12.5.2012 | 11:11
Magnaðasta markaðsafrek bílasögunnar.
Carroll Hall Shelby naut mesta markaðsafreks bílasögunnar þegar hann stökk inn og þróaði Ford Mustang upp í stórkostlegan keppnissportbíl.
Einhver óvæntasti markhópur markaðssögunnar hafði nefnilega fundist 1965.
1957-59 hafði komið í ljós þörf fyrir minni bíla á bandaríska bílamarkaðnum en verði höfðu.
American Motors fundu þennan markað öðrum fremur með Ramblerbílnum.
GM, Ford og Chrysler svöruðu seint á árinu 1959 með Corvair, Falcon og Valiant. Aldrei þessu vant seldist Fordinn mest, því að Corvairinn var of mikil nýjung með flóknum boxer-rassmótor, gagnstætt hinum svo afar venjulega Falcon, sem hvaða skussi sem var gat gert við og viðhaldið í hvaða bílskúr sem var.
Raunar var gert ráð fyrir að bílnum yrði hent eftir tveggja til þriggja ára notkun.
Frá 1961 seldis sportgerð Corvair, Monza, langbest. Þetta var "coupe" gerð og boðinn með 4ra gíra kassa og forþjöppu fyrir þá sem vildu lipran sportbíl.
Þetta hefði átt að hringja bjöllum hjá GM, en það var snjall sölumaður hjá Ford, Lee Iaccoca, sem skynjaði að nýr markhópur væri að fæðast og taldi yfirmenn sína á að nýta sér það.
1953 hafði GM komið fram með tveggja sæta sportbíl, Corvette, sem seldist lítið. Ford svaraði með Ford Thunderbird sem ekki seldist nóg vel sem tveggja sæta bíll, og var því stækkaður í 4ra sæta bíl sem fljótlega varð of stór og sneyddur sportlegum eiginleikum.
Iaccoca fann réttu formúluna: Sáraeinfaldur bíll, léttur og nettur bíll, með langa vélarhlif og þröngt en nægilega stórt aftursæti fyrir tvo, þannig að fjórir komust um borð.
Skottið stutt og bíllinn með vott af evrópskum sportbílasvip.
Síðan var boðið fjölbreytilegasta úrval aukahluta og gerða, sem þekkst hafði.
Mustang gat verið einfaldur bíll með sex strokka vél, en síðan hægt að fá nokkrar gerðir 8 strokka véla og sportbúnað af öllu hugsanlegu tagi allt upp í það að vera með kraftmikinn sportbíl í höndunum.
Mustang var kynntur í mars 1965 og á því ári seldust meira en 700 þúsund stykki. Þetta markaðsafrek er heimsmet sem enn stendur.
Gamlar konur keyptu einföldustu og ódýrustu gerðina og sportsjúkir dellukarlar hlóðu aukahlutum og stórum vélum í.
Carrol Hall Shelby var fljótur að hugsa og þróaði mögnuðustu sportgerðina líkt og Cooper hafði gert við Mini í Bretlandi.
Það er neyðarlegast þegar samkeppnisaðili nýtir sér það að keppinauturinn hefur byrjað að þróa markhóp fyrir hann án þess að gera sér grein fyrir því, eins og GM hafði gert með Corvair.
Ég get nefnt íslenskt dæmi.
Stöð 2 hratt af stað þróun þess að aðal sjónvarpsfréttatíminn færðist fram. RUV var með tímann klukkan 8, færði hann til hálf átta en fór síðan til baka til 8.
Það voru gróf mistök og Stöð 2 stökk inn í hálf átta tímann á árinu 1988 og líkast til bjargaði það stöðinni, svo góður var þessi útsendingartimi sem Sjónvarpið hafði byrjað á að rækta.
Stöðinn vann hægt og bítandi upp vaxandi áhorf og markhóp á undan fréttunum með 19:19 fréttatengda þættinum.
En alveg óvænt stökk Sjónvarpið frá átta ti sjö með sinn fréttatima á tíma, sem Stöðin hafði þróað og unnið upp og ræktað og þar með leikurinn frá 1988 endurtekinn, en bara í öfuga átt.
Stöðin fór þá fram til hálf sjö og þessi þróun, sem tók meira en áratug, hefur sparað þjóðinni mikið fé, því að kvöldið hefur lengst um einn og hálfan tíma frá þeim tíma sem ekki var sest niður til að horfa á sjónvarpsfréttir fyrr en klukkan átta.
Carroll Shelby látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kallin reddaði Chrysler líka
Örlygur (IP-tala skráð) 12.5.2012 kl. 21:01
Jú, jú, en þar tók hann að sér miklu erfiðara verkefni og vann enga sigra í líkingu við það sem hann hafði gert varðandi Mustanginn.
Henry Ford yngri hafði þá stjórnunaraðferð að lokka til sín eins hæfileikaríka og snjalla upprennandi menn og hann gat fundið til þess að ná hámarks árangri í fyrirtækinu.
En um leið og honum fannst afrek þessara manna vera farin að gera það áhrifamikla að þeir kynnu að ógna veldi hans, rak hann þá og leitaði að nýjum.
Ómar Ragnarsson, 13.5.2012 kl. 00:47
Jú, jú, en þar tók hann að sér miklu erfiðara verkefni og vann enga sigra í líkingu við það sem hann hafði gert varðandi Mustanginn. Þvert á móti átti Chrysler í vök að verjast.
Henry Ford yngri hafði þá stjórnunaraðferð að lokka til sín eins hæfileikaríka og snjalla upprennandi menn og hann gat fundið til þess að ná hámarks árangri í fyrirtækinu.
En um leið og honum fannst afrek þessara manna vera farin að gera það áhrifamikla að þeir kynnu að ógna veldi hans, rak hann þá og leitaði að nýjum.
Ómar Ragnarsson, 13.5.2012 kl. 00:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.