Löngu tímabært. Einstæð flugvél.

Möguleikarnir á að standa að betri rekstri DC-3 vélarinnar Páli Sveinssyni vaxa áreiðanlega ef henni er flogið meira og hafðar af henni meiri tekjur, til dæmis með farþegaflugi. Mikill fastur kostnaður er fólginn í því að halda flugvélum lofthæfum og því getur rekstur þeirra orðið óviðráðanlegur ef of lítið er flogið.

Væri þá athugandi að mála hana í upphaflegu litunum og gefa henni að nýju sitt upphaflega nafn.

Það mætti til dæmis prófa að fljúga með ferðamenn frá Reykjavík, Hellu eða Hvolsvelli, flugvöllum sem eru nálægt ferðaleiðum.

Á sumum flugsýningum í Bandaríkjunum gefst fólki kostur á að fljúga með enn eldri vélum en DC-3 eins og til dæmis Ford Tri-motor. Spurningin er hve dýrt og flókið mál er að fá leyfi til slíks flug á Þristinum hér.

Þristurinn á engan sinn líka. Hann var sú flugvél sem gerði almenningi kleyft að fljúga í stað þess að fara með lestum eða bílum.

Eisenhower yfirhershöfðingi Bandamanna á vesturvígstöðvunum nefndi Þristinn, Jeppann, Kjarnorkusprengjuna og T-34 skriðdreka Rússa sem þau vopn er best hefðu dugað Bandamönnum.

Þetta er athyglisvert vegna þess að T-34 og Jeppinn voru framleiddir í fleiri eintökum en sambærileg tæki og 88 þúsund T-34 skriðdrekar komu af færiböndunum. Nokkrar helstu orrustuflugvélar stríðþjóðanna voru framleiddar í tæplega 40 þúsund eintökum en Þristurinn í alls 16 þúsund, farþegaflugvélar meðtaldar.

Hins vegar hefur engin farþegaflugvél verið framleidd í nálægt því eins mörgum eintökum og Þristurinn.

Cessna 172 (Skyhawk) telst hins vegar vera eiga metið. Meira en 43 þúsund stykki hafa verið framleidd af þessari litlu 4ra sæta flugvél, og hún er enn framleidd, 56 árum eftir að sú fyrsta flaug.  

Meðal tíu merkilegust viðburða í sögu Þristsins er eitt íslenskt og má það merkilegt heita þegar hafty er í huga hve þessi flugvél hefur lent í mörgu misjöfnu. Það var þegar Bandaríkjamenn urðu að skilja Þrist á skíðum eftir á Bárðarbungu við hliðina á flaki Geysis og hátt í tíu metra þykkt snjólag lagðist yfir vélina um veturinn. 

Bandaríski herinn sá enga möguleika til að bjarga vélinni og afskrifaði hana.  

Loftleiðir fengu hana fyrir slikk, gerðu út frækinn leiðangur til að grafa vélina upp, draga hana niður af jöklinum og hefja hana til flugs á söndum við Síðujökul.

Þrjú önnur atvik í sögu Þristsins man ég frá því að greint var frá þeim í tímaritinu Readers Digest um 1960.

Gerðust þau öll í stríðinu í Sauðaustur-Asíu. Eitt sinn hrúguðust 72 flóttamenn inn í Þrist og tókst að komast á loft með allt þetta fólk og bjarga því.

Annar Þristur missti annan vænginn, og var þá tekinn vængur af fyrirrennara Þristsins, DC-2, og settur á.

Var þessi vél síðan kölluð DC-2 og 1/2.

Þriðja atvikið var þannig að hreyflar Þrists urðu olíulausir, enga olíu að finna og úti var um vélina nema tækist að fljúga henni í burtu.

Var þá gripið til þess ráðs að setja tiltæka kókosolíu á hreyflana og það dugði.

Það var sagt svipað um Þristinn og um Volkswagen Bjölluna, þann bíl, sem flest eintök hafa verið framleidd af og Cessna Skyhawk, vinsælustu einkaflugvél heims.

Ekkert af þessum fyrirbærum voru best í einhverju tilliti. Þau voru /eru ekki hraðskreiðust, burðarmest, sparneytnust eða neitt annað sem sker sig úr.  

Það var sagt um Þristinn að hann stundi, nötraði, skjögraði í loftið, fór hægt yfir o. s. frv. En hann gerði það sem mestu máli skipti;  flaug og flaug og flaug og flaug og skilaði alltaf sínu á hverju sem gekk.  

Hann var ekki fremstur í neinu en samt skilaði niðurstaðan af eiginleikum hans, þegar þeir voru lagðir saman, honum í fremstu röð.

Ef sett verður innrétting fyrir t. d. 28 farþega í Þristinn á það eftir að vekja undrun þeirra sem setjast upp í hann hve miklu rýmra er um farþegana hvern um sig en í vélum seinni tíma.

Þetta er næstum því eins og að koma á Saga-klass.

Takmarkað afl þeirra tíma hreyfla gerði það að verkum að ekki var hægt að þjappa farþegunum betur saman nema draga um of af getu vélarinnar ef hún missti afl á öðrum hreyflinum.   


mbl.is Þristinum breytt í farþegavél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð hugmynd.

Væri til með að fljúga vélinni á "null tarifi".

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 27.3.2012 kl. 00:15

2 identicon

Þarna er komið gott nafn yfir ríkisstjórnina
eftir að Hreyfingin virtist bætast þar við: DC-2 og 1/2!

Húsari. (IP-tala skráð) 27.3.2012 kl. 04:15

3 identicon

Þetta finnst mér ÆÐISLEGT. Verður þetta ekki bara Eyjaflugið fyrir framtíðina?

Annars svona í alvöru, Þristarnir standa reyndar ofarlega í einni statistík, sem er ending/notkun. Nig minnir að það sé Þristur sem á heimsmetið í flugsundum, - alla vega á stimpilvél. Það var a.m.k. þannig.

Jón Logi (IP-tala skráð) 27.3.2012 kl. 08:17

4 identicon

Ómar er einstakur og ekki eru sögurnar af verri endanum. Hér er DC21/2; http://www.cnac.org/aircraft02.htm

Kjartan (IP-tala skráð) 27.3.2012 kl. 11:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband