3.4.2012 | 11:46
Gleymda virkjunin og fossarnir.
Virkjun Jökulsár í Fljótsdal var gríðarlegt hitamál um aldamótin vegna þess að sökkva átti Eyjabökkum.
Hins vegar var aldrei rætt um það að tvær einstakar fossaraðir, í Jökulsá og Kelduá, yrðu þurrkaðar upp með virkjuninni.
Tveir fossanna í Jökulsá, Kirkjufoss og Faxi, voru á hæð við Gullfoss og afar fallegir. Kirkjufoss þrefaldur á tveimur stöllum og Faxi tvílitur, af því að hin auruga Jökulsá og tæra Laugará mættust í fossinum.
Í Kelduá féllu margir fallegir fossar í stöllum líkt og risavöxnum tröppum.
Kelduárstífla er ein af fjórum stærstu stíflum landsins og með myndun Kelduárlóns var hinu einstaklega fallega Folavatni með tæru vatni sínu og hólmum og fuglalífi sökkt í hið auruga miðlunarlón.
Á einum hólmanum var eitthvert stærsta álftahreiður sem ég hef séð, dyngja, sem var fjórir metrar í þvermál og einn og hálfur metri á hæð, orðin til vegna hins friðsæla hreiðursstæðis í aldanna rás
Þótt Eyjabökkum yrði þyrmt voru öll hin áformin framkvæmd og hefði sú framkvæmd ein og sér nægt til að skapa miklar umræður um þessa miklu virkjun, en stíflur hennar og mannvirki teygja sig 15 kílómetra í austur frá Snæfelli og hafa gerbylt ásýnd öræfanna austan fjallsins.
Af því hefur þó aldrei orðið og hægt er að fullyrða að meira en 99% þjóðarinnar hefur ekki haft hugmynd um hin gríðarlegu neikvæðu umhverfisáhrif sem þessi mikla virkjun hefur haft í för með sér.
Héðan af mun það bíða kynslóða framtíðarinnar að það mál verði upplýst endanlega með myndinni "Örkin" sem ég treysti á að verði einhvern tíma fullgerð og sýnd eftir minn dag.
Fyrr verður það ekki. Núlifandi Íslendingar vilja ekki vita af því sem þeir hafa gert við landið, sem afkomendur okkar munu erfa.
Sauðárveita mun auka orkugetuna um 40GWst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já,... ómetanlegt álftahreiður allt skal týnt til.
Fékkstu ekki einhverjar miljónir í afmælisgjöf til að klára "Örkina"?
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.4.2012 kl. 12:02
Gapir hér með rassi reiður,
ræfill öllum lýðum leiður,
í Gunnars kolli eru eyður,
og afar fagurt músahreiður.
Þorsteinn Briem, 3.4.2012 kl. 12:52
Mér finnt það einfasa hugunarháttur að geta ekki rætt jafnframt - á hverju á þjóðin að lifa?
Þorskurinn var skorinn niður og skorinn niður - sjávarbyggðir eyðilagðar hver af annarri vegna upploginnar "hagræðingar" sem aldrei hefur skilað sér frá 1983 þegar lofað var 550 þúsund tonna jafnstöðuafla þorsks frá 1990 ef skorið væri niður...
Nú gerfilífskjörin gengu ágætlega 2000-2008 þegar loftbólan af bréfagumsinu gufaði upp. og krónan hrundi.
Þrátt fyrir virkjanir og álver - er samt halli á gjaldeyrisviðskiptum þannig að krónan fellur enn - 11% nú á skömmum tíma.
Hvern fjandann ætlar ábyrgur maður eins og þú Ómar að mæta þessum gjaldeyrisskorti. virkja meira - auka aflaheimildir - eða hvern fjandann viltu gera til að bjarga þjóðinni frá gjaldþroti?
Við lifum ekki á loftinu - svona gáfaður og góður maður eins og þú verður að sýna ábyrgð að þessu leyti. Á hverju eigum við að lifa?
Er þér sama þó við stefnum í gjaldþrot með þjóðarbúið? Hvað á þá að taka við?
Kristinn Pétursson, 3.4.2012 kl. 15:24
"Hagvöxtur til frambúðar veltur á því að landnæði er nýtt betur, tæki og tól eru endurnýjuð til hins betra og vinnuafl nýtist betur, annaðhvort með því að láta fólki í té betri tæki eða með því að auka menntun og þar með virði vinnuframlags hvers einstaklings."
Er meiri hagvöxtur alltaf betri? - Katrín Ólafsdóttir lektor árið 2007
Menntun Íslendinga 11% undir meðaltali OECD
Þorsteinn Briem, 3.4.2012 kl. 15:47
Samtök iðnaðarins:
"Mikilvægi hátækniiðnaðar fyrir atvinnulíf framtíðarinnar speglast í því að fimmtungur allra nýrra starfa sem urðu til í landinu á árunum 1990 til 2004 sköpuðust vegna hátækni.
Á sama tíma fjölgaði aðeins um 500 störf í stóriðju og fækkaði um fjögur þúsund í sjávarútvegi.
Í lok tímabilsins störfuðu 5% vinnuaflsins, 6.500 manns, við hátækni, 900 við stóriðju (0,7%) og ríflega 10 þúsund í sjávarútvegi.
Í hátækni eru 40% starfsfólksins með háskólamenntun og um 60% með háskóla- og iðnmenntun.
Ef borinn er saman virðisauki Íslendinga af stóriðju og hátækni sést að virðisauki framleiðslunnar í hátækni er rúmlega þrefalt meiri en í stóriðju.
Þetta skýrist af því að hátæknigeirinn er vinnuaflsfrekur og í innlendri eigu, einungis þriðjungur virðisaukans í stóriðju verður eftir í landinu en um 70% eru flutt úr landi."
Þorsteinn Briem, 3.4.2012 kl. 15:51
Kristinn, -eigum við að lifa á því að taka lán fyrir virkjunum og selja raforku á verði sem rétt slagar uppí framleiðslukostnað?
Þú talar eins og ekkert annað en ágeng notkun auðlinda dugi okkur til framfærslu! Aðrar vestrænar þjóðir byggja á hugviti og verkþekkingu en einblína ekki á hráefnavinnslu.
Ferðaþjónustan er 5X þýðingarmeiri atvinnugrein en stóriðja og skilar ríkinu margföldum skattekjum á við bræðslurnar.
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 3.4.2012 kl. 16:14
Ég er að tala um eðlilega nýtingu nátturuauðlinda. Ekkert annað.
Svo svarið þið með einfasahugsunina aldrei því sem spurt er að. Hvernig á að afla gjaldeyris til að stöðva gengissigið og koma í veg fyrir gjaldþrot þjóðarinnar.
Það er lágmarkskrafa að þið svarið eins ætlast er til af fullorðnu fólki.
Hvað bull er þetta - að ef virkjað sé meira sé verið að "ganga á náttúruauðlindir"...
Ég er bara að tala um heilbrigða og eðlilega nýtingu - ekkert annað.
Kristinn Pétursson, 3.4.2012 kl. 21:51
Tek undir með Kristni
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.4.2012 kl. 07:24
Útflutningur á vörum og þjónustu árið 2009:
1. sæti: Þjónusta 287 milljarðar króna (þar af samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta 197 milljarðar króna),
2. sæti: Iðnaðarvörur 244 milljarðar króna (þar af ál 171 milljarður króna og kísiljárn 17 milljarðar króna),
3. sæti: Sjávarafurðir 209 milljarðar króna,
4. sæti: Landbúnaðarvörur 8 milljarðar króna.
Útflutningsverðmæti samgangna, flutninga og ferðaþjónustu var því níu milljörðum króna meira árið 2009 en útflutningsverðmæti áls og kísiljárns.
Utanríkisverslun, þjónustuviðskipti við útlönd árið 2009
Utanríkisverslun okkar Íslendinga með vörur árið 2009
Þorsteinn Briem, 4.4.2012 kl. 09:31
Jamm, íslensku orkufyrirtækin "græða á tá og fingri" og þurfa ekki að taka gríðarleg lán erlendis til að fjármagna frekari framkvæmdir.
Hvað þá að greiða af þessum lánum.
Þorsteinn Briem, 4.4.2012 kl. 09:42
23.3.2011:
"Landsvirkjun og Evrópski fjárfestingarbankinn (EIB) skrifuðu í dag, 23. mars, undir nýjan lánasamning að fjárhæð 70 milljónir evra, að jafnvirði 11,3 milljarðar króna.
Lokagjalddagi lánsins er á árinu 2031 og ber lánið millibankavexti, auk hagstæðs álags.
Í lánasamningnum er ákvæði um lágmarks lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.
Lánið er mikilvægur áfangi í fjármögnun Búðarhálsvirkjunar en Landsvirkjun undirritaði sambærilegt lán frá Norræna fjárfestingarbankanum þann 16. mars síðastliðinn að fjárhæð 70 milljónir Bandaríkjadollara [um níu milljarðar króna]."
Þorsteinn Briem, 4.4.2012 kl. 09:45
Langtímaskuldir Landsvirkjunar í árslok 2008 voru um þrír milljarðar Bandaríkjadala, um 360 milljarðar króna, andvirði þriggja Kárahnjúkavirkjana.
Vaxtagjöld Landsvirkjunar árið 2008 voru 178 milljónir Bandaríkjadala, um 20 milljarðar króna.
Og árið 2008 tapaði Landsvirkjun 345 milljónum Bandaríkjadala, um 40 milljörðum króna.
Þorsteinn Briem, 4.4.2012 kl. 09:46
21.11.2008:
"Orkuveita Reykjavíkur tapaði nærri 40 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins, samkvæmt árshlutauppgjöri sem samþykkt var af stjórn fyrirtækisins í dag.
Skýrist þessi niðurstaða alfarið af 64 prósent gengisfalli íslensku krónunnar, eftir því sem segir í tilkynningu til Kauphallarinnar."
"Þá reyndust skuldir félagsins 183 milljarðar króna en voru 102 milljarðar í lok síðasta árs."
Fjörutíu milljarða tap Orkuveitu Reykjavíkur
Þorsteinn Briem, 4.4.2012 kl. 09:47
13.3.2009:
"Tap HS Orku (Hitaveitu Suðurnesja) á síðasta ári nam tæplega 11,7 milljörðum króna."
"Skuldir nema hins vegar 30,5 milljörðum króna."
HS Orka tapaði 11,7 milljörðum króna
Þorsteinn Briem, 4.4.2012 kl. 09:50
16.3.2012:
"Tap Orkuveitu Reykjavíkur nam 556 milljónum króna á síðasta ári."
Tap hjá Orkuveitu Reykjavíkur
Þorsteinn Briem, 4.4.2012 kl. 09:53
15.2.2012:
"HS Orka tapaði rúmum 900 milljónum í fyrra."
HS Orka tapar milljarði – Helguvík hjálpar ekki segir forstjórinn
Þorsteinn Briem, 4.4.2012 kl. 09:55
Kristinn, Veiðar og jarðhitanýting eru skyld fyrirbrigði. Í báðum tilvikum er verið að nýta endurnýjanlega auðlind og miklu skiptir að forðast rányrkju. Við getum báðir verið sammála um að afkastageta Íslandsmiða er skert vegna veiðarfæra sem skaða botn og veiðar valda erfðabreytingu fiskistofna þar sem hæfustu einstaklingarnir eru veiddir en kóðin verða eftir og fjölga sér. Jarðhitavirkjanirnar á Nesjavöllum, Hellisheiði og Reykjanesi eru ekki sjálfbærar og þar fer fram hrein og klár rányrkja, gengið er á afkomumöguleika komandi kynslóða og orku er sóað með ágengri vinnslu þar sem einungis "13% aflans er nýttur".
Margar þjóðir og margir Íslendingar byggja afkomu sína á e-h öðru en því sem fiska má uppúr sjó eða dæla uppúr jörðinni. Þú talar eins og hráefnavinnsla sé okkar einasta lífsvon. Ferðaþjónustan er á góðri leið með að taka fram úr fiskinum, þrátt fyrir að yfirvöld fyrr og nú geri þeirri grein flest til miska.
Einstaklingum sem stefna á nýsköpun á tæknisviðinu er hinsvegar hollast að fara til landa sem taka slíku frumkvæði fagnandi og bjóða raunverulegt stuðningskerfi fyrir frumkvöðla.
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 4.4.2012 kl. 10:09
Af því orkunýtingin á jarðvarma er svona lítil, er þá betra að nýtingin sé engin?
Og hvað hefurðu fyrir því að þessar virkjanir sem þú nefnir séu ekki sjálfbærar? Geturðu nefnt heimildir fyrir því?
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.4.2012 kl. 10:56
Þrýstifall jarðhitakerfanna á Nesjavöllum, Hellisheiði og Reykjanesi er línulegt með tíma og aftöppun, Jafnvægi er komið á þrýstifallið í Svartsengi og Kröflu og þar virðist vera til staðar jafnvægi sem getur haldið nokkuð lengi mv núverandi vinnslu. Í árskýrslu OR getur þú fundið þrýstigraf og hugleiðingar um það hvort drepa þurfi á vélum 2040 eða 2050 með sama áframhaldi.
Undir Hellisheiðarvirkjun fellur þrýstingur hratt sem er eðlilegt en fullkomin óvissa ríkir um framhaldið. Það heitir að skjóta fyrst og spurja síðar.
Reykjanesvirkjun er ekki í neinni óvissu. Þrýstifallið er það hratt að virkjunin er sjálfdauð með sama áframhaldi um 2020. HS stólar einfaldlega á að fá að bora utan skilgreinds vinnslusvæðis þegar allt verður komið í óefni.
Það er hinsvegar gott að þú spurjir um heimildir, Það er farið laumulega með þessar upplýsingar, að Nesjavallavirkjun undanskilinni. Þetta ætti að vera öllum aðgengilegt eins og aðrar upplýsingar um vatnafar, sbr úrkomu, rennsli í ám og vatnshæð í lónum. Almenningur á þessa auðlind og á að hafa eftirlit með nýtingunni.
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 4.4.2012 kl. 12:31
Kristinn, - vöruskiptajöfnuður er jákvæður í dag. Hann var neikvæður t.d. 2007 og 2008, þrátt fyrir að krónan hafi verið allt of há!
Maður spyr sig, hvort er gengi krónunnar óréttara í dag eða 2007/2008?
Og svo hitt, - ál-salan.
Íslendingar eiga ekkert í því, - það mælist bara sem selt í "exchange". Raunverulega sölueiningin er raforkan sem seld er.
Og Gunnar, - eina heimildin sem þarf fyrir því að virkjun sé ekki sjálfbær, er sú að pöpullinn er látinn borga meira en "hinn". Það dugar.
Ég er tildæmis 3ja kynslóðar "pöpull" sem hefur staðið í orkukaupum frá virkjunum sem annað hvort eru afskrifaðar eða komnar til að hálfu Marshall-aðstoðar.....
Nú eru menn pirraðir á Steina Briem með allt sitt cut&paste, en hann hefur rétt fyrir sér. Ferðaþjónustan skapar fleir störf, meiri starfsveltu, og kemur inn með meiri "hreinan" gjaldeyri en stóriðjan.
Sjávarútvegur er no. 1, og ferðaþjónustan er þar á eftir sem "skaffandi" greinar í útflutningi. Straumsalan, sem nú er að nýta um 80% af því sem til fellur er þar á eftir.
Ferðaþjónustan á aukningarmöguleika upp á mörg hundruð prósent. Orkusalan á ekki séns í slíkt, og þarna er byrjað að mætast horn á horn.
Jón Logi (IP-tala skráð) 4.4.2012 kl. 12:58
Er þá betra að nýtingin sé engin? spyr Gunnar til að varpa nú skýru ljósi á umræðuna. Gullfoss er ekki virkjaður, er nýting hans þá engin? Það skyldi þó ekki vera að önnun nýting en virkjun myndi í fjölmörgum tilfellum gefa af sér meir arð og meiri gjaldeyristekjur en virkjunin gæti fært. Það sjónarhorn virðist ekki mega nota af því orkuvinnsla er sumum heilagri en kóraninn talíbana.
Friðrik Dagur Arnarson (IP-tala skráð) 4.4.2012 kl. 14:41
"... fullkomin óvissa ríkir um framhaldið." Sigurður, þetta er s.s. "álit" þeirra sem eru á móti þessum virkjunum?
Jón Logi, "...vöruskiptajöfnuður er jákvæður í dag. Hann var neikvæður t.d. 2007 og 2008, þrátt fyrir að krónan hafi verið allt of há!"
Þarna gætir misskilnings hjá þér, því með lækkandi gengi fæst betri vöruskiptajöfnuður, en ekki öfugt.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.4.2012 kl. 16:14
í Ordessaþjóðgarðinum á Spáni er eitt af nátturufyrirbærunum, stallafossar eins og Stórulækjarfossar í Kelduá. Ég var að vona að með meiri orku fráí Jöðkulsá fengju þeir framhaldslíf.
Mynd 9.29 bls.118 í "Kárahnjúkavirkjun , Mat á umhverfisáhrifum." riti Landsvirhjunar.
eru af af Stórulækjarfossum en en sagðir vera fossar í Jökulsá á Fljótsdal.
Bergþóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.4.2012 kl. 09:13
Tja, Gunnar, með tvöfalt hárri krónu er hægt að kaupa inn tvöfalt fyrir sama pening. Það er hvati til innflutnings, og hefur lömunareffekt á útflutning.
Lægri króna þýðir fleiri krónur fyrir það sem selt er (það útskýrir t.d. batnandi afkomu LV eftir hrun að góðum hluta), en að sama skapi jafnmikla aukningu í byrðum þeirra sem þurfa að kaupa að utan.
Þegar krónan var upptjúnuð blómstraði innflutningur, og útflutningur var hálf hordauður. Færri krónur fyrir útflutning, og færri fyrir það sem flutt var inn, - en það tókst landanum undir þeim kringumstæðum að eyða ca 2 krónum í import fyrir hverja eina sem var í export.
Ég er ekkert að misskilja þetta, en sé það að það var auðvelt að sjá það af textanum, svo hafir þú þökk fyrir.
p.s. Ég er enn að klóra mér í hausnum yfir sumu því er flutt var inn, t.d. vatn á flöskum frá Tyrklandi 2007. ca 80 kr. ltr á Selfossi. Nautalundir frá Nýja Sjálandi á Hvolsvelli, og Amerískar Pizzur í búnkum. Hakkað danskt naut í Bónus og innfluttir kjúklingar út um allt. Allt í boði falsgengis. Gaman að skoða "food miles" í google í því samhengi.
Jón Logi (IP-tala skráð) 5.4.2012 kl. 11:56
Æ-já, - Steini:
Útflutningur, eins og þú peistaðir:
"2. sæti: Iðnaðarvörur 244 milljarðar króna (þar af ál 171 milljarður króna og kísiljárn 17 milljarðar króna),"
Mundu að við Íslendingar seldum ekkert Ál. Þetta er hins vegar "currency exchange", og á við Bandaríkjadollar.
$$$
Jón Logi (IP-tala skráð) 5.4.2012 kl. 12:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.