Bara rætt við sérfræðinga í "vítum til varnaðar"?

Fyrir sjö árum gerði ég mér ferð til tveggja staða í Noregi til að skoða tvo ólíka spítala. Annar var nýr spítali Oslóborgar sem allir viðmælendur mínir í læknastétt, bæði hér heima og í Noregi, sögðu mér að væri besti spítali í Evrópu hvað hönnun og skipulag snerti.

Með mér í för var Haukur Heiðar Ingólfsson, læknir, undirleikari minn.

Læknar, sem þekktu til í Noregi, mæltu með því að ég skoðaði þennan nýja spítala og síðan til samanburðar annan norskan spítala sem væri "víti til varnaðar", spítalann í Þrándheimi.

Sá spítali væri þannig til kominn, að líkt og ætlunin er að gera í Reykjavík, hefði verið farið út í "bútasaum" þar sem reynt væri að tjasla saman gömlum og nýjum byggingum með undirgöngum og lokuðum tengingum yfir götur á milli húsa.

Hins vegar hefði í Ósló verið brugðið á það ráð að finna stóra auða lóð sem næst stærstu krossgötum borgarinnar og landsins og hanna spítala alveg frá grunni, byrja með autt blað.

Og munurinn á þeirri lausn og bútasaumnum í Þrándheimi væri sláandi, annar spítalinn mesti fyrirmyndarspítali Evrópu, hinn víti til varnaðar.

Ég gerði þetta, tók myndir og viðtöl á báðum stöðum og beið síðan eftir heppilegu tækifæri til að fjalla um það í sjónvarpsfréttum.

Tækfærið kom þegar á læknafundi hér heima var hlýtt á fyrirlestur bandarísks sérfræðings um það hvernig best sé að leysa mál af svipuðum toga og glímt er við hér.

Sérfræðingurinn eða ráðgjafinn hefur haft af því góðar tekjur að vinna við svona viðfangsefni og að taldi að sjálfsögðu vel hægt að leysa það á Landsspítalalóðinni við Hringbraut.

Liðu nú árin og um daginn var rætt við annan sérfræðing um þetta efni í Kastljósi. Honum leist líka vel á það sem á að fara að gera við Hringbrautina. Og hvert skyldi nú vera helsta afrek þessa sérfræðings, sem hampað var í kynningu á honum. Jú, auðvitað, - hann hannaði spítalaskrímslið í Þrándheimi, sem var "víti til varnaðar"!

Er sérfræðingur í slíku og getur auðvitað ekki annað en mælt með því að hann og hans líkar fái fleiri slík verkefni.

Sem fjölmiðlamaður, sem á að leitast eftir því að fá fram sem flest sjónarmið, spyr ég: Úr því að tvívegis hefur verið leitað álits bútasaumssérfræðinga í spítalamálum, meira að segja í annað skiptið með ítarlegu Kastljósviðtali, af hverju hafa þeir aldrei sem stóðu að gerð spítalans í Osló, ekki líka verið fengnir líka hingað til lands í ítarleg viðtöl og það fyrir löngu?


mbl.is Jarðsunginn í Íþróttaálfsbúningnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi hugmynd um nýjan Landsspítla á þessum stað, er náttúrlega fullkomlega galin,það sjá það allir sem vilja sjá, að aðkoman að nýja spílanum er fullkomlega vonlaus, sjúkrabílar í forgangsakstri verða í erfileikum að komast að spílanum.

Hvernig dettur mönnum í hug að setja 100 miljarða af skattfé í nýjan spítala, á sama tíma sem ekki er hægt vegna fjármagnskorts, að endur nýja tæki, eða sinna venjubundnu viðhaldi á fasteignum,svo maður tali nú ekki um það að ekki er hægt að manna spítalan vegna niðurskurðar, og sjúkrastofnunum á landsbyggðinni er lokað hverri á eftir annar.

Halldór Björn (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 12:03

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sumir segja að krossgötur séu þar, til dæmis á fjöllum eða hæðum, sem sér til fjögurra kirkna.

Þegar menn sitja á krossgötum koma álfar úr öllum áttum og þyrpast að manni og biðja hann að koma með sér en maður má engu gegna.

Krossgötur

Þorsteinn Briem, 30.3.2012 kl. 13:44

3 identicon

Hvernig tengist annars ágætt efni pistilsins fréttinni sem hnýtt er í?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 22:26

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég játa að tengingin var gerð í fljótræði í morgun áður en ég rauk af stað austur fyrir Fjall og biðst afsökunar á því að hún skyldi vera svona laustengd. Þó má segja að eftir heimsókn mína í spítalann í Osló hér um árið skildi ég betur hve mikils virði það er, bæði fyir heilbrigðisstarfsfólkið og ekki síður sjúklingana að spítali sé af þeirri gerð sem þar getur að líta.

Ómar Ragnarsson, 31.3.2012 kl. 01:28

5 identicon

Þakka þér fyrir þetta með bútasauminn Ómar. Mér finnst fleiri þurfa að sjá þetta. Það var ótrúlegt hve Óli (Ólafur Örn Arnarson læknir) var einn í heiminum, þegar hann var að berjst fyrir annarri staðsetningu. Hvorki skipulagsfræðingar né sjúkraflutningamenn, sem alltaf hefur fundist þetta geggjað söguðu neitt. Vona að núverandi vakning sé ekki of seint tilkomin. Það er aldrei margar leiðir út á nes. Það sem byggt er úti á nesi verður seint miðja. Hver er miðja Stór-Reykjavíkur?

Bergþóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 31.3.2012 kl. 16:22

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eins og er, er miðja íbúðabyggðarinnar innst í Fossvogi. Miðja atvinnustarfsemi er við Kringluna. Miðjan á milli þessara tveggja er þess vegna við sunnanverðan Grensásveg.

Stærstu krossgötur landsins eru á svæðinu Ártúnshöfði-Mjódd. Það er lögmál borgarmyndana að þjónusta og verslun leitar inn að krossgötum og þess vegna hafa miðjur íbúðabyggðar og atvinnustarfsemi verið á austurleið í Reykjavík.

Keldnaland er að vísu hallandi en nútíma tækni hefði getað gert kleyft að jafna því til og byggja þar spítala eftir fyrirmynd frá Osló, u. þ. b. 4 kílómetra frá miðju íbúðabyggðar, 6 km frá miðju atvinnustarfsemi og 5 km frá miðjunni á milli þessara tveggja.

Landsspítalalóðin við Hringbraut er 4 kílómetra frá miðju íbúðabyggðar, 2 km frá miðju atvinnustarfsemi eða 3 km frá miðjunni á milli þessara tveggja.

Lansinn við Hringbraut er því aðeins um 2 kílómetrum styttra frá miðju miðjanna og þessi mismunur vinnst upp þegar þess er að gæta, að austan við núverandi Landsspítala er versti flöskuhálsinn í umferðinni í Reykjavík.

Ekkert af þessu var athugað á sínum tíma og heldur ekki það að ef látið hefði verið vera að byggja upp hverfi fyrir eldri borgara í Fossvogi, var það svæði á þessum tíma langbest staðsett af öllum mögulegum og aðeins þurfti að vinna út frá einu húsi, sem var komið, í stað þess að vinna út frá mörgum misgömlum og ósamstæðum húsum á Landsspítalalóðinni.  

Ég hef á tilfinningunni að þegar ákvörðunin um þetta mál var tekin, hafi verið í gangi rígur á milli Borgarspítala og Landsspítala og sá síðarnefndi haft betur.

Sem sagt: Hinn gamalkunni klíkurígur sem hefur tröllriðið okkar litla samfélagi alla tíð og byrgt mönnum víðari sýn.

Ómar Ragnarsson, 31.3.2012 kl. 23:42

7 identicon

Sæll Ómar. Þakka svarið. Ætli þú eigir ekki kollgátuna.

Við Vífilstaði er líka enn rými.

Bergþóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 1.4.2012 kl. 09:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband