1.5.2012 | 12:39
Hvað um Mývatn og önnur svæði ?
Niðurdæling er töfraorð sem notað er til að réttlæta þá stórbrotnu tilraunastarfsemi með óleyst vandamál sem felst í stórum jarðvarmavirkjunum án þess að nokkuð liggi fyrir um það hvort árangur muni nást.
Niðurdælingin er loforð sem gefið hefur verið um það að koma í veg fyrir að jarðhitageymirinn undir virkjunum tæmist jafn hratt og vísindamenn telja líklegt, einnig til þess að lækka þá ljótu tölu, að 85% orkunnar fari út í loftið en aðeins 15% nýtist og í þriðja lagi til vegna þess vandamáls, að rennsli affallsvatns frá virkjunum verði með tímanum óleysanlegt vandamál.
Orðið var notað sem skilyrði fyrir því að leyfa virkjanirnar án þess að nokkuð væri vitað um það hvort þetta tækist, - bara lofað upp í ermina á sér eins og svo oft er gert með þeim orðum að "tækni framtíðarinnar mun leysa þetta mál.!
Varðandi óstöðvandi rennsli affallsvatns frá virkjunumum getur mikið verið undir, svo sem að vatn frá Hellisheiðarvirkjun megni vatnsból Reykvíkinga, vatn frá fyrirhugaðri stórvirkjun við Bjarnarflag mengi Mývatn og að fara þurfi í miklar aukalegar framkvæmdir til að leiða affallsvatn Svartsengisvirkjunar frá henni.
Mönnum virðist slétt sama um þetta og einblína ennþá á stóriðju, "orkufrekan iðnað" sem kaupendur orkunnar og þar með að virkjanirar verði allt of stórar til þess að þær verði sjálfbærar og gefi ekki af sér endurnýjanlega orku, auk þess sem framangreind vandamál verði miklu stærri og óviðráðanlegri en ella hefði orðið.
Ónefndir eru hinir manngerðu skjálftar sem niðurdælingin veldur og hafa valdið Hvergerðingum ónæði og jafnvel tjóni, þótt Hveragerði sé í 15 kílómetra fjarlægð frá skjálftasvæðinu.
Við Mývatn er aðal byggðin í aðeins 4 kílómetra fjarlægð frá Bjarnarflagi og Mývatn sjálft sömuleiðis.
En mönnum virðist alveg sama og ákveða eins og ekkert sé að þrítugfalda núverandi virkjun svo að hægt sé að selja orkuna til stóriðju og "orkufreks iðnaðar" sem er hvort tveggja orðið að trúaratriði með eins konar helgiblæ hér á landi þótt í raun ættu þau að hafa neikvæða merkingu á öld þar sem orkuskortur verður eitt helsta vandamál mannkynsins og kjörorðin verða hámarks orkunýting og orkuending.
Í rafmagnsframleiðslu háhitasvæða er hvort tveggja víðs fjarri, sem sést meðal annars á því að með Eldvarpavirkjun fyrir suðvestan Svartsengi er stefnt að því að klára alla orku svæðisins á 30 árum og það áður en samningar um orkusölu renna út !
Á fimmta hundruð skjálfta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú virðist gefa þér fyrirfram að jarðhitasvæðin séu einnota til skamms tíma. Til þess að sú verði raunin, verður rányrkja að vera fyrir hendi. Orkyfyrirtækin sjá sér hag í því að nýtingin sé sjálfbær. Fullyrðingar náttúrusérvitringa um annað eru ótrúverðugar.
Hvað er ljótt við að nýta orku úr iðrum jarðar? Hvert er orkunýtingarhlutfallið ef ekkert er virkjað?
Erlendum aðilum finnst ekkert ljótt við nýtingu af þessu tagi. Þvert á móti eru þeir áhugasamir um frumkvöðlastarf Íslendinga á þessu sviði og vilja læra af okkur og eiga við okkur vísindalegt samstarf. Sumir segja að í þessu felist mestu útrásarmöguleikar þjóðarinnar um þessar mundir. Að þekkingariðnaðurinn á þessu sviði verði okkar næsta "stóriðja".
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.5.2012 kl. 12:55
Umhverfismatið fyrir virkjunina í Bjarnarflagi er frá 2003. Síðan þá erum við reynslunni ríkari með vandamál sem tengjast frárennsli jarðhitavirkjana og jarðskjálfta þeim tengdum, eins og Ómar bendir á.
Er það ekki beinlínis skylda okkar að endurmeta áhættuna af virkjuninni, í ljósi þessa?
Mývatn er nefnilega engin venjuleg náttúruperla. Ef lífríkið þar yrði skaðað með með afrennsli virkjunarinnar, mundi það verða katastrófa sem vekti athygli langt út fyrir landssteina.
-
Hér með er skorað á forstjóra Landsvirkjunar að gera grein fyrir hvort sjónarmið fyrirtækisins hafi breyst í ljósi þessa nýja veruleika.
-
Ég er ekki á móti virkjuninni per se, en erum við nógu viss um afleiðingarnar?
Norðri (IP-tala skráð) 1.5.2012 kl. 13:18
Reynslan færir okkur mikilvæga þekkingu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.5.2012 kl. 17:47
Allar rannsóknir vísindamanna á nýtingu jarðvarmasvæðanna leiða í ljós sömu niðurstöðu: Þar er stunduð rányrkja því að einu kröfurnar sem eru gerðar fyrirfram eru þær að svæðin endist í 50 ár.
Jarðhitageymirinn undir Svartsengi-Eldvörpum er talinn um 1000 metra djúpur og nú þegar hefur hann minnkað um rúm 20% og ljóst að hann muni ekki endast í meira en hálfa öld með sama áframhaldi. Verði hins vegar virkjað líka í Eldvörpum klárast hinn sameiginlegi geymir á 30 árum.
Þetta sést í skýrslum HS orku. Sérfræðingarnir Guðni Axelsson og Ólafur Flóvenz hafa bent á að hægt sé að forðast rányrkju og ná fram sjálfbærri þróun með því að fara margfalt hægar í sakir og fylgjast vel með því hve hratt nýtt vatn streymir inn.
Ef það reynist of mikið sé hægt að laga sig að því með því að minnka orkuvinnsluna.
Allir sjá að núverandi aðferð að selja helst alla orkuna til eins stórs kaupanda með aðeins von um 50 ára líftíma, hvað þá 30 ára líftíma, er gerólíkt þessu og ekkert annað en rányrkja.
Ómar Ragnarsson, 1.5.2012 kl. 18:32
" Allar rannsóknir vísindamanna á nýtingu jarðvarmasvæðanna leiða í ljós sömu niðurstöðu: Þar er stunduð rányrkja því að einu kröfurnar sem eru gerðar fyrirfram eru þær að svæðin endist í 50 ár."
Þarna held ég að þú takir dálítið stórt upp í þig, Ómar. Þú gefur þér þær forsendur að krafan um endingu sé ekki meiri. Ef einhver hefur haft þá kröfu uppi, þá hefur það breyst.
"Ef það reynist of mikið sé hægt að laga sig að því með því að minnka orkuvinnsluna."
Þetta munu orkufyrirtækin einmitt gera, sannaðu til.
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.5.2012 kl. 20:12
Reynslan mun kenna okkur hver nýtingin má vera. Ef náttúrusérvitringarnir fá að ráða, fæst engin reynsla.
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.5.2012 kl. 20:14
Þetta er óskhyggja hjá þér, Gunnar. Allt frá byrjuninni hjá Guðmundi Pálmasyni sem rannsakaði þetta best hefur krafan um endingu í 50 ár ekki breyst og Kröfluvirkjun var fyrsta dæmið um það þegar ekki var farið eftir formúlu Guðmundar.
Orkufyrirtækin hafa þetta svona vegna þess að afskriftartími mannvirkjanna og lengd orkusölusamninganna miðast við þetta, en sá gildistími er tvöfalt hærri hér en í Evrópu.
Þegar orkufyrirtækið hefur selt í upphafi alla þessa orku geta orkuvinnslufyrirtækin ekki minnkað orkuvinnsluna nema að svíkja samninga og fá á sig skaðabótakröfur.
Þess vegna er núverandi stefna röng og hefur til dæmis verið harðlega gagnrýnd af núverandi Orkumálastjóra.
Ómar Ragnarsson, 1.5.2012 kl. 20:46
Hversu lengi endist nútímamanneskja án rafmagns og hvernig vinnu getum við skapað án orku??
sæmundur (IP-tala skráð) 1.5.2012 kl. 21:09
Engir samningar verða gerðir sem þvinga orkufyrirtæki til að eyðileggja orkuauðlindir sínar. Málin verða leyst, ýmist með nýjum virkjunum eða með rafmagni sem fyrir er í kerfinu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.5.2012 kl. 21:30
Sæmundur.
Árið 2002 varð raforkunotkun hérlendis sú mesta í heiminum á mann en áður hafði hún verið mest í Noregi.
Með Fjarðaáli jókst raforkunotkun stóriðju verulega og hlutur hennar fór þá í 77% af heildarnotkuninni.
CCP selur útlendingum áskrift að Netleiknum EVE Online fyrir um 600 milljónir króna á mánuði sem myndi duga til að greiða öllum verkamönnum í öllum álverunum hérlendis laun og launatengd gjöld.
Þorsteinn Briem, 1.5.2012 kl. 21:41
Ef 85% puðrast beint út í loftið, þá veitti nú ekki af því að rannsaka þetta aðeins betur.....
Enda nær fýlan af Hellisheiði alla leið austur á Hvolsvöll í góðri vestanátt.
Jón Logi (IP-tala skráð) 2.5.2012 kl. 08:25
Almennt eru upplýsingar um veður og vatnafar opnar öllum.
Vatnsbúskapur háhitasvæða í vinnslu ætti að vera aðgengilegur á netinu, þ.e. breytingar á þrýsiting, hita og efnasamsetningu. Svo er ekki en komið hefur fram í opinberum gögnum OR, HS og OS að vinnsla er veruleqa ágeng á Reykjanesi, Hellisheiði, og Nesjavöllum. Krafla er í þokkalegu lagi og þrýstifall virðist vera komið í jafnvægi í Svartsengi en þolir að sama skapi ekki meira varmanám með borunum í Eldvörpum.
Gunnar heldur hinsvegar áfram að berja höfðinu við steininn og afneita gögnum, blindaður af sinni stóriðjutrú. Hann aflar sér ekki gagna úr frumheimildum og hunsar gögn sem ekki þóknast hans trúarsannfæringu.
Arfaslaka afkomu raforkufyrirtækjanna má líklega að e-h leyti skýra með stóriðjutrúnni, -menn eru svo sannfærðir um ágæti stefnunar að þeir hunsa gagnrýni og aðvaranir.
Ég tek undir með Herði LV forstjóra sem vill að umræðan snúist um arðsemi orkuframkvæmdanna en ekki endalaust dreifbýlisvæl um hvað hin eða þessi orkufreka bræðslan skilar af störfum.
50 ára rekstrartími jafnast á við það að Sogsvirkjanir hefður orðið ónothæfar sitt hvoru megin aldamóta og Búrfellsvirkjun væri á síðustu snúningunum!
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 2.5.2012 kl. 08:45
50 ára rekstrartími er ekki staðreynd, heldur niðurstaða að gefnum forsendum.
Ég er ekki haldinn neinni "stóriðjutrú". Álverið í Reyðarfirði var mikið gæfuspor fyrir Austfirðinga og raunar landið allt og ég var og er mjög hlyntur því. Ég er hins vegar hlyntur orkuframleiðslu og tel hana okkar stærsta vopn til bættra lífskjara.
Orkuvinnsla útilokar ekki framþróun í öðrum atvinnugreinum, eins og náttúruverndarfólk heldur fram, heldur þvert á móti styður hún hana og eflir.
Gunnar Th. Gunnarsson, 2.5.2012 kl. 08:57
Gunnar,
Í ljósi nýrrar þekkingar, sem kom af reynslu við Hellisheiðarvirkjun og Svartsengi m.a., hvað ertu þá tilbúinn að taka mikla áhættu með Mývatn?
Niðurstöðurnar eru að mestu ljósar eftir að umhverfismat var gert fyrir Bjarnarflagsvirkjun.
Finnst þér að við eigum bara að byggja virkjunina og sjá til hvernig Mývatni reiðir af?
Norðri (IP-tala skráð) 2.5.2012 kl. 10:05
Ég hef ekki trú á því að vinnubrögðin séu með þeim hætti. Það að umhverfisverndarsinnar haldi því fram, bendir sterklega til að það sé tóm vitleysa.
Gunnar Th. Gunnarsson, 2.5.2012 kl. 10:54
Reynsla fæst ekki nema framkvæmdum. Talið er að ef hvíla þarf jarðvarnmavirkjun, taki ámóta tíma að fá fyrri orkuforða til baka, þ.e. sem svarar orkunýtingartímanum.
Það er vel hugsanlegt að sum svæði séu nýtt í 30 ár og svo hvíld í önnur 30. Orkuforðinn er á þann hátt fullkomlega sjálfbær.
Gunnar Th. Gunnarsson, 2.5.2012 kl. 11:26
Í síðustu athugasemd Gunnars kristallast fyrring bræðslutrúarinnar.
Það er fullkomlega óarðbært að fjárfesta og reka 120MW virkjun á einum stað í 30 ár og hvíla svæðið svo í 30 ár og framleiða 120MW á öðru jarðhitasvæði á meðan, -sem þyrfti svo að hvíla í áratugi eftir rányrkjuna.
Eðlileg nýting væri að virkja 60 MW á báðum svæðum og nota þau um aldir.
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 2.5.2012 kl. 12:00
"Málin verða leyst, ýmist með nýjum virkjunum..." Þetta er mergurin málsins og sýnir að rammaáætlun um virkjanir og verndun er yfirskin því að stefnan er sú að barnabörnum okkar verði stillt upp við vegg og neydd til að virkja það sem eftir er.
Einu rannsóknirnar sem fyrir hendi eru um það hve lengi þurfi að hvíla jarðhitasvæði gerði Bragi Árnason á Hengils-Hellisheiðarsvæðinu. Í grófum dráttum bentu þær til þess að hvíla þyrfti það svæði í tvöfalt lengri tíma en nam vinnslutímanum, þ. e. að meðaltali í 100 ár.
Ef þetta er svona þýðir það það að eftir ca 50 ár þurfi afkomendur okkar að virkja tvöfalt meira á jarðvarmasvæðum en virkjað hefur verið fram að því.
Miðað við ásóknina í virkjanir, aðeins 3 af 19 svæðum á Reykjanesskaga fara í verndarflokk, er augljóst að stefnt er að því að taka allt sem hægt er að taka og mun jafnvel ekki duga til.
Ómar Ragnarsson, 2.5.2012 kl. 13:08
Það sem er "eðilegt" í þínum augum, Sigurður, þýðir ekki að það sé arðbært.
Það er vel hugsanlegt að orkuframleiðslan sé arðbærari; mikil í stuttan tíma fremur en lítil í langan.
Gunnar Th. Gunnarsson, 2.5.2012 kl. 13:11
Hvað snertir það að stóriðjan leysi málin má geta þess að enda þótt allt verði virkjað sem hægt er að virkja munu aðeins um 2% vinnuaflsins fá vinnu í iðjuverunum og í mesta lagi verður hægt að reikna atvinnusköpunina með svonefndum "afleiddum störfum " upp i 8%
Þá eru eftir 92% sem vinna við "eitthvað annað." Í dag vinna 97% við "eitthvað annað."
Ómar Ragnarsson, 2.5.2012 kl. 13:11
Hlutirnir breytast hratt með fenginni reynslu. Það má ekki gefa sér þær forsendur að um algjöra rányrkju verði að ræða. Það er ekki raunhæft.
Í umhverfismati um Nesjavelli og Hellisheiði frá 2003 (mikið vatn runnið til sjávar síðan) segir m.a.:
"Endurnýjanleiki jarðhitakerfa og sjálfbær nýting þeirra. Í sérfræðiskýrslu um reiknilíkan af jarðhitakerfum í Hengli kemur fram að til langs tíma litið eigi að haga rekstri jarðhitavirkjana þannig að vinnsla úr innri hluta jarðhitakerfa sé endurnýjuð sem mest með orku- og massastraumum frá ytri jöðrum kerfanna. Skilgreiningar á sjálfbærni og endurnýjanleika séu enn á reiki, jafnframt því sem vinnslusaga jarðhitavirkjana sé stutt og skorti þekkingu og reynslu til að geta skilgreint heppilegasta nýtingarferlið. Vinnuhópur Orkustofnunar um sjálfbæra vinnslu og endurnýjanlegar orkulindir telji t.d. að fyrir sérhvert jarðhitasvæði og sérhverja vinnsluaðferð sé til sjálfbært hámarksvinnslustig sem megi viðhalda yfir 200 til 300 ára langt tímabil. Hámarksvinnslustigið sé háð tæknistigi og geti vaxið með aukinni þekkingu. Annað sjónarhorn á sjálfbæra vinnslu felist í að við upphaf framkvæmda sé valin svokölluð hógvær eða ágeng vinnslustefna. Í hógværri vinnslustefnu skili jarðhitavirkjun jöfnum afköstum út áætlaðan rekstrartíma en í tilfelli ágengrar vinnslu sé byggð stór virkjun sem gangi vísvitandi það hart að jarðhitasvæði að hámarksafköst haldist ekki allan rekstrartímann, heldur verði að slá af framleiðslunni seint á rekstrartíma virkjunarinnar. Þannig megi laga vinnsluna að því endurnýjanlega aðstreymi sem komi frá jöðrum jarðhitakerfisins. Stór virkjun geti samt sem áður flokkast sem sjálfbær sökum þess að hún nýti hagkvæmni stærðarinnar og skili betri nýtingu á því takmarkaða fjármagni sem hver kynslóð hafi til bygginga og reksturs orkumannvirkja."
Gunnar Th. Gunnarsson, 2.5.2012 kl. 13:25
"Álverið í Reyðarfirði var mikið gæfuspor fyrir Austfirðinga og raunar landið allt "
Mér sýnist Austanmenn vera glaðir, en margir aðrir ekki. Mörg verkefni annars staðar voru slegin af eða sett á bið vegna þensluáhrifa framkvæmdanna, sem samt áttu eftir að setja sín áhrif á alla vitleysuna hér fyrir hrun.
Jón Logi (IP-tala skráð) 2.5.2012 kl. 15:16
Þú verður að nefna þessi verkefni sem eiga að hafa verið slegin af, Jón Logi. Það þýðir ekkert að koma með svona rök.
Í skýrslu sem gefin var út árið 2007 um samfélagsleg áhrif álvers Alcoa, hér, segir m.a.:
"Vísbendingar um að framkvæmdirnar gætu haft áhrif á aðrar atvinnugreinar og á búferlaflutninga innan Austurlands eru m.a. í samræmi við það sem spáð var af Skipulagsstofnun áður en þær hófust."
Í annari skýrslu sem gefin var út í fyrra, (finn ekki í augnablikinu) kom fram að svokölluð "ruðningsáhrif" voru mun minni en reiknað var með. Flest af þeim fyrirtækjum sem hurfu af svæðinu (fluttu burt eða urðu gjaldþrota) hefðu hvort eð er gert það og sennilega fyr en raunin varð á.
Gunnar Th. Gunnarsson, 2.5.2012 kl. 15:32
Þetta er staðhæfing til hnykkingar á staðreynd, notuð til raka.
Orðum hana svona:
"Vegna þensluáhrifa sem til urðu vegna framkvæmda á Austurlandi var hávaxtastefnu beitt, svo og ákv. stöðvunum á fjárveitingum til þess að hindra aðra þenslu í t.a.m. nýsköpun"
Svo ég noti orð greiningardeildar eins bankans ótrúlega stuttu fyrir hrun:
"Með peningastefnu stjórnvalda og vaxtastefnu bankanna hefur tekist að hindra eðlilega nýsköpun, til að draga úr þenslu"
Þetta er ekki orðrétt, en var í fréttum, og náttúrulega á allra vitorði. Ég er búinn að grúska aðeins, en hef ekki fundið fréttina, en hún er mér einhver eftirminnilegasta frétt sem ég hef heyrt, þar sem að þarna sá ég það í sjónhendingu að hið íslenska rómarveldi ætti eftir að fá skell. Orðalagið var með endemum.
Á þessum tíma var ég sjálfur innvinklaður í nýsköpunarverkefni sem komið var langleiðina í gang (80-90%),þar voru í það ca. 300 millur farnar, og vantaði e.t.v. 100 enn. Snerist um 40 störf í smáplássi, og kannski svona 10 ársverk í dreifbýli, - til að byrja með.
Hið opinbera hafði komið eitthvað að þessu í upphafi. Það sneri svo rassi að, og fjármálaöflin settu á stopp. Arðsemin passaði nefnilega ekki við hákrónu, hávexti, og svo þá pólitík að slá á puttana á "sumu".
Tilkynningar greiningardeilda bankanna sem lesnar voru í útvarpi á seinni tíma þenslunnar hljóta að vera aðgengilegar. Þessi kom frá Kaupþingi ef ég man rétt. Nema að það hafi verið frétt.
Tek það fram að þarna vinn ég eftir minni, og svo atburðum sem áttu sér stað. Sumt af því sem gerðist má ég kannski ekki gefa upp, en þú mátt taka mig alveg á orðinu þarna Gunnar.
Svo kostaði þetta mig nokkrar milljónir þar að auki....
Jón Logi (IP-tala skráð) 4.5.2012 kl. 12:04
Tímasetning framkvæmdanna við Kárahnjúka var auðvita ekki sú allra heppilegasta m.t.t. ástandsins í efnahagsmálum á þessum tíma. Það viðurkenna allir held ég en það ber þó að hafa í huga að hlutur framkvæmdanna í þenslunni var ekki nema um 15%. Það er því hæpið að kenna Kárahnjúkum um allt sem miður fór á þessum tíma.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.5.2012 kl. 12:21
Þú verður að átta þig á því, að hið opinbera kom ekki að framkvæmdunum eystra og þær höfðu ekki áhrif á greiðslugetu ríkissjóðs til annarra verkefna. Raunar rann aukið fjármagn í ríkissjóð vegna framkvæmdanna.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.5.2012 kl. 12:25
LV fékk ríkisábyrgð vegna lántakna upp á áður óþekktar fjárhæðir Gunnar.
Hið opinbera og bankakerfið tók svo upp hvert sitt "appið" til að draga úr annarri nýsköpun.
Þess vegna eru furðu margir "aðrir" sem voru að vinna að einhverju "öðru" ósáttir.
Jón Logi (IP-tala skráð) 4.5.2012 kl. 14:50
Ríkisábyrgðin breytir engu í þessu samhengi og Kárahnjúkar voru að mestu byggðir fyrir erlent lánsfé. Bankar á íslandi voru ólmir að lána hverjum sem var á þessum tíma.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.5.2012 kl. 18:46
Ríkisábyrgðin breytti MIKLU, alveg eins og að vera ábyrgðarmaður á skuldabréfi, og ætla sér svo sjálfur eitthvað meira, - þá segir bankastjórinn obb obb obb, - að vera ábyrgðarmaður jafngildir því að vera skuldari. Aldrei lent í þessu Gunnar?
Það lá dagljóst fyrir, að aðkoma hins opinbera að annarri nýsköpun myndi vera þvinguð vegna erfiðara aðgengi að fjármagni, og/eða dýrara fjármagni.
Bankarnir voru mis-liðugir eftir strengjum pólitíkusa. Man vel eftir því 2001 þegar skyndilega var kippt niður % hlutfalli Búnaðarbankans sem lánveitingu til nýbygginga svona sem þensluhamlandi-eitthvað. Þá vorum við hjúin með hús í byggingu, og rétt náðum að skreiðast í gegn um fokheldisvottorð, þar sem allt í einu vantaði milljón eða svo upp á það sem áður var lofað.
Ég man þessar "manöveríngar" allar mjög vel, þar sem að ég þurfti að reyna þær á eigin skinni.
Jón Logi (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 12:01
Ábyrgðin breytir engu nema hún verði virk og það er engin hætta á því.
Ég veit ekki í hvaða þjóðfélagi þú lifðir á þessum árum fyrir hrun. Það var fáránlega auðvelt að fá fjármagn, enda sýnir skuldavandi heimila og fyrirtækja það glögglega í dag.
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.5.2012 kl. 12:19
Ég lifði í RAUNVERULEIKA fyrir hrun. Ég byggði og bjó, og var vel meðvitaður um það að það var ákveðin þumalskrúfa á sumum nýsköpunargreinum, á meðan að það hefði verið hægt að fá endalaust fé í einhverja svallveislu.
Sótti einu sinni eftir fyrirgreiðslu út á nefið á mér til að kaupa gamalt véladót upp á ca 4 milljónir. Fékk nei, - "eldra en 5 ára".
Gat fengið ca 40 millur upp á að kaupa sama dótið flunkunýtt á 100% láni.
Ég sleppti því nú bara.
En málið snerist um veð, og ábyrgð jafngildir veðbandi þannig séð, - hefurðu heyrt um fyrirbærið "greiðslumat"?
Sú fullyrðing að ábyrgð á lánum skipti engu er nú alveg bara með því allra slappasta Gunnar.
Jón Logi (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 15:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.