðu og jafnvel báru ekkert úr bítum þrátt fyrir mikla vinnu.

Um aldarfjórðungi síðar var frjálshyggjudraugnum sigað lausum á Íslandi einnig með skelfilegum afleiðingum. Einkennin voru nákvæmlega þau sömu: þeir ríku urðu ríkari en hinir hröpuðu í lífskjörum.

Varðandi Gunnar þá hefði hann mátt standa sig betur. T.d. að „gleyma“ tveim aflandsfélögum á Guernsey er óafsakanleg yfirsjón.

Nú er vinstri stjórnin þrátt fyrir knappan meirihluta með mikinn meðvind, t.d. búið að hækka lánshæfismat okkar hjá Finch. Ekki heyrist svo mikið sem minnsta bofs hjá hrunflokkunum í stjórnarandstöðunni. Kannski þeir séu ráðþrota eða eru þeir að bíða eftir „yfirstjórnarandstöðunni“ á Bessastöðum?

Góðar stundir.

Guðjón Sigþór Jensson, 18.2.2012 kl. 18:25

4 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

"Varðandi Gunnar þá hefði hann mátt standa sig betur. T.d. að „gleyma“ tveim aflandsfélögum á Guernsey er óafsakanleg yfirsjón." Svona bara að benda mönnum að fara rétt með. Þetta var árið 2001. Og eins og Gunnar hefur sagt frá skv. fréttum þá var þetta sprurning þar sem að þessi félög voru í eigu einhvers sjóðs em rekin var í Bretlandi. Hann hafi samið þetta bréf i samráði við lögfræðing Landsbankans og þetta má er jú 11 ár gamalt mál. Þetta er ekkert sem gerðist í starfi hans hjá FME eins og ætla mætti eftir ummælunum  hér að ofan

Magnús Helgi Björgvinsson, 18.2.2012 kl. 20:28

5 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Bendi á þessa frétt um málið http://eyjan.is/2012/02/18/er-til-sa-madur-sem-telst-haefur-til-ad-stjorna-fme-fair-myndu-standast-alika-rannsokn-og-gunnar/

En þar kemur fram m.a.

Fram kemur einnig að rannsóknir um hæfi Gunnars hafi verið ítarlegar og staðið um langa hríð og ýja höfundar að því að fáir menn myndu standast álíka skoðun.

Ekki er örgrannt um að sú hugsun leiti á að vandasamt kynni að verða að finna til starfans einstakling sem án athugasemda stenst skoðun af þessum toga.

Magnús Helgi Björgvinsson, 18.2.2012 kl. 20:32

6 identicon

Eiga stjórnarmenn ekki að geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir og staðið við þær?

Að kaupa rándýr lögfræðiálit og aftur og aftur
þar til loks kemur eitthvað sem talið er að hægt sé að nota til að reka Gunnar lítur mjög undarlega út.

Grímur (IP-tala skráð) 19.2.2012 kl. 08:07

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Eftir á að hyggja tel eg Gunnar hafa staðið sig vel.

Stjórn Fjármálaeftirlitisins tekur dularfulla ákvörðun að kvöldi föstudag s.l.,daginn sem Baldur Guðlaugsson fyrrum ráðuneytisstjóri var dæmdur til þungrar refsingar fyrir innherjamisferli.

Sem forstjóri Fjármálaeftirlitisins var Gunnar Andersen í fremstu röð þeirra sem rannsökuðu meint brot Baldurs sem leiddu til ákæru og sakfellingar. Gunnar er sagður hörkuduglegur en varkár sem er mikilvægt.

Í DV í dag er sagt frá því að Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður hafi fengið 248 milljónir afskrifaðar. Þetta er sami Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður sem var annar þeirra manna sem settu saman nýjustu skýrsluna sem telur að Gunnar sé ekki hafinn yfir vafa og vísað í skýrslu Gunnars frá 2001.

Nánar: http://mosi.blog.is/blog/mosi/entry/1224302/

Góðar stundir og Gunnar áfram í Fjármálaeftirlitinu.

Guðjón Sigþór Jensson, 20.2.2012 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband