Meiri fræðslu um rétta hemlun, takk !

Í ferðum mínum um landið í hálfa öld hef ég orðið þess var hve lítið íslenskir ökumenn virðast vita um það hvernig aka skuli niður brattar  og langar brekkur.

Þegar ég hef ekið á eftir bílum í slíkum akstri hef ég oft séð á hemlaljósunum hvernig ökumenn standa á hemlunum langtímum saman algerlega að óþörfu.

Ef brekkan er nógu löng og brött endar þetta með því að hemlarnir hitna svo mikið að þeir verða óvirkir.

Hægt er að koma í veg fyrir þetta með eftirfarandi:

Látið vélina um að hægja sem mest á bílnum með því að skipta niður um gíra.

Ef hemla þarf, er betra að gera það stutt og oft með snörpu átaki í hvert sinn og leyfa hemlunum að fá kælingu á milli heldur en að standa lengi á bremsunni, jafnvel alla leiðina.  

Sum vegastæði eru einfaldlega þannig að mikill hæðarmunur er á efsta hluta hennar og þeim neðsta og ekki nokkur leið að breyta því í grundvallaratriðum með legu vegarins.

Þannig er það til dæmis á leiðinni niður í Grafninginn fyrir ofan Nesjavallavirkjun.

Á Fljótsdalsheiði eru einar þrettán krappar beygjur og brekkur á milli á vegarstæði þar sem hæðarmismunurinn er einir 500 metrar.

Eitt sinn var á eftir mér ökumaður á öðrum bíl sem hafði næstum eyðilagt hemlana á bíl sínum í ferð þar niður næst á undan, en þá ók hann á undan mér.

Ég bað hann um að aka í þetta skipti á eftir mér og fylgjast með hemlaljósunum hjá mér á leiðinni niður.

Þegar við hittumst næst sagði hann: "Ég ætlaði ekki að trúa því sem ég sá. Þú bremsaðir aðeins einu sinni í áður en þú komst í hverja beygju og það mjög stutt í hvert sinn."

"Já", svaraði ég. "Svona þyrfti að kenna þetta hverjum ökumanni á verklegan hátt. Ég lærði þetta af biturri reynslu fyrir 25 árum í rallkeppni yfir Bröttubrekku. Þá hitnuðu hemlarnir svo mikið á bílnum þegar komið var niður Dalamegin að bíllinn varð hemlalaus og þurfti kílómetra til að stöðva hann.

Það er betra læra þetta fyrirfram en að uppgötva það allt í einu."

Síðan er eitt atriði sem almennt er vanrækt, en það er að "lesa" veginn og leiðina framundan og skipuleggja aksturinn í samræmi við það.

Eitt sinn ók ég á eftir stórum amerískum pallbíl frá Reykjavík til Hafnarfjarðar. Þannig hittist á að hann gaf allt í botn eftir að hafa beðið á rauðum ljósum á leiðinni og anaði fram úr öðrum til þess eins að þurfa að hemla niður á ný við næsta rauða ljós.

Þegar hann hafði komist á þennan hátt framhjá öllum ljósunum í Garðabænum með því að gefa inn og hemla á víxl og var búinn að beygja til vinstri fram hjá því síðasta við Engidal hafði ég farið þrívegis fram úr honum á þann hátt að hitta á stundina þegar græna ljósið kviknaði og halda áfram án þess að stoppa eins og hann við hvert einasta ljós!


mbl.is Skólarúta fór út af veginum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég snerti helst ekki bremsurnar, nema ég bráðnauðsynlega þurfi. Ég keypti nýjan bíl árið 2007 og er nú búinn að keyra hann rúmlega 163.000 km. og er enn á upprunalegu bremsuborðunum. Ég er að vona að ég komist í 200.000 á þeim.

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.4.2012 kl. 22:27

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég segi bara eins og Jón Ársæll: "Eh, jaááá!!  Góður !!!

Ómar Ragnarsson, 19.4.2012 kl. 23:35

3 identicon

Ég er búinn að eiga mjög marga bíla og ending bremsuklossa hjá mér eru að meðaltali 60 til 65 þús. Km.

Ég þarf kannski að fara að temja mér nýja bremsusiði!

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 19.4.2012 kl. 23:59

4 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Ómar, þótt  þú sjáir bremsuljós á bíl á undan þér, þarf það ekki endilega þýða að hann sé að bremsa: það kemur bremsuljós um leið og bremsufetinn fer  niður um kanski 2 cm og sumir ökumenn eru með fótinn á bremsunni niður brekkur og tipla á bremsunum annað slagið  án þess að bremsuljósið slokkni.  Allavegana verð ég var við þetta hjá mér í myrkri að ljósið logar þótt ég bremsi ekki, en er með fótinn á bremsunni

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 20.4.2012 kl. 00:27

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég tek undir með Hallgrími. Ég nota þessi ljós meira að segja til að blikka menn sem eru með háu ljósin fyrir aftan mig án þess að bremsa nokkurn hlut.

Ádrepan er þó þörf og ég skil hvað þú ert að fara.  Ég vil svo óska þér til hamingju með að vera kominn í hóp hinna vanstilltu MBL bloggara sem nota margföld upphrópunarmerki og spurningarmerki í fyrirsögnum sínum. Nú vantar bara að skrifa allt í hástöfum og öskra meiningu sína. Þá ertu orðinn fullgildur.

(Bara að stríða þér)

Jón Steinar Ragnarsson, 20.4.2012 kl. 01:59

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég tók nú reyndar ekki eftir því sjálfur að upphrópunarmerkin væru tvö. Skal fækka þeim um helming.

Ómar Ragnarsson, 20.4.2012 kl. 08:11

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er að tala um raunverulega hemlun sem sést ekki aðeins aftan frá á ljósunum heldur líka á því hvernig hægt er að viðkomandi bíl.

Dæmi: Ökumaður kemur niður að fyrstu beygjunni í Kömbunum á þurrum sumardegi og hægir ferðina úr 90 km hraða alveg niður í 50 km hraða í beygjunni, af því að hún er að hans dómi svo óskaplega hættuleg.

Síðan gefur hann í og endurtekur leikinn í þeim beygjum sem eftir eru.

Ómar Ragnarsson, 20.4.2012 kl. 08:18

8 Smámynd: Stefán Stefánsson

Þetta er mjög góður pistill hjá þér Ómar og allt alveg hárrétt sem þú skrifar þarna.
Góð ending hjá þér Gunnar sem sýnir að þú kannt að keyra.

Það er allt of algengt að fólk kunni ekki að beita bremsum rétt og oft sér maður bremsuljósin loga niður langar brekkur.
Þess vegna er betra (eins og þú segir Ómar) að bremsa mikið í stuttan tíma í stað þess að vera létt á bremsunum í langan tíma vegna þess að þá hitna þær: 
Á stórum bílum myndast filma á milli bremsuborðanna og skálarinnar og bíllinn verður bremsulaus þangað til skálarnar kólna.

Umrædd brekka þarna á Nesjavöllum er löng og þá er eina ráðið af fara hægt niður hana og treysta meira á gírana og mótorbremsu á þeim bílum sem ekki eru búnir "Retarder,, (sem nefndur er hamlari á íslensku) sem er innbyggð mekanísk bremsa í gírkössum stórra bíla. Retarderinn gefur mönnum kost á meiri hraða niður brekkur.

Stefán Stefánsson, 21.4.2012 kl. 10:39

9 Smámynd: Stefán Stefánsson

Retarderinn er reyndar aukabúnaður en gerir það að verkum að álag á hefðbundnu bremsurnar minnkar mjög mikið.

Stefán Stefánsson, 21.4.2012 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband