4.4.2012 | 15:38
Of plássfrekir.
Bílar eru of plássfrekir. Það er ein af ástæðunum fyrir umferðarteppum. Þetta vita Japanir og ívilna bilum, sem eru minna en 3,40 m á lengd og 1,48 á breidd. Þeir eru kallaðir KEI bílar þar í landi og af þeim er gríðarlega mikið og þeir eiga stóran þátt í að umferðarvandamálin þar eru ekki orðin alveg óleysanleg.
Hér á landi væri nóg að taka upp lengdargjald sem byggist á eins kapítaliskri hugsun og hugsast getur: Sá borgar fyrir rýmið á götunum sem notar.
100 þúsund bílar fara eftir Miklubraut á dag og meðallengdin er líkast til um 4,50 metrar.
Ef þeir yrðu að meðaltali hálfum metra styttri, fjórir metrar, sem er lengdin á Volkswagen Polo eða Honda Jazz, myndu losna 50 kílómetrar af malbikið degi hverjum.
Fleiri bílar myndu komast fyrir á milli umferðarljósanna í flöskuhálsi Miklubrautarinnar og hann hverfa nánast alveg.
P. S. Í einni athugasemd hér fyrir neðan telur ritari hennar að litlir bílar séu svo þröngir að stórt fólk geti ekki setið í þeim. Þetta er alrangt og svo illa vill til fyrir þennan bréfritara að enginn Íslendingur hefur stúderað og sest inn í sæti á jafn mörgum bíltegundum í meira en hálfa öld en ég.
Bílar í Yarisflokknum eru nú álíka breiðir og stórir evrópskir bílar voru fyrir 25 árum og það er hærra frá gólfi upp í loft í þeim flestum en var í stórum bílum þá.
Það fer ekki eftir utanmáli bíla hve rúmt er í framsæti og hátt til lofts í nútímabílum. Þannig sitja menn miklu meira flötum beinum frammi í Benz og BMW en í smábílunum nýju.
Meira að segja fyrir 50 árum átti ég minnsta bíl á Íslandi, sem var aðeins 3,15 m á lengd, en þurfti að þeysa á honum um allt land með undirleikara minn, Tómas Grétar Ólason, sem var 1,96 og yfir 120 kíló.
Það fór vel um hann á alla kanta því að bíllinn var þannig hannaður, að rými í framsætum var yfirdrifið nóg fyrir meira en tveggja metra menn.
Síðast þegar ég var í boði hjá Tómasi Grétari kom ég þangað á bílnum og hann settist inn í hann við fjölmenna athöfn utan hússins öllum til mikillar undrunar og ánægju.
Bróðir hans settist með konu sinni í aftursætið til að minnast þess þegar þau sátu í því frá Reykjavík til Hallormsstaðar og til baka.
Þessi uppísetusýning var mér sagt síðar, að hefði verið með eftirminnilegustu skemmtiatriðum í boðum af þessu tagi.
Bílastæði verða 53 þúsund fermetrar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég er 194 cm á hæð og nota skó nr. 47, var nokkuð áberandi fyrir svona 50 árum en ekki lengur; þetta eru ekki óvenjulegar ,,stærðartölur" fyrir unga menn í dag og það fer illa um okkur í smábílum. Þetta smábílakjaftæði er ósköp þreytandi og óraunhæft hér á Norðurlöndum og að bera okkur saman við Japani er út í hött. Það er varla langt í að einhver mannvitsbrekkan og veraldarfrelsarinn leggi til sérstakan skatt á skó, stærri en t.d. nr.44, nr. 47 tekur svo miklu meira pláss á gangstétt.
Haukur Brynjolfsson (IP-tala skráð) 4.4.2012 kl. 18:36
Ég held að ekki sé á gjaldflokkum bætandi. Eðlilegast er að skattleggja eldsneytið, slíkur skattur leggst þyngra á stóra bíla. Einnig er eðlilegt að vörugjöld séu lægri af (stuttum) bílum sem menga lítið. Síðan ætti að leggja af árleg bifreiðagjöld (hækka frekar bensínið) og gera mönnum auðveldara að eiga tvo bíla, -snattara og bíl til að glíma við þjóðvegi og/eða fjallvegi.
Hef sjálfur ekið allra minna ferða á hagkvæmum fólksbílum í 15 ár og átt jeppan eingöngu til ferðalaga og stöku dráttar.
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 4.4.2012 kl. 19:12
Sem leiðtogi reiðhjólagengis, legg ég til að allar reiðhjólaklíkur
taki sig saman og geri allar hægri akreinar þéttbýlis
að reiðhjólastíg, á mánudögum.
Einkabílinn burt,
Ísland úr einkabílnum.
Skuggi (IP-tala skráð) 4.4.2012 kl. 22:13
Ég er ekki viss um að umferð um Mikluraut gengi neitt greiðar þó að allir væru akandi á smábílum. Það er miklu brýnna að venja menn af þeim sauðshætti, sem ríkjandi er þegar kemur að því að aka af stað á grænu ljósi. Ég hef aldrei skilið hvers vegna það gerist ekki þegar græna ljósið kemur, að allir bílarnir í röðinni aki samtímis af stað. Nei, fyrst fer sá fremsti stundum eftir smá umhugsun að því er virðist, svo fer bíll númer tvö af stað og svo koll af kolli. Sumir eru svo hikandi við að koma sér af stað að það er engu líkara en að þeir séu að hugsa með sér hvort þeir eigi að aka núna eð bíða kannski eina umferð. Afleiðingin er sú að mun færri bílar komast yfir gatnamót á grænu ljósi en eðlilegt er miðað við það ef allir tækju rösklega af stað um leið og græna ljósið kviknar. Þannig kæmust mun fleiri bílar yfir heldur en raunin er oft á tíðum.
Sigurbjörn Helgi Magnússon (IP-tala skráð) 4.4.2012 kl. 22:58
Það er rangt að smærri bílar séu of litlir fyrir stóra menn. Þetta er að vísu mismunandi eftir gerðum en þó ekki eftir stærðum.
Bílar í Yarisflokknum eru jafnbreiðir nú og stórir bílar voru fyrir 30 árum og hæð frá gólfi upp í loft í litlu bílunum er yfirleitt jafn mikið og jafnvel meira en í stærri bílunum.
Honda Jazz er gott dæmi um þetta. Hann er innan við 4 metrar á lengd en farangursrýmið er 400 lítrar sem er lítið minna en á stóru bílunum. Það fer vel um fólk í öllum sætunum.
Haukur ætti að setjast inn í framsæti á Benz eða BMW og prófa til samanburðar bíla sem hann kallar litla.
Fyrir 50 árum fór ég um allt land á minnsta bíl landsins sem var aðeins 3,15 á lengd.
Undirleikari minn var 1,96 og meira en 20 kíló og var rúmt um hann því að framleiðandi þessara örbíla lagði höfuðáherslu á að hafa fótarými, höfuðrými og olnbogarými mikið í framsætunum.
Ef Haukur efast um þetta skal ég bjóða honum í heimssókn upp í útvarpshús þar sem einn svona bíll stendur á bak við súlu í kjallaranum. Skutla mynd af honum inn á eftir, - hann er þessi svarti.
Ómar Ragnarsson, 5.4.2012 kl. 00:28
Ég ek á 1967 Saab, sem er tæpir 4 metrar á lengd.Hef feykinóg pláss en menn fyrir aftan ming eru stundum seinir að taka af stað þegar ljósið verður grænt, þeir sjá ekki ljósið, Saabinn reykir nefnilega talvert.
geirmagnusson (IP-tala skráð) 5.4.2012 kl. 07:05
Ekki ætla ég að munnhöggvast við þig Ómar um pláss eða plássleysi í smábílum, þar verður hver að dæma fyrir sig og mín reynnsla dugir mér. Eitthvað hefur þó þessi ferð austur í Hallormstað verið eftirminnileg vinum þínum úr því þeir vildu upplifa aftur þá minningu að sitja í smábílnum þínum.
Ekki kem ég heldur oft til Reykjavíkur en hef þó kynnst umferðarþunga þar. Hann er vissulega stundum meinlegur, en þeir sem hafa ekið erlendis, bæði austan hafs og vestan, vita að tep umferðin í Reykjavík eru einungis brot af því sem flestar aðrar borgir búa við. Þetta ættir þú manna best að vita, svo víðförull sem þú ert.
Það er því spurning hvort ekki þurfi bara hugarfarsbreytingu, að fólk átti sig á því að í borgum gengur umferð stundum hægar fyrir sig, að það taki tíma að komast á milli staða. Í minni fyrstu ferð til Bandaríkjanna, Daytona Beach, lítillar borgar á austurstönd Flórida, þurfti ég að ferðast daglega í nokkra daga þvert yfir borgina. Áður en farið var í ferðina hélt fararstjórinn fund með þeim sem ætluðu í ferðina. Hann ítrekaði við okkur að gera ráð fyrir góðum tíma í ferðir, vegna umferðar. Þar kallast það ekki umferðarteppa þó biðraðir nái milli ljósa, einungis eðlilegur ferðamáti og ekki vantaði fjölda akreina í hvor átt. Síðan hef ég haft þetta í huga þegar farið er erlendis og reyndar til Reykjavíkur einnig.
Varðandi það að skattleggja bíla eftir lengd, þá er ég algerlega ósammála. Nú þegar er eldsneyti skattlagt meir en góðu hófi gegnir, það hlýtur að bitna meir á þeim sem aka á lengri og þyngri bílum. Það er engin ástæða til að bæta á þá skattlagningu. Sumir búa við það að verða að eiga lengri bíla, einkum barnmargt fólk. Auðvitað má benda á að þegar við vorum ungir áttu fáar barnmargar fjölskyldur bíl sem allir komust fyrir í í einu, en varla viljum við fara hálfa öld aftur í tímann í ferðagetu landans.
Gunnar Heiðarsson, 5.4.2012 kl. 10:59
Mig hryllir við að hugsa um föður minn, son minn eða Ómar Ragnarsson aka um í pínulitlum bílum sem verða að pönnuköku ef stætó eða vörubíll ekur á þá. Öryggið ætti að vera no. 1, ekki peningar (eða skattar) og ekki pláss, og stærri bílar eru oftar en ekki öruggari.
Elle_, 5.4.2012 kl. 23:17
Strætó átti að standa þarna. Og talandi um að eyða tíma í umferð: Ísland og RVK eru ekkert miðað við það sem fólk lifir við daglega í öðrum löndum. Persónulega upplifði ég það í Bandaríkjunum daglega að vera með barn í bílnum á leið heim úr vinnu og með hann í baksætinu LÖNGU SOFNAÐAN á meðan við biðum ´bumper to bumper´ langtímum saman á HRAÐBRAUT eftir að komast heim. Við eyddum 12-15 tímum í burtu að heiman fyrir 7,5 tíma vinnudag og ég hitti hann lítið vakandi daga sem ég varð að fara í vinnu.
Elle_, 5.4.2012 kl. 23:27
11 - 15 tímar var það víst. Og eg bendi á að bifreiðagjöldin fara eftir þunga bífreiða og langir bílar eru þyngri en hinir. Fyrir utan það sem Gunnar benti á um bensíneyðslu stærri/þyngri bíla.
Elle_, 5.4.2012 kl. 23:37
Ég er nýbúinn að horfa á myndbandsupptöku af því þegar Smart-bíl, sem er minnsti bíllinn í umferðinni er settur í árekstur á 200 kílómetra hraða. Hann kemur heill út úr því!
Nú fá Fiat 500 og aðrir bílar fimm stjörnur í árekstraprófum og bábiljan um óörugga litla bíla er úr sögunni.
Ef einhver lendir framan á 20 tonna vöruflutningabíll og vill vera á jafnréttisgrundvelli í þeim árekstri þarf hann 20 tonna bíl.
Það skiptir litlu máli hvort þú ert á 1000 kílóa bíl eða 1600 kílóa bíl ef þú lendir í slíkum árekstri.
Dæmið er líka alltaf sett öfugt upp: Litlir bílar drepa og limlesta fólk í árekstrum við stærri bíla. Þetta er öfugt: Það eru stóru bílarnir sem drepa og limlesta fólkið í litlu bílunum.
Ef við ætlum að auka öryggi með því að fara í kapphlaup um það að aka um á sem stærstum bílum endar það með því að allir lenda á 2,5 tonna skrímslum á öðrum 2,5 tonna skrímslum og enginn verður neinu bættari.
Ómar Ragnarsson, 7.4.2012 kl. 00:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.