Ásgeir sótti fylgi til höfuðborgarsvæðisins.

Ég man enn vel forsetakosningarnar 1952. Forystumenn þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, ákváðu að þeir flokkar í sameiningu fengju séra Bjarna Jónsson til þess að bjóða sig fram.

Flokkarnir tveir höfðu meira en 60% fylgi og því hefði mátt ætla að þetta væri auðveldur róður, enda völdu þeir ekki stjórnmálamann sem frambjóðanda, heldur einhvern farsælasta og þekktasta prest þjóðarinnar, sjálfan dómkirkjuprestinn. Þeir héldu að með þessu myndu þeir geta gengið í augun á kjósendum sem vildu mann, sem hefði staðið utan stjórnmálanna.

Þeir Ólafur Thors og Hermann Jónasson vanmátu hins vegar alveg hvernig kjósendur gátu litið á þetta sem "sérvalinn" forseta oddvita stjórnarflokkanna og vildu ekki láta þá segja sér, hvern þeir ættu að kjósa.

Tengsl Gunnars Thoroddsens við Ásgeir Ásgeirsson réðu miklu um það að hann, sem þriðji áhrifamesti forystumaður Sjálfstæðisflokksins, lagðist á sveif með tengdaföður sínum.

Ég man vel hvernig atkvæðin lögðust þótt ég hafi ekki flett því upp núna. Framsóknarmenn á landsbyggðinni reyndust mun tryggari flokksforystunni en Sjálfstæðismenn.

Ásgeir hlaut að sjálfsögðu best brautargengi á Vestfjörðum, þar sem hann hafði verið þingmaður, en vegna þess að fylgi stjórnarflokkanna var tryggast í öðrum landsbyggðarkjördæmum, einkum þar sem fylgi Framsóknarflokksins var mikið, var það ekki mikið fylgi hans á Vestfjörðum, sem skipti sköpum, heldur gott gengi á höfuðborgarsvæðinu sem voru langfjölmennustu kjördæmin.

Þar réðu miklu mikil áhrif sem Gunnar Thoroddsen borgarstjóri hafði í Reykjavík. Ég man vel, að foreldrar mínir ,sem voru sjálfstæðisfólk og unnu mikið fyrir flokkinn, studdu Ásgeir með ráðum og dáð, og sömuleiðis man ég vel, hvað ömmusystir mín, sem ég var í sveit hjá þegar kosningarnar fóru fram, var holl flokki sínum, Framsóknarflokknum.

Höfðatalan í einstökum kjördæmum skipti miklu meira máli í þessum kosningum en hlutfallstalan og réði úrslitum. Þess vegna er rangt að segja að Ásgeir hafi ekki sótt fylgi til Reykjavíkur. Þvert á móti réði fylgi hans þar og við sunnanverðan Faxaflóa mestu um kjör hans en ekki hátt hlutfall í hinum fámennu Vestfjarðakjördæmum.


mbl.is Sóttu ekki fylgi til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband