NÆSTI VETTVANGUR - REYKJANESSKAGI

Fór á fund í Grindavík í gærkvöldi þar sem samþykkt var ályktun gegn því að leyft verði að leggja háspennulínur og reisa virkjanir um þveran og endilangan Reykjanesskaga. Það mun rýra stórlega möguleika á að setja á stofn eldfjallaþjóðgarð sem taki fram frægasta eldfjallaþjóðgarði heims á Hawai.

Það gleymist þegar rætt er um stækkun álvers í Straumsvík að hún hefur í för með sér stórfellda umhverfisröskun um allan Reykjanesskagann og við Þjórsá. Meira að segja er á teikniborðinu ný höfn við Óttarsstaðavör sunnan Straumsvíkur með tilheyrandi spjöllum á mjög sérstæðum slóðum þar sem stærsta ferskvatnsfljót skagans rennur neðanjarðar út í sjó (Straumsvík, Straumur).

Í gamla daga gátu fiskimenn rennt upp að landi og fengið sér ferskt vatn að drekka við ströndina án þess að fara í land. Um allan skagann stefnir nú í baráttu fyrir því að staldra við og sjá til hvort ekki verði með djúpborunum hægt að ná nægri orku á þeim svæðum sem þegar er búið að virkja á í stað þess að vaða áfram um allt. Ef menn telja það sáluhjálparatriði að raða risaverksmiðjum inn í anddyri Íslands.

Baráttan sem framundan er næsta mánuðinn afsannar þá fullyrðingu að umhverfisverndarfólk berjist bara gegn verksmiðjuvæðingunni úti á landsbyggðinni.

Það er kaldhæðni örlaganna að upphaf umhverfisbaráttu á Íslandi má rekja til þess að Sigurður Þórarinsson vildi fyrir tæpum 60 árum bjarga Grænavatni í Krýsuvík frá því að verða spjöllum að bráð. Nú er ætlunin að steypa borholum, virkjun og háspennulínum inn á þetta svæði og láta línurnar þvera fjöll og dali fyrir vestan Krýsuvík allt til Garðsskaga.

Mjög stór hluti Reykjanesskagans er í landi Grindavíkur og það var í því landi sem unnin voru ótrúlega mikil þarflaus umhverfisspjöll í vor við litfegursta gil suðurvesturlands, Sogin, rétt hjá Trölladyngju. Það var gert með því að saga stórt, kolsvart rannsóknarborplan inn í græna hlíð við mynni Soganna og ryðjast með veg upp eftir dásamlegri gönguleið meðfram Sogalæknum.

Auðvelt hefði verið að leggja þennan veg nokkur hundruð metrum vestar og skábora rannsóknarholuna til að komast hjá þessum miklu spjöllum. Þessi spjöll komu ekki einu sinni inn á borð hjá Skipulagsstofnun, hvað þá Umhverfisstofnun.

Mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar verður formsatriði eftir þessi spjöll. Þannig er unnið skipulega í áföngum að því að brytja niður ímynd Íslands sem eitt af undrum veraldar, óspjallað og hreint. Gegn þessari stefnu verður að stækka og breikka þann græna her sem heldur út í baráttuna í hlaðvarpa höfuðborgarsvæðisins.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"We shall fight in the fields and in the streets, we shall fight in the hills, we shall never surrender!"

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 14:40

2 identicon

Það er reyndar athyglisvert að á meðan baráttan hefur öll beinst að Kárahnjúkum þá hefur verið virkjað mikið á Hellisheiði og á Reykjanesi með miklum umhverfisáhrifum.   Ég er nú búsettur fyrir norðan en ferðaðist talsvert á námsárunum um þessi svæði.  Mér svíður sárt að sjá hvernig þau eru leikin í dag, svæði sem ég held að séu jafnvel miklu dýrmætari á heimsvísu heldur en svæðið sem fer undir Hálslón.  En við erum gjörn á að sjá ekki verðmætið í því sem við sjáum dagsdaglega.

Norðan (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 15:39

3 identicon

Nokkrar spurningar til þín Ómar

Þú hefur mikið talað um hversu óvænleg vinna skapast með þessum álverum og þjóðin muni skiptast í tvennt þ.e. hressa borgarbúa og svo leitt verksmiðjufólk úti  á landi. Mér finnst svolítið eins og þú spilir þetta eins og Matador og haldir að fólk bíði bara eftir að vera ráðstafað af einhverju óskilgreindu afli. Hafi sem sagt ekki frjálsan vilja.

Spurningin er því: Ef það er slæmt að vinna í Álveri af hverju vinnur þá fólk í álverum?  Af hverju hefur Álverið í Straumsvík og Norðurál ekki tæmst undanfarin ár? Nóg er af öðrum tækifærum á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig tekst álverum að halda í mannskap? sem N.B. er ekki myndaður af innfluttu vinnuafli eins og sumir geirar í dag.

Önnur, þú talar um að stóriðjustefna haldi aftur að vænlegri atvinnuuppbyggingu fyrir austan Af hverju blómstra þá ekki Vestfirðirnir sem aldrei fyrr? Þar hefur lengi verið ljóst að stóriðja mun þar aldrei rísa.

Sigurður (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 16:00

4 identicon

Vestfirðingar töldu sér trú um að það eina sem þeir gætu gert væri að veiða og vinna fisk alveg eins og Austfirðingar mændu á stóriðjuna.  Vestfirðingar kenndu kvótakerfinu um ástandi hjá sér en Austfirðingar álversskorti.  Þeir fyrir vestan hafa sem betur fer komið auga á að það er fleira til en fiskur og nú eru bjartir tímar þar framundan sérstaklega með bættum samgöngum og fjarskiptum og uppbygginu ferðaþjónustu og háskólaseturs.  Þeir vilja ekki sjá álver.

Þröstur Þórsson (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 16:26

5 identicon

Það eru sem sagt bjartari tímar framundan á Vestfjörðum en Austurlandi, Það er gott að heyra því nýjustu byggðarúttektir sýna að þar er hagvöxtur minnstur, fólksflótti mestur, fasteignaverð lægst og meðallaun sömuleiðis.

Er samt alveg viss um að bæði Vestfirðingar og Austanmenn sjái alveg tækifæri og hvorki fiskur né ál blindi þá nema síður sé.

Sigurður (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 16:56

6 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Ágæti Ómar,

ég tel mig ekki verri Íslending, þó að ég sé ekki alfarið sammála þér í þinni H-Grænu stefnu, sem

mér finnst rekin af of miklum æsingi og taugaveiklun. Við eigum að láta V-Grænum það eftir að

reka sín af frekju og offorsi, því að þeir eru bara að þjóna eðli sínu og ganga margir með steinbörn

í maganum allt frá öndverðri síðustu öld.

Mér finnst verst við alla rafvæðingu, hvað hún kallar á margar háspennulínur. Hugsanlegt er þó að

fækka megi þeim með nýrri tækni í ekki svo fjarlægri framtíð. Ennfremur er hugsanlegt að fundin

verði upp aðferð til að nýta jökulleir í sambandi við byggingariðnað seinna meir.

Við eigum að taka á þessum málum með stóíkri ró.Við eigum ekki að fara úr límingunum út af

jarðneskum hlutum, heldur eigum við frekar að sinna andlegum hugsunum og reyna að láta gott

af okkur leiða. Það hefur þú gert hingað til með eindæma góðum árangri. Þannig vil ég minnast

þín, Ómar Ragnarsson. Lifðu heill! Kveðja, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 14.2.2007 kl. 17:28

7 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Ómar,ég biðst velvirðingar á nokkrum villum, sem slæddust inn í athugasemd mína.

Kveðja, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 14.2.2007 kl. 18:23

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er eitt orð sem skýrir best vanda Vestfjarða, - samgöngur. Vestfirðir eru eini landshlutinn sem ekki hefur stóran flugvöll, opinn allan sólarhringinn. Að vetrarlagi er aðeins hægt að fljúga vestur á Ísafjörð í birtu örfáar klukkustundir á dag ef það er þá fært á annað borð, en á því er líka mikill misbrestur.

Eldvirka svæðið á Íslandi með samspili við jöklana hefur sérstöðu á heimsvísu. Vestfirðir, Miðnorðurland og firðir austurstrandar Íslands eiga hins vegar samsvörun í Noregi og á Grænlandi þar sem er jafnvel enn tignarlegra fjarðalandslag.

Þetta er mikill dragbítur á ferðamannamöguleika Vestfjarða og verður ekki í lagi fyrr en gerður hefur verið heilsdags millilandaflugvöllur á Patreksfirði með greiðum samgöngum um jarðgöng til norðurs og austurs.

Ómar Ragnarsson, 14.2.2007 kl. 19:25

9 Smámynd: Stefán Stefánsson

Ómar minn, þessi barátta ykkar og aðferðir eru nú frakar ótrúverðugar að mörgu leiti.
Hvernig var á fundinum  í Grindavík......  var hann opinn fleyrum en þeim sem eru á móti...?  Ég  spyr nú bara?

Það er alveg ótrúlegt að fylgjast með framferði ykkar og þið reynið að koma í veg fyrir að fólk fái allar upplýsingaur um framkvæmdir........... bara það sem kemur ykkur vel.
Það sannaðist á fundinum í Árnesi þar sem enginn mátti tjá sig nema hann væri á móti....... og þú tekur þátt í þessu af fullum krafti.

Stefán Stefánsson, 14.2.2007 kl. 20:01

10 identicon

Mér finnst vanta í þessa umræðu hvernig vinnustaður álver er. Um það mætti hafa mörg orð. Svo er líka að álver og álver er ekki það sama. Þau eru misuppbyggð, og starfsmannastefna þessara fyrirtækja ólík. Það á líka að huga að þeim þætti. Eru t.d. fyrirtæki velkominn hingað til lands sem neita konum yfir 50 ára um vinnu. Og konur á barneignaaldri er taldar óæskilegur vinnukraftur? Og vinnuaðstaða er mismunandi eftir álverum. Hugum að þeim þætti líka. Grunnlaun í álveri eru um 146 þús krónur. Er náttúrunni fórnandi fyrir slík kjör?

Jón (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 20:49

11 identicon

Kæri Guðlaugur

 Á fundinum í Árnesi, mátti enginn tala nema mótmælendur.  Á fundum stjórnmálaflokka, fá þeir að tala sem eru meðlimir í viðkomandi flokki.  Það er betra fyrir alla, að átta sig á því, að það sem fer á netið sjá allir. Það er aumt að verða sér til skammar, nema að vitundin sé bara ekki á hærra plani en þetta, en þá er þér einungis vorkunn.

NL (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 01:18

12 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir upplýsingarnar Ómar.   Ég setti niður nokkrar línur um hugsanir mínar um umhverfismálin á blogginu mínu.  Það þarf að hemja þessa stóriðjuskepnu.

Baráttukveðjur

Svanur Sigurbjörnsson, 15.2.2007 kl. 09:58

13 identicon

Komdu fagnandi Svanur.  Þótt seint sé er þjóðin að vakna og fleiri og fleiri láta umhverfismálin til sín taka hvar í flokki sem þeir standa.  Nú ríður á að sameinast í þessari nýju breiðfylkingu og jafnvel með nýju framboði.  Við skulum þó ekki vanmeta það fólk sem berst fyrir málstaðnum innan gömlu flokkanna.

Í Framtíðarlandinu er rúm fyrir alla umhverfisvernarsinna hvar í flokki sem þeir standa en miðað við stöðuna held ég að nauðsyn sé á nýju framboði þar sem þessi mál verða í fyrirúmi.  Það er enginn vandi að koma saman stefnuskrá þar sem ný hugsun og það besta úr eldri hugmyndafræði um landsmálin almennt verður nýtt.  Viðbúið er að þar verði þó einhverjir að slá striki yfir liðna tíma og leggja deilumál til hliðar á grundvelli nýrrar stefnuskrár.  Hugtök um hægri, vinstri og miðju eiga þar ekki heima þótt hugmyndafræði og fylgi sé sótt á alla kanta.

Hér á síðunni hans Ómars hefur ótrúlegri orku og tíma verið varið í að verja stóriðjustefnuna og oft erfitt að sitja undir þeim málflutningi sem þar á sér stað.  Auðvitaðð hefur fólk rétt á að hafa sínar skoðanir en margt af þessum málflutningi dæmir sig best sjálfur og er varla svara verður.  Ég er þó einn þeirrra sem hef ekki getað setið á mér og snúist til varnar. Nú er ég farinn að átta mig á að þetta eru örfáir einstaklingar sem skrifa gegn umhverfisverndinni aftur og aftur og eru fastir í gamla farinu. Ég held það fari best á því að leyfa þeim að lifa í sínu draumlandi, en snúa okkur í þess stað af alefli gegn landsspjöllum og stóriðjuhugmyndunum og byggja upp bjartari framtíð.

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 11:37

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er býsna ótrúlegt þetta innleg hja Guðlaugi Hermannssyni. Er það tilfellið Ómar að einungis fylgismenn þínir megi tjá sig á bloggsíðum þínum? Svo finnst mér það frekar sárt en kemur samt ekkert á óvart að þeir sem ekki eru extrím náttúrverndarsinnar, heldur vilja milliveg um nýtingu og verndun náttúru séu kallaðir fylgjendur náttúruspjalla. Er það ekki alhæfing? Það er líka alhæfing að þeir sem vilja vernda tiltekin svæði séu öfgasinnar en því miður finnst mér flestir sem leggja orð í belg á bloggsíðum og annarsstaðar til verndar náttúrunni séu fyrirfram á móti öllu raski, og þar á meðal þú Ómar. Mér virðist sumir vera þeirrar skoðunar að hver hundaþúfa á Íslandi sé einstök náttúrperla á heimsvísu. Það er skoðun út af fyrir sig og á fullan rétt á sér en í rökræðum og skoðanaskiptum þarf að hafa sannleikann í öndvegi, ekki ýkja, ekki fegra eða sverta og ekki segja ósatt.

Þegar óskr. Jón segir að grunnlaun í álveri séu 146 þús kr. þá er hann ekki beinlínis að segja ósatt en ég held hann sé viljandi að segja ekki söguna alla. Fyrir 170-180 tíma mánaðarvinnu á vöktum, sem framleiðslustarfsmaður hjá Alcoa á Reyðarfirði er greidd um 300 þús kr. laun.

Þegar V-Grænir hrópuðu í upphafi Kárhnjúkaframkvæmda að verið væri að kasta á glæ óteljandi möguleikum fyrir austan í "einhverju öðru", þá var þeim boðið að koma vestur á firði með tillögur sínar. Þeir létu ekki sjá sig. En það er ekki eins og fólk á landsbyggðinni hafi setið með hendur í skauti undanfarna áratugi. Alltaf er einhver að reyna eitthvað. Það sem fólk einfaldlega vill er að auka möguleika sína. Efla undirstöðurnar fyrir bættum lífskilyrðum á heimaslóðum sínum. Álver er ekki bara álver, það er svo ótal margt sem fylgir í kjölfarið eins og sýnt hefur sig á Mið-Austrlandi undanfarin misseri.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.2.2007 kl. 16:43

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mig langar að bæta örlitlu við. Öðru hvoru heyrist í fréttum að fólki á austurlandi haldi áfram að fækka þrátt fyrir framkvæmdirnar. Þetta er auðvitað villandi. Það er alveg eins hægt að segja að þrátt fyrir stóriðjuframkvæmdir á Reykjanesi þá fækki íbúum á Snæfellsnesi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.2.2007 kl. 16:50

16 identicon

Sæll Gunnar

mikið er gott að annar hófsamur umhverfissinni tjáir sig hér. Ég hef mikið gagnrýnt öfgasinna í báðum fylkingum, enda tel ég að stærsti hópur Íslendinga sé þarna á milli.

Ég hef beðið Ómar og aðra að svara nokkrum spurningum en aldrei fengið svar en að öðruleyti er þetta fínt blog hjá þér Ómar. Ég set hér aftur inn fyrirspurnir mínar og vona að þú svarir

Ein áleitin spurning sem þú verður að svara mér er eftirfarandi.  Á haustmánuðum komu hér aðilar til að kanna möguleikann á því að setja upp stærðarinnar verksmiðju með mjög orkufrekum iðnaði. Verkefnið átti jafnvel að taka til sín meiri orku en Norðurál.  Vandinn var að verksmiðjan átti að framleiða sólarsellur, sem einmitt er vöntun á á heimsmarkaði þó svo að rafmagn frá þeim sé hvergi nærri samkeppnishæft. En þarna átti einfaldlega að nota endurnýjanlega orku til að framleiða efni í annan endurnýjanlegan orkugjafa þ.e. Tvöfaldur umhverfislegur ávinningur.

Spurningin er þessi: hvor yrði þá umhverfisverndarsinninn sá sem væri á móti virkjun fyrir slíka starfsemi með tilheyrandi raski eða sá sem væri hlynntur slíkri virkjun?

2   Spurningin er því: Ef það er slæmt að vinna í Álveri af hverju vinnur þá fólk í álverum?  Af hverju hefur Álverið í Straumsvík og Norðurál ekki tæmst undanfarin ár? Nóg er af öðrum tækifærum á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig tekst álverum að halda í mannskap? sem N.B. er ekki myndaður af innfluttu vinnuafli eins og sumir geirar í dag.

Sigurður (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 17:01

17 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ómar þú ert alveg frábær!

KEEP UP THE GOOD WORK 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 15.2.2007 kl. 18:37

18 Smámynd: Stefán Stefánsson

Í allri umræðu þurfa málsaðilar beggja vegna borðsins að geta tjáð sig ef eitthvað vit á að vera í hlutunum.
Mér kemur þetta innlegg  Guðlaugs Hermannsonar ekkert á óvart......  það sýnir bara hvernig hann hugsar.

Stefán Stefánsson, 15.2.2007 kl. 20:03

19 Smámynd: Kristján Pétursson

Ég hef í langan tíma mótmæt háspennulínum á stálgrindarstaurum frá virkjunum víðsvegar um landið.Reyndar finnst mér þessar línur vera mesta ógnun við ísl.náttúru og hef verið undrandi á hversu fámálir náttúrverndarmenn hafa verið í þessum efnum.Engin nýir nákvæmir útreikningar liggja fyrir um kosnað að leggja línurnar í jörðu.Hef þó heyrt ,að það gæti hækkað heildarkosnað  virkjunar og verksmiðju um 5-7 % eftir því hversu langar háspennulínurnar væru.Hættuleg mengun fylgir þessum línum eins og kunnugt er,en einnig í þeim efnum liggja ekki fyrir nákvæmar rannsóknir.

Kristján Pétursson, 15.2.2007 kl. 22:20

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er alveg sammála því að óskandi væri að háspennulínur væru grafnar í jörð en mér skilst að það sé ekki eingöngu kostnaðurinn sem slíkur við niðurgröftinn sem hamlar því heldur einnig að orkutapið sem fylgir sé of mikið. T.d. hefði Kárahnjúkavirkjun ekki dugað Alcoa í Reyðarfirði ef línan hefði verið sett í jörð. Sel það reyndar ekki dýrar en ég keypti það.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.2.2007 kl. 22:48

21 Smámynd: Idda Odds

Sæll Ómar

Þakka frábært framlag. Styð sérstaklega hugmyndir um verndun svæða í nágrenni Reykjavíkur. Þar gefst mörgum möguleiki á að njóta útvistar með lítilli fyrirhöfn. Verð að viðurkenna að ég felldi tár yfir því raski sem orðið er við Trölladyngju. Eyddi miklum tíma þarna á þessu svæði á árum áður. Það er nú eða aldrei að stöðva þessa geðveiki. Finnst alveg ótrúlegt að nokkrum skuli detta í hug að samþykkja tvöföldun álvers í Straumsvík. Hvergi í hinum siðmenntaða heimi myndu mönnum detta í hug að þrengja svo að vaxandi íbúðarbyggð. Held að ef af verði sé þetta dauðadómur yfir Hafnarfirði sem áhugaverðum staður í hugum ungsfólks. 

Kveðja

Idda 

Idda Odds, 16.2.2007 kl. 21:05

22 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Minn kæri Óskráður Sigurður. Ég var búinn að svara þessum spurningum þínum þótt þú virðist ekki hafa tekið eftir því. Vísa til þeirra svara. Vísa einnig til þess um álver sem vinnustað að það væri ekkert að því ef álver væri af hæfilegri stærð, segjum með innan við 100 manns í vinnu, og félli inn í fjölbreytt atvinnulíf staðar eins og Húsavíkur.

Reynslan í jaðarbyggðum á norðurslóðum sýnir að fjölbreytt  og fjölskrúðugt atvinnu´- og menningarlíf þar er forsenda fyrir því að byggðin geti keppt við borgirnar. Einhæft atvinnulíf getur það ekki.

Það liggur fyrir að á Húsavík verði stefnt að 5-600 þúsund tonna álveri sem verður með meirihluta allra starfandi manna í bænum á einum vinnustað.   

Ómar Ragnarsson, 16.2.2007 kl. 23:14

23 Smámynd: Stefán Stefánsson

Ómar minn, þekkir þú atvinnulífið á Húsavík eitthvað? Eru viss um að það sé eins fjölbreitt og þú heldur fram? 
Það er alltaf hollt  að skoða allar hliðar málsins og fá upplýsingar frá fleyrum en þeim sem eru á móti.
Einhæfur málflutningur er aldrei góður og er oft til að skaða annars góðan málstað.

Stóriðja við Húsavík er ekki bara fyrir húsvíkinga eins og skilja má af þínum skrifum.
Þetta snýst um atvinnulíf á öllu norðurlandi, áttaðu þig á því. Og ef stóriðja kemur byggist upp fjölbreitni í kringum hana.

Stefán Stefánsson, 17.2.2007 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband