10.3.2012 | 10:10
Eldvarpavirkjun, - tvöfalt glapræði.
Allt frá tímum Guðmundar Pálmasonar, jarðfræðings, sem var helsti sérfræðingur landins í jarðvarmavirkjunum, hafa Svartsengi og Eldvörp verið talin taka orku sína frá sameiginlegu orkuhólfi.
Með Eldvarpavirkjun er því framið tvöfalt glapræði.
Annars vegar, vegna þess að endingartíminn er takmarkaður, stendur til losa jarðvarmaorkuna hraðar úr hólfinu og þar með að tæma það fyrr. Með þessu yrði gengið enn gróflegar á rétt komandi kynslóða en þegar er gert.
Hins vegar, vegna þess að fara þarf austur að Lakagígum til að sjá gígaröð á borð við Eldvörp. Eldvörp eru í raun smækkuð mynd af Lakagígum, að vísu ekki eins fjölbreytt, en engu að síður fyrirbæri sem hvergi í heiminum er hægt að sjá og skoða nema hér á landi.
Þegar við bætist að þessi gígaröð er í næsta nágrenni alþjóðaflugvallar sem langflestir aðkomumenn koma til, er það enn verra glapræði að fremja þar stórfelld óafturkræf umhverfisspjöll til þess eins að hraða því að tæma orkuhólfið.
Gígaraðir eru eitt besta dæmið um sköpun nýs lands á flekaskilum sem hægt er að sjá í veröldinni.
Ef Eldvörpum verður umturnað óafturkræft með virkjanamannvirkjum, borholum, leiðslum og vegum eyðileggur það alveg upplifun fólks af þessari sköpun, sem ekkert land í heimi býður upp á í jafn miklum mæli og Ísland.
Af því að það virðist ævinlega þurfa að rökstyðja allt í þessum efnum með efnahagslegum rökum liggur það ljóst fyrir að peningalega eru Eldvörp miklu dýrmætari sem ósnortnust heldur en sem virkjanasvæði.
Í heildina tekið mun Eldvarpavirkjun nefnilega ekki skila krónu meira í peningalegan ávinning af orkuframleiðslu í heildina tekið.
Hún yrði dæmi um græðgi þess, sem hugsar aðeins um að fá sem mesta peninga sem fyrst, þótt það bitni á afkomendunum og jafnvel honum sjálfum áður en upp er staðið.
Það er lágmarkskrafa í ljós þess, sem að ofan hefur verið rakið, að Eldvvörp fari ekki í nýtingarflokk, heldur í biðflokk, og aldeilis makalaust, að þau skuli ekki fara í verndarflokk (sem er í raun ekki rétt orð, heldur væri réttara að tala um verndarnýtingarflokk).
Eins og sést á neðri myndinni hefur þegar verið lagður vegur að borholu við miðju gígaraðarinnar.
Þetta hefði að vísu betur verið látið ógert, og einhverjir kunna að segja að úr því að hvort eð er sé búið að fremja þessa röskun, sé alveg eins gott að halda því bara áfram.
Þennan hugsunarhátt hef ég gefið nafnið "hvort eð er" röksemdina, en hún er ein af eftirlætisaðferðum þeirra sem telja að best sé að virkja allt sundur og saman.
Í þessu tilfelli í Eldvörpum er þessi röskun þó svo lítið brot af því sem gert yrði ef virkjað yrði til fulls, að ekki má falla fyrir þeirri freistingu að halda framkvæmdum þarna áfram, ekki hvað síst vegna þess, að Eldvarpavirkjun yrði eitt versta dæmið um þá takmarkalausa græðgi og aðför að rétti komandi kynslóða sem enn lifir góðu lífi hér á landi.
Engar virkjanir í neðri Þjórsá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Heyr!heyr! Stodvum thessa vidbjodslegu graedgi sem trollridur thjodfelaginu og okkar miklu fegurd sem hefur fengid svo til ad vera osnert, fyrir utan allar thessar risavoxnu onaudsynlegu virkjanir sem hafa eydilagt modur natturu haegri vinstri!!
Anna Hlin Sekulic (IP-tala skráð) 10.3.2012 kl. 12:03
Þú virðist ekki vilja ræða það Ómar - á hverju á þjóðin að lifa?
Nú er staðan svona:
Af hverju heldur þú að gengið sé farið að síga núna - nema af því að þjóðin nær ekki endum saman - í heildar utanríkisviðskiptum.
Vöruskiptahalli er jákvæður (þökk sé markíl sem kom óvænt...) En heildar viðskiptajöfnuður er með vaxandi tapi aftur... eftirspurn eftir gjaldeyri - er meiri en framboðið...
Launin eru of lág , - fólk nær ekki endum saman - allt að helmingur fjölskyldna landsins - hvernig ætlar þú að bjarga því? Fara bara í gögnutúr kring um eldvörpin?
Ertu ekki að skilja það - að Bláa lónið - er orðið eitt mesta undur veraldar - það er aukaafurð vegna virkjana á jarðhitasvæði...
Er ekki hægt að gera nýtt "undur veraldar" og tengja það virkjun í Eldvvörpum.
Hittumst frekar og förum saman í hugarflug um það hvernig við getum hugsanlega - gert hvoru tveggja - notið állrar útivistar - enn meira þarna - og jafnframt byggt upp afþreyingariðnað á svæðinu. Þú mátt ekki skella hurðin svona fast á þetta Ómar.
Áfranhaldandi stöðnun í virkjunum - eða auknum fiskveiðum - getur í alvöru sett þjóðina í gjaldþrot Ómar... Við verðum að finna málamiðlun.
kv KP
Kristinn Pétursson, 10.3.2012 kl. 14:26
Þakka þér pistilinn Ómar. Ég þekkti öðlinginn Guðmund Pálmason vel. Vann mörg sumur undir hans stjórn hjá Orkustofnun. En hann var eðlisfræðingur en ekki jarðfræðingur. Skiptir svo sem ekki miklu í samhenginu og að sjálfsögðu hafði hann yfirgripsmikla þekkingu á jarðfræði. Haltu áfram, ekki veitir af í baráttunni við virkjunarbrjálæðið.
Sigurður Sveinsson, 10.3.2012 kl. 14:50
Þegar ég bjó í Keflavík var það almenn skoðun staðarbúa að með aukinni ferðamennsku yrði að flytja flugvöllinn innettir til að útlendingar þyrftu ekki að horfa á ljótann Reykjanesskagann á leið til borgarinnar.
Þetta var skoðun sömu ættar og að Mývatn hefði myndast við að Fjandinn hefði migið á móti sólinni.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 10.3.2012 kl. 14:51
NOKKRAR STAÐREYNDIR:
Útflutningsverðmæti þjónustu eru hér meiri en útflutningsverðmæti stóriðju.
Útflutningsverðmæti samgangna, flutninga og ferðaþjónustu var níu milljörðum króna meira árið 2009 en útflutningsverðmæti áls og kísiljárns.
Meðallaun í ferðaþjónustu eru hér ekki lægri en meðallaun í stóriðju.
Flestir í ferðaþjónustunni hér starfa allt árið.
Ferðaþjónusta skapar hér fleiri störf en stóriðjan.
Einungis þriðjungur virðisaukans í stóriðju verður eftir hérlendis.
Störf í stóriðju eru þau dýrustu í heiminum og þar kostar hvert starf að minnsta kosti einn milljarð króna en störf í hátækni 25-30 milljónir króna.
Þorsteinn Briem, 10.3.2012 kl. 15:35
Fjöldi starfa í ferðaþjónustunni hér á Íslandi var um 8.400 árið 2007 (fyrir fjórum árum) og þar af voru 5.400 störf í einkennandi ferðaþjónustugreinum, til dæmis gisti‐ og veitingaþjónustu, farþegaflutningum og ferðaskrifstofum.
Um þrjú þúsund störf voru þá í tengdum greinum, til dæmis smásölu, afþreyingu, verslun, menningu, tómstundum og þjónustu tengdri farþegaflutningum.
Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum - Febrúar 2010
Þar að auki er ferðaþjónusta í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.
Stóriðja er hins vegar einungis á örfáum stöðum á landinu.
7.3.2012:
"Þrjú álver eru rekin á Íslandi og hjá þeim starfa um tvö þúsund manns en þegar bætt er við þeim sem tengjast álverunum teljast um 4.800 starfa í áliðnaði og tengdum greinum.
Þetta kemur fram í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir Samtök álframleiðenda."
Fjöldi starfa í ferðaþjónustunni hérlendis var um 8.400 árið 2007 og ef þeim störfum hefur fjölgað frá þeim tíma um 6,8% á ári að meðaltali, líkt og erlendum ferðamönnum fjölgaði hér á síðasta áratug, voru þessi störf um ellefu þúsund í fyrra, meira en tvisvar sinnum fleiri en í álverunum hér og tengdum greinum.
Þorsteinn Briem, 10.3.2012 kl. 15:53
Það eiga syóriðjan og ferðamennskar sameiginlegt að aðeins 10% starfa í stóriðju eru A4 störm og innan við 50% í ferðamennsku á móti 80-90% í öðrum greinum.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 10.3.2012 kl. 15:57
Mbl.is 12. 6.2008: "Á vefsíðu Fjarðaáls kemur fram að meðallaun framleiðslustarfsmanna eru tæpar 336 þúsund krónur á mánuði, með INNIFALINNI yfirvinnu, vaktaálagi og fleiru.
Hjá Norðuráli á Grundartanga unnu um 500 manns í árslok 2009, þar af um 400 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness, og á vef félagsins er tekið sem dæmi að starfsmaður, sem unnið hefur Í SJÖ ÁR hjá Norðuráli, hafi fengið 308.994 króna mánaðarlaun í nóvember 2010.
Þorsteinn Briem, 10.3.2012 kl. 16:04
Samkvæmt launakönnun VR, sem gerð var í ársbyrjun 2009 og tæplega ellefu þúsund manns svöruðu, voru heildarmánaðarlaun á hótelum, veitingahúsum og ferðaskrifstofum 362 þúsund krónur, í samgöngum á sjó og landi og flutningaþjónustu 377 þúsund krónur og flugsamgöngum 391 þúsund krónur.
(Og í matvæla- og drykkjariðnaði voru heildarmánaðarlaunin 391 þúsund krónur, lyfjaiðnaði 411 þúsund krónur, ýmsum iðnaði og byggingastarfsemi 441 þúsund krónur, byggingavöruverslunum 363 þúsund krónur og stórmörkuðum, matvöruverslunum og söluturnum 352 þúsund krónur.)
Félagssvæði VR nær yfir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar, Álftaness, Kjósarhrepps, Akraness og nágrennis, Húnaþings vestra, alls Austurlands og Vestmannaeyja.
Launakönnun VR 2009 - Grunnlaun, heildarlaun og vinnutími á hótelum, veitingahúsum, ferðaskrifstofum, í samgöngum á sjó og landi, flutningaþjónustu og flugsamgöngum - Sjá bls. 23-25
Þorsteinn Briem, 10.3.2012 kl. 16:08
Um 1.600 íslenskir flugmenn, flugfreyjur, flugþjónar, flugvirkjar og flugumferðarstjórar starfa hér í ferðaþjónustunni við innanlandsflugið og millilandaflugið.
Rúmlega 600 eru í Félagi atvinnuflugmanna (FÍA), rúmlega sjö hundruð í Félagi flugfreyja. um 200 flugvirkjar vinna hjá Icelandair og Flugfélagi Íslands og um 100 flugumferðarstjórar starfa hér.
Meðallaun flugmanna virðast vera um ein milljón króna á mánuði, samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar 2009 og þar má finna flugfreyjur með 400 og 500 þúsund krónur á mánuði, flugvirkja með 400 og 700 þúsund krónur á mánuði og flugumferðarstjóra með um eina milljón króna á mánuði.
Þorsteinn Briem, 10.3.2012 kl. 16:13
"Á hverju eigum við þá að lifa?" er spurt. Og svarið er væntanlega varðandi Eldvörp það að við eigum að hrifsa sem mest af takmarkaðri orku Svartsengis-Eldvarpa til okkar strax og láta afkomendur okkar standa fyrr og meira frammi fyrir því að spyrja: Á hverju eigum VIÐ nú að lifa þegar ekki er aðeins búið að klára orkuna mun fyrr en ella, heldur líka eyðileggja verðmætt náttúrufyrirbæri í leiðinni?
Það liggur fyrir að jafnvel þótt öll orka Íslands yrði sett í álver og þar með ómetanleg náttúruverðmætum fórnað, þá munu aðeins um 2% vinnuaflsins fá vinnu í álverunum og í mesta lagi 8% þjóðarinnar starfa við það og svonefnd "afleidd störf."
Og þá vaknar spurningin: Á hverju eiga 92% þjóðarinnar að lifa?
Ómar Ragnarsson, 10.3.2012 kl. 16:38
Þetta er 100% hárrétt hjá þér Ómar!
Anna Ragnhildur Kvaran (IP-tala skráð) 10.3.2012 kl. 16:45
Á hverju eigum við að lifa? -spyr Kristinn.
Ég á ekkert patent svar við því.
Kristinn ætti hinsvegar að spyrja; -Hvaðan eiga börn hans og barnabörn að fá sina raforku?
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 10.3.2012 kl. 18:12
Fyrir þá sem telja virkjanir lausn allra okkar vandamála gæti verið gott að hafa í huga að þegar stærstu framkvæmd íslandssögunnar lauk, hafði verið kreppa á Íslandi í heilt ár.
Smári Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 10.3.2012 kl. 19:53
Mikill eldvirkni á þessari síðu og skemmtileg mynd af gígaröð Eldvarpa. Fyrst verður maður þó að fara í gegnum Illahraun, Skipstígshraun, Bræðrahraun og Sundvörðuhraun. Síðan er hægt að halda áfram um Rauðhól, gegnum Eldvarpahraun að Sýrfellshrauni og loks um Klofningshraun vilji maður skoða þessi fyrirbæri. Eitthvað mikið hefur gengið þarna á á sínum tíma.
Merkilegt að ekkert útivistarfélag hafi pælt þennan akur. Vel er hægt að sjá fyrir sér áhugasama ferðamenn fara þarna á milli lóna . Ef virkjað, kemur þá heitt lón og rafmagn? Maðurinn er umbrotamikill rétt eins og flekasmiðurinn mikli, breytir því sem hann vill, hvenær sem hann telur það þjóna markmiðum sínum. Þá má spyrja hver ræður för þessari og hve lengi má bora.
Sigurður Antonsson, 10.3.2012 kl. 20:10
Svæðið gargar á upplifunarferðamennsku sem byggir á kjörum fyrri kynslóða og því sem vaxandi ferðamannamarkhópur sækir eftir, að upplifa lífsbaráttu (survival) fyrri kynslóða í sambúð við erfitt land.
Við norðurenda Eldvarpa liggur gamall göngustígur, Árnastígur, frá Grindavík norðvestur í átt að Höfnum. Þar er hægt að fanga ímyndunaraflið með göngu í fótspor lúinna vermanna með poka á bakinu.
Inni í Sundvörðu er stórfurðuleg og einstök hleðsla á hraunbyrgjum inni í hraunbrún og er eitt byrgið nokkuð fjarri hinum.
Giskað hefur verið á að þetta hafi verið felustaður Grindvíkinga sem flúðu undan sjóræningjunum í Tyrkjaráninu og sýnist mér það vera eina sennilega skýringin, og ysta einstaka byrgið þá verið fyrir þann sem var á ´verði til að fylgjast með mannaferðum.
Það er hægt að byggja upp dramatíska ferð um þetta svæði þar sem sköpun Íslands og lífsbarátta þjóðarinnar búa til ógleymanlega upplifun.
Enginn hefur lagt það niður fyrir sig hvaða peningar gætu fengist með því að vinna að svona verkefni þarna.
Virkjun, með stöðvarhúsi, skiljuhúsi, vegum, borholum, gufuleiðslum og raflínum á möstrum myndi gereyðileggja möguleikana á slíkri upplifun.
En auðvitað mega menn ekki heyra slíkt nefnt. Nei, heldur skal þessu umturnað og það sem allra hraðast þannig að eftir nokkra áratugi verði orkan gengin til þurrðar og svæðið skilið eftir lemstrað.
Ómar Ragnarsson, 10.3.2012 kl. 21:07
Hluti úr orði féll niður hér fyrir ofan. Í stað Sundvörðu átti að standa "...inni í Sundvörðuhrauni."
Ómar Ragnarsson, 10.3.2012 kl. 21:08
Nú er þegar búið að leggja veg frá Svartsengi að borholunni einu í Eldvörpum svo að það er ekki hægt að kvarta yfir aðgengi þeim megin frá.
Hins vegar er það hluti af upplifun landsköpunar og lífsbaráttu fyrri kynslóða að skilja eftir sem ósnortnust þau svæði sem búa til umgerð utan um slíka ferðamennsku.
Ómar Ragnarsson, 10.3.2012 kl. 21:11
Mér þykir sem mörgum, komið nóg af virkjunum. Um 80% allrar raforku sem framleidd er í landinu, fer til stóriðjunnar. Hvernig skyldu tekjurnar af rafmagssölu vera? Vel gæti eg trúað að 20-30% af tekjunum komi frá stóriðjunni en 70-80% frá almeinningsveitum.
Þetta hefur lengi verið leyndarmál Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.
Ársreikningar Landsvirkjunar og Orkuveitunnar eru ekki nógu skýrir hvað þetta varðar. Þar er ekki greint milli uppruna teknanna, hvernig þær skiptast. Úr þessu þarf að bæta áður en fleiri fossum og jarðhitasvæðum verður fórnað á altari græðginnar.
Nú er verið að eyðileggja Dynk og Gljúfurleitafoss í Þjórsá. Alltaf hefur mig langað til að skoða þessa fossa áður en þeir hverfa en ætli verði nokkuð úr því fremur en allri fossaveislunni sem var fórnað fyrir austan?
Var í gær í Listasafni Íslands og fylgdist með frábærum fyrirlestri RÚRÍ um listaverk hennar.Það var mikil upplifun sem lætur engann ósnertan sem tilfinningu hefur fyrir fegurð og kostum landsins.
Góðar stundir!
Guðjón Sigþór Jensson, 11.3.2012 kl. 09:23
Gengið gróflega á rétt komandi kynslóða?
Þetta er náttúrulega móðir allra raka, það verður náttúrulega aldrei neitt gert, þar sem allar kynslóðir þurfa að geyma allt fyrir þá næstu.
Þetta er fremur barnaleg lógík.
Varðandi virkjun þarna eða ekki, þá er sjálfsagt að skoða það, með tilliti til umhverfisáhrifa. Sanngjarnt fólk vegur það og metur, hvort virkjun er æskileg, frá reyndargögnum, en ekki tilfinningahlöðnum yfirlýsingum.
Hitt er svo, að óheftur ferðamannastraumur hefur þegar haft skelfilega eyðileggjandi áhrif á upplifun í þessu fallega landi. Það má telja á fingrum annarar þá staði sem eru ekki umsetnir af ferðamönnum, og þessi "ósnortna upplifun" er mýta, það er engin sérstök upplifun að koma að áfangastað, þar sem 300 þýskir ferðamenn eru að spígspora í kringum mýgrút af rútum.
Þess utan, þá er ferðamannaiðnaður láglaunaiðnaður. Þjónustufólk, rútubílstjórar, leiðsögumenn og aðrir eru á skítalaunum, og hafa ekki trygga atvinnu árið í kring. Það nægir að horfa á þjóðir sem byggja sitt mest á ferðamennsku til að sjá, að það er engin sérstök gæfa sem fylgir, en ávallt gríðarlegt atvinnuleysi í kreppu, eins og glögglega má sjá á krepputölum í Evrópu.
Hilmar (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 15:03
Hilmar.
Útflutningsverðmæti samgangna, flutninga og ferðaþjónustu var níu milljörðum króna meira árið 2009 en útflutningsverðmæti áls og kísiljárns.
Meðallaun í ferðaþjónustu eru hér ekki lægri en meðallaun í stóriðju.
Flestir í ferðaþjónustunni hér starfa allt árið.
Ferðaþjónusta skapar hér fleiri störf en stóriðjan.
(Sjá fleiri STAÐREYNDIR um ferðaþjónustu og stóriðju hér að ofan.)
Þorsteinn Briem, 11.3.2012 kl. 17:19
Það er sennilega svolítil bið í að fullyrðingar fólks á internetinu verði STAÐREYNDIR, Steini Briem.
Vill í vinsemd benda þér á, að þó svo við hefðum ekki þennan ferðmannastraum tvo til þrjá mánuði ársins, þá værum við áfram með hátt launaða flugmenn, flugvirkja o.sv.frv.
Hitt er svo, og það getur þú fengið staðfest hvar sem er, að HEFÐBUNDIN ferðamannastörf, þrif, eldamennska, rútubílastjórn o.sv.frv er langt... langt frá launum flugmanna, flugvirkja eða starfsmanna í orkufrekum iðanði.
Þá vil ég líka benda á, að atvinnuleysi, tímabundið eða langvarandi, er fylgifiskur flugþjónustu.
Hilmar (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 19:25
Árið 2009 voru 62% af heildarfjölda hótelrúma hérlendis á höfuðborgarsvæðinu en þá bjuggu þar 63% landsmanna (frá Kjalarnesi til Álftaness).
Miðað við íbúafjölda voru því EKKI FLEIRI hótelrúm á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu árið 2009.
"Á undanförnum árum hefur verið mikil aukning í framboði á gistirými.
Sumarið 2009 voru í boði 9.482 rúm á 79 hótelum sem er um 54,5% af heildarrúmafjölda á hótelum og gistiheimilum í landinu."
"Þriðjungur Breta kemur að sumri, þriðjungur að vori eða hausti og þriðjungur yfir vetrarmánuðina."
"Níu af hverjum tíu landsmönnum ferðuðust innanlands á árinu 2009.
Tæplega helmingur ferðaðist eingöngu innanlands og tveir af hverjum fimm bæði innanlands og utan. Um 4% ferðuðust eingöngu utanlands. Þeir sem ferðuðust ekki neitt voru um 8%."
"Þriðjungur landsmanna fór í eina til tvær ferðir innanlands á árinu 2009, tæplega helmingur í þrjár til sex ferðir og um fimmtungur í sjö eða fleiri ferðir."
"Íslendingar gistu að jafnaði 14,3 nætur á ferðalögum innanlands árið 2009."
"Sex af hverjum tíu landsmönnum gistu á Norðurlandi og Suðurlandi á ferðalögum um landið á árinu 2009.
Fjölmargir gistu á Vesturlandi eða tveir af hverjum fimm, fjórðungur á Austurlandi, tæplega fjórðungur á Vestfjörðum, fimmtungur á höfuðborgarsvæðinu, einn af hverjum tíu á hálendinu og 5% á Reykjanesi."
"Íslendingar eyddu um 260 þúsund gistinóttum á hótelum innanlands árið 2009."
"Erlendir gestir eyddu um einni milljón gistinátta á hótelum á Íslandi árið 2009."
Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum - Febrúar 2010
Þorsteinn Briem, 11.3.2012 kl. 19:34
8.3.2012:
"Tæplega 28 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í nýliðnum febrúarmánuði eða fimm þúsund fleiri en í febrúar 2011.
Aukning erlendra ferðamanna nú á milli ára í febrúar er því 22,1%.
Erlendir ferðamenn hér eru nú ríflega tvisvar sinnum fleiri en árið 2003 og á því níu ára tímabili sem Ferðamálastofa hefur haldið úti talningum í Leifsstöð hefur aukningin milli ára í febrúarmánuði verið að jafnaði 9,4%."
Mikil fjölgun erlendra ferðamanna hérlendis
Þorsteinn Briem, 11.3.2012 kl. 19:37
7.3.2012:
"Í janúar síðastliðnum fjölgaði gistinóttum á hótelum á Norðurlandi um 52% frá því á sama tíma í fyrra en aukningin á landinu öllu var 34%.
Erlendum ferðamönnum á Norðurlandi hefur fjölgað mikið á þessum árstíma og var aukningin til að mynda 40% í nóvember, 30% í desember og nú tvöföldun í janúar, miðað við sömu mánuði á fyrra ári.
Munar þar mest um fjölgun í komum Breta en einnig sjáum við vöxt í gistinóttum Bandaríkjamanna og Dana."
Gistinóttum fjölgaði um 52% á Norðurlandi í janúar miðað við sama mánuð í fyrra
Þorsteinn Briem, 11.3.2012 kl. 19:39
Nýting gistirýmis á hótelum og gistiheimilum 2008 - Höfuðborgarsvæðið og landið allt, sjá bls. 10
Þorsteinn Briem, 11.3.2012 kl. 19:43
Ferðamálastofa - Ferðaárið 2012 lofar góðu
Þorsteinn Briem, 11.3.2012 kl. 19:44
Hilmar.
Það sem ég birti hér að ofan er STAÐREYNDIR.
Ég var blaðamaður á Morgunblaðinu í mörg ár, skrifaði um tíu fréttir á dag um alls kyns málefni, sem oft birtust á útsíðum blaðsins, auk þess að gefa þar vikulega út sérblað um sjávarútveg við annan mann.
Þá kom Morgunblaðið út í meira en fimmtíu þúsund eintökum á dag, samtals um sautján milljónum eintaka á ári. og hvert eintak var í flestum tilfellum lesið af fleiri en einum lesanda.
Og ekki í eitt einasta skipti var gerð athugasemd við fréttir, sem ég skrifaði.
Þorsteinn Briem, 11.3.2012 kl. 20:11
Steini Briem, ég hef lesið blöð áratugum saman.
Og sem mjög vandaður blaðalesandi, þá hef ég lært eitt, og það er að fylgjast með því sem er ekki skrifað.
Það sem þú fjallar ekki um, eru laun og aðbúnaður fólks í ferðamannaþjónustunni. Sennilega vegna þess að það fellur ekki vel að áróðrinum sem þú kallar staðreyndir, og ugglaust fréttir ef út í það er farið.
Auk þess sleppir þú að fjalla um umhverfisáhrif ferðamannastraums, en það er sú hlið sem áróðursfólk ferðamannaþjónustu vanrækir oftast að fjalla um.
Færa má sterk rök fyrir því, að stóriðja sé mun umhverfisvænni en ferðaþjónusta. Ég ætla þó ekki að fara út í þær rökræður hér, hef hvorki nennu né tíma, eða álít að þessi vettvangur sé það mikið lesinn, að hann sé réttur.
Hilmar (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 21:30
Bragi Árnason rannsakaði afköst jarðvarmasvæðisins Hengils-Hellisheiði og komst að því að með því að pumpa ca þrefallt hægar orkunni úr því svæði í heild sem virkja gæti orkan enst án þess að þverra.
Jarðfræðingarnir Guðni Axelsson og Ólafur Flóvenz hafa í Morgunblaðsgrein gefið upp hvernig hægt er með hóflegri og varfærinni aðferð láta orkuna verða endurnýjanlega og þar með standast kröfur um sjálfbæra þróun, sem við höfum undirgengist með því að undirrita Ríósáttmálann.
En þetta mega Íslendingar ekki heyra nefnt heldur aðeins það að hrifsa til sín í græðgi sem allra mest og klára allt sem allra fyrst.
Og bítum svo höfuðið af skömminni með því að ljúga því að okkur og öllum heiminum að þessi rányrkja sé endurnýjanleg og lýsandi um það hvernig höldum sjálfbæra þróun í heiðri.
Ómar Ragnarsson, 11.3.2012 kl. 22:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.