13.5.2012 | 21:49
Vetrarlegt stúss í fjórðu viku sumars.
Já, það er eins konar vetrarauki, sem dynur yfir okkur.
Það var moldrok sums staðar á Suðurlandi í dag og hálfur dagurinn hjá mér fór í nokkurs konar vetrarverk, - að koma í veg fyrir að FRÚin færi á flakk með því að taka upp á því að fljúga sjálf í hvassviðrinu að eigin frumkvæði við Vestari-Garðsauka hjá Hvolsvelli.
Vindurinn á veðurathugunarstöðinni á Hellu, 22 metrar í hviðum, segir sitt um vindinn þarna, því að vindstefnan var á hánorðan og vinstrengurinn yfir Hellu stefndi því til suðurs rétt vestan við Hvolsvöll.
Jón Logi Þorsteinsson, bóndi í Vestri-Garðsauka, Guðmundur Ólafsson á Búlandi og Siggeir Valdimarsson hans tóku sig til í hádeginu ásamt mér og grófu fyrir ankerum fyrir bönd til að halda flugvélinni fastri þar.
Þetta urðum við að gera nú, því að fyrir hálfum mánuði var flugvélin flutt heim frá bindingum nyrst á túninu og suður að hlaðinu við Vestri-Garðsauka og stóð þar óbundin.
En nú er hún bundin og í góðum félagsskap mikils varðliðs, sjö háværra hana og þriggja enn háværari hunda, auk gesta á á bændagistingunni ef svo ber undir og eitthvað ber út af.
Og enn á við gamla vísan um nauðsyn þessa öryggisatriðis, sem varð til þegar hámarksvindur á Akureyri varð ekki 16 metrar hér um árið, heldur fór upp í 40 metra.
Reif þá kaðalspottinn krókinn úr vængnum og þáverandi FRÚ tókst á loft öðrum megin en skemmdist þó ekki alvarlega.
Margt vill brjótast böndum úr
sem binda á með valdi
og erfitt er að fjötra frúr
svo fastar, að það haldi.
Sneri aftur til Eyja sökum veðurs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góður :-)
Heimir Tómasson, 14.5.2012 kl. 13:24
Moldrok var og í dag, en ekki haggast frúin. Enda eru alvöru frúr alla jafnan óhagganlegar.
Vígahanarnir voru lokaðir inni þar til í dag, svo þeir fykju ekki. En núna eru þeir á vappi við TF-FRÚ og líta hana öfundarauga.
Hundarnir eru reyndar alls ekki háværir. Það gerist bara ef eitthvað afbrigðilegt á sér stað, eins og mannaferðir um hánótt eða svoleiðis. Ein spangólar þá við gluggann til að vekja, og allt verður vitlaust koll af kolli eins og í gömlu lagi sem þú þekkir.
FRÚin hefur það gott.
Jón Logi (IP-tala skráð) 14.5.2012 kl. 23:02
3 kumpánar löggðu af stað í leiðangur!
Enginn vissi að þar væri flugvangur!
Ekki voru voru þeir neitt hagvanir!
Allir löggðust þeir á eitt með eiginlega ekki neitt.
Hrífa spotti skófla akkeri og stóra sál.
Að redda frúnni það var ekkert mál .
En myndin segir sitt!!!
Gudny Halla (IP-tala skráð) 14.5.2012 kl. 23:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.