Að þegja í nokkrar vikur?

Raddböndin eru ekki stórt líffæri en þegar um er að ræða verkfæri sem er undirstaða lífsstarfs og stöðu viðkomandi, verður ástand þeirra stórmál.

Ég kynntist þessu fyrst á útmánuðum 1964. Ég hafði verið á útopnu á jólasveinaskemmtunum eftir jólin og níðst á raddböndunum með því að kreista út úr þeim rödd Gáttaþefs við misjöfn skilyrði á ótal jólaskemmtunum.

Á þorranum tók við aðaltörnin á þorrablótum, árshátíðum og öðrum skemmtunum og í mars brá svo við að ég var kominn með svo slæma hálsbólgu, að ég varð að leita læknis til að fá lyf við henni.

Hann skoðaði hálsinn vandlega og sagði síðan: "Þú færð ódýrustu læknismeðferð í heimi og þá hverfur þessi hálsbólga."

"Og hver er hún?" spurði ég.

"Þú þarft aðeins að þegja í nokkrar vikur. Það er eina ráðið. Þú hefur ofreynt raddböndin svo mikið að hálsinn er allur orðinn bólginn." 

"Þetta er ekki ódýr meðferð", svaraði ég. "Ég verð að aflýsa því að koma fram á tugum skemmtana."

"Það er þitt mál, hvort þú heldur svona áfram, ferð að mínum ráðum, eða reynir að finna eitthvert ráð til að fjarlægja orsökina sem er allt of mikið álag. Þetta er einfalt: Haltu bara kjafti eins og þú getur.

Það munar um allt. Þegiðu hvenær sem þú getur og talað eins lítið og mögulegt er."  

Þegar ég fór að hugsa málið betur sá ég að til dæmis það eitt að herma eftir Louis Armstrong var mikið álag á raddböndin, en um þessar mundir var það eitt af helstu atriðunum.  

Ég kippti því atriðið strax út úr prógramminu og dró úr notkun raddbandanna sem mest ég mátti.

Ég var ungur og þegar draga fór úr skemmtunum um vorið tókst mér að ná hálsinum nógu góðum til þess að fara með sérstaka dagskrá á 20 ára afmæli lýðveldisins 17. júní, þar sem Louis Armstrong og fleiri voru túlkaðir í laginu "Halló, Dagný!"

Í annað sinn að minnsta kosti á ferli Bjarkar fréttist af því að hún verði að aflýsa tónleikum vegna lélegs ástands raddbandanna og að engin lyf dugi.

Hún á allt sitt undir þessu litla líffæri og mér þykir líklegt að hún muni ekki komast hjá því að grípa til róttækra aðgerða til þess að ráðast að orsök vandræðanna sem er of mikið álag á þessa undirstöðu glæsiferils hennar.  


mbl.is Hnúður á raddböndum Bjarkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ansi Björk er illa stödd,
allri hefur tapað rödd,
Ómar þagði eitt sinn smá,
aftur varð í lagi þá.

Þorsteinn Briem, 18.4.2012 kl. 13:03

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Góð vísa, Steini, en ég varð reyndar ekki aftur í lagi fyrr en 40 árum síðar.

Vegna illrar meðferðar raddarinnar áratugum saman í reykmettuðum sölum með ónýt hljóðkerfi og margra klukkustunda áníðslu á kvöldi fór rödd mín það illa að það ekki fyrr en allra síðustu misseri sem hún hefur náð að jafna sig að hluta af því ég spara hana betur og á loksins lítið og ódýrt hljóðkerfi sjálfur.

Ómar Ragnarsson, 18.4.2012 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband