12.3.2012 | 16:03
"Byrja framkvæmdir strax ! "
"Frá! Frá! Frá! Fúsa liggur á!" Þetta kölluðum við krakkarnir hér í gamla daga þegar við þurftum að böðlast áfram á sleðum, skíðum, skautum eða hjólum.
Nú hefur formaður Sjálfstæðisflokksins upp þennan söng á Alþingi.
"...svo að hægt sé að byrja framkvæmdir strax.." Þessi setning er eitt af því sem ævinlega heyrist þegar verið er að tala um virkjanakosti. Öllu máli skiptir að hægt sé að fara með jarðýturnar og borana strax inn á svæðin en hitt skiptir minna máli hvað menn séu í raun og veru að gera og hvernig málið stefnir.
Í fyrradag fjallaði ég um Eldvarpavirkjun þar sem menn vilja byrja framkvæmdir strax en nefna má mörg fleiri dæmi.
Frá fyrirhugaðri þrítugfalt stækkaðri Bjarnarflagsvirkjun eru aðeins fjórir kílómetrar eftir hallandi landi niður á vatnsbakka Mývatns. Nú þegar rennur affallsvatn frá aðeins 3ja megavatta virkjun í átt að vatninu, hefur þegar mengað vatn í Grjótagjá og myndað litla, en sístækkandi tjörn á leiðinni.
Mynd af þessu fyrirbæri sést hér fyrir ofan en hér fyrir neðan er mynd af öðru sams konar fyrirbæri en öllu stærra hinum megin við Námafjall, en það er nýtt lón affallsvatns úr Kröfluvirkjun og fer sístækkandi.
Vel sést hvað þetta vatn hefur runnið langa leið, því að það er í meira en tíu kílómetra fjarlægð frá Kröfluvirkjun sem sést fjærst á myndinni. Til stendur að stækka virkjunina þrítugfalt upp í 90 megavött þótt við blasi að stöðuvatnið austan við fjallið og að við Svartsengisvirkjun ráða menn ekkert við afrennsli þeirrar virkjunar, - og uppi við Hellisheiðarvirkjun hefur ekki enn fengist niðurstaða af tilraun með niðurdælingu.
En nú er fyrir öllu að "byrja framkvæmdir strax" við Bjarnarflagsvirkjun með loforði um að eftir að virkjunin er risin muni verða sett þar á fót vöktun, sem auðvitað mun þá engu máli skipta úr því sem komið verður þá.
Í neðri hluta Þjórsár skortir gögn varðandi áhrif virkjana á laxastofn og hættu á leka vegna þess að lón og mannvirki eru á einu öflugasta jarðskjálftasprungusvæði landsins.
Enn minni vitneskja er fyrir hendi um áhrif þess á lífríki hafsins út af ósum árinnar, að jökulleirinn setjist að í lónunum.
En nú er það greinilega orðin spurningu um daga að "byrja framkvæmdir strax" í sama anda og gert var í Helguvík hér um árið, þegar "byrjaðar voru framkvæmdir strax" við verksmiðjubyggingu áður en búið var að tryggja orku, áður en búið var að semja minnst tólf sveitarfélög um byggingu virkjana, vega og háspennulína og áður en búið væri að meta þær fórnir náttúruverðmæta sem virkjanirnar hefðu í för með sér.
Vill fá rammaáætlun inn í þingið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Finnst þér eðlilegt að ekki sé farið eftir rammaáætluninni? Hvað hefðirðu sagt ef einhver önnur ríkisstjórn hefði möndlað með áætlunina á hinn veginn?
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.3.2012 kl. 16:06
Góðar, rökstuddar greiningar Ómar. Þetta með Bjarnarflag liggur augljóst fyrir. Er áætlunin orðin að lögum?
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 12.3.2012 kl. 17:07
Það rétt að vara við framförum og framkvæmdum sem gætu aukið hagvökt og að fólk fái vinnu - förum frekar fjallagrasaleið ykkur " umherfissinna " .
Óðinn Þórisson, 12.3.2012 kl. 19:33
Rökþrota menn byrja að tala um fjallagrös. Ómar talar um hvort fjárfestingarnar séu arðbærar og sjálbærar. Hann talar um verðmæti í víðerni. Hann talar um sameiginleg jarðhitahólf Reykjanesskagans. Við "fjallagrasamenn" erum fylgjandi virkjunum en viljum að hlutirnir sé skoðaðir í ljós arðbærni til lengri tíma. Ferðamennska gefur mesta framlegð, en þá verður víðernið að vera til staðar. Það fer ört minnkandi. Með sama áframhaldi verða engin víðerni lengur til eftir árið 2032.
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 12.3.2012 kl. 19:48
Fjöldi starfa í ferðaþjónustunni hérlendis var um 8.400 árið 2007 og ef þeim störfum hefur fjölgað frá þeim tíma um 6,8% á ári að meðaltali, líkt og erlendum ferðamönnum fjölgaði hér á síðasta áratug, voru þessi störf um ellefu þúsund í fyrra, meira en tvisvar sinnum fleiri en í álverunum hér og tengdum greinum.
Þorsteinn Briem, 12.3.2012 kl. 20:03
NOKKRAR STAÐREYNDIR:
Útflutningsverðmæti þjónustu eru hér meiri en útflutningsverðmæti stóriðju.
Útflutningsverðmæti samgangna, flutninga og ferðaþjónustu var níu milljörðum króna meira árið 2009 en útflutningsverðmæti áls og kísiljárns.
Meðallaun í ferðaþjónustu eru hér ekki lægri en meðallaun í stóriðju.
Flestir í ferðaþjónustunni hér starfa allt árið.
Ferðaþjónusta skapar hér fleiri störf en stóriðjan.
Einungis þriðjungur virðisaukans í stóriðju verður eftir hérlendis.
Störf í stóriðju eru þau dýrustu í heiminum og þar kostar hvert starf að minnsta kosti einn milljarð króna en störf í hátækni 25-30 milljónir króna.
Þorsteinn Briem, 12.3.2012 kl. 20:06
Hvernig væri nú, þegar verðmæti Bjarnarflagsvirkjunar er metið, að leggja mat á það verðmæti sem felst í því að hinu einstæða lífríki og náttúra Mývatns sé viðhaldið?
Í peningum, - verð ég auðvitað að bæta við, því að peningalegt gildi er víst alfa og ómega allrar umræðu um alla hluti.
Ómar Ragnarsson, 12.3.2012 kl. 21:26
Ferðamenn eru ekki á móti virkjunum nema síður sé.Það sýnir reynslan , bæði í Svartsengi,Búrfells-Sigöldu-Landmannalaugasvæðinu og á Skálafellsjökli þar sem fara um tugir, hundruð ferðamanna á dag að sumarlagi og jafnvel eitthvað um vetrartímann.Samt eru virkjanir þarna allt um kring og virkjanavegir notaðir til að komast á svæðið.En trú manna getur vissulega orðið öllu viti sterkari.
Sigurgeir Jónsson, 12.3.2012 kl. 21:35
Ferðamönnum hér á landi fjölgar í réttu hlutfalli við það að meira sé virkjað.Þegar voru hér engar virkjanir komu engir ferðamenn.Fleiri virkjanir þeim mun fleiri ferðamenn.
Sigurgeir Jónsson, 12.3.2012 kl. 21:38
Samtök iðnaðarins:
"Mikilvægi hátækniiðnaðar fyrir atvinnulíf framtíðarinnar speglast í því að fimmtungur allra nýrra starfa sem urðu til í landinu á árunum 1990 til 2004 sköpuðust vegna hátækni.
Á sama tíma fjölgaði aðeins um 500 störf í stóriðju og fækkaði um fjögur þúsund í sjávarútvegi.
Í lok tímabilsins störfuðu 5% vinnuaflsins, 6.500 manns, við hátækni, 900 við stóriðju (0,7%) og ríflega 10 þúsund í sjávarútvegi.
Í hátækni eru 40% starfsfólksins með háskólamenntun og um 60% með háskóla- og iðnmenntun.
Ef borinn er saman virðisauki Íslendinga af stóriðju og hátækni sést að VIRÐISAUKI framleiðslunnar í hátækni er rúmlega ÞREFALT MEIRI EN Í STÓRIÐJU.
Þetta skýrist af því að hátæknigeirinn er vinnuaflsfrekur og Í INNLENDRI EIGU, einungis þriðjungur virðisaukans í stóriðju verður eftir í landinu en um 70% ERU FLUTT ÚR LANDI."
Þorsteinn Briem, 12.3.2012 kl. 22:00
Dæmi um hátæknifyrirtæki er O.R. með sínar virkjanir.
Sigurgeir Jónsson, 12.3.2012 kl. 22:26
Nesjavallavirkjun vinnur með Þjóðgarðinum á Þingvöllum í að draga að ferðamann.
Sigurgeir Jónsson, 12.3.2012 kl. 22:28
Ferðamenn.
Sigurgeir Jónsson, 12.3.2012 kl. 22:29
Jamm, erlendir ferðamenn koma hingað til Íslands til að skoða virkjanir.
Þorsteinn Briem, 12.3.2012 kl. 22:34
Hellisheiðavirkjun,Svartsengi, Nesjavellir,Krafla.Dæmi. Skoðið og þér munið uppnumdir verða.Kárahnjúkavirkjun.
Sigurgeir Jónsson, 12.3.2012 kl. 22:38
Flestir erlendir ferðamenn koma hingað til Íslands "vegna náttúru landsins en aðdráttarafl menningar og sögu hefur aukist".
Nýting gistirýmis á hótelum og gistiheimilum 2008 - Höfuðborgarsvæðið og landið allt, sjá bls. 12
Þorsteinn Briem, 12.3.2012 kl. 23:01
Það þyrfti einhver að benda Steina Briem á að ferðamennska, sá láglaunabransi, er einhver alversti skaðvaldur umhverfisins.
Hlægilegt að tiltölulega hreinar virkjanir skuli vera verri kostur en bensínspúandi flugvélar og dísilspúandi rútur með ferðamenn, svartólíuspúandi skip að flytja til landsins innfluttan kost fyrir þessa ferðamenn, og síðast en ekki síst, þau spjöll sem ferðamenn vinna á nútturunni, með því einu að þvælast um hana, og að skemma þá upplifun sem óspillt og eyðileg náttúran er, án þess að þar séu ferðamenn hvert sem litið er.
Umhbverfissinnar. Hlægilegt.
Hilmar (IP-tala skráð) 13.3.2012 kl. 00:17
.... og Ómari finnst greinilega að rammaáætlun eigi að vera marklaust plagg...
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.3.2012 kl. 01:33
Hilmar: einhvern tímann las ég að stóriðja mengi tvöfalt meira en allur bílafloti landsins. Þannig að það þyrfti mjög marga ferðamenn bara til að ferðaþjónustan yrði hálfdrættingur á við stóriðjuna í mengun.
Þá þyrfti hver einasta fjölskylda á landinu að hætta að vinna og gera ekkert annað en að keyra um landið.
Theódór Norðkvist, 13.3.2012 kl. 09:36
Theódór, það fer náttúrulega eftir því, hvar þú hefur lesið þetta, hvort eitthvað sé að marka þessa fullyrðingu.
En við skulum gefa okkur að þetta sé rétt, þá er rétt að benda þér á, að bílarnir á Íslandi nota einungis brot af þeirri orku sem stóriðjan notar. Orkunotkun bílana er svipuð og þriðjungur af Búrfellsvirkjun. Sem segir okkur, að í raun er ótrúlega lítil mengun frá stóriðju á Íslandi.
En í framhaldi af því, er rétt að spyrja þig, er betra að framleiða það magn sem er framleitt hér, með kolaorku í Kína? Væri heimurinn í betri málum?
Og svo máttu alveg sleppa því, að draga EINN þátt út úr heildarmengun ferðamanna, og draga af því ályktanir. Ferðamennska mengar umtalsvert meira með flugi en akstri, og svo eru það skipin, ágangurinn á landið, ónýta upplifunin hjá þeim sem vilja friðsæld og einangrun, en geta ekki upplifað vegna ferðamannaágangs.
Hilmar (IP-tala skráð) 13.3.2012 kl. 12:47
Ísland er eitt strjálbýlasta land í heimi.
Hér á Íslandi eru þrír íbúar á hvern ferkílómetra og hingað til Íslands kemur nú um hálf milljón erlendra ferðamanna á ári.
Miðað við að hver erlendur ferðamaður dveljist hér á Íslandi í eina viku eru hér að meðaltali um tíu þúsund erlendir ferðamenn á degi hverjum allt árið á öllu landinu.
Um níu af hverjum tíu Íslendingum ferðuðust innanlands árið 2009 og gistu þá að meðaltali tvær vikur á þessum ferðalögum.
Að meðaltali voru því um ellefu þúsund Íslendingar á ferðalögum innanlands á degi hverjum árið 2009.
Að meðaltali voru því FLEIRI ÍSLENDINGAR á ferðalögum hérlendis en erlendir ferðamenn á degi hverjum árið 2009.
Þeir sem ekki eru á ferðalögum utan síns heimabæjar ferðast þar flestir nær daglega til og frá skóla og vinnu. Og fólk er yfirleitt ekki á ferðalögum utan síns heimabæjar nema nokkrar vikur á ári.
Langflestir menga því mun meira í sínum heimabæ en utan hans, hvort sem þeir búa hérlendis eða erlendis.
Í hverri rútu og flugvél eru yfirleitt fjölmargir farþegar en í hverjum einkabíl á höfuðborgarsvæðinu hér á Íslandi er eingöngu bílstjórinn í fjölmörgum tilfellum.
Ef erlendir ferðamenn kæmu ekki hingað til Íslands myndu þeir ferðast til annarra landa og menga álíka mikið í þeim ferðum.
Og innan við 1% af flugvélaflota Evrópu flýgur með farþega sem hér dvelja.
Þorsteinn Briem, 13.3.2012 kl. 13:15
Steini, ertu að reyna að sannfæra sjálfan þig, að láglaunaferðaþjónusta sé góð hugmynd?
Ekki ertu að sannfæra mig með tiiraunum til að drekkja umræðunni með tölum sem koma málinu ekkert við.
Og af hverju forðast þú að ræða mengun af völdum ferðaþjónustu?
Finnur þú enga töflu í hagtölum?
Hilmar (IP-tala skráð) 13.3.2012 kl. 13:49
Hilmar.
Þú gapir hér eins og nýveiddur þorskur og leggur engar staðreyndir á borðið.
Þorsteinn Briem, 13.3.2012 kl. 13:58
Steini, geturðu fundið heimildir um það hvort Hilmar hafi verið veiddur án kvóta?
Theódór Norðkvist, 13.3.2012 kl. 15:11
Hann er verðlaus marhnútur.
Þorsteinn Briem, 13.3.2012 kl. 16:11
Sammála Ómari og byrja framkvæmdir strax.
Nýta hreina orkugjafa í þágu almennings og komandi kynslóða.
Byggja upp norræna velferð og kærleika á Íslandi.
Beisla vatnsorkuna meðan hún endist, því einsog Ómar segir þá hverfa jöklarnir innan skamms.
Richard Ulfarsson (IP-tala skráð) 13.3.2012 kl. 20:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.