29.4.2012 | 22:25
Fróðlegur samanburður.
Það er fróðlegt að bera saman ummæli tveggja manna sama daginn; - annars vegar ummæli formanns Sjálfstæðisflokksins um gjaldmiðilsmál og hins vegar ummæli fyrrum fjármálaráðherra El Salvador um sama efni.
Þegar erlendir sérfræðingar spáðu árið 2007 óhjákvæmilegu hruni íslenska hagkerfisins vegna þess að tilvera krónunnar og allt of hátt skráð gengi hennar, sem spólað hefði verið upp með lántökum og dæmalausri framkvæmdaþenslu sagði þáverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands að svona ummæli sprenghlægileg og aðrir töldu þau arfavitlaus og fáránleg.
Spádómurinn rættist hins vegar vegna að þess að óhjákvæmilegt fall krónunnar olli Hruninu, stórfelldri lífskjaraskerðingu þjóðarinnar og vexti skulda hennar upp úr öllu valdi.
Óhjákvæmileg gjaldreyrishöft og skuldavandi heimila og fyrirtækja eru tilkomin vegna þess að spilaleikurinn með krónuna og háa vexti í aðdraganda Hrunsins bjó til það Daemoklesarsverð 1000 milljarða aflandskróna sem hangir yfir þjóðinni heldur landinu í einangrun frá erlendum fjárfestingum.
Stór hluti stærstu fyrirtækja landsins gerir mál sín upp í erlendum gjaldmiðli og ásókn er í að taka út aflandskrónurnar og steypa með því þjóðinni í gjaldþrot.
Þetta er sú mynd sem fyrrum fjármálaráðherra El Salvador dró upp í viðtali í Silfri Egils í dag.
Hann rakti skilmerkilega tengsl orsaka og afleiðinga og taldi að svonefnt fullveldi sem fælist í því að hafa minnsta gjaldmiðil í heimi væri í raun aðeins fullveldi þeirra ráðamanna, sem notað hefðu gengisfellingar hennar í áratugi í sinni pólitík til að breiða yfir vanmáttt sinn til að stjórna landinu.
En málið snerist í raun ekki um þetta heldur fullveldi fólksins sjálfs sem væri þjóðin. Í viðjum drepandi gjaldeyrishafta væri fullveldi fólksins stórlega skert og til lengri tíma litið hefði fjárfestingafrostið, sem skapaðast af tilvist óstöðugrar krónu í gjaldeyrishöftum, meira tjón í för með sér en tímabundinn ávinningur af því að hafa minna atvinnuleysi.
Lítið tjóaði að tala um fullveldi þegar stór hluti þjóðarinnar væri hnepptur í skuldafjötra sem eru afleiðing þess hvernig hlaut að fara í samræmi við spádóminn frá 2007.
En í augum þeirra sem skópu þetta allt virðist þessu vera þveröfugt farið ef marka má nýjustu ummæli formanns Sjálfstæðisflokksins. Af þeim má ráða að afleiðingarnar af gróðabólunni, sem sprakk, séu orsök en ekki afleiðing og að tilvist krónunnnar hafi bjargað því sem bjargað varð í Hruninu.
Sömu menn gagnrýna harðlega að hér séu litlar erlendar fjárfestingar á sama tíma sem gjaldeyrishöftin sem eru afleiðing fyrri stefnu þeirra, eru aðal hindrunin í því að koma slíkum fjárfestingum upp.
"Gjaldmiðill sem tekur mið af efnahagslegum veruleika á Íslandi" þýðir í raun gjaldmiðill, sem gerir ráðamönnum okkar kleift að spila með krónuna og breiða yfir getuleysi sitt til að skapa hér stöðugt og traust efnahagslíf, nokkuð sem hefur verið stundað hér á landi í 90 ár með þeim afleiðingum að verðgildi krónunnar hefur á þessu tímabili minnkað 10 þúsund falt og vextir haldist í hæstu hæðum.
Einhliða upptaka veikasti kosturinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þarna erum við sammála Ómar /Kveðja
Haraldur Haraldsson, 29.4.2012 kl. 22:47
Óhjákvæmilegt fall krónunar segir þú að sé ástæðan fyrir þessu hruni sem varð...
Ómar þetta kallar beint á aðra spurningu og hún er hvert féll krónan eiginlega spyr ég bara vegna þess að það er ekki laust við lestur þennan að maður fái það á tillfinninguna að hún hafi fallið úr einni hillunni í aðra...
Hvað varð til þess að svo fór sem fór hefur ekkert að gera með krónuna sem slíka heldur þeirra sem að sjá áttu um hana segi ég og þá er það væntanlega fjármálakerfið sem slíkt, kerfi sem er búið að vera rekið með ólöglega gjörninga innanborðs meira og minna til þess að það sé hægt að græða meira af almenningi og stela, stela segi ég vegna þess að það er það sem gerðist síðustu daga fyrir hrun, allt fé hvarf úr bönkunum og þar þurfti Seðlabanki að koma til svo það yrði hægt að reka þá áfram. Það er stór skuld á baki okkar skattgreiðenda vegna þessa og afhverju er ekki talað um þetta eins og það var og er....
Að kenna blessaðri krónunni um allt þetta klúður er bara fáviska enda er hún sem slík bara stýritæki í hagkerfinu ef út í það er farið...
Kv.góð
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 29.4.2012 kl. 23:02
Bjarni Ben var arfaslakur í Silfrinu í dag. Það kom skýrt í ljós, að hann vissi ekki hvað hann var að tala um. En enn verri var Egill, manni virtist hann vera hræddur við Bjarna.
Falleinkunn hjá báðum.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 29.4.2012 kl. 23:05
Var ekki vandinn frekar þessi tímabundna þensla krónunnar? Það var alveg hægt að sjá fallið fyrir þegar útflutningur er orðinn hálfdrættingur á við innflutning, og hagstjórnin leitaðist til að stoppa þenslu með geðveikum vöxtum, sem svo aftur ullu enn meiri innspýtingu (að utan) inni í hagkerfið.
Jón Logi (IP-tala skráð) 30.4.2012 kl. 09:46
Það sem gleymist alltaf að taka með í reikninginn þegar talað er um afleiðingar falls krónunnar er verðtryggingin, afleiðingar falls krónunnar hefðu orðið litlar sem engar ef ekki hefði verið fyrir verðtrygginguna.
Gulli (IP-tala skráð) 30.4.2012 kl. 16:19
"ef ekki hefði verið verðtrygging" átti að standa þarna.
Gulli (IP-tala skráð) 30.4.2012 kl. 16:20
Hverjir sköpuðu þessar kringumstæður að braskarar náðu kverkatakinu á íslensku þjóðinni?
Því miður er þessi þjóð of trúgjörn á blaður og fagurgala að meirihluti hennar tekur svona „hetjum“ fagnandi. Sennilega verður annað hrun og þá mun ríkisstjórn braskaranna kenna núverandi ríkisstjórn um og komast upp með það því varla er að finna trúgjarnari þjóð en Íslendingum norðan Alpafjalla.
Blekkingar og svik var aðaltilgangurinn sem helgaði meðalinu í bók Macchiavelli: Furstinn. Forystusauðir stjórnarandstöðunnar hafa kynnt sér efni þess rits í þaula enda ætla þeir sér að komast aftur til valda til að koma sér og sínum að kjötkötlunum.
Með von um betri stundir!
Guðjón Sigþór Jensson, 1.5.2012 kl. 11:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.