3.6.2012 | 18:53
"...þín fornaldar frægð..."
Það þarf ekki að koma á óvart þótt "víkingaþorp" hafi staðið í Reykjavík á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.
Loftslag var hagstætt á hlýviðrisskeiði, nesin viði vaxin samanber örnefnin "...holt", jarðhiti á næstu grösum og mikil hlunnindi í gnægð fiskjar og fugls.
Þegar skoðaðir eru hinir stórbrotnu landamerkjagarðar á þingeyskum hálsum og heiðum sést vel, hve ríkmannlega góðbændur þessa tíma héldu sig. Það byggðist að miklu leyti á öflugu þrælahaldi, vinnuafli sem var nýtt ríkulega til stórframkvæmda.
Því miður byggðist "fornaldar frægðin" sem Jónas yrkir um, á rányrkju sem varð landlæg öldum saman og hefur náð nýjum hæðum í mörgum nýjustu virkjanaframkvæmdum okkar tíma.
Fornmenn afrekuðu það, samkvæmt niðurstöðum rannsókna, að höggva megnið af skógum og kjarri landsins á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Mesta eldgos á sögulegum tíma mannkyns var Eldgjárgosið um 930 og Heklugosið 1104 varð líka skætt auk þess sem loftslag fór kólnandi.
En aðalbölvaldurinn var maðurinn sjálfur, einkum höfðingjar landsins í skefjalausri valdfíkn sinni og græðgi og hefur svo verið æ síðan.
Víkingaþorp grafið upp við Alþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það má ekki gleyma manndrápsgosi úr Öræfajökli, og svo settu Móðuharðindin eitthvað strik í reikningin.
Ekki má heldur gleyma einu eða tveimur kuldaskeiðum á okkar byggðatímabili.
Það eru til auðnir í stórum stíl á landinu sem mannshöndin hafði aldrei neitt með að gera.
Og p.s. Ómar, ég þarf að ná í þig. Hringdu á mig við hentugt tækifæri.
Jón Logi (IP-tala skráð) 3.6.2012 kl. 22:15
Bara ef víkingarnir hefðu nú haft sinn Al Gore. Þá hefði kannski aldrei hlýnað.
Hitt er svo ágætt, að minnast orða Eggerts og Bjarna, um aumingjana á 18. öldinni, sem framkvæmdu alls ekki neitt, og rifu frekar upp nýgræðlinginn til brennslu, fremur en að höggva stórviðiðina, enda svo miklir aumingjar vér Íslendingar á þeim tíma, að það var stórvirki að burðast með stóru bolina.
"Umhverfisvernd" eru einhver arðbærustu trúarbrögðin í dag, og fáir sem þora að mæta ofstækinu og rangfærslunum.
Hilmar (IP-tala skráð) 3.6.2012 kl. 23:14
Ómar........hvað svo? OG HVERNIG ?
Halldór Egill Guðnason, 4.6.2012 kl. 04:29
Víkingaþorp???? Hvað með að kalla það stórt og blómlegt býli sem stóð í nokkur hundruð ár? Geta íslenskir fornleifafræðingar ekki gert neitt nema að búa til sensasjónir? Er þessi grein orðin að einhverju sem gefur skemmtun í gúrkutíðinni?
Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur verður líklega að kynna sér þorp "víkingaaldar"/sögualdar aðeins betur til að geta komið með svona yfirlýsingar. Um daginn hélt hún því fram að geirfuglsbein hefðu fundist í fyrsta sinn á Íslandi við fornleifarannsókn á Alþingisreitnum. Það rétta má lesa hér.
Ökórómantísk söguskoðun Ómars og álíka þenkjandi fólks hefur fyrir löngu verið vegin og léttvæg fundin. Eldgosið árið 1104 í Heklu olli t.d. ekki endalokum byggðar í Þjórsárdal, eins og sumir hafa lengi haldið og Ari Trausti endurtók í nýlegri fræðslumynd sinni um Heklu. Ég hef sýnt fram á það og nú hafa jarðfræðingar tekið undir það með mér.
Græðgi fólks á Íslandi var ekki meiri en annars staðar, en landið var ekki eins hentugt fyrir þær framleiðsluaðferðir og búskaparhætti þaðan sem fólkið kom, og fólkið í landinu jafn íhaldsamt i hugsunum og sumt fólk er í dag. Þá er ekki að spyrja af endalokunum.
Draumsýn manna um um skógi vaxið land, er þjóðernisrómantík, sem Ari Þorgilsson trúði. En þegar menn á 21 öld trúa því eins og grænu grasi, þá sýnir það að Íslendingar eru ótrúlega íhaldssamir á rugl.
FORNLEIFUR, 4.6.2012 kl. 07:55
Mestallur búskapur í hundruðir ára snerist bara um það að lifa af, - það var oft harðbýlt og lítt hægt meira.
Það var lítið rými fyrir ökólógíska stefnu.
Jón Logi (IP-tala skráð) 4.6.2012 kl. 13:59
Sæll Ómar!
Mesta furða hvað menn nenna að
halda fram þessum ýkjusögum um upphaf
Íslandsbyggðar. Allt uppspuni frá rótum!
Til þess gert að skemmta mönnum og veita
þeim svölun hugans í harðbýlu landi.
Enginn vafi á því að Rómverjar sóttu landið
heim þegar á fyrstu árum tímatalsins
og trúlega eiga þeir Hvítanessgoðinn sem og
Gunnar á Hlíðarenda fyrirmyndir sínar í
rómverskum hershöfðingjum.
Húsari. (IP-tala skráð) 4.6.2012 kl. 16:06
Tja, nú lendir maður milli steins og sleggju.
Fornleifur er nefnilega harður á því að hér hafi t.a.m. engin byggð keltneskra átt sér stað, á meðan þar eru þó til vísbendandi menjar.
Um annað er ekkert að ræða utan nokkrar myntir og svo úr skráðum ritum.
En það má nokkuð hart standa við þá fullyrðingu, að hér hafi verið ósköp lítið umleikis þar til að norrænir menn tóku hér byggð með tilþrifum.
Varðandi Gunnar & co, þá er mun meira úr að moða, og þar styrkja munir nokkrir söguna. Það væri gaman að grúska meira í því.
Boghringur (fingurvörn) Gunnars fannst, - 1888 held ég, svo og aðrar menjar frá bardaganum við Gunnarsstein. Öskulag vegna húsbrennu með grófri en passandi aldursgreiningu hefur fundist á Bergþórfshvoli. Granni minn hér í Rangárvallasýslu fann sverð fyrir nokkrum áratugum, talið 1000 ára eða svo. Sjálfur fann ég athyglisverðan axarhaus í hitteðfyrra, - talin vera verköxi og í mesta falli 200 ára vegna lagsins, en hún er reyndar með alveg sama lag og Rómverskar axir, - það sá ég á uppgraftrarsvæði í Þýskalandi í fyrra.
(Ásamt dóti frá eldstæði, - meðal annars því sem enginn þekkti nema eini íslendingurinn, - kjálki af lambi, - hahaha, - hver fann upp að svíða ull af kjamma og éta hann svo????)
Þetta er endalaust skemmtilegt viðfangsefni.
Jón Logi (IP-tala skráð) 4.6.2012 kl. 17:27
Fornskógur í Fljótshlíð varð Kötluhlaupi að bráð
www.mbl.is/greinasafn/grein/782556/ - Translate this page
VIÐ eyrar Þverár í Fljótshlíð er að finna fornan skóg sem varð Kötluhlaupi að bráð fyrir um 1.230 árum, eða einhvern tímann á tímabilinu 680-890 eftir Krist, ...
Bergþóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.6.2012 kl. 01:13
Nóg er til af heimildum um það, bæði rituðum og vísindalegum, að landið var að mestu "viði vaxið" þegar það var numið, og með aldursgreiningum hefur verið hægt að finna út hvenær það gerðist.
Einnig má sjá hvernig skógur og skógarkjarr voru hoggin, til dæmis í kolagröfum við Kjalveg.
Eyðing skóga og kjarrs var stanslaus af mannavöldum, samanber skógarnytjar skammt frá Hagavatni og þá staðreynd, að enn var hogginn hrís á Strandrheið fram á fjórða áratug síðustu aldar.
"Viði vaxið" þýðir ekki endilega hávaxinn skógur, en lemstruð trén í "Drumbabót" á sléttlendinu fyrir neðan Fljótshlíð sýnir að þar óx birkiskógur þegar hamfarahlaup úr Mýrdalsjökli kurlaði skóginn.
Ómar Ragnarsson, 5.6.2012 kl. 01:39
"Skógurinn" í Drumbabót hefur verið þekktur miklu lengur en jarðfræðingarnir segja. Afi minn heitinn, Vilhelm Árni Ingimar Kristinsson, sem var í sveit í Fljótshlíðinni í mörg ár í byrjun 20. aldar sagði mér oft frá þessum trjám sem hann hafði séð í sandinum og við fórum eitt sinn saman fyrir um 30 árum til að reyna að finna staðinn, en fundum ekki neitt.
Vissulega var skóglendi víða á Suðurlandi fram eftir öllu. Það vitum við líka úr rituðum heimildum. Skálholtsstóll var t.d. með skógarítök í Þjórsárdal, löngu eftir að byggð lagðist þar af. Á Stöng í Þjórsárdal var allt á kafi í skógi er menn settust það að skömmu eftir 900.
Með náttúrulegri kuldaskeiðum og öðrum hamförum, eldgosum og hlaupum saxaði á þessa "skóga" og kjarr . Fólk þurfti að halda lífi. Íslendingar var þjóð, sem lengstum var að deyja út. Fín orð eins "Rányrkja" og "ökó" voru of dýr fyrir forfeður þína, Ómar Ragnarsson. Þeir hefðu nú heldur betur tekið sér til höfuðs og talið það undra og bruðls að þeytast um loftin á málmfugli og rausa svo um eyðslusemi og bruðl forfeðranna á veraldarnetinu. Og HANANÚ!
FORNLEIFUR, 5.6.2012 kl. 09:06
Þau "vísindi" sem spyrja ekki lengur spurninga
en krefjast þess að menn taki einhverri mýtu
um upphaf Íslandsbyggðar sem heilögum sannleika
þau eru engin vísindi heldur til óþurftar.
Vilji menn trúa á jólasveininn, þá er það þeirra mál!
Húsari. (IP-tala skráð) 5.6.2012 kl. 11:19
Þótt ég búi stutt frá, þá hef ég aldrei verið í "drumbabót"
Reyndi um daginn að finna hana úr lofti, en tókst ekki.
Þar kubbuðust þó niður nokkuð sverir stofnar, og standa enn, -svona minjar um síðasta alvöru hlaup niður markarfljóts.
Jón heitinn Böðvarsson taldi grafhaug Gunnars á Hlíðarenda hafa staðið neðan til, og líkast til skolast brott með Markarfljóti + Þverá. Það þarf ekkert til á þessu flatlendi annað en smá klakastíflu til að gera feiknar vatnsflaum að rótum "hlíðarinnar".
En....Drumbabótin er greind sem sundurtættur lundur í hamfaraflóði, og staðkunnugir ramba auðveldlega á hana. En þetta er bara smá-blettur.
Jón Logi (IP-tala skráð) 5.6.2012 kl. 17:33
Það er hárrétt hjá þér, Fornólfur, að rányrkjan þær aldir þegar þjóðin var með hungurvofuna við dyrnar í hallærum, drepsóttum og afleiðingum kulda, hafíss og eldgosa, var óhjákvæmileg og með orðum mínum er ég síst að deila á þær kynslóðir sem þá lifðu í landinu.
Öðru máli gegnir um síðustu 70 árin eftir að þjóðin varð rík en breytti í litlu sem engu um hugsunarhátt.
Ómar Ragnarsson, 5.6.2012 kl. 21:36
Ég skal ekki gerast dómari yfir síðustu 70 árin þegar ég hef aðeins verið hér í rúm 50, og þar af lengst í Danaveldi.
En þegar ég bjó á Íslandi á 10. áratug síðustu aldar tók maður eftir óhemjulegu bruðli og ekki minnst til sveita: Eitt sinn kom ég á bæ nokkrn í Borgarfirði og þar höfðu ábúendur byggt gífurlega stóra skemmu/hlöðu. Bygging þessi var full af leikföngum sem fólkið hafði keypt. Fjórhjólum og öður sem hafði bilað. Þá var keypt nýtt. Mér leið nú eins og Agli Skallagrímssyni að sjá þessa "neyslu". Ég man ekki eftir svona bruðli þegar ég var að alast upp.
Við erum kannski að tala um síðustu 25 árin, þegar allt fór af sporinu í sjálfsánægju og heimsins besta hitt og þetta. Ég held ekki að við ættum að kenna heilum 70 árum um galla íslenska þjóðfélagsins í dag.
FORNLEIFUR, 7.6.2012 kl. 06:06
Ekki er ég fornleifafræðingur, en það þarf ekki prófessorsgráðu til að muna eftir 10 áratug síðustu aldar, - bara aldur og minni.
"Sveitabruðl" er nýtt hugtak fyrir mér, en ég verð að játa að ég hef ekki sótt heim bæi í Borgarfirði síðan á 9. áratug síðustu aldar, - þegar ég gekk menntaveginn á Hvanneyri.
Síðan 1987 hef ég verið í búskap, og þetta er harðasta basl, - hefði aldrei farið út í þetta hefði ég vitað hvað ég var að fara út í. Strit, blankheit og vanþakklát starf, og engir 135-138 frídagar á ári eins og hjá mestöllum pöpulnum.
En....ákveðin tilfinning a la Bjartur í Sumarhúsum, og svo öðlast maður ómetanlegan skilning á mörgum grundvallaratriðum lífsins.........og sögunnar.
Jón Logi (IP-tala skráð) 7.6.2012 kl. 06:48
Jón Logi, bær þessi sem ég heimsótti, var kannski óvenjulegur, en fjórhjólin snjósleðinn og annað nýtt, ónýtt og eyðilagt var flest í þessari miklu skemmu bóndans. Óvenjuleg sjón. Svona var þetta ekki fyrir austan þegar ég var í sveit.
Bruðlið var auðvitað mest í höfuðstaðnum. Sumir menn þeyttust um loftin blá á flugvél og sumar fjölskyldur voru með 4-5 bíla fyrir utan "hallirnar". Þetta er enn hægt að sjá í Reykjavík.
Á hverju heldur þú að Bónusfeðgar hafi orðið ríkir í byrjun? Kannski af ráðsíu Íslendinga?
FORNLEIFUR, 8.6.2012 kl. 07:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.